12.03.1929
Neðri deild: 20. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í B-deild Alþingistíðinda. (521)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Hákon Kristófersson:

Að jeg finn ástæðu til þess að taka til máls að þessu sinni, er ekki sökum þess, að hv. frsm. minni hl. hafi ekki gert fulla og glögga grein fyrir aðstöðu okkar minnihl.manna, eða af því, að jeg telji hann að nokkru leyti hafa orðið að láta í minni pokann fyrir hv. frsm. meiri hl. Heldur er það sökum þess, að hv. frsm. meiri hl. gat þess meðal annars í ræðu sinni, að við minnihlutamennirnir myndum ekki meina það, að við í raun og veru vildum færa aldurstakmarkið fyrir kosningarrjett niður í 21 árs aldur. Já, það er nú svo, að ýmsir menn telja sjer sæmandi að kveða upp sleggjudóma yfir öðrum og ætla þeim miður góðar hvatir.

Jeg verð fyrir mitt leyti — og jeg býst við fyrir hönd okkar minnihl.manna beggja — að mótmæla þessu. Jeg hefi eigi með besta vilja getað komið auga á þær umbætur, sem hæstv. forsrh. og meiri hl. hv. n. telur felast í frv. Kosningarrjettur manna í sambandi við þeginn sveitarstyrk hefir orðið hjer talsvert ágreiningsatriði og hv. þm. Dal. sagði, að hjer væri verið að afmá smánarblett af löggjöfinni. Enda þótt jeg taki jafnan nokkuð tillit til þess, sem svo mætur maður segir, get jeg ekki fallist á, að hjer þurfi ekki að setja einhver takmörk, eins og annarsstaðar.

Það er kunnugt, að landslög ákveða, að svokallaðir glæpamenn hafa ekki kosningarrjett. En hvað er glæpamaður? Er það sá maður, sem sú ógæfa hefir hent fyrir rás atburðanna að taka nokkurra króna virði, eða er það sá, sem auk ýmissar annarar óráðvendni er slíkur vandræðamaður, að bæjar- eða sveitarstjórn getur ekkert við hann tjónkað, eftir að hann er orðinn almenningi til byrði? Það er kunnugt, að slíkir vandræðamenn eru til, enda hefir hv. 2. þm. Reykv. (HV) sagt, að til væru fullkomnir vandræðamenn í þessum efnum. (SE: Fátækt er enginn glæpur). Jeg býst við, að jeg þekki hana betur en hv. þm. Dal., og jeg veit vel, að hún er ekki glæpur. En eins og löggjöfinni er nú háttað, taka hreppsnefndir alls eigi kosningarrjett af þeim mönnum, sem styrkþurfar verða fyrir fátæktar sakir. Það er ekkert annað en grýla að segja að svo sje.

Fyrst og fremst er svo ákveðið í 43. gr. fátækralaganna, að sveitarstyrkur geti fallið niður, og í öðru lagi er hreppsnefndum heimilt að skoða slíkan styrk sem lán, en við slíkt lán er enginn rjettindamissir bundinn. Svo hefir þetta verið í framkvæmdinni þar, sem jeg þekki til, og við höfum álitið okkur þetta fullkomlega heimilt. En auðvitað verða takmörkin að liggja einhversstaðar. Þarf ekki annað en benda á þær takmarkanir, sem gerðar eru á kosningarrjetti til landskjörs. Þar er kosningarrjettur bundinn við 35 ára aldur, vegna þess, að svo hefir verið litið á, að menn, sem komnir væru á þann aldur, væru þroskaðri en 25 ára gamlir kjósendur. Þær takmarkanir eru ekki bundnar við þeginn sveitarstyrk eða þ. u. 1. Þótt jeg líti svo á, að 21 árs gamlir menn sjeu að ýmsu leyti óþroskaðri til þátttöku í opinberum málum en þeir, sem eldri eru, hefi jeg og hv. 1. þm. Skagf. getað fallist á, að tími sje til kominn að veita þeim þennan rjett. Aðdróttanir hv. 2. þm. Reykv. í garð okkar út af þessu eru því með öllu ómaklegar.

Viðvíkjandi kosningu borgarstjóra verð jeg að segja, að jeg er enn sömu skoðunar og jeg var í nefndinni, að jeg tel heppilegra, að borgararnir kjósi hann en fámenn bæjarstjórn. Hitt álít jeg fjarstæðu eina, að borgararnir geti afturkallað kosningu fulltrúa sinna í bæjarstjórn, og tel það svo tvíeggjað sverð, að jeg vona, að ekki komi til mála, að því verði beitt. Það leiðir af sjálfu sjer, að borgarstjóri fer með framkvæmdarvald bæjarstjórnar og verður oft og tíðum að taka ýmsar ákvarðanir upp á eigin spýtur, eins og oddvitar í sveitum verða svo oft að gera. Að búast við því, að pólitísk bæjarstjórn kjósi ópólitískan borgarstjóra, finst mjer vera önnur fjarstæðan. Yfirleitt virðist mjer, að skoðanir og tillögur hv. 2. þm. Reykv. í þessu máli sjeu sprottnar af því, að hann sje óánægður með þann borgarstjóra, sem nú er í Reykjavík. En þegar verið er að taka ákvarðanir, sem varða landið í heild sinni um langan tíma, má ekki miða afstöðu sína við sjerstakan mann.

Ummælum hv. 2. þm. Reykv., þar sem hann brá þeim hv. 1. þm. Skagf. og hv. þm. Vestm. um hræsni, býst jeg við, að þeir svari sjálfir. Allir vita, að þessi illgirnislegu ummæli voru með öllu ómakleg og órökstudd. Sama er að segja um orð hans um hv. 2. þm. Skagf., auk þess sem það atriði kom ekki við því máli, sem hjer liggur fyrir, og er ilt til þess að vita, að jafnmikilhæfur maður og hv. 2. þm. Reykv. skuli koma fram með svo rakalausar staðhæfingar.

Mjer virðist þetta vera endurtekning á skollaleik þeim, sem leikinn var hjer í deildinni í gær. Þá kvartaði þessi hv. þm. yfir óheiðarlegum ummælum um sig, en nú beitir hann þeim sjálfur. (HV: Þetta er ekki óheiðarlegt). Jeg veit þá ekki, hvað er óheiðarlegt, ef ekki það að vera algerður hræsnari, eins og hv. þm. brá samdeildarmönnum sínum um. (MJ: Þeir álfta það ekki óheiðarlegt).

Jeg vil hjer leiðrjetta dálítinn misskilning, sem fram kom hjá hv. þm. Vestm. á orðum hæstv. forsrh. (Forsrh: Jeg þakka!). Hann sagði, að sig skifti minstu, hvernig pólitískir andstæðingar í bæjunum rifust sín á milli. En mjer finst nú altaf grátlegt, þegar góðir menn gera það, sem þeir eiga ekki að gera, og hæstv. forsrh., sem á að vera útvörður laga og siðgæðis í landinu, geti ekki staðið á sama, hvernig undirsátar hans, ef jeg má svo að orði kveða, haga sjer. Jeg held, að hann hafi sagt þetta til þess að stríða andstæðingunum, en ekki af því, að hann hafi meint það.

Það kom dálítið óþægilega við mig, er nöfn þeirra Jóns forseta og Torfa í Ólafsdal voru nefnd í sambandi við kosningarrjett þessara fátæku manna, sem fylgismenn frv. þykjast ávalt bera fyrir brjósti og tala með svo miklum fjálgleik um.

Það er líklega af því, að jeg er harðari í lund en þessir menn, að jeg hefi ekki orðið var við neina kúgun á fátæklingum af hálfu sveitar- og bæjarstjórna. Jeg veit ekki betur en að sveitarstjórnum farist yfirleitt vel við þá, sem þurfa að leita á náðir þeirra.

Jeg get m. a. sagt hv. þm. Dal. það, að jeg þekki hrepp, þar sem nokkrir menn hafa þegið af sveit, en standa þó allir á kjörskrá. Og ef hv. þm. skyldi segja, að þetta væri eigi heimilt eftir núgildandi lögum, þá er því til að svara, að engar kærur hafa komið fram yfir þessu.