03.05.1929
Neðri deild: 60. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í B-deild Alþingistíðinda. (596)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Frsm. meiri hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Því var bætt inn í þetta frv. í hv. Ed. sem skilyrði fyrir kosningarrjetti, að menn væru ekki í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk vegna leti, óreglu eða hirðuleysis.

Þó að jeg sje enginn fylgismaður letingja og óreglumanna, þá lít jeg svo á, að það sje svo erfitt að dæma um þessi atriði, að slíkt verði ómögulegt í framkvæmdinni. Jeg hefi því komið með brtt. við 1. gr., þess efnis, að aftan við 6. lið gr. bætist, enda verið sviftir fjárforráði fyrir þessar sakir“.

Ef leti, óregla eða hirðuleysi á að hafa áhrif á það, hvort menn skuli hafa rjett til þess að hafa áhrif á landsmál með atkv. sínu, þá álít jeg rjettast, að þeir menn sjeu sviftir fjárforræði. Það hefði auk þess þann kost, að þá væru menn altaf á því hreina með það, hvort einhver sjerstakur maður ætti að hafa kosningarrjett eða ekki. Annars álít jeg, að rjettast væri að hafa ekki þetta ákvæði, sem bætt var inn í Ed., í frv., og ef hæstv. forseti vildi leyfa, að 6. liður 1. gr. væri borinn upp sjerstaklega, þá mundi jeg falla frá þessari brtt. minni.

Þetta ákvæði getur verið hættulegt. Því sje gengið út frá því, að fátækrastjórnirnar ættu að hafa úrskurðarvald um þetta — sem að vísu ákvæði vantar um í frv. og því algerlega óvíst um, hver dæma eigi —, þá er oft hætt við því, að þessi mál gætu litast af pólitík í ýmsum tilfellum, því að sveitar- og bæjarstjórnir eru venjulega kosnar eftir stjórnmálastefnum frambjóðanda. Auk þess eru t. d. orðin „hirðuleysi“ sjálfs sín mjög teygjanleg, og er hætt við, að íhaldssamar sveitarstjórnir gætu heimfært margt undir þau. Það er meira að segja ekki útilokað, að þær gætu teygt þau yfir flesta, sem þiggja af sveit, því að það er algengt orðtak helstu íhaldsmanna, að ástæðurnar til þess að menn yfirleitt þiggi af sveit sjeu „leti og óregla“, þegar það sje ekki „ hirðuleysi“ mannanna sjálfra.

Jeg endurtek svo ósk mína um það, að 6. liður sje borinn upp sjerstaklega, og mun jeg þá taka aftur brtt. mína.