12.03.1929
Neðri deild: 20. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í B-deild Alþingistíðinda. (508)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Allshn. hefir ekki getað orðið á einu máli um þetta frv., og hefir það komið í minn hlut að skýra afstöðu minni hl., og mun jeg nú gera það með nokkrum orðum.

Breyt., sem frv. gerir á gildandi lögum, ef það verður samþ., eru aðallega þessar:

1. Rýmkaður kosningarrjetturinn.

2. Umboð allra bæjarfulltrúa landsins fellur niður í janúar 1930, og þá eru kosnar bæjarstjórnir í öllum kaupstöðum, ásamt varafulltrúum, til 4 ára.

3. Bæjarstjórnir kjósa bæjarstjóra (borgarstjóra) eftir. hverjar kosningar til 4 ára, í fyrsta sinni 1930.

4. Kosningakærufrestir styttir.

Ýmsar minniháttar breyt. læt jeg vera að nefna, því að þær eru að sumu leyti afleiðingar af aðalbreyt., en að sumu leyti svo lítilfjörlegar, að þær skifta ekki máli. Um aðalbreyt. vil jeg aftur á móti fara nokkrum orðum.

Hið fyrsta, rýmkun kosningarrjettarins í sveitarmálefnum, er í því fólgið, að aldurstakmarkið er fært niður úr 25 árum í 21 ár og að þeir, sem standa í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk öðlast kosningarrjett. Fyrra atriðið lætur minni hl. hlutlaust, og mun ekki heldur greiða atkv. gegn 1. gr. vegna síðara atriðisins. Hinsvegar er ástæða til að benda á það, að svo framarlega sem gildandi ákvæði fátækralaganna eru framkvæmd eins og vera ber og til er ætlast, þá standa yfirleitt þeir einir í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk, sem hafa orðið styrksþurfar af ástæðum, sem þeir eiga sjálfir sök á. Breyt. þessi veldur því þess vegna, að þeir menn, sem vegna leti, drykkjuskapar eða annarar óreglu hafa orðið fátækrastyrksþurfar, öðlast kosningarrjett í sveitarmálefnum og verða einnig kjörgengir. Þessa breyt. get jeg undir engum kringumstæðum talið til bóta. Mjer sýnist það í raun og veru alveg fráleitt, að þeir menn, sem í verkinu hafa sýnt það, að þeir geta ekki stjórnað sínum eigin málum, eigi að ráða fyrir aðra. Mjer finst það vera alveg hæfileg refsing á þessa menn, að þeir hafi hvorki kosningarrjett nje kjörgengi. Þetta vil jeg benda á, en þykist þó vita, að ekki sje til neins að benda á það, því að það mun nú staðráðið að samþ. þetta. Jeg veit að sönnu, að sá hópur manna, sem hjer er um að ræða, er ekki stór, en það var þó talið á síðasta þingi, að mynduð væri „stjett slæpingja“, eins og sagt var í stjfrv. um letigarð, og til þessarar „stjettar“ var tekið svo mikið tillit, að yfir þá var ákveðið að reisa hæli. Mun þetta hæli nú fullgert og nauðsynlegar framkvæmdir látnar sitja á hakanum fyrir því. Hjer sýnist því aðeins vera áframhald þeirrar stefnu, sem upp var tekin í fyrra, að hossa og veita meiri rjett þessu úrhraki þjóðarinnar. Jeg bið, að það sje vel athugað, að jeg tala hjer aðeins um slæpingja og drykkjuræfla. Að minni hl. samt sem áður ekki greiðir atkv. gegn 1. gr., þrátt fyrir þetta, er af því, að sá hópur manna, sem hjer ræðir um, er svo fámennur.

En jafnrangt er þetta í raun og veru engu að síður. Þetta getur maður sagt, að sje nokkurskonar framhald af löggjöf síðasta þings. Þá var ákveðið að byggja yfir þessa menn, sem í aths. við stjfrv. voru kallaðir „stjett slæpingja“, og átti það sennilega að sýna, að þetta væru allmargir menn. Jeg held nú, að of mikið sje gert úr því — eins og jeg tók fram í fyrra —, að hjer sje um heila stjett að ræða, og vil þvert á móti ganga út frá, að þeir sjeu ekki mjög margir.

En þessi „stjett”, sem sumir kölluðu, þótti á þinginu í fyrra nógu margmenn og nógu mikils verð til þess að verja allmiklu fje í að byggja yfir þessa herra. Og það hefir nú verið gert, og látnar sitja á hakanum nauðsynlegar framkvæmdir fyrir því.

En þrátt fyrir þetta ákvæði þá mun minni hl. ekki greiða atkv. móti 1. gr.; hann lætur hana hlutlausa, en lætur nægja að benda á þetta.

Um aðra aðalbreyt. er það að segja, að minni hl. getur ekki sjeð neina ástæðu til að láta niður falla umboð allra bæjarfulltrúa landsins í jan. 1930, nje heldur að stytta kjörtímabilið. Ef það er hæfilegt, að hreppsnefndarmenn starfi í sex ár og fari ekki allir úr n. í einu. — og hæstv. stj. virðist álíta það, þar sem hún hefir engar brtt. fram borið um þetta —, þá skil jeg ekki annað en að svipað sje um bæjarstjórnir. Ekki get jeg fundið neina ástæðu til, að allir bæjarfulltrúar t. d. í Neskaupstað í Norðfirði eigi að fara frá í jan. 1930, eftir liðlega eins árs starf frá þeim, sem ætla má, að þeir sjeu komnir vel inn í starf sitt. Hingað til hefir því verið haldið fram, að nauðsynlegt væri að skifta ekki um alla í einu í bæjarstj. eða sveitarstj. En eins og jeg tók fram, virðist hæstv. stj. álíta, að þessi regla sje ekki nauðsynleg gagnvart sveitum. En jeg get ekki sjeð, að á starfi bæjarstjórnar og hreppsnefndar sje neinn eðlismunur.

Jeg get ímyndað mjer, að mjer yrði svarað því, að það sje engin hætta á, að öll bæjarstjórnin fari í einu, því að sömu mennirnir mundu verða teknir upp á lista sem áður voru. En jeg vil því til svars benda á það, að í þessu frv. eru ákvæði, sem heimila hverjum manni, sem hefir verið fjögur ár í bæjarstj., að skorast undan endurkosningu. Og það er mjög títt, að menn þykjast vera búnir að fá nóg af slíkum störfum eftir fjögur ár eða svo. Jeg get því ekki sjeð neina tryggingu fyrir því, að ekki sje skift uni allar bæjarstj. í einu. En gildandi ákvæði voru einmitt sett til þess að fyrirbyggja, að slíkt gæti átt sjer stað.

Hvort það sama gildir um varanefndarmenn, að þeir geti skorast undan endurkosningu eftir fjögur ár, sýnist mjer ekki skýrt eftir frv., og væri gott að heyra, hvað hæstv. forsrh. segir um það.

Að athuguðum þessum ástæðum. sjer minni hl. ekki ástæðu til að aðhyllast þessa breyt.

Þá er þriðja breyt., að bæjarstjórnir skuli kjósa borgarstjóra eða bæjarstjóra, í stað þess, að nú gerir það almenningur í bæjunum. Þessi breyt. sýnist fara í þveröfuga átt við það, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði um þetta frv. — og með rjettu að vissu leyti —, nefnilega, að það stefndi í lýðræðisáttina. Það er áreiðanlega ekki spor í lýðræðisáttina að taka rjettinn af bæjarbúum og flytja hann til hinnar fámennu sveitar bæjarfulltrúanna. Jeg get ekki sjeð, að það sje rjett hjá hv. frsm. meiri hl., að bæjarstjórar væru eiginlega starfsmenn bæjarstjórnar. Jeg lít þvert á móti svo á, að bæjarstjóri eða borgarstjóri sje starfsmaður allra bæjarbúa, og því eigi hann að vera kosinn af þeim. Hann er þeirra umboðsmaður, en miklu síður umboðsmaður bæjarstjórnar. Það er margt fleira, sem bæjarstjóri hefir að gera en að framkvæma vilja bæjarstjórnar. Fjöldamörg störf hvíla á honum lögum samkv. Og það er ekki nema eðlilegt, að borgarar bæjarins, sem hafa svo ákaflega mikið saman við borgarstjóra að sælda, fái að ráða kosningu hans, en ekki sá fámenni hópur, sem kosinn er í bæjarstj. Og jeg verð að telja það blátt áfram óeðlilegt, að borgarstjóri telji sig frekar umboðsmann bæjarstj. en bæjarbúa yfirleitt.

Þá ætla jeg að minnast enn á það ákvæði, að bæjarstjórar skuli kosnir í fyrsta sinn 1930, eftir að hinar almennu kosningar hafa farið fram. Nú er það svo, að í ýmsum kaupstöðum landsins er nú þegar búið að ráða bæjarstjóra til lengri tíma en til ársbyrjunar 1930. Á þá að rjúfa samninga við þessa menn? Eða er það meiningin, að þeir eigi að enda út sinn tíma? Ef svo er, þá vantar ákvæði um það í frv. Jeg get ekki sjeð, að nein bæjarstjórn hafi heimild til að segja við sinn bæjarstjóra, sem ráðinn er til ársins 1931 eða 1932: Þú skalt fara frá í jan. 1930. Mjer sýnist þeim opin leið, er fyrir þessu verða, að fara í mál við bæjarstjórnina og fá dóm fyrir því, að samningur skuli haldinn. Jeg veit ekki betur en að svona sje ástatt í Reykjavík og á Akureyri, og jeg held líka á Seyðisfirði. Mjer er sjerstaklega kunnugt um þetta á Akureyri, því að bæjarstjórinn þar sagði mjer fyrir skömmu, að hann væri ráðinn til ársins 1932.

Í 16. gr. þessa frv. er settur frestur um kærur og áfrýjun kæra út af þessum kosningum. í gildandi lögum er kærufrestur í sveitum 14 dagar, þegar skotið er úrskurði hreppsnefndar til sýslunefndaroddvita, og líka þegar skotið er úrskurði bæjarstjórnar til atvinnumálaráðuneytisins. Þessi grein frv. gerir þá breytingu, að í sveit skuli kæran vera komin í hendur sýslunefndaroddvita innan 14 daga frá dagsetningu úrskurðarins, og í kaupstöðum skal tilkynna atvinnumálaráðuneytinu innan viku, og skjöl þau, sem fylgja áfrýjuninni, lögð í póst innan sama tíma. Þessar breyt. báðar eru til hins verra. Þegar um er að ræða áfrýjun til sýslunefndaroddvita út af kosningu hreppsnefndar, þá er þessi tími alt of stuttur, — einir 14 dagar frá úrskurði hreppsnefndar og þangað til brjefið á að vera komið í hendur sýslunefndaroddvita. Hjer nægir að nefna Austur-Skaftafellssýslu. Jeg er alveg viss um, að það er venjulegast ómögulegt að koma kæru til sýslumannsins í Vík, nema senda beinlínis með hana. Fyrst líða nokkrir dagar frá því hreppsnefndin kveður upp sinn úrskurð og þangað til kærandi fær að vita um úrskurðinn. En samt eru taldir 14 dagar frá dagsetn. úrskurðarins. Sjeu 15 dagar liðnir, þá má ekki taka áfrýjunina til greina. Þetta er alt of stuttur tími. Jeg get ekki sjeð, hvaða ástæða er til að breyta ákvæði gildandi laga, sem jafnan hefir verið skilið þannig, að nóg sje að hafa sett áfrýjunarkæru í póst áður en þessi frestur er liðinn. Það er ekki nema sjálfsagt að krefjast, að þetta sje gert nokkurnveginn fljótt, en hjer er gengið alt of langt í þeirri kröfu. Alveg sama er að segja um kærufrest í kaupstöðum. Mjer er það hulin ráðgáta, hvaða tilgang það hefir að skylda menn í kaupstöðum til þess að senda atvinnumálaráðuneytinu símskeyti um það, að þeir sjeu búnir að láta í póst áfrýjun á þessa eða þessa kosningu. Hvað varðar ráðuneytið eiginlega um það? Ekki fer það að stökkva upp og vinna neitt að málinu fyr en skjölin koma. Þessi breyt. er þýðingarlaus með öllu, þó að hún sje kannske meinlaus. Jeg þykist nú vita, að hæstv. ráðh. hafi komið með þessa breyt. vegna úrskurðar um kosningakæru frá Akureyri í vetur. Og jeg get reyndar vorkent honum, þó að hann vilji komast úr því öngþveiti, sem hann lenti í. Enda er sá úrskurður með öllu rangur. Ákvæðið í gildandi lögum — sem er gamalt, þó að það sje sett fram í nýrri löggjöf — hefir altaf verið skilið svo, að það nægði að láta skjöl í póst innan þessa kærufrests. Og það var gert, eftir því sem jeg veit best, í þessu tilfelli.

Minni hl. getur ekki verið meðmæltur þessu þrönga frestsákvæði, sem gengur nær rjetti kærenda en nokkur þörf er á.

Í meðferð þingsins á lögum nr. 43 frá 1926 komst inn dálítið ósamræmi á milli 35. og 37. gr. út af brtt., sem samþ. var í Nd. En ekki olli þetta neinum vandkvæðum við kosninguna 1927. En 1928 og 1929 virðist þetta hafa bagað að einhverju leyti. Jeg held það sje bara af því, að bæjarstjórnum hafi ekki verið gefnar leiðbeiningar um það, hvernig þær ættu að koma samræmi á. En úr því að farið er fram á að bæta úr þessu, vill minni hl. ekki setja sig á móti, enda viðurkennir hann líka nokkurt ósamræmi. En hann sjer þó ekki ástæðu til að fara lengra en það að heimila atvmrh. að setja þær reglur, sem þarf, til þess að skipulag það komist á, sem ráðgert er í 5. gr. laganna frá 1926. Og þetta er hægt að gera með því að kjósa menn til mislangs tíma. Við erum nú búnir að lifa við þessi lög í fimm ár, og það er því ekki langt þangað til skipulag það kemst á, sem ráðgert er í 5. gr. laga frá 1926.

Eftirtektarvert þótti mjer það við 1. umr. þessa frv., að enginn tók til máls, auk hæstv. ráðh., nema hv. 2. þm. Reykv. Og innihald hans ræðu var nú ekkert annað en það að þakka stjórninni fyrir þetta frv. Þar af má marka, hverskonar frv. hjer er á ferð. Og jeg verð að segja, að mjer finst, að með þessu frv. fái jafnaðarmenn uppfyltar allar sínar ítrustu óskir í þessum málum. Fulltrúi þess flokks, sem sat í nefndinni, hafði ekki nokkurn skapaðan hlut að athuga í þessu efni.

Frv. snertir sveitirnar miklu minna en kaupstaðina. Það má segja, að það snerti sveitirnar mjög lítið. En það gefur jafnaðarmönnum í kaupstöðum byr undir báða vængi, og gefur þeim eins miklar líkur til þess að ná yfirráðum í kaupstöðum eins og hægt er að gefa þeim. Og þó að þeir hefðu sjálfir búið þetta frv. til í hendurnar á sjer, þá hefðu þeir ekki getað gert betur.