20.03.1929
Neðri deild: 27. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í B-deild Alþingistíðinda. (541)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

0541Magnús Torfason:

Jeg á hjer brtt. á þskj. 116. Efni hennar er ekki mikið, en hún miðar þó til þess að færa þessi kosningalög til betri vegar og til samræmis við það, er á sjer stað hjer í hinu háa Alþingi. Jeg vænti þess, að hv. þd. líti svo á, að alt, er samræmir lögin við venjur Alþingis, sje gott og gilt. Brtt. fer ekki aðeins fram á, að kosningar til nefnda verði hlutbundnar, heldur og kosningar til annara starfa, sem sýslunefndir kjósa í, og rjettmætt er að tryggja minni hl. nokkurn rjett. Ástæðan til þess, að jeg ber þetta fram, er sú, að samkvæmt fyrirmynd Alþingis tíðkast að kjósa fastar nefndir innan sýslunefnda, og er þá eðlilegt, að það sje gert með hlutbundnum kosningum. Að minsta kosti getur það ekki skaðað. — Í Árnessýslu hefir vaninn verið sá, að oddviti sýslunefndar hefir orðið að stinga upp á mönnum í fastar nefndir. Annars hefir farið svo, að sumir hafa komist í margar nefndir, en aðrir enga, og gerði slíkt öll störf erfiðari og tafði þau. — Það er líka annað atriði, sem styður þessa brtt. Sýslunefndir eiga að kjósa í landsdóm, og það hæfir ekki annað en það sje gert með hlutfallskosningu. Landsdómur er hinn eini pólitíski dómstóll í landinu, og það á því ekki við, að í hann sje kosið öðruvísi.

Það er tekið svo til orða í brtt., að þessar kosningar skuli vera hlutbundnar. Sumir kunna að líta svo á, að ekki þurfi að fara að þvinga sýslunefndir til þess. En það er heldur ekki gert, því ef menn vilja, þá geta þeir bara sameinað sig um einn lista, eins og oft kemur fyrir. Og jeg býst við, að fyrst um sinn, meðan menn eru að kynnast þessu, verði það víða svo.

Vænti jeg þess, að hv. þd. samþykki brtt. þessa. Hún getur orðið til bóta, en verður áreiðanlega aldrei til skaða eða neinum til vansæmdar.