30.04.1929
Efri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í B-deild Alþingistíðinda. (580)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg hafði ekki gert ráð fyrir því að þurfa að taka til máls við 3. umr. þessa máls. En ræða hv. 3. landsk. hefir gefið mjer tilefni til þess að víkja nokkrum orðum að brtt. hans.

Um 1. brtt. hans er það að segja, að mjer er ekki neitt kappsmál, hvort hún verður samþ. eða feld. En jeg vil þó minna á það, að jeg get búist við því, ef hún verður samþ., að það verði til þess, að málið þurfi að hrekjast á milli deilda. En ef hún og 6. brtt. verða feldar, þá hygg jeg, að Nd. muni ganga að frv. eins og það er. Verði því þessi brtt. samþ., er hætta á þessu, því það er sterkur hugur fyrir því þar, að svona ákvæði eigi ekki að sjást í ísl. lögum. Og þar er jafnvel maður, sem stendur í nánu sambandi við hv. 3. landsk., sem lítur þannig á. Jeg held því, að rjett sje, að slík till. nái ekki fram að ganga. — 4 næstu brtt. eru aðeins til skýringar og ekkert við þær að athuga. Þær skýra aðeins það, sem enginn ágreiningur er um. En það var ræða hv. þm. um það atriði, hvort borgarstjóri skyldi kosinn af borgurunum eða bæjarstjórninni, sem kom mjer til að standa upp. Hv. þm. talaði aðeins um eina ástæðu, sem mælir með því, að borgarstjóri sje kosinn af bæjarstjórn, þá, að það væri ekki rjett að auka vald meiri hl. í bæjarstjórninni. En þetta er aukaatriði. Aðalástæðurnar fyrir því, að stjórnin bar þetta fram, eru þær, að fyrir getur komið, að fyrir persónulegar ástæður verði kosinn borgarstjóri, sem sje í andstöðu hvað skoðanir snertir við meiri hl. bæjarstjórnar. Með því fyrirkomulagi, sem nú er hjer, gæti það komið fyrir, að sósíalisti væri kosinn sem borgarstjóri, þótt íhaldið væri í meiri hl. í bæjarstjórn, eða þá öfugt. Það munaði nú ekki svo ýkjamiklu nýlega, að svo færi, að borgarstjóri væri kosinn hjer, sem andstæður var meiri hl. í bæjarstjórn að skoðunum.

Hv. þm. sagði, að með þessu frv. væri verið að stíga aftur á bak frá þjóðræðislegu sjónarmiði sjeð. En jeg álít, að núverandi fyrirkomulag hafi aldrei verið spor í rjetta átt, heldur víxlspor, sem stigið hafi verið og því beri að leiðrjetta. Og sú leiðrjetting er alveg hliðstæð við annað stjórnarfyrirkomulag. Þjóðin t. d. kýs Alþ., en Alþ. aftur stjórn. Eftir þeirri reglu, sem gilt hefir hjer um borgarstjórakosningu, ætti þjóðin að kjósa ráðherrana. Sjá allir, hversu fjarri sanni það væri.

Síðast sagði hv. þm., að þetta væri heimtað af jafnaðarmönnum. Jeg vil lýsa því yfir, að þetta er fram borið af eigin hvötum og að jeg hefi lengi verið ósammála því ástandi, sem ríkt hefir um þetta. Og í sambandi við það vil jeg minna hv. 3. landsk. á, hvernig þetta komst inn í lögin. Í frv. var fyrst ákveðið svo, að bæjarstjórn skyldi kjósa borgarstjórann. En af persónulegum ástæðum var þessu breytt, fyrst fyrir þennan eina kaupstað, til þess að koma ákveðnum borgarstjóra frá. Jeg hygg, að hv. 3. landsk. sje mjög vel kunnugt um þetta. Þetta var mjög „aktuelt“ þá, en jeg vil ekki vera að draga nein nöfn inn í umr. nú. Það var því af persónulegum ástæðum, að stigið var þarna út af rjettri braut. Og það er meira en mál komið til þess að kippa því í lag aftur.