12.03.1929
Neðri deild: 20. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í B-deild Alþingistíðinda. (519)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Frsm. meiri hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Hjer hefir allmjög verið deilt um það ákvæði frv., sem snertir kosningu borgarstjóranna. Er því best að athuga, hvað starfssvið þeirra er í raun og veru. Eftir hlutarins eðli eiga þeir ekkert annað að vera en framkvæmdarstjórar bæjarstjórnanna, eins og t. d. hafnarstjórinn hjer er fyrir höfnina, rafmagnsstjórinn fyrir rafveituna, gasstjórinn fyrir gasstöðina og bæjarverkfræðingurinn fyrir verkfræðileg störf bæjarins. Borgarstjórar eru ábyrgir fyrir bæjarstjórnunum og verða lögum samkvæmt að fá samþykki þeirra í nær öllu, sem þeir framkvæma. Það er því langt frá því, að þessar stöður sjeu sjálfstæðar, þar sem alt framkvæmdavaldið er hjá bæjarstjórnunum. Því er harla undarlegt að láta annað vald skipa þessa menn en það, sem segir þeim fyrir verkum. Ef gengið væri inn á þá braut að gera breytingar á frv. þessu í lýðræðisáttina, myndi jeg geta fallist á það, og þá jafnframt fara fram á, að bæjarfulltrúarnir væru settir undir mjög mikið eftirlit kjósendanna, t. d. þannig, að kjósendur gætu afturkallað kosningu þeirra, ef þeir brygðust því málefni, sem þeim í upphafi var falið að vinna fyrir. En þar sem ekkert slíkt liggur fyrir að þessu sinni, og engin von um, að það næði fram að ganga, þýðir ekki að vera að fara út í þá sálma nú.

En hvað snertir borgarstjórakosninguna, þá hygg jeg, að með frv. því, sem hjer liggur fyrir, sje fengin meiri trygging fyrir því, að þeir verði kosnir, sem ekki eru fyrst og fremst flokksmenn, heldur embættismenn, fremur en er eftir því fyrirkomulagi, sem nú er, því að reynslan hefir sýnt, að það er örðugt í stærri bæjum að fá annan kosinn borgarstjóra en þann, sem hefir stóran flokk að baki sjer, hversu vel sem maðurinn kann að vera til slíks starfa fallinn. Þannig hefir það að minsta kosti verið hjer, að borgarstjórinn hefir verið kosinn pólitískt, enda hefir hann talið það sína helgustu skyldu að ganga sem allra lengst í þeim efnum, því að þess eru t. d. engin dæmi, að hann hafi haft til lengdar mann á skrifstofum bæjarins, sem ekki hefir verið ákveðinn pólitískur stuðningsmaður hans. Það má nú vel vera, að þetta ástand breyttist lítið til batnaðar, þó skift verði um þá aðilja, sem velja borgarstjórann, en verra en það er nú getur það aldrei orðið. (MJ: Myndi það batna, ef jafnaðarmenn kæmust í meiri hluta?). Já, víst er um það. Jeg sje svo ekki ástæðu til þess að fara öllu fleiri orðum um þetta mál nú, því að mjer virðist líka, að hv. meiri hl. sje farinn að fallast á flest það, sem felst í frv., nema breytinguna á kosningu borgarstjóranna.

Áður en jeg lýk máli mínu get jeg samt ekki látið hjá líða að benda á þá miklu hræsni, sem kom fram í ræðum þeirra hv. 1. þm. Skagf. og hv. þm. Vestm., þegar þeir voru að tala um, að ekki mætti eiga sjer stað að kjósa pólitískt í bæjar- og sveitarstjórnir. Jeg held, að þeir hefðu sem allra minst átt að tala um slíka hluti. Hv. þm. Vestm. man það ekki ef til vill nú, að hann ekki alls fyrir löngu gekk eins og grenjandi ljón um í Vestmannaeyjum til þess að æsa fólk upp í því að kjósa pólitískt við bæjarstjórnarkosningar, jafnframt því sem hann var að „agitera“ fyrir sjálfum sjer í bæjarstjórnina. En hv. 1. þm. Skagf. er það eflaust kunnugt, að samþingismaður hans, háttv. 2. þm. Skagf., og skjólstæðingur fór eins og þeytispjald um allan Skagafjörð síðastl. vor til þess eins að spana landslýðinn upp í það að gera allar hreppsnefndar- og sýslunefndarkosningar þar pólitískar. (JS: Þetta er lygi).