30.04.1929
Efri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í B-deild Alþingistíðinda. (592)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Jón Baldvinsson:

Mig langar til að segja nokkur orð við hv. 3. landsk., og þess vegna stóð jeg upp. Hv. þm. vitnaði í kosningalögin og sagði, að kona hefði atkvæðisrjett, þótt maður hennar hefði verið sviftur fjárforráðum, og samskonar ákvæði kvað hann vera í bæjarstjórnarlögum. Þessi ákvæði taka það eitt fram, að kona missir ekki atkvæðisrjett, þótt hún eigi óskilið fjárlag með manni sínum. Þessi ákvæði sanna því ekki það, sem hv. þm. vildi láta þau sanna. (JÞ: Þetta er hreinasti misskilningur). Nei, svo er ekki, enda getur hv. þm. sjeð það, ef hann les lögin með athygli. Þetta ákvæði í kosningalögunum er sett til þess að tryggja öllum þeim konum kosningarrjett, sem ekki hafa sjálfstætt fjárforræði, þ. e. hafa kaupmála, og sem vegna skilyrðis kosningalaga um fjárforræði gætu annars ekki kosið.

Þá vil jeg aðeins víkja að hinni skriflegu brtt. hans. Mjer virðist það gera hvorki til nje frá, þótt orðunum „sjálfs sín“ sje bætt inn á eftir upptalningunni.

Það er ekki ástæða til að endurtaka það, sem sagt hefir verið, en jeg vildi að síðustu víkja að því atriði, að ef fátæklingur fer fram á styrk, eiga fátækrastjórnir að kveða upp dóm um það, hvort hann þurfi styrks sökum leti, hirðuleysis eða óreglu, eða þá af löglegum orsökum, og er þá farið að grípa helst til langt inn í einkalíf manna, eftir því sem hv. 3. landsk. venjulega kennir, en við það hefir hann ekkert að athuga, þegar um fátæklinga er að ræða. Till. hv. þm. er vansmíði, sem verður að fella. Hv. þm sagði, að mín till. væri smíðalýti, en hún kveður skýrt á um það, hver er rjettur manna, og því hefir hv. þm. ekki tekist að hnekkja.