30.04.1929
Efri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í B-deild Alþingistíðinda. (591)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Erlingur Friðjónsson:

Jeg ætla fyrst að snúa mjer að hæstv. forseta. Mjer virtist eins og hann gerði gys að því, er jeg talaði um konur óreglumanna, og sagði hann, að það væri eins og jeg gengi að því gefnu, að allir óreglumenn væru giftir. Um það sagði jeg ekkert, en jeg gerði ráð fyrir, að svo gæti verið, að óreglumaður væri giftur, og jeg hygg það enga fjarstæðu. Ennfremur vil jeg geta þess í sambandi við þau ummæli forseta, að við, sem ekki samþ. till., værum að halda uppi þessu spilta lífi, lítum svo á, að dómur, sem ákveður, hvort eigi að telja einn mann óreglumann eða ekki, geti oft lent á þeim, sem ekki hafa unnið til þess. Þá vil jeg víkja að því, sem hv. 3. landsk. hafði eftir mjer, að jeg teldi borgar- eða bæjarstjóra sem verkfæri í höndum bæjarstjórna, en sagði sjálfur, að þeir væru miklu meira og vildi skýra sitt mál með því, að þeir innu ýms verk sjálfstætt, án þess að styðjast við fyrirmæli bæjarstjórna. Jeg gat þess áðan, að þetta myndi ekki vera rjett, en þá vísaði hv. þm. til framkvæmda á fátækralögum og kosningalögum. Jeg get upplýst það fyrir hv. þm., að það eru fátækranefndir, sem hafa með framkvæmdir fátækralaga að gera, en um kosningalögin er það að segja, að bæjarstjórn kýs tvær nefndir, kjörskrárnefnd og kjörstjórn, til að sjá um þau. Jeg hygg, að hv. 3. landsk. hafi aldrei verið vel inni í bæjarmálum, ef hann ætlar að halda þessari skoðun sinni til streitu.