29.04.1929
Efri deild: 56. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í B-deild Alþingistíðinda. (462)

83. mál, lögreglustjóri á Akranesi

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg býst við, að hv. frsm. n. hafi rjett fyrir sjer í því, að hjer verði ekki um neina ævarandi skipun um stjórn málefna Ytri-Akraneshrepps að ræða; en jeg er hv. þm. hinsvegar ekki samdóma um það, að þingið eigi ekki að fara inn á þessa leið. Það hefði að mínu áliti verið mjög erfitt fyrir þingið að setja sig á móti því, að Ytri-Akraneshreppur hefði verið gerður að kaupstað, ef farið hefði verið fram á það, eftir að búið er að gera Neshrepp í Norðfirði að sjerstökum kaupstað, því að þar eru þó talsvert fleiri íbúar og erfiðleikar á að ná til sýslumanns engu minni en að Nesi í Norðfirði. En hvað þetta fyrirkomulag snertir, þótt ekki standi nema kannske nokkra tugi ára, — það fer náttúrlega eftir því, eins og hv. frsm. gat um, hvernig samkomulagið verður á milli hreppsnefndar Ytri-Akraneshrepps og sýslunefndar Borgarfjarðarsýslu, — þá held jeg, að það væri heppilegt að sjá því föstu, að hjer er verið að ganga inn á nýja braut. Hjer er ekki verið að stofna nýtt embætti, þannig að sá, sem skipaður verður, verður ekki embættismaður í eiginlegum skilningi; hann verður hreppstjóri og oddviti með nokkru víðara valdsviði en aðrir hreppstjórar hafa, nefnil. dómsvaldi í lögreglumálum. Aftur á móti er ekki ætlast til, að hann fái annað úr ríkissjóði en þessi 2000 kr. laun, hvorki dýrtíðaruppbót nje skrifstofukostnað, en þetta hvorttveggja geri jeg ráð fyrir, að bæjarfógetinn í Neskaupstað hafi, og er því fyrirkomulag það, sem hjer er stungið upp á, mun ódýrara fyrir ríkissjóð en ef Akranes hefði verið gert að kaupstað.

Jeg býst við, að aðalstarf þessa manns muni veiða oddvitastarfið í Ytri-Akraneshreppi, og að hann muni fá meira borgað þaðan heldur en úr ríkissjóði. Það er enginn vafi á því, að það er ekki lögð minni áhersla á það, að fá lögfræðing í kauptúnið, vegna þess að hreppsnefnd telur sjer það hag að fá hann fyrir oddvita, og þess vegna mun hún vilja ganga inn á að greiða honum svo mikið, að hann geti lifað af þeim launum, auk þess sem hann fær úr ríkissjóði. En að þessu álít jeg rjett, að um skipun hans skuli gilda nokkuð aðrar reglur en um skipun embættismanna. Jeg vil ekki þurfa að efast um það, að hreppsnefnd Ytri-Akraneshrepps bendi á mann, sem sje hæfur til að vera dómari í lögreglumálum og innheimtumaður skatta á Akranesi, en þungamiðjan í starfi hans verður vitanlega stjórn sveitarmálanna á Akranesi. En til þess að kveða á um það, að hjer sje um millilið að ræða milli ríkisstj. og sveitarstj., vildi jeg að giltu aðrar reglur um skipun hans en annara embættismanna. Þess vegna hefi jeg ekki getað verið með þeirri brtt., sem hv. meiri hl. n. hefir borið fram. Jeg verð fyrir mitt leyti að líta svo á, að hún sje ekki eins þýðingarmikil og hv. 2. þm. S.-M. vill gera hana; jeg vil ekki þurfa að efast um, hvorki að hreppsnefndin muni benda á hæfan mann, nje heldur um það, að ríkisstj. muni vera fús til að fara eftir því, en þetta sýnir afstöðumuninn milli þess að vera starfsmaður ríkisins og starfsmaður Ytri-Akraneshrepps. Það á ekki að vera nein hætta á því, að hann geti komið og sagt: Jeg er embættismaður ríkisins og á að fá bæði skrifstofukostnað og dýrtíðaruppbót. Jeg vil því ráða hv. deild til að fella brtt. á þskj. 418, til þess að slá því föstu, að hjer er um nýjan flokk starfsmanna að ræða, sem hafa dálítið meira vald heldur en hreppstjórar og oddvitar hafa. Til þess að benda á það, að þessi maður er þó ekki eins settur og embættismenn ríkisins, má minna á það, að eins og allir vita, skipar sýslumaður til hreppstjóra einn af þrem mönnum, sem sýslunefnd hefir stungið upp á, en hreppsbúar kjósa hreppsnefnd, sem velur svo oddvita sinn. Hinsvegar skipar ríkisstj. alla aðra lögreglustjóra, og þess vegna finst mjer það vera rjett, þar sem hjer er um millilið að ræða, að það sjáist einnig á því, hvernig skipun hans fer fram.