03.05.1929
Neðri deild: 60. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í B-deild Alþingistíðinda. (611)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Sigurður Eggerz:

Það er satt að segja merkilegt, hvað sniðugir og gáfaðir ræðumenn geta stundum snúið á mann, eða látið líta svo út, að þeir geri það. Hv. þm. Barð. er að vísu hættulegur andstæðingur, en jeg verð þó að segja honum það í allri einlægni, að jeg vil alls ekki láta „sortjera“ menn í rjettláta og rangláta eftir mati pólitískrar nefndar. Þá gæti vel svo farið, að margir heiðarlegir menn væru settir á bekk með letingjum og slæpingjum.

Jeg vona því, að hv. þm. Barð. hafi skilið, hvað jeg meinti með þessu. Jeg vil ekki leggja það undir dóm pólitískrar nefndar, hverjir eiga að hafa þennan rjett. Og þó að hv. þm. Barð. geti með ræðusnild sinni fengið menn til að hlæja hjer í hv. d., þá getur hann verið viss um, að fátæklingarnir hlæja ekki, ef á að taka af þeim sjálfsögðustu rjettindi.