03.04.1929
Neðri deild: 35. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í B-deild Alþingistíðinda. (446)

83. mál, lögreglustjóri á Akranesi

Magnús Torfason:

Eins og sjest á nál., hefir mjer ekki verið gert svo hátt undir höfði, að ástæða þætti til, að jeg fengi að ræða þetta mál við meðnm. mína. Hinsvegar rýkur meiri hl. n. til og semur nál. um málið, og lætur það svo koma fram hjer í hv. d., án þess að mjer og hv. 2. þm. Reykv. (HV) hafi gefist tækifæri til að segja um það, hvort við sjeum með eða móti málinu, hvað þá til að semja sjerstakt nál. Jeg hafði þó haldið, að ástæða væri til að athuga þetta dálítið gerr en á einum fundi af 3/5 hl. n., þar sem hjer er um algert nýmæli að ræða, og það þannig lagað, að það grípur inn í hinn mikla lagabálk, sem gildandi er á þessu sviði. Því að eins og menn vita, eru til sjerstök l. um starf hreppstjóra og laun þeirra, og mjer hefði fundist eðlilegast, ef nauðsynlegt væri að auka valdsvið einstakra hreppstjóra, að þau l. væru í heild athuguð og reynt að bæta um þetta á þennan hátt, með því að vitanlegt er, að víðar á landinu getur staðið svo á sem á Akranesi. Það er á allra vitund, að í hinum stærri hreppum eru störf hreppstjóranna orðin mjög mikil, og er það rjett hjá hv. frsm., að mestur tími hreppstjóranna gengur til þessara starfa. En jeg álít, að rjettara hefði verið að breyta launakjörum hreppstjóranna en að fara þá leið, að taka einn hrepp á öllu landinu út úr, eins og frv. gerir ráð fyrir, auk þess sem jeg er alls óviss um, að meiri þörf sje á sjerlögum fyrir Akranes en marga aðra hreppa. Jeg vil í því efni t. d. benda á Hólshrepp í Norður-Ísafjarðarsýslu. Þar hygg jeg, að sje meiri þörf á breyt. í þessa átt, með því að til Akraness eru litlar siglingar, þangað koma engir útlendingar og þangað er enginn vaðall af ýmsum óþjóðalýð. En um Hólshrepp verður alt þetta sagt.

Annars gengur þetta frv. út á það að gera þennan lögreglustjóra tvíeinan að því leyti, sem honum er ætlað að vera bæði oddviti og hreppstjóri, en hvað það fyrra snertir, þá er sjálfsagt að athuga sveitarstjórnarlögin frá þessu sjónarmiði. Það er oft kvartað undan því, að ekki sje hægt að fá oddvita í hinum stærri hreppum, og reynslan er sú, að þeir sitja ekki lengur en þessi 3 ár, sem þeir eru skyldaðir til að hafa oddvitastörfin með höndum. Og eins og gengur, gera menn það minsta, sem þeir komast af með undir slíkum kringumstæðum. Jeg hefi sjálfur rekið mig á það. Jeg hefi hvað eftir annað orðið að láta endurskoðanda minn gera reikninga oddvitanna upp, til þess að skil gætu orðið á.

Jeg fyrir mitt leyti get ekki verið með frv. eins og það nú liggur fyrir, þó að jeg játi það hinsvegar fullkomlega, að ástæða sje til að skipa öðruvísi fyrir um störf oddvita og hreppstjóra í hinum stærri hreppum, en jeg álít, að þetta eigi að gera í sambandi við, að hlutaðeigandi l. verði tekin til rækilegrar meðferðar.

Hvað frv. sjálft snertir, þá vil jeg gera lítilsháttar aths. við 3. gr. þess. Þar segir svo: „Hafi lögreglustjóri á hendi störf þau, er 2. gr. tiltekur, fær hann að auki laun fyrir þau samkv. samningi milli hreppsnefndar og ríkisstjórnar“. Hjer brestur það á, að fram sje tekið, hver á að greiða þessi laun; hvort það sje hreppssjóður eða ríkissjóður, eða hvort hvortveggja þessara sjóða eigi að greiða launin að helmingi. Ef það er hugsunin, að þessi oddvitastörf verði að hálfu borguð úr ríkissjóði, er hjer um alveg nýja stefnu að ræða. (PO: Það er alls ekki meiningin. Þetta er hártogun). Jeg skal ekkert um það segja, en það verður ekki annað dregið af orðalagi þessarar gr. frv. Og jeg benti á þetta, svo að hægt væri að færa það í lag, því að frv. getur ekki gengið fram án þess að gerr sje kveðið á um þetta atriði. En ef þessi lögreglustjóri á jafnframt að gegna oddvitastörfum, er hugsanlegt, að hann þurfi að fá leyfi ríkisstj. til þess. Þó skal jeg ekkert um það fullyrða, því að eins og kunnugt er, þá er öllum, nema sýslumönnum til sveita, heimilt að taka þessi störf að sjer án þess að spyrja ríkisstj. um leyfi.