09.04.1929
Neðri deild: 40. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í B-deild Alþingistíðinda. (46)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Jón Auðunn Jónsson:

Eins og hv. þdm. muna, var um það deilt, þegar endanlega var ákveðið um seðlaútgáfuna, hvort hún skyldi aðgreind frá annari bankastarfsemi eða ekki. Við, sem þá vorum í minni hl. og mæltum með sjerstökum seðlabanka, hljótum að vera ánægðir yfir því, að þetta frv. er fram komið. Með því eru gerðar ráðstafanir til að flytja nokkuð af starfsemi seðlabankans yfir í aðra stofnun. Það er von okkar, sem viljum halda seðlaútgáfunni út af fyrir sig, að sú viðleitni, sem hjer er hafin, haldi áfram, og að svo fari með tíð og tíma, að hin almenna útlánastarfsemi flytjist frá seðlabankanum yfir á aðrar hendur.

Í öðru lagi vil jeg lýsa ánægju minni yfir því, að þetta mál skuli nú verða til lykta leitt, þó að jeg sje hinsvegar eigi samþykkur frv. að öllu leyti. Á þinginu 1921, þegar rætt var um stofnun fasteignabanka, hjelt jeg því fram, ásamt þáverandi hv. þm. Mýr., að lánsþörf landbúnaðarins yrði ekki fullnægt, nema nýtt fjármagn yrði fengið til þess og aðskilið frá öðru lánsfje bankanna. Reynslan hefir staðfest álit okkar. Þá höfðum við meiri hl. þingsins á móti okkur. Nú viðurkenna flestir, að búnaðarlánum beri að halda aðgreindum frá annari bankastarfsemi.

Það hefði ekki verið nóg fyrir nokkrum árum að gefa landbúnaðinum kost á lánsfje. Það þurfti að skapa skilyrði til þess, að hann gæti veitt fjenu viðtöku. Eins og oft hefir verið tekið fram, hafa bönkunum borist ákaflega fáar beiðnir um landbúnaðarlán. Jeg minnist þess ekki frá starfi mínu á Ísafirði, að nokkrum manni væri þar synjað um landbúnaðarlán, svo framarlega sem fullnægjandi ábyrgð var fyrir því. En um það leyti var ekki til neins fyrir bændur að taka lán til ræktunar. Nú er aðstaðan breytt. Skilyrðin eru fyrir hendi, og það er mest og best að þakka jarðræktarlögunum frá 1923. Tíminn er kominn til þess, að landbúnaðurinn fái sína sjerstöku lánsstofnun.

Hitt tel jeg ekki heppilegt, að skifta veðlánastarfseminni eins og hjer á að gera. Heppilegast væri okkur að taka upp sama fyrirkomulag og nú er í Danmörku, meðan við þurfum á erlendu fje að halda. Vaxtabrjefasala á erlendum markaði er erfið nema fylgt sje hinu svonefnda „Kreditforenings“- fyrirkomulagi, eins og Danir gera. Jeg hafði einu sinni von um allverulega sölu á brjefum ræktunarsjóðs í Englandi. En þegar hinn tilvonandi kaupandi fjekk í hendur þýðingu á lögum og reglugerð ræktunarsjóðsins, tilkynti lögfræðisráðunautur hans, að hann gæti ekki ráðið honum til að kaupa þessi brjef. Aftur á móti ráðlagði hann honum að kaupa áfram dönsk „Kreditforenings“-brjef.

Jeg vildi benda hæstv. stjórn á það um leið og hún tekur lán til þessa banka, að það lán verður að takast til langs tíma. Það er vitanlegt, að landbúnaðurinn getur ekki skilað lánsfje eins ört og aðrir atvinnuvegir. Því þarf lánið að vera trygt til langs tíma.

Jeg álít ekki rjett að blanda hinum gömlu deilum um töp bankanna inn í þessar umr. En jeg vil þó, að gefnu tilefni, benda á það, að eins og bankarnir hafa hlotið sín stærstu töp af sjávarútveginum, svo hafa þeir einnig haft af honum sínar mestu tekjur. Hv. þdm. mættu muna, að á árunum 1919-1920 var tekinn af útgerðarmönnum allur erlendur gjaldeyrir, sem þeim fjell til fyrir afurðir seldar á erlendum markaði, og bankarnir ákváðu, hvaða verð skyldi greitt fyrir þann gjaldeyri. Oft urðu þeir svo að kaupa þennan sama gjaldeyri fyrir miklu hærra verð stuttu síðar. Jeg þekki þess dæmi, að útgerðarmaður greiddi a. m. k. 40-50 þús. kr. skatt með þessum hætti á einu ári. Þessu hættir mönnum til að gleyma. Menn vilja heldur ekki líta á það, að töp bankanna eru síst meiri en búast mátti við. Í öðrum löndum, þar sem bankastarfsemi stóð á gömlum merg, urðu töpin engu minni. Og síst þurfa mönnum að vaxa töpin í augum, þegar þess er gætt, að bankastarfsemin hjer hvílir að langmestu leyti á sjávarútvegi, sem að vísu er nokkuð fallvaltur, en ber þó uppi mestan hluta af byrðum ríkisins og greiðir þyngri gjöld en lögð eru á sjávarútveg nokkursstaðar annarsstaðar. Í öðrum löndum er tekjuskattur af sjávarútvegi víðast lægri en af iðnaði. En hjer er tekjuskattur á hlutafjelögum, sem flest eru stofnuð til útgerðar, alveg sjerstaklega hár. Auk þess borgar sjávarútvegurinn mikið fje í tolla af erlendum efnivörum til útgerðarinnar.