20.02.1929
Neðri deild: 3. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í B-deild Alþingistíðinda. (503)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það er á allra vitorði, að lög þau um kosningar í málefnum sveita og kaupstaða, sem afgr. voru á þinginu 1926, fela í sjer ósamræmi, sem þegar er orðið að ásteytingarsteini. Bæði fyrv. og núv. stj. tók það til ráðs í þeim vandræðum að leggja það á vald meiri hl. hlutaðeigandi bæjarstjórnar, hvað gera skyldi í einstökum tilfellum. Afleiðingin hefir meðal annars orðið mismunandi framkvæmd á hinum ýmsu stöðum og sífeldar kosningakærur. Getur það ekki átt sjer stað til lengdar, og þess vegna er þetta frv. fram borið. En úr því að farið var af stað á annað borð, þótti rjett að taka upp nokkrar breyt. aðrar.

Það eru aðallega þrjú atriði, sem hjer koma til greina. í fyrsta lagi það, að kosningarrjetturinn sje rýmkaður að tvennu leyti. Annarsvegar sje aldurstakmarkið fært niður í 21 ár og hinsvegar falli niður það ákvæði, að þeginn sveitarstyrkur svifti menn kosningarrjetti. Jeg þykist ekki þurfa að fjölyrða um þetta. Um fyrra atriðið er það að segja, að jeg álít, að þar sje um spor að ræða, sem eigi að fara að stíga. Á því er enginn vafi, að það er miklu almennara nú en áður, að fólk á þessum aldri, frá 21–25 ára, sje farið að hafa áhuga á og fylgjast fyllilega með í opinberum málum. Slíkt hlýtur að leiða af aukinni menningu og uppfræðslu. Jeg held því hiklaust fram, að yfirleitt sje fólk á aldrinum 21–25 ára orðið svo þroskað, að það eigi að fá rjettindi á við aðra borgara þjóðfjelagsins. Um hitt atriðið vil jeg segja það, að jeg tel gamla ákvæðið hafa verið blett á íslenskri löggjöf.

Annað höfuðatriði, sem jeg vildi taka fram, er viðvíkjandi 6. gr. frv., um að bæjarfulltrúar skuli allir kosnir í einu eins og alþm. Hlutfallskosning nýtur sín betur undir þeim kringumstæðum heldur en eins og er, þegar stundum er kosinn þriðji partur í einu og stundum helmingur.

Bein afleiðing af þessu er, að kjörtímabil bæjarfulltrúa styttist og verður jafnt kjörtímabili alþm., og ennfremur, að kjósa beri varamenn. Við þetta vinst tvent. Kostnaður sparast, og í öðru lagi getur endurkosning alveg raskað grundvelli hlutfallskosningar, ef ekki eru varamenn.

Þriðja breyt. er viðvíkjandi kosningu borgarstjóra. Það er nú svo, að borgarstjóri er kosinn beint af borgurunum. En það er mjög óeðlilegt, því að borgarstjórarnir eru bara framkvæmdarstjórar fyrir bæjarstjórnirnar. Borgarstjóri á því að hafa meiri hl. í bæjarstjórn að baki sjer á hvaða tíma sem er, líkt og er um Alþ. og ríkisstj. Annars getur það komið fyrir, að borgarstjóri sje á öndverðum meiði við meiri hl. bæjarstjórnar, sem vitanlega getur haft hin verstu áhrif á samvinnuna.