25.03.1929
Efri deild: 31. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í B-deild Alþingistíðinda. (556)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Þetta frv., eins og það liggur fyrir á þskj. 170, var samþ. í hv. Nd. með yfirgnæfandi meiri hl., og þótt í því sjeu allmörg ákvæði, þá var það ekki nema eitt ákvæði, sem þar olli verulegum ágreiningi.

Tilefnið til þess, að þetta frv. er flutt, er það, sem öllum er kunnugt, að samning þessara laga, nr. 43 15. júní 1926, um kosningar í málefnum sveita og kaupstaða, hefir orðið þannig, að það eru ákvæði í þeim lögum, sem ósamrýmanleg eru. Bæði fyrverandi stjórn og núverandi stjórn hnigu að því ráði að fela á vald hverrar bæjarstjórnar, hvernig lögin skyldi framkvæma á hinum ýmsu stöðum. Afleiðingarnar urðu þær, að t. d. hjer í Reykjavík og á Ísafirði fóru fram kosningar með ólíkum hætti. En þetta er óviðunandi, að haldi áfram, og enginn ágreiningur um, að þetta þyrfti að laga, svo ekki verði áframhald á því við næstu kosningar.

En úr því að farið var fram á breytingar á þessum lögum á annað borð, þótti rjett að bera fram nokkrar fleiri, þær, sem hjer eru í þessu frv.

1. gr. frv. fer fram á rýmkun kosningarrjettarins, með því að færa aldurstakmarkið niður, og hinsvegar með því að fella niður það ákvæði, að menn missi kosningarrjett fyrir að hafa þegið af sveit. Um þessi atriði var eiginlega enginn ágreiningur í Nd.; öll allshn. var sammála um þennan aukna kosningarrjett.

Í öðru lagi er ætlast til þess samkv. frv., að allir fulltrúar bæjarstjórna sjeu kosnir í einu, til þess að hlutfallskosningin njóti sín betur; t. d. er það svo hjer í Reykjavík, að þegar kosnir eru 5 fulltrúar, þá er það einn af flokkunum, sein engan fulltrúa fær, en það er mjög óeðlilegt, að frjálslyndi flokkurinn eigi engan fulltrúa í bæjarstjórn, sem annars mundi fá eina tvo, ef kosið væri í einu.

Í sambandi við þetta er stytting kjörtímabilsins, sem er og sjálfsagt, ef hitt er tekið upp, og sömuleiðis, þegar allir fulltrúar eru kosnir í einu, þá á líka að kjósa varamenn, því að það raskar allri hlutfallskosningu, ef þarf að vera að kjósa einn og einn mann á milli, og sömuleiðis myndi af því stafa ekki alllítill kostnaður, svo að jeg hygg, að það atriði muni ekki valda ágreiningi, nje heldur þau önnur, sem jeg nefndi.

Það atriðið, sem aftur á móti varð ágreiningur um í Nd., var það, hvernig bæjarstjóra skuli kjósa. Þeir eru nú kosnir af öllum bæjarbúum, en í frv. er stungið upp á því, að það sjeu bæjarstjórnirnar, sem kjósi bæjarstjórann. Menn halda því fram, að það væri meira „demokratiskt“ að láta alla bæjarbúa kjósa, en jeg fyrir mitt leyti álít, að það sje óeðlilegt, að slíkt sje gert. Alveg eins og þingið tilnefnir ráðherra og hreppsnefnd kýs sjer oddvita, eins álít jeg, að bæjarstjórnirnar eigi að kjósa sjer sinn oddvita, borgarstjórann; hann á að vera framkvæmdastjóri bæjarstjórnanna, og er því eðlilegt, að hann sje kosinn af þeim, sem hann starfar fyrir. Það getur líka komið fyrir, að borgarstjóri sje í fullkomnu ósamræmi við meiri hl. bæjarstjórnar á hverjum tíma; það getur verið, að frambjóðandi sje svo vel kyntur eða hafi slík sambönd, að hann vinni kosningu, þótt meiri hl. bæjarstjórnar sje á móti honum. Það færi t. d. ekki vel á því hjer í Reykjavík, ef borgarstjórinn væri íhaldsmaður, en meiri hl. bæjarstjórnar sósíalistar. Til þess að tryggja meiri festu í öllum þeim störfum, sem fyrir koma hjá bæjarstjórnum, þar sem bæjarstjóri er starfandi í öllum nefndum bæjarstjórnar, þá er nauðsynlegt, að trygt sje, að sama stefna í aðalatriðum ríki hjá báðum, en það er best trygt með því, að bæjarstjóri sje kosinn af bæjarstjórn.

Mun jeg svo ekki ræða þetta frekar, en aðeins óska þess, að frv. verði vísað til allshn. að þessari umr. lokinni.