26.04.1929
Efri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í B-deild Alþingistíðinda. (559)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Guðmundur Ólafsson:

Jeg stend her upp vegna brtt. þeirra, er jeg og hv. 6. landsk. höfum flutt á þskj. 328.

Hv. frsm. endaði ræðu sína með því að minna á brtt. og fórust honum heldur hlýlega orð til þeirra. Jeg bjóst nú fremur við, að hv. n. hefði tekið ákveðna afstöðu til þeirra, því þær komu fram um líkt leyti og n. tók að vinna að málinu.

1. brtt. er við 10. gr. Hún gerir ekki aðra breyt. þar á en þá, að samkv. frv. er kjörstjórn skipuð þrem mönnum, er kosnir eru af hreppsnefnd í hvert skifti og kjósa skal, en í till. er þetta „hvert skifti“ felt niður. Er ætlast til, að kjörstjórnin geti staðið lengur, t. d. yfir árið. Það tekur varla að fara að skipa sjerstaka kjörstjórn, þótt kjósa þurfi smánefndir, svo sem hestakynbótanefndir og nautgriparæktarnefndir. Jeg þekki dæmi til þess, er kjósa hefir þurft í slíkar smánefndir, að það hefir gleymst hjá hreppsnefndinni að hafa kjörstjórn skipaða, er á þurfti að halda. En það sýnist alveg óþarft að kjósa kjörstjórn í hvert skifti.

Við þessa gr. er einnig önnur örlítil brtt. í frv. er ákveðið, að hreppsnefnd kjósi kjörstjórn úr sínum flokki. Við leggjum til, að hreppsnefndin ráði því, hvort hún velur kjörstjórn innan nefndarinnar eða utan. Getur staðið svo á í einstöku hreppsnefndum, að gott sje að geta farið út fyrir nefndina.

2. brtt. er við 21. gr. laganna. Í lögunum er svo mælt fyrir, að hreppsnefnd geti ákveðið, að kosningar sjeu leynilegar, en ef hún ekki gerir það, þá geti þó 1/3 hreppsbúa krafist þess. Þetta þykir okkur óþarflega stór hluti kjósenda. í strjálbygðum hreppum getur verið óþægilegt að ná svona mörgum mönnum saman eða vita um vilja þeirra á annan hátt. Leggjum við því til að færa lágmarkið niður í 1/6 hreppsbúa.

3. brtt. er um það, að á eftir 17. gr. frv. komi ný gr., er verði 35. gr. laganna. Fer hún fram á það, að ef einhver sýslunefndarmaður óskar hlutfallskosningar við kosningu í aukanefndir, t. d. millifundanefndir eða tilnefningu starfsmanna, þá verði að taka það til greina. Þetta er sanngjarnt. Það getur staðið svo á, að nokkur flokkaskifting eigi sjer stað innan sýslunefnda. Er þá ekki ósanngjarnt, að minni hl. geti haft nokkur áhrif við ofannefndar kosningar.

Þetta eru sanngjarnar brtt. og býst jeg varla við, að nokkur hv. þdm. leggi út í það að mótmæla þeim.