29.04.1929
Efri deild: 56. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í B-deild Alþingistíðinda. (464)

83. mál, lögreglustjóri á Akranesi

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg vil taka það fram, að það er hreppsnefndin í Ytri-Akraneshreppi, sem á að sjá um það, að í þessa stöðu fáist hæfur maður, með því að semja við hann um það að taka að sjer oddvitastörfin. Hreppsnefndin getur ekki gert tillögu um, að maður sje skipaður í stöðuna, nema því aðeins, að maðurinn sje fús á að taka hana að sjer, því að það er ekki hægt að skylda nokkurn mann til að taka að sjer slíka stöðu sem hjer er um að ræða, vegna þess að það gilda ekki sömu reglur um hana eins og venjuleg oddvitastörf. Þess vegna verður gangur málsins sá, að hreppsnefnd Ytri-Akraneshrepps kemur sjer saman við einhvern lögfræðing um það, að hann skuli taka að sjer hvorttveggja, og verður þá jafnframt samið við manninn um laun hans úr sveitarsjóði fyrir oddvitastörfin. En ef ætti að heimila ríkisstj. að skipa mann í þessa stöðu, og hann væri ekki oddviti í hreppnum, þá yrði bæði að greiða honum skrifstofukostnað og dýrtíðaruppbót. Það er einmitt af því, að jeg geri ráð fyrir því, að hreppsnefndin verði að borga meira af launum þessa manns heldur en ríkissjóður, og að oddvitastörfin verði aðalstörf hans, að jeg legg áherslu á, að hreppsnefndin fái nokkru að ráða um það, hver maðurinn verður, og eins af því, að hjer er um millilið milli lögreglustjóra og hreppstjóra að ræða, en ekki lögreglustjóra í sömu merkingu og í öðrum kaupstöðum landsins. Þess vegna vil jeg líka, að það komi skýrt fram, að ríkissjóður þurfi ekki að leggja annað til að launa honum en upphæð þá, er frv. greinir.