12.03.1929
Neðri deild: 20. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Jeg hefi litlu að svara hæstv. forsrh., og öðrum engu. Hann sagði, að það væri ekki víst, að það væri hann, sem fylgdi jafnaðarmönnum, heldur væri fult svo líklega, að það væru þeir, sem væru honum fylgispakir hjer, þar eð þeir fylgdu frv. hans, sem beygði af lýðræðisbrautinni. Vil jeg þá minna á, að á þinginu í fyrra báru jafnaðarmenn fram till., sem fór í sömu átt og frv. forsrh. nú, og er þá ekki ólíklegt, að hæstv. forsrh. hafi tekið málið upp á sína arma einmitt fyrir áskoranir þeirra. Að þessu athuguðu verður ekki sagt, að ummæli mín sjeu á sandi bygð.

Þá taldi hæstv. forsrh., að jeg hefði viljað snúa út úr orðum sínum um Jón Sigurðsson og Torfa í Ólafsdal. Það er fjarri mjer að vilja snúa út úr, en mjer fanst afar óviðkunnanlegt að heyra nöfn þessara manna nefnd í sambandi við sveitarstyrk og þurfamensku slæpingja. Þetta smekkleysi hlaut jeg að vita.

Þá er alrangt hjá hæstv. forsrh., er hann talar um, að svipað samband sje milli borgarstjóra og bæjarstjórnar annarsvegar og Alþingis og ráðh. hinsvegar. Borgarstjóri er ráðinn til ákveðins tíma og bæjarstjórn fær engu um þokað fyr en kjörtími hans er úti, en ráðh. verður að fara frá þegar meiri hl. þingsins krefst þess. Er hjer um að ræða tvent alveg ólíkt, og geta slíkar fyrirmyndir frá Alþingi alls ekki átt við um bæjarstjórnir. Þetta benti jeg á í minni fyrstu ræðu, og hv. þm. Vestm. tók undir það með mjer. Hæstv. forsrh. kvaðst vilja bæta úr þeim göllum, sem komið hefðu í ljós, að væru á kosningalögunum, t. d. við Akureyrarkosninguna. Hjer á svo að lögleiða alveg sömu ákvæði og áður, að því undanskildu, að menn þeir, sem kæra vilja kosningu, eiga að senda stjórnarráðinu símskeyti, þegar þeir hafa látið kæruna í póst. Þetta tel jeg óþarfa og enga bót.

Hæstv. forsrh. taldi, að meiri trygging væri fyrir góðri samvinnu milli borgarstjóra og bæjarstjórnar, ef hann væri kosinn af bæjarstjórninni sjálfri. Ef kosningin er pólitísk, er hætt við, að svo verði ekki, heldur þvert á móti. Er meiri trygging fyrir góðri samvinnu, ef borgarstjóri er kosinn af íbúum bæjarins, heldur en t. d. með eins atkv. meiri hl. í bæjarstjórn, því þá gæti minni hl. ef til vill litið svo á, að verið væri að neyða upp á sig manni, sem hann vildi ekkert hafa með að gera. (Forsrh: En ef hann er kosinn með eins atkv. meiri hl. af borgurunum?). Þá er öðru máli að gegna, enda hafa kosningar hjer sýnt, að stundum er ekki kosið eftir pólitískum línum. Annars skal jeg ekki lengja umræðurnar frekar en orðið er.