27.04.1929
Efri deild: 55. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Frsm. (Jón Jónsson):

Nefndin hefir athugað þetta mál á nokkrum fundum og orðið á einu máli um að mæla með því. Getur n. fallist á frv. óbreytt, nema hvað hv. 4. landsk. kemur með viðbótartill. við það. Skal jeg nú fara nokkrum orðum um málið alment.

Alt frá landnámstíð og fram til síðustu aldamóta var landbúnaður höfuðatvinnuvegur okkar Íslendinga, og sá atvinnuvegur, sem best hefir staðist hörmungar hinna liðnu alda, misærin og siglingateppuna. Eftir síðustu aldamót, eða síðastliðinn aldarfjórðung, hefir orðið stórfeld breyting á atvinnuskipulagi okkar, hlutföllin milli hinna einstöku atvinnugreina hafa algerlega raskast og þjóðlífið í heild tekið gagngerðum breytingum. Sjávarútvegurinn, sem á liðnum öldum var einungis stundaður í hjáverkum, hefir á síðustu árum tekið stórkostlegum framförum og vaxið svo óðfluga, að hann má nú teljast annar höfuðatvinnuvegur þjóðarinnar. Af þessum hraða vexti og gífurlega uppgangi sjávarútvegsins hefir aftur leitt tiltölulega kyrstöðu í landbúnaðinum, svo að hann stendur nú sjávarútveginum langt að baki, bæði um vinnuaðferðir og framleiðsluaðferðir yfir höfuð. Þessari breytingu á afstöðu þessara aðalatvinnuvega hefir valdið margt. Í fyrsta lagi hefir sjávarútvegurinn fyr lært að nota og komið við nýtísku tækjum en landbúnaðurinn. Í öðru lagi hefir sjávarútvegurinn haft fyrir augum útlendinga, sem ráku fiskiveiðarnar með fullkomnum og nýtísku tækjum, og hefir slíkt óhjákvæmilega verið þeim eigi alllítil hvatning til framtaks og dáða. Svo áþreifanlega hvatning hafði landbúnaðurinn ekki. En veigamesta ástæðan til þessara óðfluga framfara sjávarútvegsins hygg jeg að sje sú, að hann hefir haft greiðan aðgang að lánum við hans hæfi, en slíks hefir landbúnaðurinn algerlega farið á mis. Nú er ástandið þannig, að fólkinu fer hríðfækkandi í sveitunum; síðan 1910 hefir fækkað um 7-8 þúsundir í sveitunum, þrátt fyrir verulega mannfjölgun hjá þjóðinni í heild. Hundraðstalan, sem í sveitunum býr, minkar því enn meir, enda munu nú ekki búa í sveitunum nema 45% af þjóðinni, en 68% 1910. Nú standa því sakir þannig, að landbúnaðurinn á erfitt uppdráttar. Það er erfitt að reka hann með hagnaði, nema þar sem sjerstaklega er hagfeld aðstaða. Hann nýtur því ekki hins sama trausts nú orðið sem hann naut áður. Búin eru ekki talin jafnmiklir landsstólpar sem þá. Þetta ástand munu fáir telja æskilegt, því að í sveitunum hefir til þessa best varðveitst þjóðernið, íslensk alþýðumenning og „ástkæra ylhýra málið“, eða alt, sem þjóðinni er helgast og tengir hana fastast saman í eina órjúfanlega heild, þrátt fyrir alt þras og þjark. Það er því óbifanleg sannfæring mín, að merkasta verkefni okkar kynslóðar sje að hlutast til um, að landbúnaðurinn geti tekið þá öndvegisstöðu í þjóðfjelaginu aftur, sem hann hefir haft frá upphafi Íslands bygðar fram yfir síðustu aldamót. Með öðrum orðum, að þungamiðja þjóðlífsins haldi áfram að vera í sveitunum, eins og verið hefir.

Það skal nú fyllilega viðurkent, að síðustu 10 árin hefir allmikið verið gert af þinginu til hagsbóta fyrir landbúnaðinn, og má óhætt fullyrða, að hæstv. núverandi forsrh. eigi þar rífastan bróðurhlut í. Af þeim málum, sem mesta þýðingu hafa haft fyrir landbúnaðinn, má fyrst og fremst nefna: Jarðræktarlögin, þá ræktunarsjóðinn og síðast en ekki síst byggingar- og landnámssjóðinn. Vitanlega hefir þetta ekki borið fullan árangur ennþá, því að við erum nokkuð seinir að átta okkur á hlutunum, bændurnir. En jeg vona, að því lengra sem líður, því meira gagn verði að þessum stofnunum fyrir sveitirnar. En þrátt fyrir þetta, sem gert hefir verið fyrir landbúnaðinn nú á seinni árum, er þó eftir að veita landbúnaðinum það, sem hefir orðið öflugust lyftistöng fyrir sjávarútveginn, það er: að tryggja honum aðgang að lánum, sem eru við hans hæfi, og til þess að ráða bót á því, er fram komið frv. það um Búnaðarbanka Íslands, sem hjer er til umr., og jeg held, að það sje líklegasta leiðin til þess að fullnægja lánsþörf bænda, sem þar er stungið upp á, því að jeg held, að það sje nokkum veginn alment viðurkent meðal allra, sem skilning hafa á þörfum landbúnaðarins og ekki eru haldnir einhverju kappi fyrir kaupstaðina, að honum sje hollast að fá lánsstofnun út af fyrir sig, er fullnægi þörfum hans. Því eigi bændur að sækja í aðrar stofnanir um rekstrarfje, sem eiga að sinna öllum atvinnuvegum landsmanna, þá er hætt við, að þeir verði afskiftir um lánin, ekki vegna óvildar stjórnendanna, heldur af því að þeir skilja betur þarfir þeirra, sem nær bankanum búa. Þeir, sem nær búa, eiga líka stórum hægara með að ganga frá tryggingum og grípa tækifæri. Þá mun það varla vera heppilegt fyrir landbúnaðinn að blanda blóði saman við lánsstofnanir sjávarútvegs- og verslunarmanna, því að það virðist vera mikill munur á, hve landbúnaðarlánin eru áhættuminni, eftir því sem reynslan bendir til, þar sem af rúmum 20 milj., sem bankarnir hafa tapað, mun sáralítið hafa tapast á landbúnaðinum, hæst ekki yfir 2% af þeirri upphæð, að sögn kunnugra manna. Sömuleiðis veit jeg það, að margir þeir sparisjóðir, sem eingöngu hafa skift við sveitamenn, hafa tapað mjög litlu, eða jafnvel engu. Þannig hefir t. d. sparisjóður Húnavatnssýslu, sem jeg er kunnugastur, ekki tapað einum eyri. Af þessu er augljóst, að sjerstök lánsstofnun fyrir landbúnaðinn er alveg nauðsynleg, til þess bæði að gera aðganginn að lánunum auðveldari og lánin jafnframt ódýfari.

Í frv. því, er hjer liggur fyrir, eru lánsþarfir landbúnaðarins flokkaðar í 5 flokka. Fyrst er rekstrarlánadeild, og jeg fyrir mitt leyti tel, að einna minst þörf sje á henni, bæði af því að bændur þurfa ekki mikið á slíkum lánum að halda, og svo geta sparisjóðir nokkuð mikið hjálpað þar. Í ýmsum tilfellum getur þessi deild þó verið mjög hentug. Annars geri jeg ráð fyrir, að þörf hennar verði frekar rædd í sambandi við annað frv., sem sömuleiðis liggur fyrir þinginu.

Aftur á móti virðist mjer veðdeildin við þennan banka nauðsynleg, því að á slíkum lánum hafa bændur mjög mikla þörf, einkum til þess að kaupa jarðir sínar. Jafnframt hygg jeg, að hún ætti að geta verið betri en veðdeild Landsbankans, að því leyti, að hún gæti lánað meira út á veðrjettinn, þar sem hún lánar nær eingöngu út á jarðir. Þá er það mjög heppilegt ákvæði, þar sem svo er ákveðið, að menn geti fengið lán hjá veðdeildinni gegn afgjaldskvöðum. Það greiðir mjög fyrir stórfeldu samstarfi, svo sem raforkuveitum, áveitum, sveitavegum og samgirðingum.

Þá telja sumir ákvæði 39. gr. frv. um happdrætti mjög varhugaverð. Telja meira að segja, að ekki sje sæmilegt að nota sjer spilafýsn manna þannig. En mjer virðist, að okkur sje ekkert vandara um í þessum efnum en ýmsum öðrum merkum þjóðum, t. d. Frökkum og Svíum. En mjer virðist ekki ólíklegt, að þetta myndi greiða fyrir sölu vaxtabrjefanna, og því tel jeg sjálfsagt að reyna þessa leið.

Þá er næst bústofnslánadeildin. Jeg tel hana nauðsynlega, og nefndin er einhuga um að telja hana ómissandi, því að það er kunnara en frá þurfi að segja, hve margir bændur hafa alt of lítinn bústofn, og aðrir verða að búa við alt of dýran leigupening, af því að þeir geta ekki fengið lán með hagkvæmum kjörum til þess að auka bústofn sinn. Mjer þykir því miður farið, að skilyrðin fyrir bændur til þess að fá lán úr þessari deild bankans til bústofnskaupa skuli hafa verið þrengd svo mjög í Nd., að ekki skuli vera hægt að fá lán út á sauðfje, nema með bakábyrgð hreppsins. Það má vel vera, að veð í sauðfje sje ekki eins gott og önnur bankaveð, en það verður að teljast allhart, að bóndi, sem á 40-50 ær, skuli ekki geta fengið nokkurt lán til þess að auka bústofn sinn, ef hreppsnefnd sveitarinnar er svo þröngsýn, að hún sjái ekki nauðsyn hans á því að auka bústofn sinn. Annars vona jeg, að slíkt komi ekki til, heldur hlaupi hreppsnefndirnar drengilega undir bagga með mönnum, þegar þannig stendur á.

Um ræktunarsjóðinn og byggingar- og landnámssjóðinn sje jeg ekki ástæðu til þess að tala nú, þar sem þeir eru þegar stofnaðir og gildir um þá sjerstök löggjöf.

Þá er eitt atriði í sambandi við þetta mál, sem jeg vil leggja alveg sjerstaka áherslu á fyrir hönd n., og það er, að bankinn noti sjer heimildina um að hafa umboðsskrifstofur úti um hjeruð. Það getur verið mikils virði fyrir bændur að þurfa ekki altaf að leita hingað til Reykjavíkur með upplýsingar um lán o. fl. Slíkar upplýsingaskrifstofur yrðu líka til þess að jafna aðstöðumun manna úti um land. Í flestum tilfellum myndi vera hægt að koma þessu fyrir kostnaðarlítið, því að sparisjóðir og samvinnufjelög myndu fús að annast þessi störf fyrir litla þóknun.

Jeg get nú búist við, að sumir muni segja, að ekki sje „sopið kálið, þótt í ausuna sje komið“ og að banki þessi, þó samþ. verði, muni ekki fullnægja lánsþörf landbúnaðarins. Það má vel vera, að erfitt verði um það að spá, hve öflugur hann þurfi að vera til þess að geta fullnægt lánsþörfinni, en því verður ekki neitað, að miklu fje er til hans beint. Í sparisjóðsdeildinni er gert ráð fyrir að ávaxta almannasjóði, sem eru á vegum stjórnarráðsins, sem munu vera allmiklir, svo má ríkið ábyrgjast 3 milj. lán handa henni. Í veðdeildinni á að leggja í stofnsjóð 11/4 miljón, sem að vísu á að leggja fram með skuldabrjefum viðlagasjóðs. Þar á líka að ávaxta kirkjujarðasjóðinn eftir því sem hægt er. Eftir 40. gr. er ríkisstjórninni heimilt að taka lán, alt að 2 milj., til kaupa vaxtabrjefa. Í bústofnslánadeild á að leggja fram sem stofnsjóð 1 milj. kr., þar af 700 þús. með verðbrjefum viðlagasjóðs, en hitt með beinu framlagi á 6 árum, og svo hefir ríkisstjórnin heimild til þess að kaupa alt að 11/2 milj. í vaxtabrjefum. Bankanum er því beint lagt til 21/4 milj. kr. og keypt vaxtabrjef og ábyrgst lán fyrir 6 milj., auk ávöxtunar opinberra sjóða. Loks hefir bankinn svo rjett til þess að gefa út vaxtabrjef, sem nemur áttfaldri upphæð stofnsjóðs veðdeildar og sexfaldri upphæð bústofnslánadeildar. Að vísu má segja, að það sje nokkuð óvíst, hve mikið muni seljast af vaxtabrjefum bankans, en hve mikið gagn hann kemur til að vinna, er mikið undir því komið. Úr þessu sker reynslan vitanlega best. En það virðist ólíklegt, að brjef lánsstofnunar, sem eingöngu fæst við landbúnaðarlán, og auk þess eru trygð með ríkisábyrgð. sjeu ekki sæmilega útgengileg. Salan er og nokkuð trygð, þar sem ríkinu er heimiluð talsverð lántaka til vaxtabrjefakaupa. Það virðist því engin ástæða til þess að óttast, að brjefin seljist ekki.

Það kunna nú einhverjir að halda því fram, að greiður aðgangur að lánum geti verið vafasamur hagnaður fyrir bændur. Þessu verður ekki neitað að öllu leyti, því að með greiðum aðgangi að lánum er bæði bændum sem öðrum lögð sú skylda á herðar að nota lánin skynsamlega. Hjer er því ekki um neinn nýjan sannleika að ræða, því það er alkunna, að mörgum góðum hlutum fylgir einhver áhætta. Hvað þetta mál snertir, skiftir það því miklu máli, að forstöðumaður hins væntanlega banka sje starfi sínu vel vaxinn, já, svo vel vaxinn, að hann beinlínis geti verið fjármálaleiðtogi bænda í þessum efnum. Jeg býst nú við, að allir sjeu sammála um, að stórfeldar framfarir í búnaði geta ekki átt sjer stað, nema með því móti að hægt verði fyrir bændur að fá greiðan aðgang að hagfeldum lánum; þess vegna má ekki hika við að opna bændum aðgang að þeim, enda þótt svo kunni að fara, að það verði einhverjum þeirra til falls. En fyrir slíkt er aldrei hægt að byrgja, því að það er nú svo, að flestum gæðum má snúa til tjóns.

Að endingu skal jeg taka það fram, að jeg fyrir mitt leyti tel þetta merkasta mál þingsins, og við nefndarmenn, sem erum allir sinn úr hverjum flokki, leggjum eindregið til, að það nái fram að ganga, og teldi jeg æskilegast, að það næði fram að ganga óbreytt eins og það liggur fyrir nú, þó jeg hinsvegar efist ekki um, að einstökum atriðum í því mætti breyta til bóta. En það, sem fyrir mjer vakir í þessu efni, er það, að breytingar á málinu geti orðið til þess að tefja það of mikið, er jeg tel alveg forsvaranlegt að afgreiða það nú eftir þann undirbúning, sem það hefir fengið, þar sem það fyrst og fremst hefir verið undirbúið af lögfræðingi, sem beinlínis hefir farið utan til þess að kynna sjer þessi mál, og auk þess hefir hæstv. atvmrh. athugað það mjög gaumgæfilega.

Hvað snertir brtt. þær, sem hjer liggja fyrir frá hv. 4. landsk. og hv. 1. þm. G.-K., þá finn jeg ekki ástæðu til þess að tala um þær nú, fyr en hv. flm. hafa látið til sín heyra og talað fyrir þeim.