27.04.1929
Efri deild: 55. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í B-deild Alþingistíðinda. (62)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Jón Baldvinsson:

Eins og sjá má á nál., er landbn. sammála um, að frv. þetta um Búnaðarbanka Íslands nái fram að ganga. En hitt má líka lesa í nál., að nefndarmenn eru ekki allir sammála um einstök atriði þess.

Það er að vísu svo, að nefndin mælir með frv. með sterkum orðum, en það er einungis af velvilja nefndarmanna og áhuga þeirra fyrir því, að búnaðarbanki komist á fót, en hinsvegar gefur það að skilja, að á svona stóru máli myndu nefndarmenn kjósa einhverjar breytingar, því að hjer er farið fram á mjög mikið landbúnaðinum til handa.

Því hefir nú verið haldið fram máli þessu til stuðnings, að vinna beri að því að halda fólkinu í sveitunum, og við það hefi jeg ekkert að athuga, því að jeg viðurkenni þörfina á því fullkomlega, og jafnframt þá menningarlegu þýðingu, sem sveitalífið hefir haft og hefir fyrir þjóðina. En mjer virðist ekki mega gleyma því, að í kaupstöðunum er líka menning, og á sumum sviðum meiri en í sveitunum, og á jeg þar sjerstaklega við framfarir í byggingum og ýmsum verklegum framkvæmdum. Mjer virðist því, að sveitirnar hafi ekki neinn einkarjett til þess að tala um menningu hjá sjer. Jafnframt skal það viðurkent, að þungamiðja þjóðlífsins má gjarnan halda áfram að vera í sveitunum, svo fremi, sem þær hafa mátt og mannafla til þess að halda henni uppi. En í hverju lýðfrjálsu landi á þungamiðja þjóðlífsins að vera hjá alþýðunni, en til þess að svo geti verið hjer þarf rjettláta kjördæmaskipun, svo að í löggjöfinni endurspeglist vilji þjóðarinnar, Jeg skal þó játa það fyrir hönd okkar jafnaðarmanna, að jeg hefi hingað til haft minni ástæðu til þess að kvarta yfir þingvaldi bændaflokksins en yfir þingvaldi andstöðumanna okkar í kaupstöðunum, íhaldsflokksins.

Hv. frsm. hefir nú skýrt frv. þetta í stórum dráttum, og jeg get tekið undir margt af því, er hann sagði. En jeg býst við, að margir muni sakna þess, þegar búið verður að taka allan viðlagasjóðinn og afhenda hann nýrri lánsstofnun til eignar og undan ráðstöfunarrjetti Alþingis, því að þá verður erfiðara fyrir ýmsa, sem leitað hafa til Alþingis um stuðning úr honum. Í nál. kemur það fram, að nefndarmenn greinir aðallega á í þessu máli um veðdeildina. Jeg skal þó játa fyrir mitt leyti, að jeg er ekki mikið á móti því, að veðdeild þessi verði sett á stofn, þó jeg hinsvegar telji ekki brýna þörf á henni. Annars held jeg, að mönnum sje það ekki yfirleitt ljóst, hve bændum er auðvelt að fá lán úr veðdeild Landsbankans. Það hefir verið sagt, að þeir væru látnir sitja á hakanum fyrir lánum til kaupstaðabúa, en þetta er alveg öfugt, því að mjer er kunnugt um það, að lánbeiðnir úr sveitunum eru oft afgreiddar svo að segja samdægurs, svo framarlega sem öll plögg viðkomandi láninu eru í lagi. Aftur á móti þurfa kaupstaðabúar oft að bíða eftir lánum úr henni í fleiri mánuði. Það er því síður en svo, að ástæða sje til að kvarta vegna sveitanna í þessu efni. Jeg hefi þó, þrátt fyrir þetta, ekki viljað setja mig upp á móti þessari nýju veðdeild. En jeg hefði talið skynsamlegast fyrir þá, sem mest hafa barist fyrir þessu, eins og t. d. hæstv. forsrh., ef hann vildi fresta framkvæmd þessarar veðdeildar nú, þangað til það sæist, hvort ekki væri hægt að nota veðdeild Landsbankans sameiginlega fyrir þessa lánsþörf manna, eins og verið hefir.

Nú er að verða bylting í atvinnurekstri bænda. Ræktun landsins eykst hröðum fetum. Vjelanotkun ryður sjer til rúms. En þessar breytingar krefjast aukins fjármagns. Bústofns- og rekstrarlánadeildimar verða því að teljast alveg nauðsynlegar og koma vafalaust að miklu gagni. Hinsvegar má búast við nokkrum töpum, þegar bændur fara alment að taka rekstrarlán. Það eru einmitt rekstrarlánin, sem mest hefir tapast á í bæjunum. En það er ástæðulaust að gera ráð fyrir töpum á fasteignalánum.

Þó að jeg hafi nokkra sjerstöðu í nefndinni, hefi jeg ekki viljað setja mig á móti frv. Jeg tel mál þetta svo mikils vert, að það verði að ganga fram og megi menn ekki láta minni háttar ágreining hafa áhrif á afstöðu sína til þess. Þar sem þess er getið í nál., að n. hafi eigi treyst sjer til að flytja neinar brtt., sem tvímælalaust horfðu til bóta, er átt við það, að hún hafi ekki getað komið sjer saman um neinar slíkar till. Hinsvegar höfðu einstakir nefndarmenn eitt og annað við frv. að athuga.

Jeg ætla þá að minnast á 39. gr. Jeg er þeirrar skoðunar, að hana eigi ekki að samþ. Mjer hefir skilist, að stefna Alþingis væri yfirleitt sú, að leyfa ekki happdrætti. (Forsrh.: Þingið hefir samþ. happdrætti, en stj. eigi viljað leyfa það). Þá ætti núverandi stjórn heldur ekki að láta það eiga sjer stað, að þetta stæði í búnaðarbankalögum. Og jeg skil satt að segja ekkert í, að hæstv. forsrh. skuli vera að reyna að smeygja „lotteríi“ inn í þennan „stabila“ bændabanka. Jeg get ekki fallist á, að það sje rjett, þótt fjeð eigi að nota í lofsverðum tilgangi, að ginna peninga út úr mönnum á þennan hátt. Jeg gæti hugsað, að það yrði aðallega til að draga peninga úr höndum fátækara fólksins. Eftirsóknin myndi vafalaust verða mest rjett áður en draga ætti í hvert sinn. Hv. þdm. hljóta að kannast við þá vitfirring, sem getur gripið fátæka sem ríka, þegar stór höpp eru einhversstaðar í hillingum. En fátæka fólkið myndi sjálfsagt ekki hafa efni á því að binda eignir sínar í þessum skuldabrjefum og myndi því fljótt neyðast til að selja þau með afföllum, þegar hin árlega vinningsvon væri liðin hjá. Á þessu myndu engir græða nema okrarar, sem lifa á því að kaupa og selja skuldabrjef. Allur almenningur myndi tapa á því. Hæstv. forsrh, ætti að fallast á að fella þessa grein niður úr frv.

Þá finst mjer eðlilegt, að um leið og ræktunarsjóður verður hluti af Búnaðarbankanum, þá taki Búnaðarbankinn við þeim skyldum, sem Landsbankinn hefir nú gagnvart ræktunarsjóði, og það því fremur, sem frv. gerir ráð fyrir, að opinberir sjóðir verði geymdir í Búnaðarbankanum, með þeim takmörkunum þó, sem hv. Nd. hefir nú sett í frv.

Þá kem jeg að brtt. mínum við frv. Þær eru um það að bæta inn í bankann nýrri deild, sem hafi með höndum svipað verkefni í nágrenni kaupstaðanna og kauptúnanna og byggingar- og landnámssjóður hefir í sveitunum. Jeg viðurkenni fyllilega rjettmæti þeirrar hjálpar, sem ríkið veitir bændum til að byggja upp býli sín. Er bændum það lífsnauðsyn að fá sæmileg húsakynni úr varanlegu efni. Hingað til hefir það verið svo, að hver kynslóð hefir þurft að byggja yfir sig. (Forsrh.: Og sumar tvisvar). Mjer hefir aldrei dulist nauðsyn þessa máls, og jeg er satt að segja alveg forviða af þeirri andúð, sem Íhaldsflokkurinn stöðugt sýndi því meðan hann hafði mátt til að stöðva það.

Tillögur mínar fara fram á það að verja 50 þús. kr. árlega úr ríkissjóði til að veita vaxtaívilnun fátæku fólki í kaupstöðum til þess að koma sjer upp býlum í nágrenni kaupstaðanna. Ætlast jeg þá til, að það stundi jöfnum höndum ræktun þess lands, sem býlinu fylgir, og atvinnu sína í kaupstaðnum. Það getur altaf komið fyrir, að afli bregðist, og er þá gott að geta gripið til ræktunarinnar, en manni, sem rekur smábúskap, getur líka verið hentugt að hafa nokkurn stuðning í vinnu við sjóinn.

Brtt. mínar eru í 11 greinum, en allar snúast þær um þetta atriði, Tilgangurinn er að hjálpa verkamönnum og sjómönnum til að koma sjer upp býlum. Jafnframt eru ýmsar ráðstafanir gerðar til að koma í veg fyrir, að þær ívilnanir, sem ríkið veitir, lendi í ræningjahöndum. Það er ekki ætlast til, að verkamennirnir geti eftir fá ár selt rjett sinn fyrir stundarhagnað og standi svo eftir slyppir, en einhverjir, sem peningaráð hafa, hafi hagnast á ívilnunum ríkisins. Því er svo fyrir mælt, að lán skuli falla í gjalddaga jafnskjótt sem sala fari fram á býlinu, og greiði eigandinn þá jafnframt allan þann vaxtamismun, sem ríkið hefir áður greitt fyrir hann. Jeg sje enga ástæðu til þess, að ríkið fari að leggja fram fje til þess að veita einstökum mönnum söluhagnað, heldur eingöngu til þess að tryggja þeim frambúðaratvinnu. Till. miðar að því að gera lífið í kauptúnunum fjölbreyttara og hollara og jafnframt að draga úr atvinnuleysi, hvort sem það kemur af vinnustöðvun atvinnurekendanna, gæftaleysi eða af öðrum orsökum.

Jeg hefi eigi í till. tiltekið hærra lán til býlis en 15 þús. kr. Er sú upphæð miðuð við, að býlið kosti ekki yfir 20 þús. kr. og lánið fari eigi fram úr 3/4 verðs. Munu það vera svipuð kjör og veitt eru í byggingar- og landnámssjóði.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að skýra brtt. mínar nánar. Jeg legg áherslu á, að þær nái fram að ganga, hvað sem öðrum breytingum á frv. líður. Hefði jeg talið vel farið, ef hæstv. stjórn hefði tekið slíkan kafla upp í frv. í upphafi.

Vel má vera, að jeg beri fram fleiri brtt. við 3. umr. Jeg er ekki fullráðinn í því enn og haga mjer e. t. v. nokkuð eftir því, hversu atkv. falla við þessa umr. Samþykt veðdeildarkaflans mætti gjarnan fresta, að mínu áliti. 39. gr. þætti mjer rjettast að fella nú þegar. Ennfremur gæti komið til mála að gera breytingar á bústofnslánadeildinni í þá átt, að starfsemi hennar næði einnig til þeirra manna í kauptúnum, sem vildu koma sjer upp búpeningi. Jeg er reyndar ekki alveg viss um, að það geti samrýmst öllum ákvæðum frv. Það hefi jeg eigi athugað til fullnustu, en mun taka það til nánari athugunar fyrir 3, umr.