03.05.1929
Neðri deild: 60. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í B-deild Alþingistíðinda. (606)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Haraldur Guðmundsson:

Jeg get ekki annað en undrast, þegar tveir íhaldsmenn rísa hjer upp hvor á eftir öðrum og hæla sjer af fátækralagabreytingunni frá 1927. Ef þeir hafa ekki annað til þess að hæla sjer af, þá held jeg að þeir ættu heldur að láta það ógert. Þau lög eru höfundunum yfirleitt til hinnar mestu vansæmdar, þó að einstöku ákvæði sjeu þar til bóta frá því, sem áður var. Þar er sveitarstjórnum og fátækrastjórnum gefið vald til þess að meta verðleika manna til að halda óskertum mannrjettindum sínum. Slíkt er óhæfa.

Jeg hefi leyft mjer að bera fram brtt. við þetta frv., þar sem jeg legg til, að fyrri málsgr. 6. liðar 1. gr. falli burt. Það er álit okkar jafnaðarmanna, að ekki sje rjett að svifta menn kosningarrjetti vegna fátæktar. Það er hreinasta fásinna að gefa sveitarstjórnum vald til þess að meta, hvort um sjálfskaparvíti sje að ræða, er menn þiggja fátækrastyrk. Í fátækralögunum er nú sveitarstjórnum gefið vald til þess að láta svifta þá menn fjárráðum, sem fara ráðlauslega með efni sín og eru í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk af þeim ástæðum. Þá missa þeir kosningarrjettinn af sjálfu sjer um leið. Jeg fyrir mitt leyti álít, að ekki sje neitt á móti því, að sveitarstjórnirnar geri slíkt, þegar um slæpingja og vandræðamenn er að ræða. En þetta er líka nóg. Hitt væri að gera mun á fátækum og ríkum slæpingjum og óráðsíumönnum. Allar frekari takmarkanir á kosningarrjetti eru óþarfar og órjettlátar.