13.03.1929
Neðri deild: 21. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í B-deild Alþingistíðinda. (529)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Magnús Jónsson:

Jeg skal ekki lengja umræður að mun. Báðir hv. frsm. eru nú dauðir, enda verður það eigi mikið, sem jeg hefi að leggja til þessa máls. Jeg ætla ekki að feta í fótspor hv. 2. þm. Reykv. (HV), sem byrjaði hjer á þeirri sömu iðju sem hann hefir áður rekið hjer í háttv. deild.

Hann hefir slett sinni klessunni á hvern bóndann, en þeir eru alveg jafnhreinir eftir sem áður, þótt hann varpi þessum gorkúlum að þeim. (HV: Það er þægilegt fyrir prestinn að tala yfir þeim dauðu). Annars furðar mig á því, hve mikið hefir verið talað um þetta mál, því að um aðalatriðið, færslu kjöraldurs niður í 21 árs aldur, virðast menn vera sammála. Annars hefði mjer þótt gaman að því að minnast dálítið á það, sem hæstv. forsrh. sagði, ef jeg hefði tóm til. Hann hjelt, að íhaldsmenn mundu snúast gegn þessari breytingu, vegna þess, að Íhaldsflokkurinn hefði ekki fylgi hjá fólki á þeim aldri. Og svo dró hann af því þá ályktun, að þá væri Íhaldsflokkurinn á leið til grafar. En þetta er mjög hæpin ályktun, þó að hún heyrist oft og ágætt skáld hafi fært hana í búning.

En þó svo væri, að einhver flokkur hefði ekki mikið fylgi hjá fólki 21 til 25 ára, þá væri það engin sönnun um framtíðarhorfur þess flokks. Enginn aldur er eins sennilegur til skoðanaskifta í stjórnmálum eins og aldurinn 21–25 ár. Allur fjöldi manna er þá einmitt að komast að lífsstarfi sínu, en sem kunnugt er, mótast skoðanir manna mjög af því starfi, er þeir hafa. Á þessum aldri giftast mjög margir og stofna heimili. Þessi ár marka einmitt muninn á uppvaxtarárunum og fullorðinsárum. Það er því engin furða, þó að margur hugsi talsvert á annan veg, bæði í stjórnmálum og öðru, þegar hann er orðinn fullra 25 ára, en hann gerði 21 árs. Margir kannast þá varla við nokkra sína skoðun frá 21 árs aldrinum; svo mikil er breytingin.

En nú eru flokkarnir alls ekki skiftir um þetta atriði, og er því óþarfi að ræða það. Jeg er ekki í neinum vafa um, að það stefnir að því, að kjöraldur verði færður eitthvað niður. Og jeg verð að játa, að jeg tel það hreint álitamál, hvaða aldur er heppilegastur. Hinsvegar er þetta ekkert mannrjettindamál. Það gengur jafnt yfir alla og útilokar enga stjett.

Annars mætti eins vel færa kjöraldur niður í 18 ár eins og 21 ár, því margir eru orðnir stórpólitískir á þeim aldri, og að minsta kosti get jeg ekki sjeð, að það sje neitt hættulegt að gefa mönnum kosningarrjett 21 árs.

Eins er um hitt atriðið, að veita öllum kosningarrjett, þótt þeir hafi þegið af sveit. Þetta er líka smáatriði, eins og málum nú er komið. Jeg held að allir geti verið sammála um það, að það sje rjettast eða best í þessu efni, að hægt væri að láta þá hafa kosningarrjett, sem hefðu ekki átt það skilið að fara á sveitina, en láta hina ekki hafa rjettinn. Þetta væri tvímælalaust það besta, en einmitt lögin frá í hitt eð fyrra fóru eins nærri þessu og jeg held, að hægt sje að komast, nefnil. að veita öllum kosningarrjett, sem viðkomandi yfirvöld, þ. e. hreppsnefndir og bæjarstjórnir, álíta, að eigi rjett á því, en það mega allir vita, að þær verða ávalt mjög frjálslyndar, þegar um slíkt er að ræða. Með þessu frv. er því ekki farið fram á að auka mannrjettindi neinna nema þeirra, sem engin yfirvöld álíta, að hefðu átt að hafa kosningarrjett. Í hópi slíkra manna er hart að heyra hæstv. forsrh. telja þá Jón Sigurðsson og Torfa Bjarnason, einhverja þá mestu atorkumenn, sem uppi hafa verið hjer á landi.

Það, sem jeg aðallega kvaddi mjer hljóðs út af, var það, hvort heppilegra sje að láta bæjarstjórn eða borgarana kjósa borgarstjóra. Jeg býst við, að þetta myndi ekki í mörgum tilfellum ríða baggamuninn, og ekki skifta miklu í raun og veru, en mjer finst þó, að heppilegra sje, að borgarstjóri sje ekki kosinn af pólitískum flokkum í bæjarstjórnum. Maður gæti hugsað sjer þann möguleika, að viðkomandi meiri hl. í bæjarstjórn veldi þann manninn, sem hann teldi sjer hentastan og þægastan, en jeg held, að það væri betra, bæði fyrir borgarana alment og fyrir manninn sjálfan, að fá það sjálfstæði, sem fengist með því að vita meiri hl. borgara bæjarins á bak við sig; auk þess þarf þektari mann til að verða kosinn af bæjarbúum heldur en af einföldum meiri hl. bæjarstjórnar. Fáeinir menn, sem mynda meiri hluta bæjarstjórnar, geta af flokksástæðum eða öðrum komið sjer saman um að kjósa einhvern alóþektan og kvikónýtan mann fyrir bæjarstjóra. En almenn kosning girðir að mestu fyrir slíka hættu.

Þá vil jeg mótmæla því, að borgarstjóri sje ekkert annað en framkvæmdarstjóri bæjarstjórnar. Hann er miklu meira, og því er það mikils virði, að hann sje lipurmenni, sem allir geti treyst, þegar menn verða að leita til hans í nauðum sínum.

Af því að engin sjerstök breytingartillaga hefir verið gerð í því skyni, að koma burt úr frv. þessari óheppilegu breytingu á kosningu borgarstjóra, en það er á hinn bóginn talsvert flókið mál, þá vil jeg minnast á það, hvernig þeir menn verða að haga atkvæði sínu, sem vilja fá þetta atriði burt. Það er 17. gr., sem hjer er um að ræða; auk þess fellur þá 2., 4. og líklega 10. gr., sem ræðir nokkuð um þetta, fyrsti málsl. 16. gr., og sömuleiðis fellur 30. gr. niður. Verð jeg því að beina því til hæstv. forseta, hvort hann vill ekki bera þetta upp sjerstaklega. Ef þessar gr. eru feldar, verða að vísu einhver missmíði á frv., en þó ekki meiri en svo, að vel má laga milli umræðna.