21.03.1929
Neðri deild: 28. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í B-deild Alþingistíðinda. (489)

85. mál, dómþinghár í Reykhóla- og Geirdalshreppum

Flm. (Hákon Kristófersson):

Það er samkv. ósk hreppsnefndarinnar í Geiradalshreppi, að jeg hefi leyft mjer að flytja þetta frv. Jeg hefi mjög litlu við það að bæta, sem tekið er fram í hinni örstuttu grg. frv. Eins og þar er frá skýrt, voru þetta upphaflega sameiginlegir hreppar og höfðu sameiginlega dómþinghá, Reykhólahreppur og Geiradalshreppur. Um 1880 breyttist þetta þannig, að Geiradalshreppur fjekk sjerstakt manntalsþing, eins og Reykhólahreppur. Var það fyrst haldið í Garpsdal, en síðar flutt að Króksfjarðarnesi, þar sem það nú er háð.

Nú hafa Geiradalshreppsmenn litið svo á, að hagkvæmara væri fyrir þann hrepp að hafa sjerstaka dómþinghá, og þess vegna er þetta frv. fram komið. — Málið er í eðli sínu þannig, að jeg álít ekki þörf á að vísa því til sjerstakrar n., og jeg býst við, að hv. deild sjái, að því er þannig háttað, að það getur gengið nefndarlaust fram, nema því aðeins, að hv. deild vildi álíta, að í þeim örstuttu skýringum, sem jeg hefi gefið um málið, væri eitthvað ekki rjett hermt.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara frekari orðum um málið, og leyfi mjer að óska þess, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað nefndarlaust til 2. umr.