10.04.1929
Neðri deild: 41. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (626)

16. mál, fjárlög 1930

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg ætla að byrja á því að gera síðasta ræðumanni, hv. 2. þm. G.-K., skil, og svara honum fyrst, því að nú eru margir menn hjer inni, sem heyrt hafa mál hans, en ekki annara þeirra, er fyr hafa talað. Hann sneri sjer aðallega að Tervani-málinu, og því get jeg svarað hv. 1. þm. Reykv. um leið. Jeg geri ekki ráð fyrir, að jeg þurfi að beita eins stórum orðum og hv. 2. þm. G.-K., með því að málstaður minn er jafngóður eins og hans er vondur. Blöðin hafa gert sjer tíðrætt um mál þetta, og er því flestum saga þess kunn, en þó mun jeg rekja það að nokkru. Málið var höfðað gegn enskum togara, Tervani, sem kom hingað til lands síðastliðið vor. Var grunur á, að hann hefði verið að landhelgisveiðum. Jeg ljet, eins og kunnugt er, niður falla saksókn gegn þessum togara, og deilan stendur um það, hvort þetta hafi verið rjett eða rangt. Það er enginn efi á því, að stj. getur bæði fallið frá sókn mála og náðað, en verður að sjálfsögðu að bera ábyrgð á því fyrir þjóðinni. Því hefir verið haldið fram, að rangt hafi verið að falla frá sókn málsins, en jeg leit öðrum augum á tildrög málsins og mjer virðist það, satt að segja, þjóðinni til skaða og skammar að leggja á jafntæpt vað og þar var um að ræða, út í stórdeilu við almenningsálit hins siðaða heims.

Helsta blað íhaldsins, Morgunblaðið, hefir líka verið aðaltunga flokksins til að sækja mig til sakar í þessu máli. En nú vill svo til, að einmitt aðaleigandi Morgunblaðsins, og þar af leiðandi sá maður, sem í gegnum blaðið ber aðalábyrgðina á ásökununum í minn garð út af Tervani-málinu, hefir sagt alt annað um málið undir öðrum kringumstæðum. Jeg ætla nú að svara málpípum íhaldsins hjer á Alþingi með því að láta þennan flokksbróður þeirra tala. Hann er sonur þess manns í Íhaldsflokknum, sem flokkurinn vildi gera að forseta sameinaðs þings í vetur, og hefir vegna blaðeignar sinnar töluverð áhrif innan flokksins. Það er lögfræðingurinn Lárus Jóhannesson, sem jeg ætla, að leiða sem vitni á móti hans eigin blaði og hans flokksbræðrum. Þetta vitni mundi að vísu í mörgum pólitískum málum ekki vera óhlutdrægt. Maður sá er að vísu sæmilega gefinn og ekki lakar mentur en gerist um marga menn í hans stjett, en alt of litaður flokksmaður til þess að geta verið óhlutdrægur, þar sem flokksástæður kæmu til greina. En í þessu máli á hann að velja á milli starfs síns sem málfærslumaður annarsvegar og íhaldsstjórnarinnar hinsvegar, því þegar hann leiðir sterk rök að því, að skipstjórinn á Júpíter hafi verið saklaus, og að öll rekistefnan gegn honum, og þá líka gegn Tervani, hafi verið eintóm vitleysa, þá er hann að vísu varnarmaður skipstjórans, en niðurlægir um leið sína eigin íhaldsstjórn, sem bar ábyrgðina á því, hvernig málið var hafið og hvernig málavextir voru, með því að hafa til löggæslu slíkan bát sem Trausta og svo lítilfjörlega skipshöfn sem þar reyndist að vera.

Allir sæmilegir menn á Íslandi hafa frá því mál þetta varð fyrst kunnugt verið þakklátir landsstj. fyrir að varna því að láta þjóðina, sökum aðgerða fyrverandi landsstj., verða að undri í augum siðaðra þjóða. Mjög margir íhaldsmenn, ekki síst skipstjórar og dómarar, eru í þessum flokki, og eftir því sem best verður vitað, hver einasti íhaldsandstæðingur í landinu. Með Mbl. í þessu máli, sem öðrum, hefir eingöngu verið æstasti, ósvífnasti og ómentaðasti hluti flokksins. Þá eina þarf að sannfæra eða beygja í þessu máli. Á móti þeim einum er vitnisburði Lárusar Jóhannessonar stefnt, því að heilbrigðir þurfa ekki læknis við, og síst þá þvílíks læknis. Hjer er aðeins um samveikislækningu að ræða, þar sem hr. L. J. er látinn lækna sína eigin hjörð, sem málgagn hans hefir gert sjúka.

Jeg ætla með leyfi hæstv. forseta að lesa upp ýmislegt úr vörn Lárusar Jóhannessonar. Jeg tala hjer aðallega um Júpíter, en því er þegar slegið föstu af Mbl., að það, sem á við um Júpíter, eigi líka við um Tervani. Það, sem Lárus Jóhannesson segir um Júpíter, segir hann því líka um Tervani:

„Þegar þess er gætt, að kærður er kærður af varðbát ríkisstjórnarinnar, mætti á priori ætla, að kæran hefði við einhver rök að styðjast. Maður gæti búist við, að sem skipshöfn á slíkan bát væru ekki ráðnir aðrir menn en þeir, sem af öðrum bæru í siglingafræði, varkárni, áreiðanlegleik og sjómensku, og eins gætu menn búist við, að allur útbúnaður varðbátsins væri í hinu besta lagi, svo að hægt væri að mæla upp þá staði, er til greina gætu komið í málinu, með stærstu nákvæmni, og að alt þetta væri jafnframt fært inn í þar til löggilta bók og undirritað samstundis af hinum færustu mönnum“.

Þetta eru kröfurnar, sem eigandi Morgunblaðsins gerir til varðbátsins. Og þær eru alveg rjettar. En aðaleigandi Mbl. álítur, að þeirra hafi ekki stranglega verið gætt, og bætir við:

„Ber þá fyrst að athuga, hvort menn þessir — og þá sjerstaklega stýrimaðurinn — sjeu þessháttar kostum gæddir, að óhætt sje að reiða sig á vitnisburð þeirra til sakfellingar kærðum í þessu máli, og skal jeg þá fyrst snúa mjer að stýrimanninum.

Vitnaleiðslur þær, sem jeg hefi verið viðstaddur, hafa ótvírætt fært mjer heim sannindi um það, að stýrimanninn Þórarinn Guðmundsson vantar alla þá höfuðkosti, sem sá maður þarf að hafa, sem er stjórnari varðbáts, sem sje: þekkingu og samviskusemi, en hefir aftur á móti þá höfuðókosti, sem gera það að verkum, að hann er óhæfur í slíka stöðu, sem eru: fljótfærni, ónákvæmni og löngun til að trana sjer fram og láta á sjer bera“.

Þetta er lýsing aðaleiganda Morgunblaðsins á manninum, sem stýrði varðbátnum. Jeg les ekki upp nema lítið af því, sem vitnið segir, en það er alt í sama dúr. Næst kem jeg að því, þegar lögfræðingurinn þykist vera búinn að sanna, að stýrimaðurinn sýni mikinn óáreiðanleik og fljótfærni:

„Fjölda annara dæma um ónákvæmni, minnisleysi og fljótfærni vitnisins mætti nefna, en jeg læt þetta nægja fyrir undirrjettinum, — vegna þess að dómarinn hefir sjálfur yfirheyrt vitnið og þekkir það — til að slá því föstu, að hjer er að ræða um mjög óábyggilegt vitni, sem bæði vantar hæfileika til að skynja rjett (dexteritas) og segja satt (sinceritas“.

Hugsið ykkur þennan dóm, sem lögmaðurinn gefur stýrimanninum: að hann hafi vegna vantandi hæfileika, bæði líkamlegra og siðferðislegra, verið alls ófær til þess að standa í stöðu sinni. En það er ekki alt búið. Svona var formaðurinn á bátnum, og nú er eftir að athuga, hvernig báturinn var. Jeg ætla að bæta því við — lögmaðurinn segir það ekki —, að þetta var gamalt smyglunarskip, sem íhaldsstjórnin hafði leigt. Það stóð víst svo á, að hv. 2. þm. G.-K., sem var stuðningsmaður stj., var í góðu vinfengi við eiganda smyglunarskipsins og hafði fengið fleytuna. Skipið var svo útbúið að dómi hr. L. J.:

„Um útbúnað skipsins get jeg verið fáorður, því hann var þannig, að varla verður orðum að komið. Engin mælitæki voru þar, engin dagbók, engin vjelabók, enginn kíkir, líklega klukka, en þó svo úr garði gerð, að vitnið Þórður vildi ekki ábyrgjast, að hún væri rjett, enda ber henni ekki saman við klukku „Jupiters“, enginn pappír, enginn penni, ekkert blek, enginn blýantur. Vitnin þykjast í stað þess hafa notað nagla og hníf til þess að rita nöfn og númer skipanna á gamalt dagblað og stýrishúsið“.

Það hefir líklega verið Morgunblaðið, sem þeir hafa skrifað á. Jeg býst við, að þegar Morgunblaðið sjálft fer að athuga, hvaða vitnisburð aðaleigandi þess gefur bæði bátnum og skipshöfninni, þá geti það ekki annað en dáðst að hinum mælskuþrungna krafti aðaleiganda blaðsins eins og hann kemur fram í lýsingunni á þessari sjólögreglu Íhaldsins.

Þá leiðir lögmaðurinn nokkur sálfræðileg rök að því, að óhugsandi sje, að skipstjórinn á Júpiter sje sekur. Til þess að gera þetta enn skiljanlegra fyrir áheyrendum mínum, er þess að geta, að skipstjórinn er auðugur Íslendingur, sem er búsettur í Englandi og á þar fjölskyldu. Nú segir lögmaðurinn:

„Kærður sjer mótorbátinn þegar hann kemur fyrst fyrir Skagann og þekkir að þetta er varðbáturinn. Varðbáturinn legst svo fyrir akkeri og heldur vörð og er kærður að toga í rúml. 4 tíma áður en hann á að vera kominn í landhelgi rjett fyrir nefinu á varðbátnum um hábjartan daginn.

Það þyrfti meira en bíræfni til að haga sjer þannig. Það þyrfti heimsku eða stórkostlega óvarkárni, og hvorugt það hygg jeg, að hægt sje að bera kærðum á brýn“.

Í stuttu máli framgengur af skjölunum, að skipstjórinn, sem er mjög kunnugur hjer við land, hefir verið rjett við nefið á varðbátnum í 4 klukkutíma um hábjartan dag. Er nú sennilegt, að skipstjórinn hafi verið svo djarfur að voga þetta, ef hann vissi sig sekan? Eins og jeg skal koma að síðar, fer hv. 2. þm. G.-K. alt öðruvísi að, þegar hans togarar eru í landhelgi. Hann heimsækir kjósendur sína á nóttunni eins og sannur veiðiþjófur og hefir breitt yfir nafn og númer.

Lögfræðingurinn rökræðir síðan lengra eftir sömu leið. Hann bendir á það, að skipstjórinn fer til Englands og kemur síðan aftur hingað. En nú var auðvelt fyrir hann, ef hann þurfti að óttast sektargreiðslu og jafnvel fangelsishegningu hjer, að vera kyrr í Englandi. Það hefir verið bent á, að maður þessi er auðugur og þarf alls ekki, atvinnunnar vegna, að vera hjer. En hann kemur hingað. Í Hafnarfirði er hann tekinn og nú byrjar málareksturinn. Hann er sýknaður í undirrjetti, en dómfeldur í hæstarjetti. Þegar svo lögfræðingurinn, aðaleigandi Morgunblaðsins, er búinn að færa þung rök fyrir því, að þessi sókn af hálfu rjettvísinnar sje tóm vitleysa, þá segir hann þessi orð:

„Þegar þetta alt hefir verið athugað — og margt fleira mætti tína til, er styrkir framburð kærðs og veikir framburð skipshafnarinnar á Trausta, þótt jeg sjái ekki ástæðu til þess á þessu stigi málsins, þar sem dómarinn hefir sjálfur rannsakað málið —, get jeg ekki betur sjeð en að allur grundvöllur fyrir refsidómi á hendur kærðum sje hruninn um sjálfan sig. Ef dæma ætti kærðan í háa sekt og fangelsi á jafnljettvægum rökum og finnast í þessu máli, mætti með sanni segja, að með því væri kveðinn upp dauðadómur yfir öllu rjettaröryggi í landinu“.

Og ennfremur:

„Jeg leyfi mjer svo að gera þær rjettarkröfur, að kærður verði algerlega sýknaður af öllum kærum og kröfum valdstjórnarinnar í máli þessu og að allur kostnaður sakarinnar verði greiddur af almannafje“.

Þetta segir aðaleigandi Morgunblaðsins, einn meiri háttar íhaldsmaður. Og hann á hjer aðeins við sína menn, þegar hann segir, að kveðinn sje upp dauðadómur yfir rjettaröryggi í landinu. Þegar þess er gætt, að hr. L. Jóh. vissi, að málinu yrði stefnt til hæstarjettar, og að eins og málið fór þar, að hann kvað upp mjög harðan dóm um æðsta dómstól landsins — þann harðasta dóm, sem nokkur Íslendingur hefir enn kveðið upp yfir þeirri virðulegu stofnun, þá sjest best, hve sannfærður lögmaðurinn er um, að íhaldsmenn hafi hjer á röngu að standa.

Nú vil jeg biðja hv. þingheim að athuga það, að eftir lögunum var hæstirjettur skyldugur — ef hann vissi skipstjórann sekan — til að dæma hann bæði í sekt og fangelsi. En hvað gerir hæstirjettur? Hann dæmir manninn bara í sekt, en ekki í fangelsi. Það þýðir það, að hæstirjettur er í vafa. Hann framfylgir ekki bókstaf laganna, og ekkert getur afsakað það, nema að dómurinn hafi verið í svo miklum vafa, að hann neyðist til að gera einskonar málamiðlun. Þannig lauk máli Júpíters.

Nú ætla jeg að minnast á annað mál, til skýringar því, hvað reyndur dómari í landinu, og það einn af leiðtogum Íhaldsins, brýtur mjög í bág við þann stranga móral, sem einn eða tveir íhaldsmenn hafa verið að prjedika hjer í kvöld. Það kom fyrir síðastliðið vor, að togarinn „Regulus“ var að veiðum nálægt Eldey. Óðinn var þar nærstaddur og tók margar nákvæmar mælingar af afstöðu skipsins, sem þóttu sýna það, að skipið væri að veiðum í landhelgi. Óðinn elti skipið og það lagði á flótta. Óðinn hleypir af 10 fallbyssuskotum og skipið stansar við síðasta skotið. Það er síðan farið með það til Reykjavíkur og dómur fellur í undirrjetti. Dómarinn var einn af þm. Íhaldsflokksins, hv. þm. Seyðf. Hann sýknar „Regulus“. Var þó margt, sem benti til, að hann væri sekur, meðal annars það, að vjelbátar, sem voru að veiðum miklu lengra frá Óðni en „Regulus“, heyrðu skotin, þó að „Regulus“-menn bæru, að þeir hefðu ekki heyrt nema það síðasta. Vírar og vörpur bentu til, að kæran væri rjett. Samt sem áður kemst dómarinn að þeirri niðurstöðu, að skipið skuli sleppa. Nú gat landsstj. áfrýjað dóminum til hæstarjettar í von um, að hann yrði strangari gagnvart „Regulus“, eins og verið hafði gagnvart Júpíter. En það var með ráðnum hug, að hún gerði það ekki, því að hún var sammála hjeraðsdómara um það, að þó að líkur væru sterkar fyrir sekt skipsins, væri betra, að sökudólgur slyppi en að saklausum væri refsað.

Jeg vil biðja áheyrendur mína að athuga, hversu miklu sterkari sannanir komu fram í „Regulus“-málinu en í Júpíters- og Tervani-málinu. Enginn íhaldsmaður hefir þó áfelst hjeraðsdómarann í Reykjavík fyrir að sýkna Regulus og missa af 15 þús. kr. Í öðru tilfelli er Óðinn aðili, nákvæmar mælingar eru fyrir hendi, gerðar með góðum tækjum af mönnum, sem vit hafa á. Í hinu tilfellinu ómerkilegur bátur, alveg óviðunandi útbúnaður og menn, sem staðnir eru að óáreiðanleik og þekkingarleysi. Samt er Regulus sýknaður, af því að sannanir eru ekki nógu sterkar, alveg eins og undirrjettur í Hafnarfirði sýknaði Júpiter.

Eitt atriði skal lauslega nefnt í þessu efni, sem ekki kemur til greina í skýrslu hr. L. J. Skipshöfnin á Trausta var svo sljó, að hún kærði ekki fyr en mörgum vikum síðar. Af tilviljun kom Óðinn þá suður í Garðsjó og hittir stýrimann af Trausta. Þá segja þeir, að þeir haldi, að fyrir svo sem mánuði hafi tvö skip verið í landhelgi. Upp úr því sýndi svo skipshöfnin þá rögg af sjer að kæra. Þangað til var alt lagt á minnið.

Því hefir verið haldið fram, m. a. af hv. 2. þm. G.-K., að mikið hugleysi hafi komið fram hjá mjer, þegar jeg ljet ekki Tervani-málið halda áfram. Það er stundum svo, að það þarf meiri hug til þess að gera rjett, ef við skálka er að eiga, en að gera rangt, ef litlar líkur eru til eftirmála. Það er enginn vafi á því, að til dæmis maður eins og hv. 2. þm. G.-K. hefði af gáfnaskorti, mentunarleysi og þekkingarleysi á almennum mannasiðum, bæði af stráksskap og eins af því, að honum stæði alveg á sama, hvaða afleiðingar það hefði fyrir landið, haldið málinu til streitu. Því hefir verið haldið fram, að það hafi verið sjerstaklega mikil móðgun við hæstarjett að láta málið niður falla, og orðið til þess að koma óorði á hann erlendis. Það er frámunaleg tvöfeldni hjá Íhaldsflokknum, þegar einn af hinum svokölluðu leið togum flokksins hefir lýst því yfir, að sektardómur hæstarjettar yfir Júpíter væri jafnframt dauðadómur yfir rjettarörygginu í landinu!

Ef lögmaðurinn segir satt í málsskjölunum, skrökvar hann í blaðinu og ef hann segir satt í blaðinu, skrökvar hann í málsskjölunum. (ÓTh: Fær Júpíter sektina endurgreidda?). Jeg skal bráðum tala um Egil Skallagrímsson og sekt hans.

Þegar kemur fram svona mikið ósamræmi og tvöfeldni hjá málpípum íhaldsins, verður mönnum ljóst, að þetta er bara leikur hjá Íhaldsflokknum. Það hefir verið sagt af einum helsta lögfræðingi þessa lands, sem þá var starfsmaður hæstarjettar, og lætur sjer áreiðanlega eins ant um heill hans og þeir sorpskrifarar og sorpræðumenn, sem hafa ráðist á mig í þessu máli, að á bak við hvern dóm í hverju landi verði að standa vitund þeirra, sem við dóminn eiga að búa, um að hann sje rjettur. Nú er það mála sannast, að ekki er eins mikil samkend með skipstjóranum á Júpíter, þó að hann kunni að hafa verið utan við landhelgislínuna í þetta sinn, af því að það er öllum kunnugt, að hann hefir áður verið ógætinn í mesta lagi í landhelgismálum. Alt öðru máli er að gegna um þann almannadóm, sem átti að styðja Tervani-dóminn út á við. Sjerhver dómur, sem hjer gengur út af landhelgisbrotum erlendra togara, er þýddur á tungu hlutaðeigandi þjóðar og sendur flotamálaráðuneytinu. Einkum fylgjast Englendingar og Þjóðverjar vel með því, sem gerist hjer í þessu efni. Á tímum íhaldsstjórnarinnar bárust hingað þráfaldlega kærur frá Þjóðverjum út af meðferð þessara mála, af því að þýska þjóðin þóttist órjetti beitt. Dómarnir og málsskjölin hafa verið lögð undir gagnrýni margra erlendra sjerfræðinga. Ístjórnarráðinu má finna skjöl, sem bygð eru á þessari gagnrýni, og í þeim felast svo harðir áfellisdómar, að þeir eru hættulegir frelsi og sjálfstæði landsins, ef sannir eru. Þessar háværu aðfinslur eru ekki sprotnar af því, að afskifti mín af Tervani-málinu hafi veikt rjettargrundvöllinn út á við, eins og íhaldsblöðin hafa haldið fram. Engin kæra í slíka átt hefir komið síðan í fyrrasumar. Þær eru allar frá tíð íhaldsins.

Við skulum athuga, hvaða hugmynd erlendar þjóðir fengju um íslenskt rjettarfar, ef þær kyntust Tervani-málinu. Þá kæmi fram, auk annara gagna, lýsing sú, sem einn af svokölluðum heldri lögmönnum Reykjavíkur hefir gefið á útbúnaði varðbátsins Trausta og fortíð hans. Frásagnirnar um þennan hneykslanlega útbúnað hefðu bergmálað í blöðum útgerðarmanna í Englandi og Þýskalandi. Við verðum að aðgæta það, að stórþjóðirnar vita ekki mikið um okkur, vegna þess hve við erum fáir og afskektir. Þegar gagnrýni á þessu máli hefði verið komin í aðalblöðin, þá hefði ekki verið gerður munur á Jóni og sjera Jóni, —ekki verið gert upp á milli vjelbátsins Trausta og varðskipanna Óðins og Þórs. Þetta hefði orðið til þess, að röng skoðun hefði myndast um strandgæslu vora yfirleitt, því að allir vita hjer, hvílíkur munur er á útbúnaði þeirra skipa og hinum herfilega útbúnaði á Trausta. En Óðinn og Þór hefðu legið undir öllu hinu sama ámæli og Trausti, fortíðinni, blekleysinu, penna- og pappírsleysinu, mannskapsleysinu, mentunarleysinu og missögnum í vitnaleiðslum. Svona þjóð hefði ekki verið talin á marga fiska. Það eru miljónir manna í breska heimsveldinu, sem hefðu átt að trúa á rjettlæti Tervani-dómsins. Og hugmyndirnar, sem þær miljónir hefðu fengið af málinu um íslenska landhelgisgæslu og rjettarfar, hefðu áreiðanlega orðið þjóðinni til minkunar og miska. Það getur verið, að bæði skipin hafi verið sek, en „sannanirnar“ fyrir þeirri sekt eru til háborinnar skammar íslenskri sjólögreglu. Það er einkenni heimskra manna að halda jafnósleitilega fram vondum málum sem góðum. En enginn hygginn maður lætur sig slíkt henda. Hann geymir rjett sinn óskertan uns góðu málin koma. Hitt gera óvitrir menn og misjafnlega innrættir. Því hefir verið haldið fram af þesskonar fólki, að það hafi verið mjög misráðið að halda ekki þessu máli til streitu. Og á fundi í haust sagði hv. 2. þm. G.-K., að einn háttsettur maður í Englandi, utanríkisráðherrann Chamberlain, sem áður hefði verið hinn tryggasti máisvari okkar, hefði fengið djúpa fyrirlitningu á okkur út af afskiftum mínum af Tervani-málinu. En í kvöld talar þessi hv. þm. í öðrum tón og segir, að vel geti verið, að enska stjórnin þakki slík afskifti. Það vill nú einmitt svo til, að þótt hv. þm. haldi, að Chamberlain utanríkismálaráðherra hafi umhverfst í okkar garð, að stj. fjekk í sumar brjef frá ræðismanninum breska hjer í Reykjavík, þar sem breska stjórnin þakkar afskiftin af Tervani-málinu. Brjefið hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hjermeð leyfi jeg mjer að tjá yður, hæstv. herra dómsmálaráðherra, að breski utanríkisráðherrann, Sir Austen Chamberlain, hefir falið mjer að votta íslensku stjórninni viðurkenningu og þakklæti hans og annara breskra stjórnarvalda, sem hlut eiga að máli, fyrir að hafa látið niður falla málssókn út af kærunni gegn skipstjóranum á breska togaranum „Tervani“.“

Þetta brjef er töluvert áfall fyrir rógtungur þær, sem flaggað hafa með nafni Chamberlains í sumar og sagt að hann hefði skömm á okkur. Brjefið sýnir hið gagnstæða. Íslenskt rjettarfar hefir aðeins tvisvar fengið slíka viðurkenningu frá Bretum. Í fyrra skiftið er Íhaldið hafði gert sig sekt um þá eindæma óhæfu að ætla að pína bjarglaun út úr erlendri þjóð að óumsömdu máli, vegna skips, sem samkv. alþjóðalögum hefir ekki fremur rjett til að taka slík laun en lögregla má taka fje fyrir að vísa villtum manni á rjetta leið. En þegar þessari upphæð hafði verið skilað aftur til ekkna og munaðarleysingja í Hull og Grímsby bárust íslenskum stjórnarvöldum ótal þakklætisviðurkenningar í enskum blöðum. Jeg býst ekki við, að hv. 2. þm. G.-K. viti, hvað hann er að segja, þótt hann tali digurt og sje að bjóða, að því er virðist, að deyja píslarvættisdauða eins og Jón Arason. Jeg býst við, að mesti kúfurinn fari af honum, þegar hann er að tala við stjettarbræður sína í Hull og Grimsby, því að íslenskum útgerðarmönnum er það ljóst, að þeir verða, sjálfra sín vegna, að kynna íslensku þjóðina öðruvísi en sem skrælingja þar ytra. Breska ljónið hefir haldið götu sína hingað til, þó að Kveldúlfs-músin hafi skriðið út úr holu sinni og látið mikið yfir sjer. Ef breska þjóðin þættist hafa ástæðu til að halda, að brotin væru á sjer alþjóðalög, og að sjólögregla Íslands væri eins og aðaleigandi Mbl. lýsir Trausta, þá gæti verið, að færi að versna afkoma Kveldúlfstogaranna og annara, sem þurfa að selja fisk sinn í Englandi, þegar litið er á fjárhagslegu hliðina eina, vegna þeirra viðskifta, sem við eigum við Breta með fisk, kol o. fl., auk þess skjóls, sem sjálfstæði vort nýtur undir verndarvæng flota þeirra. Er því ljóst, hvílíkt glapræði það er að koma fram í þeirra garð eins og siðleysingjar. Og vei þeirri þjóð, sem kemur fram gagnvart heimsveldinu breska eins og Íhaldsflokkurinn kemur fram hjer innanlands. Ef lesin er saga Indlands, má sjá, að þar hafa ýmsir skrælingjar og „fígúrur“ hagað sjer í garð Breta eins og hv. 2. þm. G.-K. og hafa um leið reynst þjóð sinni hinir mestu skaðræðismenn, því að Bretar hafa látið sjer þann kost nauðugan að hegna slíkum afglöpum, og hafa þá stundum fleiri fylgt með en vera átti. (JJós: Já, Gandhi er kominn í fangelsi). Jeg held, að Bretar færu aldrei að setja hv. þm. Vestm. í fangelsi; hann er alt of lítilmótlegur til þess, bæði í vörn og sókn.

Jeg hefi nú leitt rök að því, hvernig þessu máli var bjargað úr óvitahöndum íhaldsmenskunnar, sem bar ábyrgð á Trausta. Fyrv. stj. bar ábyrgð á hinum hneykslanlega útbúnaði, og vegna þeirrar ómenningar gat komið upp deila erlendis um það, hvort mark væri takandi á strandgæslu vorri. Íhaldsblöðin hafa haldið því fram til að sverta núverandi stj., að aðstaða vor í strandvörnum hafi versnað vegna Tervani. Hún er þvert á móti miklu styrkari en nokkru sinni fyr. Og þótt jeg sje yfirleitt ekki á sama máli um marga hluti og hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), þá álít jeg, að dómur hans í „Regulus“-málinu hafi borið vott um þá ábyrgðartilfinningu, sem ekki finst hjá blaðasnápum og máltúðum Íhaldsins.

Út af þeirri fyrirspurn, sem fram hefir komið um það, hvort „Tervani“- málinu hafi verið vísað til utanríkismálanefndarinnar, get jeg svarað því, að það þurfti ekki frekar að koma fyrir þá nefnd en t. d. „Regulus“-málið. Þetta er íslenskt lögreglumál, sem engin ástæða var til að bera undir nefndina, og það því síður, sem sumir menn í henni eru fullir af þeirri framhleypni og vanþekkingu, sem hlýtur að verða hverju máli til spillis.

Skal jeg nú leiða nokkur rök að því, hversu brennandi áhuga hv. 2. þm. G.-K. muni hafa á landhelgisvörnun um, og þau rök eiga líka við þá, sem siglt hafa í kjölfar hans af íhaldsmönnum. Ef hjal hans um þetta mál sprytti af því að hann vildi, að enginn togari innlendur eða útlendur kæmi nokkru sinni í landhelgi til veiða, myndi hann auðvitað vera hinn harðsnúnasti fylgismaður allra ráðstafana, er miða í þá átt að bægja veiðiþjófum úr landhelginni, því að allir þessir dómar og málaferli miða auðvitað eingöngu að því, að friða landhelgina. Og auðvitað hlýtur bölið af landhelgisbrotunum að vera jafnmikið, hvort sem innlendur eða erlendur togari fremur þau. Er nú rjett að athuga framkomu þessa hv. þm. í landhelgismálum nokkru nánar. Það er sannað með vitnisburði margra skilríkra manna, og þar á meðal íhaldsmanna, sem sumir eiga sæti hjer á þingi, að loftskeytatæki togaranna hafa verið notuð til að ljetta undir með togurunum um þjófnað úr landhelginni. Þegar nú kom fram frv. á þingi í fyrra til að hindra þessa óhæfu, skyldi maður ætla, að hv. 2. þm. G.-K. hefði gripið við því fegins hendi og tjáð þessu góða máli fylgi sitt. En í stað þess rís hann gegn frv. með reiði og fúkyrðum. Það getur ekki stafað af öðru en að hann hefir verið hræddur um, að ef frv. næði fram að ganga, yrði erfiðara fyrir hans togara og annara að leika þennan svívirðilega leik, að stela úr landhelginni. Og það var ekki nóg með að hann gerði alt til að tefja málið og eyðileggja, heldur kvað sami sónninn við í öllum blöðum Íhaldsflokksins.

Annað atriði sýnir þó enn betur afstöðu hv. 2. þm. G.-K. til þessa máls. Fyrir nokkrum árum var Kveldúlfstogarinn „Egill Skallagrímsson“ tekinn fyrir óleyfilegar veiðar í Garðsjó. Vil jeg með leyfi hæstv. forseta lesa dálítið upp úr málsskjölunum:

„Var einnig vandlega breitt yfir nafn og númer á honum, en reykháfurinn var grár með bekkjum ofarlega, þannig: blár, hvítur, rauður, hvítur, blár. Ofan á eldhúsinu hafði þetta skip ennfremur lítið hús. Þóttust skipverjar þekkja bæði af skorsteinslitnum og húsinu, að þetta skip væri botnvörpungurinn „Egill Skallagrímsson“.

Ennfremur kemur fram við rannsóknina, að ef hæstarjettardómurinn er rjettur, lítur út fyrir, að dagbók skipsins hafi verið fölsuð.

Um þetta segir svo í forsendum dómsins:

„... og sjest ekki af dagbók skipsins „Egill Skallagrímsson“ annað en það, að skipið hefir fiskað til og frá í ,Faxabugt‘ dagana 22. sept. til 2. okt.“ Dagbókin er sem sagt þannig færð, að hún er fölsuð. Þessi togari var sýknaður í undirrjetti af hv. þm. Seyðf. En þá gerðust þau tíðindi, að hv. 2. þm. G.-K. kom akandi í bifreið sinni upp að dyrum stjórnarráðsins á hverjum degi, vakti megna óbeit starfsfólksins þar, meðan hann lá á lúasargi við þáv. dómsmrh., Jón Magnússon, til þess að fá hann til að áfrýja ekki dómnum. (ÓTh: Þetta eru bláber ósannindi). Jeg skal segja hv. þm. þegar við erum tveir einir, hver heimildin er, og jeg veit, að hún er góð. Eftir að dómur var fallinn, komumst við í blaðadeilur út af þessu máli, og í greinum sínum um þetta mál rjetti hv. þm. vænar sneiðar að Jóni Magnússyni fyrir dugnað hans í þessu máli! Þar komu heilindin fram.

Enn er eftir ein sönnun, sem jeg býst við, að hv. þm. veitist erfitt að ganga framhjá. Jón heitinn Magnússon er ekki hjer til þess að bera vitni um tilraunir hv. þm. til að fá hann til að áfrýja ekki dómnum, og hefði sennilega ekki viljað gera það, sökum friðar á Mbl.-heimilinu. En nú kem jeg að þessari sönnun. Það má vera, að fyrir geti komið, að skipstjóri veiði í landhelgi í trássi við útgerðarstjóra, en ef svo er, rekur útgerðarstjóri skipstjórann vitanlega í land á eftir, eins og útgerðarmenn gera við skipstjóra sína og háseta, er heilsan fer að bila. Jeg leyfði mjer að hreyfa því í blaðadeilum mínum við hv. þm., að hann hlyti að reka þennan brotlega skipstjóra, ef hann væri ekki samsekur. En hvað gerði hv. 2. þm. G.-K. til þess? Hann segir, að sjer komi ekki til hugar að reka skipstjórann, af því að hann sje svo duglegur fiskimaður! Útgerðin borgaði sektina, og bæði með því að láta skipstjórann vera áfram játaði hv. þm. ábyrgð sín á brotinu og tók hana líka á sig. Þetta sýnir hvílík dæmalaus hræsni er í skrafi hv. þm. um landhelgisumhyggju hans.

Aðstaða hv. 2. þm. G.-k. er því sú að hann hefir reynt að espa grunnhygnustu samherja sína til að áfella þá einu lausn í Tervani-málinu, sem var samboðin þjóð, sem ann meira heiðri sínum og mannorði heldur en fjemútu. Þingmaðurinn vill láta líta svo út, sem honum gangi til þessa máls áhugi fyrir að halda togurunum úr íslenskri landhelgi. En jeg hefi nú sannað, að þessi yfirborðsáhugi þm. snýst fyrst og fremst um rangt og jafnvel svívirðilegt mál fyrir íslenska sjólögreglu. En þar að auki hefi jeg sannað að sá af flokksbræðrum hv. þm., sem mest ráð hefir á því blaði, sem mestum æsingum hefir komið af stað í þessu máli, hefir áður en þessi málarekstur hófst, algerlega rekið hv. 2. þm. G.-K. og hann fylgjendur á flótta á þeirra eigin vígvelli. Enn betur sjást hin sviksamlegu óheilindi þessa hv. þm. á því, að hann skuli leynt og ljóst hafa beitt sjer fyrir, að íslenski togaraflotinn gæti áframhaldandi notað loftskeyti til að forðast varðskipin meðan farið er ránshöndum um landhelgina. Og svo sem til að kóróna alt lætur hv. þm. svo um mælt, þegar veiðiskip hans er tekið í þjófsaðstöðu í landhelginni, að hann vilji ekki reka skipstjórann, af því hann sje svo veiðinn. Ágúst Flyering orðaði sömu hugsunina á Alþingi fyrir nokkrum árum, er hann sagði, að skipstjórar ættu á hættu að vera reknir umsvifalaust, er þeir ekki fiskuðu, og væru þannig sama sem reknir inn í landhelgina af húsbændum sínum.

Hv. 2. þm. G.-K. hefir þess vegna sameinað með frammistöðu sinni í þessu máli meira af lágum og lítilfjörlegum eiginleikum heldur en venjulegt er að finna utan við sjálfa sorphauga mannfjelagsins.

Þá endurtók hv. þm. ýmsar vitleysur úr þingmálafundaræðum sínum, og kendi mjer um það, að sendiherraembættið í Kaupmannahöfn hefir ekki verið afnumið. Jeg vil benda hv. þm. á, að jafnvel þó að allur Framsóknarflokkurinn hefði verið með því að leggja niður þetta embætti, þá hefði það ekki nægt, því að flokkurinn hefir ekki meiri hl. í þinginu. Hv. þm. sagði, að jeg hefði gefið sendiherranum góðar gjafir. Með því getur hann ekki átt við annað en það, að jeg keypti í fyrrasumar í Kaupmannahöfn málverk eftir Ásgrím Jónsson, sem þar var til sölu við mjög vægu verði, og lagði svo fyrir, að það yrði geymt hjá sendiherra, þangað til yfirstjórn málverkasafnsins ráðstafaði því á einhvern annan hátt. Jafnframt get jeg frætt hv. þm. um það, að í bústað og skrifstofu sendiherra eru mörg málverk, sem íhaldsstjórnin sendi þangað á sínum tíma. Ef hv. þm. vill halda því fram, að jeg hafi látið ríkið gefa sendiherra gjafir, verður hann að viðurkenna, að íhaldsstjórnin hafi sýnt miklu meiri gjafmildi en jeg gagnvart þeim virðulega embættismanni.

Umhyggja hv. þm. fyrir hinum „fátæku og veiku“ í landinu er líka talsvert undarlegt fyrirbrigði. Hann áfellir stj. fyrir það, að hún hefir gert tilraun til að draga úr hinni óhóflegu fjáreyðslu ríkisins vegna berklavarnanna, fjáreyðslu, sem m. a. hefir stafað af því, hve mikið hefir verið greitt til „praktiserandi“ lækna í Reykjavík. Hann átaldi það harðlega, að stj. skyldi hafa gert samninga við tvo frægustu lækna landsins um að vinna fyrir ríkið fyrir ákveðna borgun. Ef sú skoðun er rjett, að stj. megi ekki ráða hina hæfustu lækna til að stunda þá sjúklinga, sem það elur önn fyrir, þá fer að verða lítið úr rjetti einstakra manna til að ráða sjer heimilislækni. Grunur minn er sá, að það sje ekki umhyggjan fyrir þeim „fátæku og veiku“, sem knúð hefir hv. þm. til andmæla, heldur atvinnuumhyggjan fyrir sjálfum læknunum. Hv. þm. stendur ef til vill í þakklætisskuld við einhverja af þeim fyrir heilsusamlega inngjöf í neyð, (ÓTh: Á ráðh. við hundaskamt?). Jeg nefndi ekkert sjerstakt meðal. En það er mikið snjallræði hjá þessum hv. þm. að tala einmitt um þau lyf, sem honum er mest þörf á.

Þá kem jeg að máli, sem hv. þm. gerði að umtalsefni, en hefði helst átt að hlífa sjer við að minnast á, því að það verður honum til því meiri skapraunar, sem oftar er um það talað. Það eru ummæli hans um sambúðina milli mín og skipstjóranna á varðskipunum. Þessi ummæli fjellu á fundi á Akranesi síðastliðið haust; þar var rætt um varðskipalögin frá síðasta þingi og hv. þm. hjelt því fram, að sambúð mín og skipstjóranna væri slæm. Jeg mótmælti þessu og skaut inn í ræðu hv. þm. þeim orðum, að sambúðin milli mín og skipstjóranna væri góð. Því neitaði hv. þm. strax, og bætti við til árjettingar, að þeir vildu drepa mig, eða vildu mig feigan. Hv. þm. getur reynt að hreinsa sig af þessum ummælum með vottorðum, ef hann vill. En ekkert sýnir betur en þetta atvik, hversu órjettmætt það er að segja, að stj. taki hörðum höndum á andstæðingum sínum. Í hverju öðru landi hefði skipstjórunum verið gert að skyldu að hreinsa sig af slíkum áburði, ef hann hefði verið borinn fram af sómasamlegum manni. Þeim hefði verið skipað að fara í mál við hv. þm. og láta hann taka aftur orð sín, eða sanna þau að öðrum kosti. En bæði var mjer kunn ósannsögli og mannleysueðli hv. þm., og í öðru lagi kýs jeg heldur að vinna mál fyrir dómstóli almannavitundar í landinu en dómstóli laganna.

Seinna reyndi hv. þm. að klóra yfir þessi fólslegu ummæli sín. Í blaði hjer í Reykjavík hjelt hann því fram, að hann hefði aðeins sagt, að skipstjórarnir vildu drepa mig „pólitískt“. En sú skýring varð ekki skilin öðruvísi en svo, að skipstjórarnir væru með pólitískan undirróður gegn stj., en það væri vitanlega alveg óviðeigandi af mönnum í þeirra stöðu. Afskiftaleysi stj. af glapmælgi hv. þm. sýnir tvent í einu: Mildi gagnvart skipstjórunum og álit hennar á vesalmenni því, sem ófrægðina bar á þá.

Þá ætla jeg að víkja nokkrum orðum að ræðu hv. þm. Borgf. (PO). Í fari þessa hv. þm. eru einkennilegar andstæður, sem minna dálítið á andstæðurnar innan þess hóps kjósenda í Borgarfjarðarsýslu, sem sendir hann á þing. Þessir menn búa bæði til sjávar og sveita. Atvinnuhættir þeirra eru ólíkir. Hagsmunir þeirra rekast víða á. En yfirgangsstefnan á Akranesi og afturhaldssemi nokkurra bænda uppi í hjeraði hafa bygt þá brú milli þessara manna, sem leið hv. þm. hefir legið eftir inn í þingsalinn.

Hvar sem hv. þm. kemur við sögu, gægjast fram hinar furðulegu mótsetningar í fari hans, orðum og athöfnum. Sjálfur er hv. þm. og vill vera bóndamaður, vinnusamur, sparsamur og óbrotinn í framgöngu. Ef hv. þm. hefði skilið sjálfan sig, myndi hann hafa skipað sjer í flokk með bændum, en móti óhófsstjettum landsins. En hlutskifti hans hefir orðið að vinna í bandalagi við óhófssömustu eyðslumennina, togaraeigendur, kaupmenn, húsabraskara og aðra þvílíka. Í afstöðu sinni til hinnar pólitísku flokkaskiftingar í landinu gengur þessi hv. þm. blindandi gegn sinni eigin lífsskoðun.

Önnur mótsögn kemur fram í viðhorfi hv. þm. til áfengismálanna. Sjálfur er hann eindreginn bindindismaður. Hann hefir rótgróna óbeit á áfengisnautn. Auðvitað ætti hann að standa með þeim mönnum, sem berjast gegn áfengisbölinu í landinu. En hvað gerir hv. þm.? Hann gerist samherji drykkjustjettarinnar í landinu. Sje athugað, hverjir hafa frekast fram gengið í liði andbanninga, sjest, að þeir eru svo að segja allir í Íhaldsflokknum. Og blöð íhaldsmanna standa jafnan á öndverðum meiði við bannið og bindindisstarfsemina í landinu. Síðast er þess að minnast, að nálega öll blöð íhaldsins hafa uppnefnt löggæslumenn landsins og óvirt þá eftir megni, aðeins í hefndarskyni fyrir það, að opinber ofdrykkja á nú erfiðara uppdráttar en áður.

Hv. þm. er í sínu einkalífi sparsamur í orðsins þrengsta skilningi. En hann er pólitískur bandamaður þeirra, sem stórfeldast gáleysi hafa sýnt í meðferð á fje ríkisins. Hann sjer eftir hverjum eyri til menningar í landinu. En hann lagði glaður blessun sína yfir fjáraukalögin miklu og alt það hóflausa bruðl, sem þá átti sjer stað, enska lánið, kaup Eggerts Claessens, töp hv. þm. N.-Ísf. á útibúi Landsbankans á Ísafirði, þegar miljón var afskrifuð á einu ári. Músarholusýnin gildir um alt hið litla, en gáleysið og óstjórnin um alla stóreyðslu hjá samherjum hans í bæjunum.

Þessi tvískiftingur í fari hv. þm. veldur því, hve hæfileikar hans, sem vel gætu minni verið, verða að litlum notum. Eitt glegsta dæmið er framkoma hans í landhelgismálum. Hv. þm. hefir ávalt látið sem honum væri mjög umhugað að auka landhelgisgæsluna. En á þingi í fyrra, þegar koma átti í veg fyrir hinar hneykslanlegu skeytasendingar til togaranna, skipaði hv. þm. sjer í lið með þeim mönnum, sem litla vinsemd sýndu frv. Í sambandi við það mál fór aðeins fram lítill þáttur úr pólitískri raunasögu hv. þm. En hv. þm. er aldrei sjálfum sjer samkvæmur. Honum er líkt farið og íhaldsklerkinum, sem sagt er frá í Alþingisrímunum. Hann gekk fram í tvennu og barðist á móti sjálfum sjer. Þessi tvíklofningur í persónu hv. þm. Borgf. gerir hann að ósannsöglasta manninum í sínum flokki, og er þá mikið sagt. Alt stjórnmálalíf hans er eitt öfugmæli. Þegar persónuskoðun hans bendir á, að hann muni styðja hófsemi og áfengisaðhald í landinu, þá lendir þunginn af aðgerðum hans í vogarskál með ofdrykkju og slarki. Sparnaður hans í einkalífi og ræðum verður hlægileg fjarstæða, þegar hann styður til valda í þjóðfjelaginu verstu eyðsluklær og óhófsseggi. Yfirlýst óbeit hans á tildri verður að hræsnisfullum ósannindum, þegar sami maður notar þingvald sitt til að koma til valda og í húsbóndaaðstöðu yfir sjer allra grunnfærustu tildurskjátum samtíðarinnar. Hv. þm. mun vera áreiðanlegur til orða og æðis heima á Akranesi, en sú hlið á eðli hans er jafnfjarri þeirri landspólitík, sem rekin er af Mbl.-liðinu með viljalausum stuðningi hans, eins og norðurskautið frá pólstjörnunni.

Skal jeg svo snúa mjer að einstökum atriðum í átölum hv. þm. í garð stj.

Fyrir nokkrum dögum kom til mín einn af starfsmönnum stjórnarráðsins og spurði mig, hvort rjett væri að leyfa þessum hv. þm. aðgang að ýmsum plöggum í stjórnarráðinu, sem enn eru ekki komin til reikningshaldara. Jeg sagði strax, að það væri sjálfsagt. Mjer kom þá ekki til hugar, að hann mundi nota aðstöðu sína til þess að gefa rangar og villandi upplýsingar og nota þetta til blekkinga um almenn mál. Það er bert, að hv. þm. fer rangt með sumt af því, sem í reikningunum stendur. Stafar það að líkindum fremur af ókunnugleika og misskilningi en vísvitandi viðleitni til rangfærslu.

Hv. þm. þótti stj. hafa gert sig seka um óhóflega eyðslu, einkum í sambandi við skólamál. En aðstaða hans var önnur, þegar samherjar hans, sællar minningar, gerðu samning til 10 ára við Eggert Claessen um að greiða honum 40 þús. kr. á ári, eða 400 þúsund krónur alls fyrir 10 ára starf hans í Íslandsbanka. Um það heyrðist aldrei orð frá hv. þm. En taki stj. nú hundraðasta hluta þeirrar upphæðar, eða 4 þús. kr., og skifti henni í 10 hluti, 400 kr. hvern, milli efnilegra námsmanna, þá rís hvert hár á höfði hv. þm. Borgf. En þetta kemur af því, að aldrei er samræmi í orðum hans og gerðum.

Jeg ætla ekki að þreyta hv. þdm. með því að minnast á alla þá smámuni, sem hv. þm. tíndi til. Hann var óánægður yfir því, að fræðslumálastjórinn hefði fengið 1000 krónur til þess að vinna að undirbúningi nýrrar skólalöggjafar. Jeg er ekki alveg viss um, að fræðslumálastjórinn hafi eytt þessari upphæð, en þó að meira hefði verið, þá hefði því verið vel varið. Og jeg ætla að gleðja hv. þm. með því, að Sigurður Guðmundsson skólameistari hefir einnig unnið að þessum undirbúningi og eytt til þess af ríkisfje 2000–2500 kr. Jeg get fullvissað hv. þm. um, að stj. nagar sig ekkert í handarbökin fyrir það, þó að hún hafi varið fje til þess, að dugandi menn gætu unnið að rannsókn stærstu vandamála þjóðarinnar.

Vegna þeirra hv. þm., sem vit hafa á mentamálum, en það efast jeg um, að hv. þm. Borgf. hafi, vil jeg vekja athygli á því, að mentaskólarnir báðir kosta ríkið yfir 200 þús. kr. árlega, þar af kostar skólinn í Reykjavík ríkið um 150 þús. kr. árlega. Allir heilvita menn sjá, hver geysiupphæð þetta er. Hjer við mentaskólann hefir verið bætt hverjum kennaranum á fætur öðrum, með föstum launum, dýrtíðaruppbót og jafnvel aldursuppbót án þess að minst hafi verið á það við þingið. Það var gert í tíð íhaldsstj. Hv. þm. Borgf. fann aldrei að því. Ef til vill hefir hann ekki tekið eftir því. En þegar varið er 4–5 þús. kr. til þess að láta hina hæfustu skólamenn rannsaka bestu erlendu fyrirmyndir, til þess að geta lagað skólafyrirkomulagið hjer eftir þeim, þá rís hv. þm. Borgf. upp til mótmæla. Sjer hv. þm. ekki, hvað það er afkáralegt að gera veður út af því, þó að varið sje 4–5 þús. kr. einu sinni á mannsaldri til umbóta á þeim stofnunum, sem kosta 200 þús. kr. árlega? Það hlýtur hver sá maður að skilja, sem ekki hugsar um öll mál út frá einhverju músarholusjónarmiði.

Jeg get líka frætt hv. þm. um það, að í frv. því, sem nú liggur fyrir þinginu, er gert ráð fyrir að færa kostnaðinn við mentaskólann hjer úr 150 þús. kr. niður fyrir 100 þús. kr., og að skólinn verði þó öllu betri en áður. Þetta finst hv. þm. víst einskis virði. Og það er af þeirri einföldu ástæðu, að hann ber ekkert skyn á málið, af því það er honum of stórt. Snjáldurmúsin er kvikust í holu sinni.

Á sama hátt telur hv. þm. eftir þær 2500 kr., sem Hermann Jónasson hefir fengið til að undirbúa umbætur á lögreglumálum höfuðstaðarins. Þeim, sem vita, hvert ógrynni fjár lögreglan í Reykjavík kostar, myndi ekki blöskra þó að þessari upphæð hefði verið eytt fyr og fyrveranda lögreglustjóra gefinn kostur á að kynna sjer skipulag þessara mála erlendis. Á stórum fjárhæðum eru ekki lengi að sparast 2500 kr. með bættu fyrirkomulagi. En hv. þm. Borgf. þykir ef til vill engin þörf á að fylgjast með framförum annara landa. Hjer er um það deilt, eins og í Tervani-málinu, hvort Íslendingar eigi að vera naglaþjóð eða menningarþjóð.

Þá átaldi hv. þm. stj. fyrir að hafa greitt prentara, búsettum í Khöfn, dálitla upphæð fyrir að rannsaka ýmislegt viðvíkjandi prentsmiðjum. Ríkið greiðir nú árlega yfir 200 þús. kr. fyrir prentun. Þingið í fyrra mælti svo fyrir, að rannsaka skyldi möguleika til að setja á stofn ríkisprentsmiðju. Stj. bar því skylda til að láta þessa rannsókn fram fara. Hver meðalgreindur maður getur skorið úr því, hvort ekki megi verja 1400 kr. til undirbúnings fyrirtæki, sem árlega veltir 200–300 þús. kr. Sem dæmi um hagnað prentsmiðjanna skal jeg nefna það, að illa stæð prentsmiðja hjer í bænum, sem hv. 2. þm. G.-K. á mikinn hlut í, hefir stórgrætt á ekki stærri bæklingi en skýrslum ríkisgjaldanefndar, og er þó verðlagið þar síst hærra en annarsstaðar. Hver mun þá gróðinn vera af prentun þingtíðindanna, allra eyðublaða landssímans, póstáætlana og alls annars, sem opinberar stofnanir þurfa að láta prenta?

Það er sannarlega alt á sömu bókina lært hjá hv. þm. Borgf. Hann hefði heldur átt að athuga, að þessi rannsókn á prentsmiðjum og prentkostnaði leiðir til þess, að hægt verður að spara svo tugum þúsunda skiftir, og gleðjast yfir því, en að vera að fjargviðrast út af kostnaðinum við að undirbúa þennan sparnað.

Þá taldi hv. þm. Borgf. (PO) það eina af syndum stj., að Stefáni Jóhanni Stefánssyni hefðu verið greiddar nokkur þús. kr. fyrir ýms störf, sem hann taldi sjer ekki kunnugt, hver væru. Jeg skal segja þessum hv. þm., hvernig á þessu stendur. Magnúsi sál. Kristjánssyni ofbauð, hversu málaflutningsmennirnir kröfðust hárrar borgunar fyrir störf sín í þágu hins opinbera — jeg minnist þess t. d., að Jón Ásbjörnsson, sem er einn af stólpagripum íhaldsins, eins og allir vita, tók 5000 kr. fyrir eitt undirrjettarmál. Fjármálaráðherrann gerði því samninga við Stefán Jóhann um að taka að sjer málarekstur fyrir ríkisstj. fyrir ákvæðiskaup. Hefir Stefán Jóhann haft mörg mál með höndum, og fyrst eyðslan er ekki meiri, er jeg hræddur um, að flestum verði það á að taka þetta svo, sem það sýni, hversu miklu hagsýnni núverandi stj. er heldur en fyrirrennarar hennar. Hefði því hv. þm. Borgf. síst átt að vera að minnast á þetta atriði.

Fátt er skemtilegra í ræðu hv. þm. Borgf. en vonska hans út af kaupi Halldórs Júlíussonar sýslumanns. Jeg býst við, að hv. þm. hafi verið með vond gleraugu, þegar hann var að leggja saman auradálka sína, eða að minsta kosti verið eitthvað illa fyrirkallaður. Jeg hygg, að í þeirri upphæð, sem hv. þm. nefndi sem kaup Halldórs Júlíussonar, sje falinn allur kostnaður, sem orðið hefir við rannsókn margra mála, svo sem ýmsar ferðir með vjelbátum út af Hnífsdals- og Menjumálunum, kostnaður við aðstoð við rjettarhöldin, að ógleymdu því fje, sem rann til útlendra rithandarfræðinga fyrir upplýsingar í hinu alræmda Hnífsdalsmáli. Hinsvegar vil jeg upplýsa það, að Halldór Júlíusson hefir ekki tekið nema 30 kr. á dag fyrir rannsóknir sínar í Hnífsdalsmálinu, en fyrirrennari hans fjekk 100 kr. á dag, og hv. 1. þm. Skagf. samþykti þann reikning, með eftirtölum að vísu, en greiddi þó peningana, að því er sjeð verður. (MG: Hvað voru það margir dagar?). Það voru 100 kr. á dag og tekið fram í skjali, sem liggur uppi í stjórnarráði og um þetta fjallar, að ekki væri hægt að gera ráð fyrir minna dagkaupi en 50 kr., af því að það væri taxti málfærslumannanna. Ef þessi rándýri íhaldsmaður hefði starfað að rannsókninni áfram með sömu launum, hefði hann komið til með að hafa svipaðar tekjur og Eggert Claessen, auk þess sem hann hefði haldið sínum föstu launum hjer í Reykjavík. Ef hinsvegar Halldór Júlíusson hefði haft sama kaup, þá hefði það orðið 24 meira en hann hefir haft. Þetta fóstur hv. þm. Borgf. er því ekkert nema rógur, en hv. þm. hefir sennilega ekki vitað betur, eða eins og oft áður látið leiðast til að segja ósatt fyrir flokksheildina. En það má mikið vera, ef hv. þm. Borgf. hefir ekki reiðst Halldóri Júlíussyni aðallega fyrir það, að hann hefir gengið betur fram í að rannsaka glæpamál í herbúðum íhaldsins en ýmsir aðrir. En það er víst, að almannadómur fellir ekki skugga á Halldór Júlíusson nje stj. fyrir það, sem gert hefir verið í Hnífsdalsmálinu.

Þá var hv. þm. Borgf. að áfellast Halldór Júlíusson fyrir að hafa spurt eitt vitnið, hvort það vildi ekki heldur sverja við nafn Pjeturs Oddssonar en við guð. Hv. þm. Borgf. tók það ekki fram, að þetta umrædda vitni var, samkv. eigin játningu þess, nýbúið að ljúga fyrir rjetti í þágu Pjeturs Oddssonar, og jeg verð að segja það, að jeg gef ekki mikið fyrir siðferðisþroska þeirra manna, sem vilja leyfa vitni, sem er nýstaðið að því að ljúga, að sverja við nafn guðs. Og það getur verið, að gamanið fari af hjá þeim rógtungum, sem mest hafa fjargviðrast út af þessu, þegar þeir fara að hugsa um, hvað lá á bak við orð dómarans.

Hv. þm. Borgf. var að áfellast stj. fyrir að halda venju fyrirrennara sinna um að hafa hesta. Það eru mörg ár síðan sú venja skapaðist, að landið ætti hesta, og hefir verið gert með það fyrir augum, að menn af varðskipunum gætu hrest sig upp með því að fara á hestbak, þegar skipin lægju í höfn. Annars finst mjer, sem hv. þm. Borgf. hefði ekki átt að vera að áfellast núverandi stj. fyrir hestahaldið, því að jeg veit ekki betur en að hinn dýrasti hestur, sem landið hefir eignast, hafi verið keyptur í tíð íhaldsstj. af gæðingi Íhaldsflokksins, Þórarni á Hjaltabakka. Þessi hestur var hin nafntogaða „Skjaldbaka“, sem var aðframkomin af fótaveiki þegar íhaldið skyldi við stjórnarráðið. (MG: Og nú er hún hjá framsóknarmanni, sem líkar ágætlega við hana). Skjaldbakan var hölt í alt fyrrasumar. Um notkun þessara hesta er annars það að segja, að fyrirrennari minn, hv. 1. þm. Skagf., notaði Skjaldbökuna og fleiri hesta landsins í síðasta kosningaleiðangri sínum norður í Skagafjörð. Mjer finst, að þetta hafi verið skynsamlega gert af hv. fyrirrennara mínum og hefi hugsað mjer að fara eftir fordæmi hans, og það því fremur, þar sem þeir hestar, er landið á nú, eru miklum mun betri en þeir áður voru, þó að ódýrari sjeu.

Þá mintist hv. þm. Borgf. á það, að stýrimanninum á Óðni hefðu verið borgaðar 9000 kr. í eyðslufje erlendis. Jeg held, að það sje því rjett að koma nánar inn á það mál. Það er á allra vitund, að þessi stýrimaður er mjög hraustur sjómaður og hefir mjög gott orð á sjer í hvívetna. Eftir Forsetaslysið eftirminnilega var hann sendur utan til að kynna sjer björgunarmál. Hann hefir dvalið nokkra mánuði í Danmörku, Noregi, Englandi og Þýskalandi og kynst ítarlega björgunarstörfum þessara landa, svo að hann hefir nú til að bera betri þekkingu á þeim úrræðum, sem nábúaþjóðirnar hafa til björgunar úr sjávarháska, en nokkur annar Íslendingur. Það er gert ráð fyrir því, að þekking þessa manns komi að notum fyrir landið síðar, og þess vegna hefir hann haldið sínu stýrimannskaupi, en þegar því er bætt við útgjöld hans vegna þessarar ferðar, get jeg vel trúað, að sú upphæð komi út, sem hv. þm. Borgf. nefndi. En mjer finst, að þessi hv. þm., þar sem meiri hl. kjósenda hans á bæði líf sitt og afkomu undir sjónum, ætti síst allra að vera að telja það eftir, þegar stj. er að stuðla að því, að aflað sje meiri þekkingar á þessum málum og betri tækja til björgunar. Jeg hjelt sannast að segja, að Forsetaslysið í fyrra hefði átt að verða okkur sú lexía, að menn færu ekki að beita smásálarlegum nirfilshætti, þó að nokkrum krónum væri varið til að bæta úr björgunarmálum okkar, og það hefir ekki verið farið dult með það, að Einar Einarsson hefir verið að kynna sjer björgunarmálin vegna íslenskra sjómanna.

Vegna þess, hve hv. þm. Borgf. var óánægður yfir eyðslu núverandi stj., ætla jeg að lesa honum upp reikning einn frá tíð íhaldsstj., sem sýnir berlega, hversu dýrir sumir trúnaðarmenn hennar voru. Þessi reikningur er frá einum af þeim mönnum, sem íhaldsblöðin hafa mest hrósað og var í erindum landsins í Khöfn 1926. Jeg skal taka það fram, að jeg tek ekki nema einstaka liði. Það er þá fyrst dagpeningar samkv. samtali við dómsmálaráðuneytið, kr. 30.00 pr. dag, frá 11. mars til 18. júní, alls 100 dagar. Þetta gerir samtals 3000 kr. Þá er það bifreiðagjöld í þágu ríkisins, alls 345 kr., og hlýtur það að vera allundarlegt frá sjónarmiði hv. þm. Borgf., að manninum skyldi geta komið til hugar að nota bíla. Næst kemur risnukostnaður með þjórfje upp á 760 kr. Þetta er alveg voðalegt. Maðurinn hefir þjórað og eytt í veislukostnað meiru en hv. þm. Borgf. innvinnur sjer á mörgum vikum. En það er ekki alt búið með þessu. Þessi óstjórn heldur áfram, eins og jeg skal nú færa nokkur dæmi til. Er þá fyrst miðdegisverður fyrir direktör Adolf o. fl. fyrir 120 kr. Næst kemur svo kvöldmatur fyrir verkfræðinga og yfirmenn á Flydedokken fyrir 450 kr. Hlýtur það að hafa verið „óttalegur kvöldmatur“. En ekki batnar enn, því að þá kemur miðdegisverður upp á 180 kr. fyrir yfirmenn frá Brorsen. Og svo kemur enn bannsettur bifreiðakostnaður upp á 280 kr. Síðan heldur slarkið áfram. Nú er það miðdagsverður fyrir inspektör Brorsen fyrir 230 kr., og verð jeg að játa það, að mjer þykir nóg um, ef þeir hafa ekki verið nema tveir, því að þá hljóta þeir að hafa minst notið 30 rjetta og haft nóg af víni.

Litlu síðar kemur kvöldverður fyrir verkfræðinga og yfirmenn á Flydedokken fyrir 210 kr., og næst miðdagsverður fyrir 3 liðsforingja frá flotastöðinni í Kaupmannahöfn fyrir 140 kr. Og loks kemur svo bifreiðakostnaður fyrir 200 kr.

Það er auðsjeð á þessu, að í tíð íhaldsstj. hafa trúnaðarmenn landsins keypt vín, mat og vindla, þó að þeir hafi ef til vill ekki skift við „Tóbaksverslun Íslands“. En jeg vil benda hv. þm. Borgf. á það, til þess að gleðja hans sparsama hjarta, að eftir stjórnarskiftin, þegar sami starfsmaður landsins, sem fyr um ræðir, var í Kaupmannahöfn, kemur reikningur fyrir bifreiðakostnaði, sem er ekki nema 103 kr. Það er því auðsjeð, að sá sparnaður, sem þá var í uppsiglingu hjá núverandi stj., hefir haft mikil áhrif á þennan áðurnefnda trúnaðarmann landsins. Annars las jeg þetta mest upp til þess að sýna fram á, að ef á að fara að skjóta með smáskotum, er af nógum stórskotum að taka frá íhaldstímanum.

Mjer þótti vænt um, að hv. þm. Borgf. skyldi minnast á bílana. Hann fór þó ekki í öllu rjett með og var laus við alla vísindalega nákvæmni. Það er þá fyrst rangt hjá hv. þm., að landhelgissjóður hafi keypt tvo bíla. Hann keypti ekki nema einn bíl, og það með 1000 kr. lægra verði en aðrir urðu að greiða fyrir sömu tegund. En þegar verið er að tala um bíla, getur ekki hjá því farið, að það veki hjá manni endurminningar um dálítið, sem gerðist á síðasta sumri. Jeg ætla þó fyrst, áður en jeg kem að því, að minnast á það, hve hlægilegt það er, þegar íhaldsmenn eru að halda því fram, að landið megi ekki eiga bíla. Það er nú fyrst, að landið hefir átt fjölda marga bíla í mörg úr vegna vegagerðanna. Af hverju? Vegna þess, að vegamálastjórinn veit, að það er ódýrara, eins og rjett er. Og þegar stj. keypti bíla, fyrst og fremst vegna starfsmanna landsins, er verða að fara margar skylduferðir á landsins kostnað, og auk þess vegna gesta landsins. á sinn hátt eins og fyrverandi stj. hesta, var það gert til þess að fylgja sjálfsagðri búmensku í þarfir starfsmanna ríkisins. Jeg minnist þess, hvað mjer ofbauð, þegar jeg þurfti að greiða 14 kr. fyrir bíl með þrjá menn suður í landsspítala. Upp að Vífilsstöðum og inn að Kleppi kostar bílferðin 20 kr., og austur á Eyrarbakka fram og aftur 90 kr. Hversu stórkostlegar upphæðir hafa farið í þessar bílferðir undanfarin ár, sjest best á reikningum ýmsra opinberra stofnana. Eitt árið eyddi vitamálaskrifstofan 1400 kr. í bíla. Jeg skal geta þess, þessu til sönnunar, að 1927 voru greiddar fyrir mannflutninga með bílum 2000 kr. vegna vegamálanna, tæpar 2000 kr. vegna símans og mikið vegna annara deilda. Enda fór svo, eftir að stj. hafði keypt bíl fyrir landið, að Geir vegamálastjóri gerði þetta sama, en hafði skömmum tíma áður greitt 500 kr. fyrir bíla, aðeins er hann var í embættiserindum. Og í þessum sama bíl, sem stj. keypti, hafa verið farnar einar 20 ferðir austur í Flóa, vegna rjómabúsins og annara þarfa landbúnaðarins. Auk þess „vísiteraði” biskup landsins kirkjurnar hjer á Suðurlandsundirlendinu síðastliðið sumar í bifreið, með miklum sparnaði frá því, sem verið hefði, ef hann hefði ferðast á hestum. Það er sjálfsagt, að landið noti sína eigin bíla í slíkum erindum, enda má það undarlegt heita, ef það borgar sig fyrir ýms atvinnufyrirtæki, eins og t. d. Kveldúlf, að hafa marga bíla, en ekki fyrir landið, sem hefir mörg erindi að rækja og marga starfsmenn, er það þarf að flytja á milli. Enda dettur víst engum í hug, að hætt verði að láta landið eiga bíla, þó að stjórnarskifti verði. Þetta er sjálfsögð ráðdeild, borið saman við rándýra leigubíla. Mjer kemur í hug, það sem einn íhaldsmaður sagði við mig út af hinum svokallaða stjórnarbíl. Á honum var sem táknmynd fríðleiksdís, en það sagði íhaldsmaðurinn, að myndi verða tekið við stjórnarskifti og íhaldsskarfurinn settur í staðinn. Þetta sýnir, að þessum manni kom ekki annað til hugar en að bílarnir yrðu notaðir áfram.

Annars get jeg ekki komist hjá því, þegar farið er að ræða um bíla á annað borð, en að minna á eitt af stærstu siðferðisbrotum íhaldsflokksins. Jeg á hjer við hið alræmda rógbrjef, þar sem 5 þm. Íhaldsflokksins, og það sjálf miðstj. flokksins, ljetu sjer sama að flytja staðlausar Gróusögur um þessa bílaeign landsins í vjelrituðum einkabrjefum út um alt land. Þess eru ekki dæmi, að nokkur flokksstj. hafi lagt sig niður við að rita auðvirðilegar slúðursögur eins og þar birtust. Jeg get nefnt það sem dæmi, að í einu þessara rógbrjefa Íhaldsins er ennfremur sagt, að forsætisráðherra hafi beðið skipstjórann á „Fyllu“ að halda uppi risnu fyrir sig. Þetta er sú svartasta lygi, sem nokkru sinni hefir verið sögð. Forsrh. hefir aldrei dottið í hug að fá „hyllu“ til að liggja hjer til þess að taka á móti gestum fyrir sig. Og allir menn vissu, að þetta voru staðhæfulaus, visvítandi ósannindi. Miðstjórn Íhaldsins vissi það jafnvel og aðrir. Þess vegna eru þessi rógburðarbrjef miðstj. íhaldsins einhver augljósasti vottur um þá botnlausu spillingu, sem gagnsýrir leiðtoga flokksins. Jeg held, að þessi söguburður miðstj. íhaldsins sje eitthvert mesta níðingsbragðið, sem kunnugt er um í pólitískri sögu landsins, að lauma þessum rógburði út til fylgismanna sinna með þeirri leynd, sem hjer átti að vera. Þeim getur ekki dottið í hug, að helstu leiðtogar í næststærsta flokknum sjeu þeir menn, sem þetta brjef bar raunverulega vott um. Jeg verð þó að segja það þessum hv. þm. til hróss, að þeir virðast hafa hætt þessum brjefaskriftum, a. m. k. um stundarsakir, við það, að brjefin voru birt og þeim bent á, hve ósæmilegt athæfi þeirra væri.

Þá var hv. þm. Borgf. gramur út af því, að stj. sýndi hans kjördæmi þann heiður að koma þangað með nokkra mæta útlendinga til þess að sjá náttúrufegurðina í Borgarfirði, sem hv. þm. skortir ef til vill sálargáfur til að meta! Því er einu sinni svo háttað, að hjer á Íslandi er það miklu betra og skynsamlegra að sýna góðum gestum eitthvað af náttúru landsins heldur en að hafa veislur eins og þá, sem jeg las reikninga um frá íhaldstímabilinu. Íslendingar geta tæplega enn sem komið er unnið landi og þjóð nokkurt verulegt gagn út á við með veislukynningu. En náttúrufegurð landsins, ekki síst á vordögum, getur orðið svo hugstæð smekkvísum gestum, að þeir beri jafnan síðan hlýjan hug til Íslands og íslensku þjóðarinnar. Svo stendur á um þessa gesti, sem var verið að sýna lítinn hluta af landinu, að það eru menn, sem íslenska þjóðin hefir stundum — og ekki síður íhaldsþm. en aðrir — leitað til í vandræðum sínum. Jeg get t. d. sagt það, að þegar fyrv. stjórnendur voru í vandræðum með Íslandsbanka, að hann ræki ekki upp á sker, þá varð það úrræði, að einn af núv. hv. þm. fór til eins af þessum dönsku nefndarmönnum, sem er sósíalisti, og fjekk hann til að bjarga bankanum úr hengingarólinni vegna 4–5 milj. kr. skuldar í Danmörku. Þessi umræddi maður hafði komið til Íslands og mat fegurð þess og auðsuppsprettur.

Viðvíkjandi öðru fyrirtæki hafa Íslendingar látið svo lítið að leita hjálpar þeirra manna, sem hv. þm. Borgf. telur eftir, að skyldu fá að sjá hans fagra hjerað tvo eða þrjá daga í vorblíðunni. Hjer er afarstórt uppskipunaráhald, sem sumir kalla „hegra“. Sú stóra vjel var keypt hingað með hjálp útlendinga, sem eru í þessari nefnd og greiddu götu Íslendinga til að útvega þeim verulegan hluta af fjármagninu. Og slíkt hefir oft komið fyrir endranær. Í fyrra samþ. Alþingi og Reykjavíkurbær ábyrgð fyrir Jóhannes Jósefsson, sem er nú að byggja hótel, stórnauðsynlegt fyrir bæinn og landið. Hann fer utan með ábyrgðina og fær aðstoð til nægilegrar fjáröflunar, sem skifti nokkrum hundruðum þúsunda, frá einum þessara manna, sem hv. þm., var að telja eftir bílferð um Borgarfjörð. Hv. þm. Borgf. er kannske ekki viss um, að það sje nauðsynlegt að byggja hótelið, en allir sæmilega mentaðir menn álíta það nauðsynlegt. Og þá er ekki hægt að neita, að það er varla goðgá að sýna mönnum, sem ótilkvaddir greiða götu íslenskra athafnamanna í verulegum atriðum, þá kurteisi, sem annars tíðkast hjá mentuðum mönnum. En ef landinu væri stjórnað í anda hv. þm. Borgf., þá myndi grútarháleistalífsskoðunin gagnsýra alla framkomu Íslendinga út á við og inn á við.

Ein af þessum vanþekkingarvillum hv. þm. er það, að hann telur landhelgissjóð kosta þessa umræddu ferð í Borgarfjörð. (PO: Þetta er þó fært á reikning landhelgissjóðs). Nei, hv. þm. veit bara ekkert í því, sem hann er að þvæla hjer um. Af því að mjer skildist hv. þm. bera mjer á brýn eyðslusemi sem nefndarmanni, vil jeg segja fáein orð í fullri meiningu um það, hvernig hans aðstaða hefir verið til fjárbruðlunar í þessari nefnd.

Þegar þessi nefnd var sett á stofn eftir sambandslagasamningana 1918, þá lentu í henni þrír af vinum og samstarfsmönnum hv. þm. Borgf., tveir af þeim flokksbræður hans, en einn þeirra er nú dáinn og var sama sem í Íhaldsflokknum síðustu ár sín. Starfið byrjaði með því, að þessir menn skömtuðu sjer sjálfir með hjálp Jóns heitins Magnússonar 2000 kr. í laun fyrir að vera í nefndinni, hvort sem þeir störfuðu hjer heima eða fóru utan. Auk þess kom allur ferðakostnaður. Tíminn beitti sjer af alefli móti þessum bitlingi handa brjóstvinum sparsemdarmannsins af Akranesi, og svo fór, að bein þetta var á fjárlögum lækkað niður í 500 kr. á mann. Hvað gerðist þá? Þá fara allir þessir pólitísku samherjar hv. þm. Borgf. í skaðabótamál við landið. Að vísu töpuðu þeir Jóh. Jóhannesson, Einar Arnórsson og Bjarni frá Vogi þessu beinamáli sínu, en þeir bættu sjer skaðann eftir það með því að smyrja á reikningana, þegar búið var að lækka launin. Það tókst einum svo vel a. m. k. eitt árið, að upphæðin varð 5000 kr., en annars oft 3000–4000 kr. Þeir reiknuðu sjer venjulega 50 kr. danskar á dag, meðan þeir voru að heiman. Fyrir minn tilverknað var það tekið í fjárlög í fyrra, að dagkaup fyrir þessi nefndarstörf skuli niður falla, en gera ráð fyrir 1500 ísl. kr. á mann, þegar siglt væri til Danmerkur, sem er nokkurnveginn upp í hóflegan ferðakostnað. Þar sem hv. þm. veit, að jeg er fulltrúi framsóknarmanna í nefndinni og að jeg hefi þurkað burtu kaupið, sem ekki tókst áður, og stilt í hóf öðrum kostnaði, þá er slíkt nýlunda. Það mun ekki til eitt einasta dæmi úr íslenskri þingsögu, að íhaldsmaður hafi gert launað starf, sem hann vann að, að ólaunuðu starfi. Hið gagnstæða hugarfar flokksbræðra hv. þm. sjest bæði á þessum gömlu skaðabótamálaferlum íhaldsnefndarmanna, og þá ekki síður af hinum óvirðulegu málaferlum, sem íhaldsflokkurinn píndi hv. 1. þm. Reykv. til að hefja síðastliðið sumar út af bankaráðsbitlingnum, sem hann tapaði með guðs dómi við hlutköstun. Hann tapaði, eða öllu heldur Íhaldsflokkurinn, þessu beinamáli nú alveg nýverið.

Jeg býst við, að hv. þm. Borgf. geti rent grun í, að þegar eyðsluklóin mesta í stjórnarflokknum að hans áliti, núverandi dómsmrh., er ekki kröfuharðari fyrir sjálfan sig en hann hefir verið í þessu máli, eða yfirleitt í fjárkröfum fyrir sjálfan sig, þá muni slíkt fordæmi, í samanburði við fyrirrennara hans, ekki leiða út í fjárdráttarspillingu hjá stjórninni.

Hv. þm. var að tala um kostnaðinn við það, að Sigurður Heiðdal kynti sjer vinnuhæli í Noregi og meðferð í fangahúsum, áður en hann tók við forstöðu fangahússins og vinnuhælisins á Eyrarbakka. Jeg hefði haft gaman af, ef hv. þm. hefði verið staddur á fundi austur í Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu í haust, þegar einn af leiðtogum Mbl. var að „útbásúnera“ það, að það væri áreiðanlega ekki hægt að koma upp fangelsi hjer á landi á ný fyrir minna en 300–400 þús. kr. En það er mála sannast, að þessa eyðslu hefir ekki þurft, því að þetta hús, sem landið keypti ófullgert, kostaði ekki nema 30 þús. kr. Og það, sem af er viðgerðinni, var innan við 20 þús. Nú er þar rúm fyrir fleiri fanga en hægt er að hafa í fangelsinu í Reykjavík.

Jeg ætla að minnast svolítið á fangamálið um leið, úr því að hv. þm. gaf tilefni til þess, og segja honum það, að af þeim tiltölulega mörgu ávirðingum hans flokks í hinum ýmsu greinum starfrækslu, þá er kannske engin svartari en löggæslan og meðferð fanga og viðhorfið til þeirra. Það er nú svo komið, að fyrir liggja frá lækni fangelsisins, frá prestinum, frá landlækni og lögreglustjóranum í Reykjavík hinar óskaplegustu lýsingar á fangelsinu. Jeg býst við, að ef þær lýsingar væru þektar erlendis, mundum við í þessu efni verða settir fullkomlega á bekk með miðaldaþjóðum. Hvað eftir annað fram á þennan dag hefir orðið að sleppa föngum burt og framkvæma ekki hegningu, af því að læknirinn — einn af prófessorum háskólans — telur fangelsisvistina hjer í Rvík svo heilsuspillandi, að hún geti eyðilagt hrausta menn á tiltölulega stuttum tíma með ólofti, ódaun og sóðaskap. Það stendur meðal annars í skýrslunum, að saurinn verði að vera inni hjá föngunum mikinn hluta sólarhringsins. Og klefarnir, sem eru nálega gluggalausir, eru fúlir og rakir og fullir af óþrifnaði. Það er því hvorttveggja, að fangahúsið er svo lítið, að þeir, sem hafa átt að taka út hegningu fyrir 2–3 árum, geta gert gys að dómum landsins og framkvæmd Hegningarmála eins og hún hefir verið, þar sem ekki er hægt að fullnægja dómum, vegna þess að fangelsisrúm er ekki til, og hitt, að fangelsið er svo óheilnæmt, að marga verður að taka skjótlega út aftur af heilbrigðisástæðum.

Jeg ætla að sýna hv. þm. Borgf. ennfremur, hvað eyðsluhneigð mín í fangelsismálinu er á háu stigi. Jeg býst nefnilega við að gera ráðstöfun til þess, að landið eyði nokkrum þúsundum króna til þess að stækka glugga fangelsisins, þurka úr því rakann og taka óþrifnaðinn burt úr garðinum, gera klefana þannig úr garði, að þjóðfjelagið geri ekki þá borgara sína heilsulausa, sem það dæmir til hegningar. Jeg býst við, að á einhverjum framtíðareldhúsdegi verði af grútarsálum Íhaldsflokksins haldnar ræður til að ámæla mjer fyrir þetta. En jeg vil gleðja hv. þm. með þeirri sparnaðarviðleitni að láta standa óhreyfða svo sem tvo klefa, til minningar um þá tvo lögfræðinga landsins, sem mest hafa haft með löggæsluna að gera síðan Ísland varð fullvalda ríki. Hv. þm. Borgf. getur þá, ef hann síðar kynni að verða ráðherra, reikað inn í þessa klefa og glatt sig við þessar leifar frá gullöld íhaldsins í landinu!

Af því að jeg hefi talað nokkuð lengi og geri ráð fyrir, að margir vilji taka til máls í kvöld, ætla jeg að geyma nokkuð af minni ræðu, sem er svar til hv. þm. Vestm. og hv. 1. þm. Reykv.