03.05.1929
Neðri deild: 60. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í B-deild Alþingistíðinda. (599)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Frsm. meiri hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Ef afbrigði verða leyfð um þessa skrifl. brtt., þá get jeg tekið mína brtt. aftur. Viðurkenni jeg þó ekki þá skoðun hv. 1. þm. Skagf., að hún verði ekki feld inn í 1. gr., ef sú gr. á að haldast óbrjáluð. Frekar mætti segja, að hjer væri um endurtekningu að ræða. En ef þetta er rjett í 1. gr. frv., þá er það jafnrjett í brtt. minni.

Annars skal jeg ekki lengja umr. með því að deila við hv. 1. þm. Skagf. um þetta mál. En vitanlega voru breyt. þær, er komust inn í sveitarstjórnarlögin 1927 og miðuðu að því að draga úr almennum kosningarrjetti, runnar frá íhaldsmönnum, því þeir treystu því, að þar sem þeir væru í meiri hl. í sveitarstjórn, þá gætu þeir með þessum ákvæðum takmarkað að nokkru leyti alm. kosningarrjett. Einnig var það íhaldið, sem gekk best fram gegn því, að 43. gr. 1. frá 1927 væri skýrt ákveðin, heldur vildi það hafa hana sem teygjanlegasta. Og jeg skal geta þess, að jeg veit ekki til, að sveitarstjórnir hafi nokkursstaðar úrskurðarvald í þessum efnum, svo að íslenska íhaldið gengur lengst í þessum efnum aftur á bak.

Jeg vil bæta því við, að þó það virðist fjarstæða að letingjar og hirðuleysingjar hafi kosningarrjett, og þó það láti vel í eyrum, að svo skuli ekki vera, þá er það þó fjöldi letingja og óreglumanna, sem hafa kosningarrjett og halda honum áfram þrátt fyrir þetta ákvæði, þar sem þeir hafa peninga, en þurfa ekki að þiggja af sveit, og eru á meðal þessara manna ýmsir þeir, er mestu ráða í Íhaldsflokknum. Það er með öðrum orðum verið að sjá svo um, að þeir einir hafi kosningarrjett, er peningana hafa, og er það rjett íhaldsstefna, þótt óvíst sje, hversu vinsæl hún er meðal þjóðarinnar.