29.04.1929
Efri deild: 56. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í B-deild Alþingistíðinda. (463)

83. mál, lögreglustjóri á Akranesi

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Það eru aðeins örfá atriði, sem jeg hefi að athuga við ræðu hv. þm. Seyðf. Hv. þm. virtist vilja slá því föstu, að hjer væri ekki um nýtt embætti að ræða. Jeg skal náttúrlega ekkert um það deila, en jeg lít nú svoleiðis á, að þetta frv. beri það með sjer tvímælalaust, að hjer sje um starfsmann ríkisins að ræða, því að þótt heimilt sje, að hann gæti einnig oddvitastarfs, þá er það alls ekki skylda hans. Aftur á móti er það svo um bæjarfógetann í Neskaupstað, að honum er skylt að vera oddviti bæjarstjórnar, en ríkissjóði er einnig gert að skyldu að greiða honum 3000 kr. í laun, af því að hann er um leið lögreglustjóri og skyldur að gegna ýmsum störfum fyrir ríkið, en laun hans hafa verið ákveðin með samningi milli hreppsstjórnar og ríkisstjórnar. Þetta sýnir, að hann er embættismaður ríkisins, því að það er ekki svo vel, að því sje slegið föstu í eitt skifti fyrir öll, að kaupstaðurinn eigi að greiða honum laun, heldur á hann að gera það eftir samkomulagi við ríkið, og er þess vegna litið á hann sem embættismann ríkisins. Jeg hefði talið miklu eðlilegra, að því væri slegið föstu, að hve miklu leyti þessi maður skyldi launaður af hreppssjóði. Maðurinn vinnur fyrir hreppinn, og, því er líka slegið föstu, að hann skuli vera formaður hreppsnefndar. Með því móti var líka hugsanlegt, að hægt væri að fá mann í þá stöðu vegna launanna, en eins og nú stendur er það tæpast, að fáist hæfur maður, því hann á alt undir hreppsnefndina að sækja. Ef ríkisstj. vildi setja það að skilyrði, að hreppurinn gyldi honum 1000 kr. fyrir oddvitastörf sín, svo að hann hefði 3000 kr., þá er ekkert líkara en að hreppsnefndin segði nei, að hún vildi alls ekki leggja það á sig. Jeg álít, að sá minsti prófsteinn, sem ætti að setja á hana, væri það, að útvega vitneskju um það, hvort hreppsnefndin vildi leggja fram sinn hluta af laununum, til þess að tryggja það, að hæfur maður fengist. En þegar svo er í pottinn búið, að það er engin trygging fyrir því, að hann fari með málefni hreppsins, þá er langt gengið að láta hreppsnefnd skipa hann. Það er ekki víst, að hún gangi inn á að launa hann að nokkru, og þá finst mjer algerlega rangt, að hún eigi að skipa manninn, því eins og frv. er nú, verður það ekki öðruvísi skilið en að hann eigi að skipa eftir till. hreppsnefndar.

Hv. þm. mintist á það, að sýslumaður skipaði hreppstjóra. Þetta er rjett. En honum er samt gefinn víðari hringur heldur en landsstj. í þessu efni, því að sýslunefnd verður að tilnefna þrjá menn, en sýslumaður svo að velja einn af þremur; en það er ekki svo, að sýslunefnd tilnefni þrjá hreppstjóra innan sama hrepps, svo að jeg held, að hvar sem leitað er finnist ekki hliðstæð dæmi.

Þá talaði hv. þm. um það, að starf þessa manns ætti að vera einskonar millistarf á milli oddvita- og lögreglustjórastarfs. Það er líka rjett, þau eiga að verða það, en því miður hefir ekki verið gengið svo frá frv., að það verði, og þótt jeg vilji ekki setja fótinn fyrir þetta frv., þá er jeg hræddur um, að það verði að engum notum, hræddur um, að ekki fáist hæfur maður í þessa stöðu, einmitt af því að þessi prófsteinn er ekki notaður á hreppsnefndina, að launa manninn svo að sæmilegt sje.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að karpa meira um þetta, en mín ástæða er sú, að til þess að gera þetta ekki að öllu leyti þannig, að það sje hreppsnefndin í Ytri-Akraneshreppi, sem ráði því, hvort hún vill nota þessar 2000 kr. til lögreglustjórnar á Akranesi, vil jeg breyta ákvæðinu þannig, að ríkisstj. geti skipað manninn, þótt hreppsnefndin hafi ekki lagt það til.