09.04.1929
Neðri deild: 40. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í B-deild Alþingistíðinda. (54)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Bjarni Ásgeirsson:

Jeg ætla að byrja á því atriði í ræðu hv. 1. þm. Reykv., þar sem hann var að tala um, að gæta þyrfti varúðar í því að veita landbúnaðinum lán. Þetta er vitanlega rjett. Það verður ávalt að fara varlega í slíkum lánveitingum til hvers sem er. En það, sem jeg býst við, að hv. þm. hafi aðallega átt við, er það, að landbúnaðurinn ætti erfitt með að ávaxta fje með þeim kjörum, er nú eru ríkjandi á peningamarkaðinum. Þetta er líka rjett, en það verður í þessu sambandi að athuga það, að peningamarkaðurinn hjer er bygður fyrir alt aðrar atvinnugreinar. Það er því ekki að marka, þó að landbúnaðurinn geti illa borið lán með slíkum kjörum, og engin sönnun þess, að hann geti ekki borið lán, sem eru við hans hæfi. Enda vil jeg minna hv. þm. á það, að það er alment viðurkent, að varla sje nokkur atvinnugrein í heiminum, sem tryggari er og þróttmeiri en danski landbúnaðurinn. En samt er það svo, að hann hefir þurft að búa við alveg sjerstök lánskjör og hefir í því skyni komið á hjá sjer mjög fullkomnu lánakerfi, sem fyrst og fremst miðar að því að veita löng lán og ódýr. Og það eru einmitt slíkar kröfur, sem hjer er verið að gera. Og ef vel verður á haldið, mun það sýna sig hjer líka, að þessi stofnun mun borga sig vel. Hjer er aðeins verið að gera einskonar fjárskilnað milli tveggja helstu atvinnuveganna, landbúnaðarins og sjávarútvegsins, og annara atvinnuvega, er skemri og dýrari lán þola vegna sinnar aðstöðu. Þeir hafa fengið meira áður og tapað meiru; því verða þeir að sætta sig við hærri vexti til að borga upp töpin, sem af þeim leiðir. Það er því sjálfsagt að mynda sjerstaka stofnun fyrir landbúnaðinn og blanda honum ekki saman við hina.

Jeg veit, að bankastjórar Landsbankans líta ekki eins á það og hv. 1. þm. Reykv., að rjett sje að láta Landsbankann hafa þessa stofnun, sem byggir starfsemi sína á alt öðrum grundvelli. Og jeg get frætt hv. þm. um það, að bankastjórarnir eru mjög mótfallnir því ákvæði, er sjútvn. hefir sett inn í frv. um fiskiveiðasjóðinn, að hann skuli ávaxtast í Landsbankanum, og það enda þótt fjárhagur hans verði algerlega aðskilinn. Það er því alls ekki hægt að segja, að það sje verið að spilla fyrir Landsbankanum, þó þessi Búnaðarbanki verði ekki látinn vera nokkurskonar deild af hinum.

Það mun rjett hjá hv. þm., að nokkuð af sparisjóðsfje Landsbankans muni renna til þessa nýja banka, en hv. þm. hefir áður talað mjög um það, hversu mikil hætta Landsb. geti stafað af miklu innstreymi sparifjár, og ætti hann því ekki að vera að amast við því, þó reynt sje að draga eitthvað úr þeim straum, er hann hræddist svo mjög í fyrra.

Viðvíkjandi því, er hv. þm. talaði um ræktun landsins, get jeg sagt það, að það er alveg rjett hjá honum, að styrkir þeir, er ríkið hefir veitt til jarðræktarframkvæmda, eru mjög mikils virði og hafa gert mikið gagn. En enginn má láta sjer detta í hug, að þeir einir nægi til þess að bjarga landbúnaðinum úr þeim voða, sem hann er nú í. Þess vegna er það, að ef ekki er nú veitt nokkru peningaflóði, þó vitanlega með allri sjálfsagðri gætni, yfir til hans, þá mun hann halda áfram að veslast upp í samkepninni við aðra atvinnuvegi. Ræktunin ein dugir ekki, því þá þarf vjelar til að vinna hið ræktaða land, svo þarf búpening til þess að ávaxta það fje, sem til ræktunar og annars kostnaðár er varið, og svo hús bæði yfir fólk og fje. Öllu þessu þarf að sjá landbúnaðinum fyrir, ef hann á að geta framfleytt því fólki, er á honum vill lifa, og tekið á sig þær þjóðfjelagslegu byrðar, er hann verður að standa undir, m. a. ábyrgðir fyrir Landsbanka Íslands.