30.04.1929
Efri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í B-deild Alþingistíðinda. (581)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Erlingur Friðjónsson:

Það hefir tognað svo úr þessum umr., að varla virðist á það bætandi, en jeg verð þó að segja nokkur orð út af því, sem hv. 3. landsk. þm. veik til mín í sambandi við það, sem jeg sagði í gær.

Mjer þykir það hálfeinkennilegt, þegar hv. 3. landsk. þm. þykist vera að bjarga sveitarsjóðunum með 1. brtt. sinni, þar sem svo er ákveðið, að menn missi kosningarrjett sinn, ef þeir standa í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk vegna leti, óreglu eða hirðuleysis, því að jeg hygg, að mjer sje óhætt að fullyrða, að þessir menn fari jafnt á sveitina, sem kallað er, hvort sem þeir við það missa kosningarrjettinn eða ekki. Jeg held, að menn með slíku innræti láti sjer þetta í ljettu rúmi liggja. Ef tilgangur hv. 3. landsk. þm. með þessari brtt. er því að bjarga sveitarsjóðunum, nær hún ekki tilgangi sínum, auk þess sem í hana vantar ákvæði um það, hver eigi að skera úr því, hvort svona menn eiga að hafa kosningarrjett eða ekki. Og ef hv. 3. landsk. þm. ætlar ekki að láta þessi ákvæði ná til kvenna þessara manna, vantar það enn í þessa brtt., að það sje tekið fram, að kona missi ekki kosningarrjett sinn, þótt maður hennar geri það af áðurgreindum ástæðum.

Þá var hv. 3. landsk. þm. enn á ný að tala um afstöðu bæjar- og borgarstjóra til bæjarstjórnanna, og ljet svo um mælt, að mörg verk, sem bæjar- eða borgarstjóri hefði með höndum, væru þess eðlis, að þau lægju utan við þau afskifti, sem bæjarstjórnir hefðu af bæjarmálum. Ef bæjar- eða borgarstjóri styðst við bæjarstjórn og heldur fundi með henni að minsta kosti hálfsmánaðarlega, þykir mjer undarlegt, ef hann á að framkvæma ýmislegt það, sem bæinn skiftir, án þess að ráð bæjarstjórnar komi til, enda er mjer ekki kunnugt um, að þesskonar stjórnarfar tíðkist neinsstaðar; Það má vera, að einstaka bæjar- eða borgarstjóri taki sjer slíkt vald, en lögum samkv. hefir hann enga heimild til þess. Það eru bæjarstjórnirnar, sem valdið hafa, og bæjar- eða borgarstjórar eiga ekkert annað að gera en að framkvæma vilja þeirra. Þessi skýring hv. 3. landsk. á valdsviði bæjar- eða borgarstjóra er því alröng. Ef taka ætti tillit til svona kenninga, væri meiri ástæða til að láta alla kjósendur landsins kjósa landsstj., af því að landsstj. hefir minna aðhald frá þinginu en bæjar- eða borgarstjórar frá bæjarstjórnunum, vegna þess að lengra líður á milli þinga en funda í bæjarstjórnum. En hv. 3. landsk. veit, að þetta fyrirkomulag tíðkast ekki, enda hefir hann ekki haldið því fram, að nauðsynlegt væri eða að neinu leyti heppilegt að koma slíku skipulagi á í þjóðmálum.

Hv. 3. landsk. þm. sjer ekki gallana á því, að bæjar- eða borgarstjóri sje kosinn af sama meiri hl. og bæjarstjórnin sjálf. Er þetta skiljanlegt frá sjónarmiði þess manns, sem telur sjer borgarstjórann vísan, en minnihl.maðurinn sjer, að með þessu móti er meiri hl. gefið atkvæði, því að það er opið fyrir hvern meiri hl. að kjósa bæjar- eða borgarstjórann úr sínum hópi og bæta þannig við sig atkv.

Hv. 3. landsk. þm. talaði um, að nauðsynlegt væri að hafa meiri hl. sem sterkastan. Þetta kann að vera svo frá sumra sjónarmiði, en það er beint á móti anda kosningalaganna, því að með þeim breyt., sem gerðar hafa verið á síðustu árum, hefir áherslan verið lögð á að auka vald minni hl. í svona samkundum, því að þótt ekki muni nema einu atkv., getur meiri hl. ráðið öllum bæjarmálum, ef honum sýnist. Það þarf því að tryggja rjett minni hl. sem best, svo að rjettur hans verði ekki meira og minna fyrir borð borinn af meiri hl., sem er einráður, jafnvel þótt ekki muni nema einu atkv. af 10 eða 15. Hv. 3. landsk. talaði um það, að jafnaðarmenn treystu sjer ekki til að hafa vald á atkv. úti í bænum, en aftur á móti í bæjarstjórnnini. (JÞ: Jeg átti bara við Akureyri). Jæja, það vill þá svo vel til, að jeg get svarað þessu. Þessi l. eru engan veginn sett með hagsmuni jafnaðarmanna fyrir augum, heldur líka fyrir íhaldsmenn, því að það er eins gott fyrir þá, að borgar- eða bæjarstjóri sje kosinn á þennan hátt. Þetta stafar af því, að þeir, sem eru í meiri hl. á hverjum tíma, hvort sem það eru nú íhalds- eða jafnaðarmenn, fá atkvæðamagn sitt aukið með því að borgar- eða bæjarstjóri sje kosinn af öllum bæjarbúum.

Þegar semja á lög, verður að líta til framtíðarinnar og búa l. sem eðlilegast úr garði, hver sem í hlut á, hvort sem það er nú meiri eða minni hl. Og jeg held, að hv. 3. landsk. þm. hafi horft og mikið á afstöðuna stóru kaupstöðunum eins og hún nú en síður gætt þess að hún getur breyst áður en langt um líður.