10.04.1929
Neðri deild: 41. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í B-deild Alþingistíðinda. (625)

16. mál, fjárlög 1930

Ólafur Thors:

Jeg býst ekki við að segja margt nýtt. Engin ávirðing stj. er ný nema ávirðing líðandi stundar, sem svo fljótlega gleymist í skugga nýrrar ávirðingar. Einkunnarorð hæstv. dómsmrh. hefir verið: „Svo skal böl bæta að bíða annað meira“. Stjórnarfarið fer versnandi.

Meðan hæstv. ráðh. barðist til valda, beitti hann öðrum vopnum en andstæðingar hans. Jeg minni á 600 þús. kr., sem landsstj. átti að hafa gefið útgerðarmönnum, 9 milj. kr. lánsheimild, sem ráðh. taldi 100 kr. skuldabagga á hvert mannsbarn í landinu, botnlausar skuldir ríkisins o. fl. vísvitandi ósannindi, sem ráðh. endurtók jafnoft og þau voru rekin ofan í hann. Persónulegt níð hans um andstæðingana er og þjóðfrægt.

Fyrir þetta þáði ráðh. tvenskonar laun. Hann fjekk titil — titil, sem flestir telja hann vel að kominn. Hann var kallaður „ærulaus lygari og rógberi“. (Forseti grípur hamarinn og býst til að hringja). Hann fjekk líka stöðu. Hann var gerður að æðsta verði laga og siðgæðis í landinu!

Hæstv. forseti sýndi sig líklegan til að hringja, þegar jeg nefndi titilinn, en þess sáust engin merki þegar staðan var nefnd. Titillinn er að vísu harður dómur um ráðh. Staðan þó miklu harðari dómur um þjóðina.

„Enginn ætlast til, að jeg telji sandkornin á sjávarströndu nje syndir stjórnarinnar“, sagði ræðumaður einn nýlega. Jeg tek undir. Syndir stj. eru óteljandi, og þær minni svo stórar, að landsfrægar væru, ef einhver annar en hæstv. dómsmrh. hefði drýgt þær.

Af mörgum lögbrotum og gerræðum ráðh. tek jeg fá af handahófi. Það er þá fyrst Tervani-málið.

Saga málsins er kunn. Skipsmenn á Trausta kæra skipstjórana á Jupiter og Tervani fyrir landhelgisveiðar í Garðsjónum í ágúst 1926. Skömmu síðar kom Júpiter til Hafnarfjarðar. Mál skipstjórans var rannsakað og lauk með því, að hæstirjettur dæmdi hann í 15 þús. kr. sekt.

Tervani náðist ekki fyr en Þór tók skipið til Vestmannaeyja í apríl síðastl. Skipstjóri var enn sá sami og verið hafði, þegar hið kærða brot var framið. Honum var heimilað að sigla skipinu til Englands, en sjálfur skyldi hann tafarlaust koma aftur og bíða dóms, og setti hann 30 þús. kr. þessu til tryggingar.

Skipstjóri kom svo á tilsettum tíma. En þegar menn bjuggust við, að mál hans yrði lagt í dóm, flaug um landið sú fregn, að honum væru uppgefnar sakir. Hjer lýkur fyrsta þætti. En líkt og áhorfendur fyrst skilja góðan sorgarleik, þegar hann er á enda, þannig fór Íslendingum hjer.

Alvöruna skildu menn. Voðann ekki fyr en ráðh. upplýsti málið.

Hví gefur ráðh. erlendum sökudólg upp sakir og stórfje úr ríkissjóði? spurðu menn.

Lengi vel svaraði hæstv. dómsmrh. engu, en svo fór að lokum, að þolin mæði þessa varðar laga og rjettlætis þraut. Hann virtist vera alveg hissa, að nokkur skyldi vera svo djarfur að spyrja um þetta. Einvaldurinn hafði talað, og hvað vildi svo almenningur vera að sletta sjer fram í þetta? En hvert var svo svarið, er það loksins kom? Jú, það var svo:

Á Trausta voru ekki ritfæri, aðeins nagli. Þegar bent var á, að slíkt kæmi málinu ekki við, kærendur hefðu staðfest framburð sinn með eiði og eiðfest vitnasönnun gilti hjer sem annarsstaðar, þá ærðist ráðherrann. Þá byrjaði háðið um naglamenninguna. „Ekkert siðað þjóðfjelag tekur slík sönnunargögn gild“. „Engir nema „idiotar“ og „bullur“ eru á móti mjer“, bætti ráðherrann við.

Hæstirjettur tók þessi gögn gild. Ef þau voru gild gegn Júpiter, voru þau það líka gegn Tervani. Ráðh. er því að setja skrælingjastimpil á hæstarjett og íslensku þjóðina. Eftir það skiftir minstu, þótt hann kalli hæstarjett og aðra, sem andvígir eru honum í málinu, „idiota og bullur“. En ekki er það ráðherralegt. Hjer lýkur öðrum þætti.

Þriðji þáttur hefst með því, að ráðh. hefir skilist, að rök hans voru óframbærileg. Þá loksins, aðþrengdur og til neyddur kastar hann út mörsiðrinu:

„Sendiherra Breta var hingað kominn til að fylgjast með málinu og eigendur Tervani hótuðu að senda hingað tvo breska lögfræðinga. Þess vegna gaf jeg upp sakir“, segir ráðh. (Dómsmrh: Það hefi jeg aldrei sagt). Þetta er það, sem hæstv. ráðh. hefir látið „undirJónas“ sinn segja í blaði sínu, og þetta mun vera það rjetta. Því þó hæstv. dómsmrh. sje eins og mannýgt naut við Íslendinga, þá er auðmýkt hans við tigna útlendinga alþekt. Það væri broslegt, ef það væri ekki skammarlegt, að sjá, hvernig ráðh. snýst eins og snælda kringum alla tigna erl. gesti, er hingað koma. Og engan getur furðað á því, þótt hið litla lögvit ráðh. svimi við þann snarsnúning. Auðmýkt hans er svo mikil, að ekkert er meira nema ef vera skyldi fyrirlitning útlendinga á ráðh., er svo hagar sjer.

Kjarkleysið og auðmýktin eru afsakanir ráðh. í Tervani-málinu, en það er gaman fyrir svo litla þjóð sem Íslendinga að eiga tvö jafnfrábrugðin afbrigði sem Jón biskup Arason og Tervani-ráðherrann. Þeir hafa báðir barist við erlent vald.

Annar ljet lífið, en hlaut virðingu þjóðar sinnar. Hinn misti kjarkinn og hlaut fyrirlitningu allra fyrir.

Þá kem jeg að afleiðingunum af þessu kjarkleysi ráðh. Allir þekkja stöðug klögumál erl. sökudólga, er dómi sæta fyrir ísl. rjetti. Til þessa höfum við þó átt ágæta talsmenn. Nú hefir sökudólgunum bætst liðsauki. Dómsmrh. hefir kveðið upp dóm um dóm hæstarjettar. Eftirleiðis nota sökudólgar Tervani-málið sem barefli á hæstarjett. „Jeg er dæmdur“, segja þeir, „en af hverjum? Af hæstarjetti Íslendinga, af dómstólnum, sem í Júpitermálinu dæmdi svo vitlausan dóm, að dómsmrh. Íslands skarst í leikinn til að fyrirbyggja, að rjetturinn færi eins með Tervani, sem sannað var, að hafði framið það sama og Jupiter var dæmdur fyrir“.

Þetta verða orð og ummæli sökudólganna.

En hvað hugsa málsvarar okkar erlendis? Jeg tek strax fram, að mjer þykir líklegt, að Bretar sýni þá kurteisi að þakka. Það er venja hvers siðaðs ríkis að þakka fyrir ríkulegar gjafir gefnar þegnum þess. En sleppum slíkum kurteisisskyldum. Þær sanna auðvitað ekkert um það, sem undir býr.

Til þessa hefir það verið svo, að þegar hinir erlendu sökudólgar hafa verið að kvarta, hafa allir mætir menn látið það eins og vind um eyrun þjóta. En eins og dropinn holar steininn, hafði endurtekning klögumálanna haft þau áhrif, að efasemdir vöknuðu hjá þeim, er hlut áttu að máli, og afleiðingin varð sú, að breski sendiherrann í Kaupmannahöfn var sendur hingað til að sannprófa ísl. rjettarfar. Í fyrsta skifti áttum við að ganga undir próf erlendra málsvara okkar. Og hvernig fór? Stóðum við okkur illa? Fjellum við? Nei, hvorugt. En við gerðum það, sem var miklu verra. Við gáfumst upp. Við ofurseldum ísl. rjettarfar rógi erlendra níðhögga. Hefði nú hjer átt hlut að máli sökudólgur, sem vitað var að var sannur að sök, en þó ódæmdur, var hægt að sætta sig við þessa hneisu hins auðmjúka þjóns erlendrar tiginmensku. Og jafnvel þó undirrjettardómur væri genginn í málinu, var ekki hægt að segja, að öllu velsæmi væri fyrir borð kastað. En því miður lá málið ekki þannig fyrir. Hæstirjettur, tákn ísl. sjálfstæðis og rjettlætis, hafði talað. Jupiter og Tervani voru báðir kærðir fyrir sama brot, framið á sama stað á sama tíma, af sömu vitnum, sannað með sömu gögnum. Hæstirjettur dæmdi Jupiter sekan. Þar með var Tervani dæmdur. Úr því að hæstirjettur dæmdi Jupiter sekan, er engin afsökun til, er rjettmæti sýknun Tervani. Hvort sem sönnunargögnin voru skýr eða óskýr og hvað sem hæstv. dómsmrh. álítur um málið, kemur það alt fyrir ekki. Hæstirjettur var búinn að kveða upp dóm í málinu, og úr því mátti enginn og gat enginn kveðið upp nýjan dóm. Allir hljóta að skilja, að slík framkoma „varðar laga og rjettlætis” er ægileg árás á hæstarjett. Það er nöpur ógæfa, að í fyrsta skifti, sem erlendir málsvarar okkar vilja ganga úr skugga um, hvað sje hæft í árásum sökudólganna í okkar garð, kemur ísl. dómsmrh. sökudólgunum til liðs. Upp frá þessu er það óhugsandi, að við njótum trausts talsmanna okkar lengur. Dómsmrh., sem ræðst á hæstarjett, hefir betur í augum erlendra þjóða af þeirri einföldu ástæðu, að hvergi í hinum mentaða heimi gæti slíkt komið fyrir, nema hæstirjettur hefði framið „rjettarmorð“. Dómsmrh. hefir svívirt hæstarjett, kastað fje ríkissjóðs á glæ og reynst níðhöggur þjóðar sinnar. Þótt hæstv. dómsmrh. hefði alt annað vel gert — en guð forði mjer frá slíkum ósannindum —, þá ætti hann að fara frá völdum vegna Tervani-málsins eins.

Á síðasta Alþ. var kosin 7 manna nefnd til aðstoðar þeim ráðh., er með utanríkismálin fer, en það er hæstv. forsrh. Hann hefir dyggilega fylgt fyrirmælum þingsins og sent nefndinni öll þau skjöl, er fjalla um utanríkismál, ekki aðeins til umsagnar, heldur einnig til ákvörðunar. Tervani-málið hefir verið gert að utanríkismáli, og því langstærsta, sem enn hefir komið fyrir. Nú leyfi jeg mjer að beina þeim fyrirspurnum til hæstv. forsrh., hvort hann hafi tekið ákvörðun um málið, og ef svo sje, hvers vegna hann hafi þá brugðið vana sínum og ekki sent þetta mál eins og hin til utanríkismálanefndar. En ef það er hinsvegar rjett, sem allir mæla- að hæstv. dómsmrh. sje hjer einn að verki, — ætlar þá hæstv. forsrh. að þola það, að dómsmrh. taki af honum völdin og tefli sjálfstæði landsins í voða?

Jeg vil ennfremur spyrja hæstv. forseta, sem er formaður nefndarinnar, hvort málið hafi verið sent honum til umsagnar? Ef svo er, hví bar hann það þá ekki undir nefndina? En ef svo er ekki, ætlar hann þá að þola, að n. sje svo ferlega misboðið? Jeg vænti þess, að þeir svari þessum spurningum, og læt í bili útrætt um þetta hneykslismál.

Af öllu illu, sem gerðist á síðasta Alþ., voru þó ummæli hæstv. dómsmrh. um hæstarjett langverst. Þegar verið var að ræða um frv. til l. um varnir gegn prentuðum ummælum, sagði hæstv. dómsmrh., að hæstirjettur dæmdi dóma, „sem ganga hver ofan í annan“. Hann gaf í skyn, að dómar rjettarins væru „gerræðafullir“ og „ofan í líkur“, væru „rjettarhneyksli“. Loks sagði ráðh.: „Þessir tveir dómar eru blettur á íslensku rjettarfari, þeir eru það, sem ein frændþjóð okkar kallar Justits-mord“. Mjer hnykti við, er jeg heyrði þessi orð. Í sumar hefi jeg verið á mörgum fundum með hæstv. dómsmrh., og sýndi jeg honum þá enga vægð, en yfir þessu þagði jeg. Sjerhver andstæðingur hlaut að meta meira að leyna þessu en að vega að andstæðing sínum. Þegar jeg kom úr þessum fundaleiðangri og las Alþt., sá jeg, að þessi ummæli stóðu þar óbreytt. Þar stóð „Justits-mord“ skýrum stöfum. Þetta undraði mig því meira, er jeg vissi, að hæstv. dómsmrh. er vanur að strika það út úr ræðum sínum, sem honum sýnist, en svo hóflaus er óskammfeilni hans, að þessi orð ljet hann standa óbreytt. Jeg minnist ekki, að nokkur blöð hafi ritað um þetta mál, nema „Morgunblaðið“, er sýndi fram á þessa svívirðu, en nokkru síðar reit hæstv. dómsmrh. aðra grein í ,Tímann‘ til varnar sjer í málinu. Þar hjelt hann því fram, að hæstirjettur stæði á bak við þessar greinir Morgunblaðsins og vildi helst láta hann biðja sig fyrirgefningar á þeim. Hvernig getur svívirðingin komist hærra? Það mun ekki ofmælt, þótt sagt sje, að þetta sje þjóðarskömm.

Við Íhaldsmenn erum nú í eldhúsinu. Framsókn verður að þvo þennan smánarblett af þjóðinni með því að fella þennan mann.

Þessi ráðh. hefir brotist til valda með blekkingum, og því næst brugðist flestum loforðum sínum. Hann lofaði sparnaði, — en hverjar eru efndirnar? Eins og hv. þm. Borgf. sýndi fram á, hafa bitlingar óspart hrotið frá borði hans, og aldrei hefir óhófið verið jafnt og nú. Þess vegna eru menn líka farnir að kalla stjórnartíð þessa ráðh. beinöld, og er það rjettnefni. Hæstv. dómsmrh. sagði áður, að sendiherraembættið væri tildur eitt, en nú fær sendiherrann ekki einungis laun sín, heldur þrífst hann betur en nokkru sinni áður undir verndarvæng þessa ráðh., er gefur honum gjafir upp á kostnað ríkissjóðs. Er sendiherrann að vísu alls góðs maklegur, en lítið samræmi er í öfgafullum árásum blaðamannsins frá Hriflu og hins gjafmilda dómsmrh.

Eins og kunnugt er losnaði erindrekastaðan á Spáni. Þá stöðu hafði ráðh. talið alóþarfa og rándýra, en svo skipar hann annan erindreka, þegar til kemur, og lætur hann hafa sömu laun og hinn fyrri. Þá má nefna tóbakseinkasöluna. Ekki hefir ráðh. hafist þar handa ennþá, þótt tækifæri hafi verið til. Mentaskólanum hefir hann lokað og mannúð sína hefir hann sýnt með því að ráðast á fátæka og sjúka, hrekja burtu hjúkrunarkonur og reka menn unnvörpum úr þeim stöðum, er þeir hafa skipað. Rjettlátur og lýðhollur þóttist hann vera, — en hver hefir verið ranglátari og einráðari en einmitt þessi maður? Nú er spillingin orðin svo mikil og ofsóknirnar svo taumlausar, að ef þessu heldur áfram, ruglast hugtök manna, þannig að þeir gera ekki lengur mun á Framsókn og ofsókn, eins og Árni Pálsson komst að orði. Algera siðspillingu hefir þessi hæstv. ráðh. sýnt í embættaveitingum, og fátt hefir hann vílað fyrir sjer í þeim efnum. Ef lagabreytinga þarf, þá kemur hann þeim í framkvæmd, en ef ekki, þá kippir hann mönnum burt og setur aðra í staðinn, sem fylgjandi eru skoðunum hans. Þá er það ekki ofmælt, að hæstv. ráðh. noti ríkissjóðinn sem flokkssjóð, eða sitt eigið fje, nema hvað hann er höfðinglyndari og örari á fje hans en sitt. Auk alls þessa hefir ráðh. oft stefnt landinu í beinan voða. Á eldhúsdaginn í fyrra sagði hann t. d., þegar verið var að tala um Shell-fjelagið, að með þessum olíugeymum væru Bretar að koma sjer upp flotastöð. Hvað veitir betri höggstað á okkur en slík orð af vörum ráðh., að fyrirrennarar hans hafi gefið útlendingum leyfi til að koma hjer upp herskipastöð? Með hverjum hætti verður öðrum erl. stórveldum betur boðið heim en einmitt fullyrðingum sjálfs dómsmrh. um að breska heimsveldið hafi þegar öðlast slík fríðindi. Það hefir komið fyrir oftar en í þetta eina skifti, að ráðh. hefir stefnt sjálfstæði voru í voða með ógætilegum orðum og lítt hugsuðum. Á þinginu í fyrra sagði þessi hæstv. dómsmrh., að íslensku togararnir hefðu stolið tugum miljóna króna í landhelgi, en varðskipin hefðu ekki komið á vettvang af því, að fyrv. ríkisstj. hefði bannað þeim það og sagt þeim að verða ekki á vegi þeirra. En ef þessi orð hæstv. dómsmrh. bærust út, segðu önnur ríki: Við erum misrjetti beitt, — og þau gætu þá látið sjer nægja með að vísa til orða dómsmrh.

Með Tervani-málinu og ummælum sínum um hæstarjett er ráðh. að brjóta niður virðinguna fyrir dómsörygginu í landinu. En fullyrðing hans um, að fyrverandi stj. hafi selt Bretum fríðindi til að tryggja áðstöðu þeirra í ófriði, og ummæli eins og þau, að fyrv. stj. hafi bannað varðskipunum að verðá á vegi íslenskra lögbrjóta, miða að því að grafa undan traustinu á framkvæmdarvaldinu. Verður þá syndabikar þessa manns aldrei fullur ? Hverju getur „vörður laga og rjettlætis“ bætt í þann lárviðarsveig, sem valdaferill hans hnýtir fósturjörðinni? Hvað á dómsmrh. ógert? Með leyfi hæstv. forseta ætla jeg að lesa upp grein eftir hann í „Tímanum“ 5. jan. Hann er þar að skýra frá því, að jeg hafi sagt á fundi, að skipstjórar varðskipanna hefðu viljað drepa hann:

„Þá æsist Ólafur Thors og lýsir því yfir hátíðlega, að sambúðin sje svo vond, að skipstjórarnir vildu fegnir drepa (eða láta drepa) annan af núverandi ráðherrum.

Margir álíta, að Ólafur hafi logið upp á skipstjórana og það alveg að tilefnislausu. En sje svo, þá sýnir yfir lýsingin að minsta kosti hug Ólafs sjálfs .... og er það engin afsökun, þó hann síðar vilji snúa merking orða sinna upp í aðdróttanir til hinna fjarstöddu manna um annarskonar hugarþel, jafnvel enn andstyggilegra, sem sje það, að þeir vilji láta myrða mannorð tilgreinds manns með rógburði“.

Jeg hafði nú aðeins sagt, að jeg teldi víst, að skipherrarnir á varðskipunum hlytu að óska ráðh. pólitískt feigan. — Sleppum því. En hjer er dómur ráðh. fyrir því, að sá, er vill myrða mannorð annara með rógburði, sje verri en morðingi.

Jeg spyr nú þá hv. þdm., sem kynnu að álíta, að ráðh. með blaðskrifum sínum hafi reynt einmitt þetta, að myrða mannorð með rógburði:

Hverju viljið þið bæta við?

Að lokum skal jeg leyfa mjer að beina fáeinum orðum til flokksbræðra ráðh. hjer í deildinni.

Jeg játa, að vald hans er brotið í Nd. Hjer er stækkandi hópur samstæðra manna, sem láta ekki lengur misbjóða sjer.

Þetta veit dómsmrh. líka. Þess vegna hefir hann sig ekki í frammi. Hann er lævís maður. Hann kann sín boðorð. Það boðorðið, sem hann í bili hefir í heiðri, er þetta: Sex daga skalt þú verk þitt vinna, en hinn sjöunda halda heilagan. Í ár er þingtíminn hvíldardagur ráðh. Ekki til að þjóna guði, heldur til að búa sig undir að þjóna lund sinni.

Þegar þið eruð farnir heim, þegar þegjandi mótstaða ykkar, sem hvílir eins og martröð á hefnigirni og öðrum eðlishvötum ráðh., er af ljett, þá brjótast þær út með krafti þess undirokaða og komast í algleyming.

Allir vita, að mörgum ykkar hrýs hugur við því.

En ábyrgðina berið þið.

Henni verður ekki af ykkur ljett nema þið leggist á sveif með okkur íhaldsmönnum að fella þennan ráðh.

Fellum hann, ekki sem flokksmenn eða andstæðingar, heldur sem menn — sem Íslendingar.