03.04.1929
Neðri deild: 35. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í B-deild Alþingistíðinda. (445)

83. mál, lögreglustjóri á Akranesi

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Það vildi svo til, þegar allshn. tók mál þetta til úrslitameðferðar, að ekki voru mættir á fundi nema 3 af 5 nm., og voru þeir allir sammála um að leggja til, að frv. væri samþ. óbreytt. En hinir 2 nm. hafa að sjálfsögðu óbundin atkv. um frv.

Við 3, sem sóttum fundinn, álitum það eðlilegt, að gerðar væru breytingar á Akranesi í þessa átt, ekki síst þar sem það hafði orðið ofan á á síðasta þingi að gera Nes í Norðfirði að sjerstökum kaupstað, en á Akranesi eru mun fleiri íbúar en í Nesi.

Í fyrra var bent á það, að hægt væri að komast að ódýrari niðurstöðu um stj. sveitarmálanna á slíkum stöðum með því að falla frá bæjarstjórnarfyrirkomulaginu og fela einum manni oddvita- og hreppstjórastörfin, og jafnframt lögreglustjórn að einhverju leyti. Þessi leið þótti ekki fær í fyrra að því er Nes snerti, en er farin hjer. Íbúarnir sjálfir óska ekki eftir því að fá bæjarstjórn, þar eð þeir álíta, að það muni verða dýrara Og óhentugra fyrir hreppinn. Og jeg sje ekki ástæðu til að þröngva bæjarstjórn upp á íbúana, þar sem þetta fyrirkomulag, sem hjer er farið fram á, er einnig ódýrara fyrir ríkið. Jeg hefi það fyrir satt, að bæjarstjórinn á Norðfirði hafi 1500 kr. í laun, hækkandi upp í 2500 kr., auk dýrtíðaruppbótar. En hjer er gert ráð fyrir 2000 kr. launum dýrtíðaruppbótarlaust, og hreppnum ætlað að borga í viðbót það, sem þarf til að fá mann til að taka að sjer starfann. Íbúarnir eiga þess vegna mest á hættu sjálfir um það, hvernig þetta tekst. Meiri hl. n. taldi því ekki nema sjálfsagt að láta íbúana ráða þessu sjálfa. Eins og nú stendur, eiga hreppsbúar þarna mjög erfitt með að fá menn til að gegna oddvita- og hreppstjórastörfunum, vegna þess, hve þessi störf eru illa launuð, en hinsvegar mjög umfangsmikil vegna fjölmennis. Núverandi hreppstjóri á Akranesi hefir sagt mjer, að ekki vanti mikið á, að vinnukraftar hans sjeu að öllu uppteknir við hreppstjórastörfin, en þess ber þó að gæta, að hann er orðinn nokkuð hniginn að aldri og því ekki hlutgengur þeim, sem yngri eru, að starfsþoli.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv., en vil endurtaka það, að meiri hl. n. leggur til, að það verði samþ. óbreytt.