12.03.1929
Neðri deild: 20. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í B-deild Alþingistíðinda. (514)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Jóhann Jósefsson:

Þegar jeg kvaddi mjer hljóðs, var hv. þm. Dal. enn ekki kominn að því atriði, sem hann átaldi síðar í ræðu sinni, og það var ákvæðið um að svifta bæjarbúa rjettinum til að kjósa sjálfir borgarstjóra og leggja hann á vald meiri hluta bæjarstjórnarinnar. Hann hefir því tekið að mestu af mjer ómakið, og get jeg því sparað mjer langa ræðu að sinni. Jeg er hv. þm. sammála um, að eðlilegast sje að miða kosningarrjett við 21 árs aldur. En út af því, sem þessi hv. þm. sagði um rjett sveitarstyrksþega til kosninga, þá vil jeg vekja athygli hans á því, að þennan rjett hafa þeir samkvæmt núgildandi lögum, svo framarlega að sje um heiðarlega fátækt að ræða, en ekki slæpingskap, óreglu eða þvílíkt. Þessi lagabreyting er þess vegna alls engin rjettarbót fyrir þá. Mjer er kunnugt um, að lögin eru túlkuð og framkvæmd mjög frjálsmannlega af sveitarfjelögum, svo frjálsmannlega sem frekast er heimilt. Og mjer kemur ekki til hugar að átelja slíkt. Síður en svo. Það er jafnvel betra að ganga lengra en skemra í þessum efnum. Það er betra, að fleiri fái að kjósa en lög standa til, heldur en hitt, að nokkrum verði meinað það, sem rjett hefir til þess.

En ákvæðið um kosningu bæjarstjóra er mjög mishepnað hjá hæstv. stj. Þykist hæstv. stj. hafa gert rjettarbót með þessu frv., þá má með rjettu segja, að hún taki aftur með annari hendinni það, sem hún gaf með hinni, þegar tekinn er rjetturinn af íbúum bæjanna til þess að velja sjálfir bæjarstjóra. Þegar hæstv. forsrh. vildi bera þetta saman við flokkana á Alþingi og val ráðh., þá er það ekki sambærilegt nema að litlu leyti. Það kemur ekki nærri eins skýrt fram við kosningar bæjarstjóra og kosningar til Alþingis, að farið sje eftir pólitískum skoðunum. Þar kemur svo margt annað til greina. Er athugandi, að eftir frv. á meiri hluti bæjarstjórnar að ráða bæjarstjórann, og getur sá meiri hluti verið mjög veikur, t. d. 6 af 10 bæjarfulltrúum. Gæti þá verið hætt við, að ekki fengjust hæfir menn í þessar stöður, ef hægt er að reka þá, ef þeir eru í ósamræmi við meiri hluta bæjarstjórnarinnar. Mun það alls ekki holt fyrir bæjarmálin, að bæjarstjórinn sje um of háður meiri hlutanum. Af minni eigin reynslu í þessu efni get jeg bent á það, að meiri hluti bæjarstjórnar er oft hvikandi og ósammála. Eru það ekki altaf pólitískir samherjar, sem fylgjast að í einstökum málum, heldur eru það oft menn af báðum flokkum, sem fylgjast að í einstökum málum. Trygging er því engin fyrir, að bæjarstjórinn sje ávalt í samræmi við meiri hlutann, þótt hann sje valinn af sama meiri hluta og er í bæjarstjórninni. Gæti hann hæglega á stuttum tíma verið kominn í ósamræmi við meiri hl. í mörgum málum. í bæjarstjórninni eru það hagsmunamál bæjarins, sem taka verður fult tillit til, og er þá sjálfsagt að leggja pólitískan ágreining til hliðar fyrir velferðarmálum bæjarfjelagsins. Aftur á móti gengu þeir út frá því, hæstv. forsrh. og hv. frsm. meiri hl., að alt eigi að fara eftir flokksfylgi í bæjarmálunum. Jeg er þessu algerlega ósammála.

Vitanlegt er, að það er bæjarstjóri, sem hefir mest áhrif á gang allra mála. Hann er framkvæmdarstjóri bæjarins og venjulega sjálfkjörinn formaður í flestum nefndum. Hann kemur fram fyrir bæinn út á við, og kemur svo að segja með efniviðinn upp í hendurnar á nefndunum. Bæjarfulltrúar, sem eru ýmsum öðrum störfum hlaðnir, eru mjög háðir vilja bæjarstjóra um ýms mál. Hann kallar saman nefndir og velur þeim fundarstað og tímá. Yfirleitt ríður mest á honum, á ráðsmensku hans og stjórnarhyggindum. Þó er eitt atriði, sem jeg vil sjerstaklega minnast á í þessu sambandi. Er það bæjarvinnan, sem bæjarstjóri ræður fyrir að mestu leyti einsamall. Mjer er að vísu ekki kunnugt um, hvort það er svo hjer í Reykjavík, en víðast úti um land er það svo, að bæjarstjóri ræður, hverjir hljóta þá vinnu, sem bæjarfjelagið veitir. í flestum bæjum stundar allstór hópur manna þessa vinnu, og er hún aðalatvinna sumra. Hv. frsm. (HV) sagði, að bæjarstjóri ætti að gera það, sem bæjarstjórnin segði honum að gera, þ. e. það, sem meiri hl. vill. Þá væri það meiri hl. bæjarstjórnarinnar, sem ætti að úthluta vinnunni. Álít jeg það dálítið hæpið, því að þá væri hætt við, að farið yrði eftir þeirri lífsskoðun hv. 2. þm. Reykv. og hans fylgismanna, að alt eigi að meta eftir pólitískum skoðunum og tryggu flokksfylgi.

Hinsvegar ef bæjarstjóri væri kosinn af borgurunum, þá kæmi fleira til greina en pólitískar skoðanir. Er það áreiðanlega alt eins heppilegt, að bæjarstjóri sje ekki mikill flokksmaður á neina sveifina, heldur mun affarasælast, að hann, sem form. og framkvæmdarstjóri bæjarins, geti starfað í friði og samvinnu við alla. fulltrúana. Verður þessu best náð með því að láta alla bæjarbúa kjósa hann, en ekki fámennan hóp innan bæjarstjórnarinnar. Þarf jeg ekki að eyða fleiri orðum að þessu til þess að gera það skiljanlegt, að það er með öllu ónauðsynlegt, að meiri hl. bæjarstjórnar hafi algerlega óskorað vald um, hver sje bæjarstjóri. Minni hl. þarf þar líka að hafa sín ítök. En þetta er alveg eftir hugsunarhætti hv. 2. þm. Reykv. og í samræmi við framkomu hans í síldareinkasölumálinu á þinginu í fyrra, að láta meiri hl. öllu ráða, en minni hl. engu. Fer þetta algerlega í bága við skoðun jafnaðarmanna, þá, sem þeir þykjast hafa um rjett minni hlutans við kosningar til Alþingis og bæjarstjórna, og þá skoðun þeirra, að valdið eigi að vera sem mest í höndum borgaranna sjálfra, en ekki hjá fámennri klíku einstakra manna. Fer þetta ákvæði algerlega í bág við það, sem menn alment kalla lýðræði, því að hjer er rjetturinn til þess að velja bæjarstjóra tekinn af íbúunum og hann fenginn í hendur nokkrum mönnum. Á svo bæjarstjórnin að sitja og standa eins og þessi fámenna klíka vill vera láta. (HV: Er hv. þm. nokkurskonar Mussolini?) Það getur verið, að hv. 2. þm. Reykv. vildi gjarnan vera „Mussolini“, en jeg vil ekki taka rjettinn af borgurunum og afhenda hann nokkrum mönnum eða fámennri klíku, eins og virðist vaka fyrir þessum hv. þm. og öðrum „Mussolinum“ þessa lands.

Mig furðaði stórlega á því, að hæstv. forsrh. sagði, að sjer stæði á sama, hverjir hefðu betur í kaupstöðunum, íhalds- eða jafnaðarmenn. Er vitanlegt, að það eru þessir flokkar, sem berjast þar um völdin, og hygg jeg, að báðir þessir flokkar haldi því fram, að það sje alls ekki sama, hvor þeirra hafi töglin og hagldirnar. En hæstv. forsrh. stendur á sama um þetta. Hvernig á nú að skilja þessi ummæli hans? Vona jeg, að ekki eigi að skilja þau svo, að hann beri ekki jafnt hag bæjanna og sveitanna fyrir brjósti. Hafði jeg vænst þess af hæstv. forsrh., að hann ljeti ekki slík ummæli falla, sem gætu hljómað vel úr munni hv. þm. Str., en sóma sjer illa þegar þau koma frá forsætisráðherra Íslands.