21.03.1929
Neðri deild: 28. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í B-deild Alþingistíðinda. (442)

83. mál, lögreglustjóri á Akranesi

Gunnar Sigurðsson:

Jeg minnist þess, að á síðasta þingi deildum við hv. flm. þessa frv. og jeg nokkuð um bæjarstjórann á Norðfirði. Gat jeg þess þá, að það mundi heldur verða til sparnaðar að fá mann, er gegndi sjerstaklega þessum störfum, svo sem innheimtum o. fl. Er mjer því gleði að því, að hv. þm. Borgf. skuli nú vera kominn á sömu skoðun.

Jeg skal ekki fara neitt inn á einstök atriði frv. Það getur vel verið, að það geti verið fær leið, sem hjer er stungið upp á. En eitt er jeg hræddur um, og það er, að ekki fáist duglegur maður fyrir það kaup, er þar er gert ráð fyrir. Hygg jeg þar kenna fullmikillar bjartsýni hjá hv. flm. En því má nú reyndar breyta síðar, enda hygg jeg, að það verði gert.

Þá vildi jeg beina þeirri fyrirspurn til hv. flm., hvort það sje ekki meiningin, að þessi lögreglustjóri hafi líka með höndum störf þau, er talað er um í 2. gr., og hvort hann eigi þá ekki að fá sjerstaka borgun fyrir þau, og hana allríflega.