09.04.1929
Neðri deild: 40. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg gæti að vísu fallið frá orðinu, af því að hv. þm. Mýr. vjek að því atriði í ræðu hv. 1. þm. Reykv., sem jeg taldi sjerstaklega nauðsynlegt að andmæla, sem sje útibúinu á Selfossi. Jeg vil undirstrika það, sem hv. þm. Mýr. benti á, að það stóð svo sjerstaklega á, þegar útibúið var stofnað, að ekki má taka það til samanburðar við stofnun landbúnaðarbankans. Útibúið á Selfossi er einmitt ljóst dæmi þess, hvernig þjóðfjelagið má ekki haga sjer í slíkum málum. Það má ekki hvetja menn til að taka fje að láni og lána þeim það og koma svo á eftir og skattleggja þá sömu menn með gengishækkun. Hv. 1. þm. Reykv. hefir gott af að sjá, að það er einmitt þetta, stofnun ræktunarsjóðs, byggingar- og landnámssjóðs og landbúnaðarbanka, sem miðar að því, að ekki sje íhaldskyrstaða, heldur framför í þessum málum, sem gerir það óverjandi að koma á eftir og skattleggja menn með gengishækkun. Jeg tók það þegar fram við fyrstu umr. þessa máls, að þetta væri gert í fullri vissu um það, að ekki færi á eftir gengishækkun. (MJ: Er nú gengismálið komið á dagskrá?). Hv. þm. má ekki kvarta, þó að minst sje á gengishækkun í þessu sambandi. Hann hefir sjálfur gefið tilefni til þess, með því að draga útibúið á Selfossi inn í umr. Það þarf að sýna hv. þm., hvað dæmi hans var illa valið. Það verður að prjedika yfir honum „í tíma og ótíma“, eins og hv. þm. mun kannast við, að einhversstaðar stendur.

Hv. þm. sagði, að það væru smávægileg rök, þegar jeg benti á, að kröfur hefðu borist utan af landi um stofnun landbúnaðarbankans. Það er rjett, að kröfurnar eru ekki í sjálfu sjer nein rök. En þær eru ekki að ástæðulausu komnar fram. Það er mjög náið samband milli krafnanna og rjettmætis frv. Mönnum er orðið ljóst, um hve mikla þörf og rjettlætismál er að ræða.

Hv. þm. fór aftur inn á ríkisábyrgðina og sagði, að fyrir þá, sem ætluðu að veita lán, skifti það litlu máli, hverskonar stofnun tæki lánið, ef ríkisábyrgð stæði að baki. Þetta hefir heyrst áður, að það komi engum við, til hvers fjeð sje notað, bara ef peningarnir fáist. En það eru sem betur fer ekki allir, sem líta þannig á. Í augum skynsamra fjármálamanna er fátt, sem eflir traust þeirra eins mikið og einmitt það, að verið sje að draga lánsfje hingað til þess að styrkja landbúnaðinn. Það er uppi sú stefna víða í heiminum, — má heita hún hafi alþjóðafylgi —, að það sje rjett og sjálfsagt að efla landbúnaðinn með því meðal annars að tryggja honum lánsfje, til þess að draga úr hinum óeðlilega ofvexti bæjanna.

Hv. 1. þm. Reykv. kom inn á það, að stofnun Búnaðarbankans myndi leiða af sjer „inflation“ í peningamálum. Jeg verð nú að segja það, að margir erlendir fjármálamenn myndu brosa, ef þeir heyrðu hv. þm. tala um „inflation“ í sambandi við þá ráðstöfun, þegar beina á lánsfjenu til tryggasta atvinnuvegar þjóðarinnar. Jeg vil nærri því fullyrða, að landbúnaðarlán og „inflation“ sjeu hugtök, sem nálega útiloka hvort annað. Jeg hygg einmitt, að lán til landbúnaðarins myndu þvert á móti hindra „inflation“, ekki síst ef það sama lánsfje yrði að einhverju leyti dregið frá öðrum áhættusamari fyrirtækjum.

Þá vjek hv. þm. að töpum landbúnaðarins í samanburði við töp annara atvinnuvega. Til þess að draga úr ummælum mínum um það efni sló hann því föstu, að landbúnaðurinn hefði ekki fengið nema hverfandi lítið af lánsfje bankanna, og á það yrði að líta, þegar borin væru saman töpin. Þessi rök eru þægileg fyrir hv. þm. þegar hann er að tala um töpin, en hann verður jafnframt að gera sjer grein fyrir því, að í þeim rökum felst viðurkenning þess, að landbúnaðurinn hafi orðið útundan við skiftingu lánsfjárins. Úr þessari misskiftingu er verið að bæta með þessu frv. Og það er ákaflega hæpið fyrir hv. þm. að greiða atkv. gegn því, úr því að hann viðurkennir, að misskiftingin eigi sjer stað.

Síðast í ræðu sinni kom hv. þm. að því, að heppilegast myndi að fela Landsbankanum alla þá starfsemi, sem Búnaðarbankinn á að hafa á hendi. Talaði hann um, að dýrt væri að hafa stofnanirnar tvær, en bjóst við, að stjórn Landsbankans myndi geta innt þetta af hendi með aðstoð sjerstakra trúnaðarmanna. Jeg geri ekki ráð fyrir miklum aukakostnaði við stofnun Búnaðarbankans. Samkv. gildandi lögum er launuð stjórn við ræktunarsjóð og byggingar- og landnámssjóð. Sú stjórn fellur niður, þegar bankinn verður stofnaður. Þá verður heldur ekki þörf þeirra sjerstöku trúnaðarmanna, sem hv. þm. vill skipa við Landsbankann til að hafa eftirlit með landbúnaðarlánum. Jeg held því, að aukakostnaðurinn verði mjög lítill, og þó að hann yrði einhver, þá sje jeg ekki eftir honum til þess að inna af hendi svo þýðingarmikið starf sem þetta.