21.02.1929
Neðri deild: 4. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í B-deild Alþingistíðinda. (616)

16. mál, fjárlög 1930

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Þegar Magnús Kristjánsson fjmrh. fjell frá, var mjer falið það á hendur af hans hátign konunginum, að gegna í bili störfum fjmrh. Síðan eru liðnir rúmlega tveir mánuðir. Jeg hefi haft ærið mörgum öðrum störfum að gegna og í mánuðinum sem leið urðu sjerstakir atburðir til þess að tefja enn tíma minn. Því má af líkum ráða, að jeg hefi ekki getað lagt fram þá vinnu, sem æskilegt hefði verið og nauðsynlegt til þess að vanda undirbúning fjárlagafrv. til fullrar hlítar. Er mjer skylt að láta þessa getið í upphafi máls míns.

Frv. er í öllum aðalatriðum sniðið eftir þeim fjárlögum, sem síðasta þing afgreiddi. Úrslitatölur frá árinu sem leið voru ekki komnar stj. í hendur þegar þurfti að ganga frá tekjuáætlun frv. Nokkru meiri vitneskja er nú um þá reynslu fengin og afleiðingar hinnar breyttu löggjafar um tekjuöflun frá síðasta þingi. Í ljósi þeirrar reynslu er óhætt að fullyrða, að tekjuáætlunin í frv. er mjög varleg. Enda næði ekki neinni átt að sníða áætlun komandi árs um of eftir slíku góðæri sem árið var. Breytingin frá tekjuáætlun þeirri, sem nú gildir, nemur aðeins tæplega 300 þús. kr.

Tekjuafgangur er áætlaður rúmlega 50 þús. kr. Hefir verið leitast við að leiðrjetta áætlunina í samræmi við undangengna reynslu. Stærsta áætlunarskekkjan, að óbreyttri löggjöf og framkvæmd, er þó enn óleiðrjett, sem er áætlunin um styrk til berkjasjúklinga, enda telur og stj., að ekki verði hjá því komist að gera einhverjar ráðstafanir út af hinni gífurlegu útgjaldaaukningu á þeim lið.

Ástæða er til að vekja sjerstaka athygli á því, að í frv. er ekkert áætlað fyrir útgjöldum vegna hátíðahaldanna í tilefni af 1000 ára afmæli Alþingis. Annarsvegar er um það þess að geta, að erfitt mun vera að gera nú áætlun um kostnað af hátíðahöldunum. Hinsvegar er undirbúningur hafinn um tekjuöflun, sem væntanlega yrði sjerstaklega varið til þess að greiða kostnað af hátíðahöldunum. Munu fjár veitinganefndir fá nánari greinargerð um þetta atriði.

Jeg vil því næst, venju samkvæmt, gefa bráðabirgðayfirlit yfir tekjur og gjöld ríkisins á árinu sem leið. Er það gert með hinum venjulega fyrirvara, að ekki eru öll kurl komin til grafar, því að ekki er nú, fremur en venjulega, lokið öllum innborgunum og útborgunum, sem reikningslega verða látnar fylgja árinu. Nokkrar breyt. geta því orðið á þessu yfirliti, en væntanlega ekki stórvægilegar. (Sjá töflu I).

Tekjurnar hafa þessu samkv. farið fram úr áætlun sem nemur 3 milj. og 400 þús. kr. Stafar það sumpart af breyttri skattalöggjöf frá síðasta Alþingi, sem að nokkru náði til ársins sem leið, en sumpart af því, að árið var eitt hið mesta góðæri bæði til lands og sjávar. Um síðasta tekjuliðinn má geta þess, að meginhlutinn, 300 þús. kr., er endurgreidd lán frá víneinkasölunni.

í 21. gr. fjárl. fyrir árið voru gjöldin samkv. 7.–20. grein áætluð 10453877 kr. En þau urðu á þessum greinum 11378107 kr., eða tæpri einni miljón króna hærri. Eru það fjórir liðir, sem aðallega valda umframgreiðslunum. — í afborganir og vexti af lánum er greitt nálega 200 þús. kr. meira en áætlað var. Til vegamála er greitt rúmlega 300 þús. kr. meira en áætlað var. Útgjöld samkv. jarðræktarlögunum urðu ca. 110 þús. kr. meiri en áætlað var. Og styrkur til berklasjúklinga varð ca. 270 þús. kr. meiri en áætlað var. Upphæðirnar á þessum fjórum liðum nema þannig samtals ca. 900 þús. kr. Má heita, að fyrir utan þær hafi áætlunin um útgjöld í 7.–20. gjaldagrein fjárl. staðist.

Auk þess nema útgjöldin samkv. 23. gr. tæplega 80 þús. kr. og samkv. væntanlegum fjáraukalögum, öðrum lögum og þingsályktunum 865157 kr.

Hæstu gjaldaliðirnir í þeirri upphæð eru: Væntanleg fjáraukalög, sem bráðum verða lögð fyrir þingið, ca. 260 þús. kr., lán og tillag til Flóaáveitunnar ca. 200 þús. kr. og greiðslur vegna Vestmannaeyjahafnar ca. 220 þús. kr. Hefir það alls ekki legið fyllilega ljóst fyrir, hversu háttað hefir verið hinum síðastnefndu viðskiftum við ríkissjóð áður og nú. En að því er nú unnið að koma þeim á hreint og gera þau upp.

Þegar tillit er tekið til þess, hversu mikið var um verklegar framkvæmdir af hálfu hins opinbera á árinu, Svo að vart hefir nokkru sinni verið eins mikið framkvæmt fyr á einu ári af hálfu ríkisins, má það teljast mjög góð útkoma, að áætlað er, að svo stöddu, að tekjuafgangur verði c. 11/2 milj. kr.

Er skylt að vekja athygli á því í þessu sambandi, þó að það í rauninni liggi í augum uppi, að af þessari góðu fjárhagsafkomu ríkissjóðs á árinu sem leið má ekki draga almennar ályktanir um framtíðina, eða næstu ár. Við megum ekki ganga út frá því, að eins framúrskarandi hagstætt ár fyrir framleiðendur til lands og sjávar komi aftur yfir okkur. Enda erum við á það mintir í byrjun þessa árs, að áföllin geta komið yfir okkur enda þótt forsjónin gefi góðar og hagstæðar tíðir. Jeg vil því ekki láta tækifærið ónotað til að brýna fyrir þingmönnum að hvika ekki frá hinni gætilegu fjár málastefnu, sem í aðalatriðum hefir verið einkenni undanfarinna þinga.

Jeg tel ekki ástæðu til að fara að gera grein fyrir því, með því að telja fram einstök atriði í búskap atvinnurekenda og ríkissjóðs, hversu hið liðna ár reyndist atvinnuvegunum og ríkissjóðnum hagstætt. Um það koma fram tölur og yfirlit á sínum tíma, þegar unnið verður úr þeim skýrslum, sem um það er safnað. Jeg vil einungis minna á það, sem jeg tel eina höfuðorsökina til að árið 1928 verður jafnan talið eitt hið besta ár í atvinnulífi okkar Íslendinga: Verðgildi peninganna var fast alt árið. Einstaklingarnir gátu gengið út frá því sem vissu í atvinnurekstri sínum, að grundvöllurinn stæði óbilandi, sá er heilbrigður atvinnurekstur jafnan verður að hvíla á, sem er: verðfastir peningar.

Ef sú stefna hefði verið ráðandi hjá stjórnarvöldunum að hækka verðgildi peninganna aftur í það gullverð, sem áður var, þá hefði verið öldungis sjálfsagt að nota góðærið á árinu sem leið til þess. Þá hefði krónan verið hækkuð í verði eitthvað sem um munaði í áttina til gullverðsins á árinu sem leið; annað hefði verið óverjandi.

Jeg tel það hina mestu gæfu fyrir þjóðina, að gengishækkunarstefnan sigraði ekki og að þess vegna var ekki á árinu sem leið, eins og á árunum 1924 og 1925, með gengishækkun höggvið verulegt skarð í þá viðreisn atvinnuveganna, sem góðærið bauð að gefa þjóðinni. — Góðæri ársins sem leið mun, vegna þess að peningarnir voru verðfastir, orka miklu um að ljetta atvinnuvegunum að standa undir þeim byrðum, sem þjóðfjelagið leggur á þá. Það mun einnig orka miklu um að tryggja rekstur atvinnuveganna í nánustu framtíð.

Vegna yfirlýsingar þeirrar, sem neðri deild Alþingis samþykti í fyrra í gengismálinu, og vegna þessa, sem nú var nefnt, að góðærið 1928 var ekki notað til þess að hækka krónuna, tel jeg, að raunverulega sje búið að taka endanlega ákvörðun í gengismálinu: að verðfesta peningana sem næst í því verði, sem þeir hafa nú, þó að það sje enn ógert, sem þarf til að gera þetta formlega, að setja þá löggjöf, sem af þessu leiðir. En til undirbúnings því hefir gengisnefnd unnið og mun árangur þess starfs koma fram á Alþingi innan stundar.

Sú staðreynd, sem nú var nefnd, að það á að mega telja örugt, að þjóðin fái áfram að búa við verðfasta peninga, leiðir það af sjer, að fjármálastjórnin verður að leysa af hendi ýms verkefni. Skal hjer bent á tvö sjerstaklega.

1. Jafnhliða því, sem lögformlega verður kveðið á um verðgildi peninganna, verður að fara fram endurskoðun löggjafarinnar um launagreiðslur til starfsmanna ríkisins, æðri sem lægri. Vegna þess að það gat komið fyrir áður hvenær sem var, að verðgildi peninganna breyttist, hefir því verið frestað ár frá ári undanfarið að endurskoða þá löggjöf. Enginn mun halda því fram, að núverandi ástand geti haldist áfram eftir að peningarnir eru orðnir verðfastir. Telur stjórnin, að þegar á þessu þingi sje kominn tími til að hefja undirbúningsvinnu til þess.

2. Þá verður að krefjast þess, að jafnhliða verðfesting peninganna komist og meiri festa á og jafnvægi um stjórn fjármálanna en hefir átt sjer stað á undanförnum árum og hefir getað átt sjer stað á hinum hverfulu tímum hinna snöggu verðbreytinga. — Jeg hefi látið taka saman um það yfirlitsskýrslu, sem sýnir annarsvegar, hvernig fjárveitingavaldið, Alþingi, hefir í fjárlögum áætlað tekjur og gjöld ríkissjóðs á árunum frá byrjun styrjaldarinnar, og hinsvegar, hvernig tekjurnar hafa orðið í reyndinni og hvernig framkvæmdavaldið, landsstjórnin, hefir farið með heimildir þær, sem hún hefir fengið fyrirfram eða eftir á til að nota fje ríkissjóðs. Loks er það sýnt í hundraðstölum, hversu miklu skakkar frá hinni upprunalegu heimild fjárlaganna. (Sjá töflu II).

Svo gífurlega miklar sveiflur hafa orðið í fjármálastjórn okkar á undanförnum árum. Er það ekki ofmælt, að sum árin hafi Alþingi að miklu leyti verið svift því valdi að heimila fjárveitingarnar fyrirfram og orðið að láta sjer lynda að leggja samþykki eftir á á gerðir framkvæmdarvaldsins. Orkar það ekki tvímælis, að slíkt öfugstreymi í fjármálastjórninni er í fullu ósamræmi við stjórnarskrá landsins. Hin síðari ár er þetta og að færast mjög til rjettari vegar, og skýrast árið 1927, enda fara þá að koma í ljós ávextirnir af því, að peningarnir höfðu þá verið verðfastir um hríð. Jeg vil beina því til fjvn., að hún athugi þær leiðrjettingar á undanfarandi fjárlagaáætlunum, sem gerðar eru á því frv., sem hjer liggur fyrir, og að hún stigi fleiri spor í áttina til þess að fjárl. gefi sem allra rjettasta mynd af því, hvernig fje ríkissjóðs á að verja og er raunverulega varið. Því að fjárveitingavaldið á ekki einungis í orði heldur og raunverulega að vera hjá Alþingi, og því rjettari sem fjárlögin eru, og það svo árum skiftir, því meira aðhald veita þau, og því meiri kröfur er hægt að gera til stjórnanna um að þær fylgi fyrirmælum fjárlaganna.

Samkv. frv. er ætlast til, að þegnarnir gjaldi til ríkisþarfa c. 11 milj. og 180 þús. kr. og eilítið minni upphæð verði varið til útgjalda ársins. Ef gert er ráð fyrir, að íbúatala landsins sje 100 þúsund, nema tekjur ríkissjóðsins samkv. áætlun frv. tæpum 112 krónum á mann yfir árið. Ef að venju lætur, má búast við, að í reyndinni verði þetta nokkru hærra.

Til samanburðar vil jeg geta þess, að nokkur undanfarin ár, sem hjer verða nefnd, hafa tekjur ríkissjóðs og gjöld á mann á árinu verið sem hjer segir:

Á mann á ári.

Tekjur Gjöld

1880 5,60 kr. 5,18 kr.

1890 8,34 — 7,08 —.

1900 110,46 kr. 10,38 kr.

1910 19,62 — 21,12 —

1920 144,69 — 154,46 —

1927 115,53 — 124,49 —

Í krónutölu nema þannig tekjur og gjöld ríkissjóðsins meir en tuttugu sinnum hærri upphæð árið 1927, sem er síðasta ár, sem við höfum endanlegartölur um, en árið 1880, meir en þrettán sinnum hærri upphæð en 1890 og meir en 10 sinnum hærri upphæð en um síðustu aldamót.

Hverjar breytingar hafa því samfara orðið á því, hvernig fjárveitingavald og framkvæmdavald verja þessu fje, sem í svo vaxandi mæli er sótt í vasa skattþegnanna til opinberra þarfa? Má af því nokkurn lærdóm nema um núverandi fjárstjórn og fjármálastefnu, í samanburði við fjármálastjórn og fjármálastefnu fyrri tíma?

Jeg hefi látið taka saman yfirlit til þess að svara að nokkru þessum spurningum. Þar eru tekin til dæmis sömu ár sem hjer eru nefnd að framan og sýnt fyrst, hversu háar urðu tekjur og gjöld ríkisins; og því næst hve miklu varið var til ýmissa sjerstakra málaflokka, sem þar eru taldir, og hversu miklu varið er til þessara mála á hverjum tíma hlutfallslega af öllum útgjöldum ríkisins það ár.

Það yfirlit er sem segir á töflu III.

Í slíku yfirliti hefði vitanlega mátt koma miklu fleiru að og sundurliða hina einstöku liði nánar. En það sem það nær á að hafa verið dregið saman það, sem saman heyrir.

Jeg bendi á ýmislegt, sem af þessu má læra til samanburðar á því, hvernig fje ríkissjóðs var varið áður og nú.

1. Það hefir verið á orði haft í sumum áttum, að fje það, sem fer til andlegu málanna, og til þess að menta og uppala ungu kynslóðina sjerstaklega, væri alt of mikið og væri að vaxa þjóðinni yfir höfuð.

Yfirlitið sýnir, að framlag ríkisins til kenslumála er 17,8% af útgjöldum ríkisins 1880, 17,4% 1890, en einungis 9,9% bæði 1920 og 1927. — Í samanburði við það, sem þjóðin að öðru leyti leggur á sig til opinberra þarfa, leggur hún hlutfallslega miklu minna á sig nú en fyrir einum mannsaldri síðan til þess að kenna unga fólkinu. — Ef teknir eru þeir þrír liðir í yfirlitinu, sem sjerstaklega verða taldir til andlegu málanna, sem sje framlagið til andlegu stjettarinnar, kenslumála og vísinda, bókmenta og lista, — þá verður útkoman sú, að til þessa er varið

1880 25, 5%

1890 24,9% og

1927 15,9%

borið saman við öll útgjöld ríkisins á þessum árum.

2. Af hinum einstöku liðum, sem tilfærðir eru á yfirlitinu, er einn langsamlega hæstur. Framlagið til heilbrigðismála á árinu 1927 er nálega orðið tvær miljónir króna og er 14,5% af útgjöldum ríkisins það ár. Með nokkuð mismunandi háum tölum hefir þetta framlag vaxið á undanförnum áratugum, bæði í krónutölu og hlutfallslega. Og eftir því sem reynsla undanfarinna síðustu ára hefir orðið um styrk til berklasjúklinga, og í framhaldi af hinum mörgu og dýru nýju stofnunum þessara mála vegna, sem eru nýreistar og verið er að reisa, og í ljósi undanfarinnar reynslu um það, hversu dýr hefir reynst rekstrarkostnaður þessara stofnana — má telja fylstu ástæðu til að gera ráð fyrir, að að óbreyttri löggjöf og framkvæmd á sviði heilbrigðismálanna muni framlög ríkisins til þessara mála enn vaxa mjög verulega á næstu árum, líklega bæði í krónum og hlutfallslega við önnur útgjöld.

Er þetta vissulega mikið og alvarlegt athugunarmál fyrir löggjafar- og fjárveitingarvaldið. Má og enn tvennu við bæta, sem komið hefir fram nýlega hjá hinum merkustu mönnum læknastjettarinnar:

a. Annarsvegar það, að þá er fullgerð verði og tekin til afnota þau sjúkrahús og hæli, sem við höfum haft í smíðum undanfarið og enn, þá munum við Íslendingar búnir að eignast jafnmörg eða fleiri sjúkrahúsarúm

á mann en sú þjóð önnur, sem nú á flest sjúkrahús á mann hlutfallslega á allri jörðinni. Við sjeum m. ö. o. að verða á undan öllum eða flestum í þessu efni. — En um það að reisa hús yfir fólkið, að rækta landið, að vega landið, brúa árnar, bæta samgöngur að öðru og yfirleitt um það að öllu leyti að greiða fyrir atvinnuvegunum og gera þá hæfa til að standa undir þeim byrðum, sem á þá eru lagðar, um það erum við líklega meir en hundrað ár á eftir öðrum þjóðum. Mundi þetta vera skynsamlegur búskapur?

b. Hinsvegar er það, sem fram hefir komið, að um ráðstafanirnar út af berklaveikinni, sem kosta hundruð þúsunda meira fyrir ríkið með hverju ári sem líður, þá er um það sagt af einum merkasta lækni landsins, að það megi teljast vafasamt, að þær ráðstafanir komi að nokkru eða verulegu gagni.

Jeg lít svo á, að það megi ekki dragast ári lengur, að þessi mál, bæði um löggjöf og framkvæmd, verði tekin til gagngerðrar endurskoðunar.

3. Draga má saman þá hina einstöku liði yfirlitsins, sem segja til um útgjöld til þess mannahalds, sem þjóðfjelagið verður á að halda til sinna frumlægustu þarfa. Það eru liðirnir, sem segja til um kostnað við stjórn þjóðfjelagsins, Alþingi og ríkisstjórn, við dómgæslu, eftirlit með lögum og kristni, og svo eftirlaun og styrktarfje til starfsmannanna.

Þessir liðir á yfirlitsskýrslunni nema hvorki meira nje minna en 48,4% af útgjöldum árið 1880, eða eru nálega helmingur þeirra, 44,6% af útgjöldum árið 1890, en ekki nema 19,2% af útgjöldunum árið 1927.

Það er mjög gleðilegt, að þessi rekstrarkostnaður á þjóðarbúinu, sem langsamlega aðallega er fólginn í mannahaldi, er orðinn hlutfallslega svo miklu lægri en áður. Svo ólíkt er það, er þjóðin stjórnar sjálf fjármálum sínum, harla ólíkt þeim tímum, er þjóðin varð að leggja á sig sjerstakan nýjan skatt til þess að fá að stofna búnaðarskóla — og varð að bíða eftir því í áratugi að fá að gera það.

4. Enn skýrari mynd um hina ólíku fjármálastjórn og fjármálastefnu fyr og nú má fá með því að athuga þá liði yfirlitsins, sem sjerstaklega segja til um útgjöldin til verklegra framkvæmda. Ef teknir eru útgjaldaliðirnir til síma, vega og brúa, vita og framlög ríkisins til aðalatvinnuveganna, þá verða hlutfallsleg útgjöld ríkisins til þessa:

1880 9%

1890 14,3%

1927 41,4%

Með nánari sundurliðun mætti fá ennþá miklu skýrari mynd af kyrstöðunni fyr í mótsetningu við hve mikið er gert til framfara nú og umbóta.

Yfirleitt mun það því ekki leika á tveim tungum, að þó að útgjöld ríkisins á mann hafi vaxið svo mjög sem að framan segir, þá hafi sú útgjaldaaukning og haft í för með sjer, að hlutfallslega miklu meiru en áður af ríkisfjenu er varið til þeirra hluta, sem fyrir framtíðina hafa sitt gildi um að bæta landið og afkomumöguleika þegnanna, en hlutfallslega minna gengur til þess að fullnægja hinum daglegu bráðast aðkallandi þörfum.

Getum við risið undir því áfram næstu árin að borga til ríkisins og þarfa þess tuttugu sinnum hærri upphæð en 1880 á mann á ári, eða um það bil 120 krónur á mann?

Við höfum svo stutta reynslu enn þau ár, sem teljast mega nokkurnveginn eðlileg að því leyti, að grundvöllurinn undir fjármálalífinu hafi verið óhaggaður, að það er erfitt að segja um þetta. En það er vitað, að raddir heyrast hjá þjóðinni um það, að búið sje að spenna bogann of hátt um það að leggja álögur á þjóðina.

Hjer verður sjerstaklega bent á eitt atriði til samanburðar í þessu efni, sem er það, hversu skattaálögum ríkisins á mann á ári er háttað hjá frændþjóðum okkar á Norðurlöndum. Hefi jeg aflað mjer um það rækilegra upplýsinga, um hendur hagstofustjóra, sem jeg þó ekki mun þreyta hv. deild á að vitna til nema að litlu leyti. Hlutfallslega hækkunin síðustu 40 árin á gjöldum á mann á ári er ekki nærri eins mikil í þeim löndum og hjá okkur. Aftur á móti var hækkunarbylgjan á stríðsárunum og eftir stríð enn meiri þar en hjá okkur. Síðasta árið, sem tölur eru til um hjer frá þeim löndum, er árið 1926. Eru þá útgjöld ríkissjóðs á mann á ári í þessum löndum sem hjer segir:

Í Danmörku kr. 137,41

Í Noregi — 141,62

Í Svíþjóð — 133,34

En eins og áður er getið, voru gjöldin hjá okkur á Íslandi síðasta ár sem skýrsla er um, sem sje 1927, kr. 124,49. En í sambandi við það ber þess að minnast, að hver króna hjá frændþjóðunum er c. 20% verðhærri en okkar kr.

Vitanlega á slíkur samanburður ekki við nema að nokkru. Kemur meðal annars til greina, hvernig landsreikningarnir eru færðir. Er þess meðal annars að geta, að í öllum þessum Norðurlandaríkjum eru tekjur af atvinnurekstri ríkisins (pósti, síma o. fl.) tilfærðar á ríkisreikningnum aðeins nettó, þannig að gjöldin eru fyrst dregin frá tekjunum og mismunurinn tilfærður tekjumegin, annaðhvort til viðbótar eða frádráttar (ef gjöldin hafa farið fram úr tekjunum). Mundi slík bókfærsluaðferð lækka upphæðina hjá okkur svo að nokkru munaði.

Jeg lít svo á, að þó að á marga lund megi leggja út af slíkum lauslegum samanburði og margt draga fram, sem koma mætti til greina, þá verði hann heldur til að styrkja þá skoðun, að a. m. k. meðan sæmilega vel eða allvel lætur í ári, þá höfum við eigi enn ofþyngt skattþegnum á Íslandi. Og einkum ber þá þess að minnast, að eigi óverulegur hluti þess fjár, sem ríkið tekur nú af skattþegnunum, er látinn ganga til stórfeldra framkvæmda, sem vissulega munu leiða af sjer miklu hægari aðstöðu fyrir mikinn hluta framleiðendanna til þess að geta stundað atvinnu sína með góðum árangri.

Jeg er svo fastlega trúaður á það, hve gæði landsins sjeu mikil og framtíðarmöguleikar, að það muni gefa hinar bestu rentur í framtíðinni, það sem nútímakynslóðin leggur á sig af byrðum til þess að bæta landið.

Að svo mæltu vil jeg leggja til, að að venju verði umr. frestað, en frv. vísað til fjvn.