03.04.1929
Neðri deild: 35. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í B-deild Alþingistíðinda. (448)

83. mál, lögreglustjóri á Akranesi

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg tek undir með hv. 2. þm. Árn., að mjer finst hv. meiri hl. haga sjer harla einkennilega í þessu máli. Það var aldrei búið að ræða það á nefndarfundi, en alt í einu, þegar við hv. 2. þm. Árn. erum fjarstaddir utan bæjar — sem meiri hl. sjálfsagt var kunnugt —, þá taka þeir sig til og ræða frv. og gefa þegar út nál. án þess að ræða það á nokkurn hátt við okkur. Þessu máli sýnist hraðað meira en öðrum málum í allshn., því að þar liggur hvert málið eftir annað, sem ekki hafa verið afgr. frá n. Skil jeg því ekki flaustrið við þetta mál, sjerstaklega þegar þess er gætt, að þeir menn, sem að frv. standa, ljetu í ljós í fyrra, þegar talað var um kaupstaðarrjettindi fyrir Norðfjörð, að sjerstök ástæða væri til að athuga alt þetta mál gaumgæfilega fyr en Norðfjörður fengi sín rjettindi. Nú finst mjer ekki síður ástæða til þess, þegar að Akranesi kemur.

Við vildum fara meðalveg og athuga, hvort ekki væru fleiri, sem þyrftu svipaðrar breyt. við, eða hvort fara ætti yfirleitt þessa leið í málinu.

Það er kunnugt, að þó að Akranes sje fjölment og hafi nokkra sjerstöðu, þá er verslunin þar við útlönd mjög lítil og samgöngur ekki aðrar en við Reykjavík. Er því alt öðruvísi ástatt en á stöðum fjarri Reykjavík. Annars álít jeg, að ríkisstj. eigi að rannsaka þörfina fyrir breyt. sveitarstjórnar og löggæslu, bæði á Akranesi og öðrum stöðum, og á hvern hátt eigi að bæta úr því, sem áfátt er. Hefi jeg ekki enn heyrt þau rök, er sannfæra mig um, að öðruvísi þurfi að fara með Akranes en ýms önnur stór sjávarþorp.