12.03.1929
Neðri deild: 20. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Sigurður Eggerz:

Jeg ætla aðeins að lýsa afstöðu minni til þessa frv. með örfáum orðum.

Fyrsta höfuðbreytingin er sú, að aldurstakmarkið um kosningarrjett í kaupstaðar- og sveitarmálefnum skuli fært niður í 21 ár, og tel jeg þetta mikla rjettarbót. Það er ekki nema sjálfsögð krafa, að menn, sem náð hafa þessum aldri, fái kosningarrjett.

Um sveitarstyrkinn vil jeg segja það, að mjer hefir altaf þótt það blettur á löggjöf okkar, að þeir menn skuli sviftir kosningarrjetti, sem orðið hafa styrkþurfar vegna óviðráðandi orsaka. Því það er vitanlegt, að margir þeir, sem lent hafa í örbirgð, geta verið tillögugóðir og lagt margt gott til þjóðmálanna engu síður en hinir. Hjer er verið að nema þennan smánarblett burt úr löggjöfinni, og get jeg ekki annað en glaðst yfir þeirri breytingu.

Um það, að kjósa alla bæjarfulltrúana í einu, hefi jeg ekkert að athuga. Get enda vel fallist á, að það muni að ýmsu leyti geta orðið til bóta.

En eitt atriði er það í frv. þessu, sem jeg tel, að sje spor aftur á bak, og það er ákvæðið um, hvernig kjósa skuli borgar- eða bæjarstjóra. Jeg get ekki betur sjeð en að það sje í meira samræmi við lýðræði, að borgarstjóri sje kosinn af öllum kjósendum bæjarins, og sje því ekki, hvers vegna eigi að hverfa frá því. Að bæjarstjóri ráði síður við borgarstjórann, ef hann er kosinn af öllum bæjarbúum, þykja mjer hæpin rök. Það er þá aðeins ónýt bæjarstjórn, sem ekki notar aðstöðu sína til þess að segja fyrir verkum og láta framkvæma þau. Svo er annað við þetta að athuga. Með því að láta bæjarstjórn kjósa borgarstjóra hafa kjósendur bæjarins óbein áhrif á kosninguna, en eins og nú er hafa þeir bein áhrif á kosninguna. Það er því sýnilegt, að á þessu er mikill munur og að beina leiðin gefur kjósendum meiri rjett. Þess vegna kemur mjer það dálítið undarlega fyrir sjónir, að hv. jafnaðarmenn skuli vera jafnhrifnir af þessu eins og þeir láta í veðri vaka. (HV: Það er reynslan hjer í Reykjavík, sem kennir okkur þetta). Það kemur ekki til mála, þó að borgarstjórinn sje kosinn af bæjarbúum, að hann geti komist hjá því að framkvæma það, sem fyrir hann er lagt, en hitt er líklegt, að hann verði síður leiksoppur í hendi ákveðinnar klíku í bæjarstjórninni, þegar hann á ekki kosningu sína undir henni. Jeg verð því að vera á móti þessari breytingu. af því að með þessu er tekinn rjettur af kjósendunum.

Það er annað atriði, sem jeg verð að vera sammála hv. minni hl. um, að ekki geti komið til mála, að borgarstjórar eða bæjarstjórar verði kosnir samkv. lögum þessum fyr en hinn samningsbundni tími þeirra er útrunninn, ef sæti þeirra hefir þá ekki losnað fyr af öðrum ástæðum. Alþingi má ekki á neinn hátt ýta undir menn um að rjúfa löglega samninga.