13.03.1929
Neðri deild: 21. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í B-deild Alþingistíðinda. (526)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Halldór Stefánsson:

Jeg vil aðeins segja nokkur orð út af ræðu hv. frsm. minni hl. Sagði hann, að jeg vildi láta taka með annari hendinni það, er gefið væri með hinni. Þetta er ekki rjett hjá hv. þm., ófjárráða mönnum er aldrei og hefir aldrei verið gefinn kosningarrjettur. — Þá sagði hv. þm. einnig, að það kæmi að engum notum að svifta menn þessa fjárforræði, því að hjá þeim sje um engin efni að ræða. Þetta hlýtur hv. þm. að sjá, að er ekki rjett, því þó ekki sje um eignir að ræða, þá er oftast um að ræða vinnukaup, og ófjárráða menn hafa ekki frekar umráð yfir vinnukaupi sínu en eignum.

Mjer virðist, að þetta sjeu þau eðlilegustu takmörk á kosningarrjetti, sem hægt er að setja, enda mundu þau og aldrei geta talist órjettlát eða órjettmæt. Þá, sem verða styrkþurfar sakir leti og ómensku, eða ef til vill af enn verri ástæðum, myndi altaf vera rjett og eðlilegt að svifta fjárforráðum, og þeir hefðu þá ekki heldur kosningarrjett.