21.03.1929
Neðri deild: 28. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í B-deild Alþingistíðinda. (441)

83. mál, lögreglustjóri á Akranesi

Flm. (Pjetur Ottesen):

Jeg ætla, að það þurfi ekki mörgu að bæta við það, sem sagt er í grg. þessa frv. Það er fram borið af þeirri nauðsyn, sem þar er lýst, sem sje þeim erfiðleikum, sem nú eru á orðnir um lögreglustjórn og tollheimtu á Akranesi. Auk þess er oddvitastarfið orðið þar svo umfangsmikið, að það er óhugsandi, að það geti lengur verið algert aukastarf. Það er því svo komið, að hreppsbúar og hreppsnefnd geta ekki lengur unað við að búa við ákvæði sveitarstjórnarlaganna hvað þetta snertir.

Til þess að hv. þdm. verði ljósari nauðsyn þessa máls, ætla jeg aðeins með fáum orðum að gefa nokkrar nánari upplýsingar um staðhætti þarna.

Akranes hefir vaxið mjög síðari árin, en stærsta framfarasporið var þó stigið þar fyrir 3 árum, er komið var þar á fót hafnarbótum, er gerðu íbúunum þar mögulegt að stunda fiskiveiðar heiman að á vetrarvertíðinni. Var það stórmikil framför frá því, er áður hafði verið, því þá urðu þeir að leita til annara staða á þeim tíma. En eftir þessar umbætur gátu þeir farið að leggja upp aflann heima og notfært sjer alt verðmæti hans, en áður hlaut mikið af því að fara forgörðum, er þeir urðu að dvelja í fjarlægum verstöðvum. Þessi aðstöðumunur hefir leitt inn í kauptúnið nýtt líf og nýjan þrótt, enda hefir útgerðin aukist mikið og aðrar framfarir, sem eru afleiðingar af því. Nú eru gerðir út frá Akranesi 20 vjelbátar 12 smálesta og stærri, og auk þess 1 gufuskip.

Þá má og benda á, að í kauptúninu er þegar nokkur kvikfjárrækt. Munu nú vera þar 50 kýr, 1000 fjár og nokkuð af hestum. Ræktun hefir og mikið aukist síðari árin, og hefir aðstaðan til þess sjerstaklega batnað mikið eftir að kaupstaðurinn fjekk keypta prestssetursjörðina Garða. Þá er hitt og kunnugt, að á Akranesi er rekin mikil kartöflurækt. Vaxtarskilyrði kauptúnsins eru því mikil, og er óhætt að gera ráð fyrir því, að fólki fjölgi þar mikið á næstunni.

Þá hafa og þær breyt. orðið á um samgöngur, að sveitaverslun er mjög að aukast þar, og mun þó meiri verða þegar lokið er þeim samgöngubótum, sem nú er verið að vinna að og tengja kauptúnið við hjeraðið. Benda má og á það, að þarna var sett á stofn sláturdeild frá Sláturfjelagi Suðurlands, og var í sambandi við það reist frystihús með nýtísku útbúnaði. Fullvíst er, að aðsókn bænda úr hjeraðinu að fá fje sínu slátrað þarna muni vaxa, og það því fremur, sem Akranes er eini staðurinn í Borgarfjarðarhjeraði, sem komið getur til greina sem útflutningsstaður á frystu kjöti á erlendan markað.

Loks ætla jeg að fara nokkrum orðum um þá leið, er jeg legg til, að farin verði til þess að ráða bót á þeim erfiðleikum, er Akranesingar eiga nú við að búa og bæta á úr með þessu frv. Undanfarin ár hefir það verið venja að ráða bót á slíkum vandkvæðum annarsstaðar með því að láta hlutaðeigandi kaupstaði fá bæjarrjettindi. En það er aftur á móti alkunnugt, að sú skipun á málefnum kaupstaðanna hefir mikinn kostnað í för með sjer, bæði fyrir kaupstaðina og ríkissjóð, án þess að tilsvarandi hlunnindi komi í staðinn. Það er því með sjerstöku tilliti til þess, að farið er inn á þessa braut, er í frv. felst. Hún er sú, að sameina oddvita- og hreppstjórastarfið og fela það í hendur einum og sama manni. Og með tilliti til þess, hvað sýslumaðurinn er í mikilli fjarlægð og oft erfitt að ná til hans, þá er ráð fyrir því gert, að þessi maður hafi lögfræðipróf og að hann hafi heimild til að kveða upp úrskurði í lögreglumálum.

Af því að þetta er nýmæli, vona jeg, að það verði tekið til rækilegrar íhugunar í þeirri n., sem fær málið til meðferðar. Skal jeg svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en vona, að hv. d. geti fallist á þetta frv., og legg jeg svo til, að því verði að umr. lokinni vísað til allshn.