27.04.1929
Efri deild: 55. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Björn Kristjánsson:

Jeg hefi leyft mjer að koma hjer fram með nokkrar brtt. á þskj. 430. Eru þær nokkurskonar framhald af afskiftum mínum af skyldu máli, er lá fyrir þinginu 1921, ríkisveðbankamálinu. Ríkisveðbankamálið var mjög fast sótt á því þingi, og svo fast, að örðugt var að koma breytingum að til bóta. Það átti að gera afarmikið með þeim banka fyrir landbúnaðinn, og það átti að gera fljótt. Og hver varð svo árangurinn? Hann varð sá, að á þessa bankastofnun hefir ekki verið minst í 7 ár, hvað þá að hún hafi verið látin taka til starfa.

Og orsökin er sú, að þegar þingvíman fór af mönnum, áttuðu þeir sig á, að ein stofnun í viðbót við þær stofnanir, sem fyrir voru, gat ekkert aukið gagn gert fyrir landbúnaðinn, og því ekki ómaksins vert að láta hana taka til starfa. Hafa þó verið tekin erlend lán síðan til kaupa á veðdeildarbrjefum. Þegar veðlánabanki er settur á stofn. eða veðdeild, þá liggur fyrst fyrir að athuga, fyrir hvaða fje stofnunin ætlar að kaupa veðdeildarbrjefin af lántakendum, og hvað það fje kostar. Að vísu er gerð ráð fyrir í frv., að taka megi 3 milj. kr. lán til þess erlendis. En er það fje fáanlegt, og verður það fje ódýrara bændum en það fje, sem Landsbankinn hefir til umráða, sparisjóðsfje um 33 miljónir króna?

En fyrir hvaða kjör getur ríkið fengið lán erlendis til veðdeildarbrjefakaupa? Jeg vænti, að hæstv. stjórn geti nú gefið upplýsingar um það.

Þá er önnur spurning, sem þarf að leysa úr, og hún er sú: Hvað margar jarðir eru það á Íslandi í einstakra manna eign, sem enn eru óveðsettar veðdeild Landsbankans, ríkissjóði, söfnunarsjóði eða ræktunarsjóði? Jeg hygg að þær sjeu fáar. Og ef þær eru fáar, þá er þessi veðdeildarstofnun ónauðsynleg.

Þeir, sem tekið hafa lán í veðdeild Landsbankans, hafa allir greitt þau afföll af brjefunum, sem giltu á hverjum tíma. Fjöldi manna hefir 2-3 veðdeildarlán á jörð sinni. Þeir taka viðbótarlán, þegar þeir hafa greitt nokkur af fyrri veðdeildarlánum sínum. Þeir vilja því eðlilega ekki borga þessi lán upp og flytja sig yfir í aðra veðdeild og taka þar nýtt lán og svara ef til vill 11% afföllum af því, eins og nú er gert. Það segir sig sjálft. Veðdeildarviðskifti bænda halda því áfram við veðdeild Landsbankans, þó þessi veðdeild verði sett á stofn.

Um söfnunarsjóðslán er það að segja, að allir kjósa helst að fá þar lán vegna þess, að hann heimtar enga árlega afborgun og að vextir eru þar viðunanlegir. Enginn fer því að flytja sig þaðan yfir í nýju veðdeildina.

Þá getur hún ekki heldur vænst þess, að þeir, sem skulda ríkissjóði út af kaupum á jörðum, fari að flytja sig yfir í hina nýju veðdeild, því þeir borga aðeins 4% vexti af þeim og afborganir á 28 árum. Og tæplega fara þeir, sem lán hafa fengið í ræktunarsjóði, að flytja sig. Hin nýja veðdeild getur því alls ekki búist við því að fá viðskifti við aðra en þá, sem hafa óveðsettar jarðir, en eins og jeg hefi áður sagt, munu vera sárafáar jarðir óveðsettar í eigu einstakra manna, og ef þær eru ekki veðsettar nú, þá myndu þær tæplega verða veðsettar, þó þessi nýja veðdeild yrði sett á stofn.

Menn tala um ógreiða afgreiðslu í veðdeild Landsbankans nú. Ef svo er, þá ætti ekki að þurfa að stofna nýja lánsstofnun til að kippa því í lag.

Á meðan jeg var bankastjóri, var það föst regla að afgreiða jarðarveðlán daginn eftir að lánsskjölin komu í bankann, ef skjölin voru í lagi, enda var það regla þá og mun vera enn að láta jarðarveðlán sitja fyrir öðrum lánum. Sama er reglan í söfnunarsjóði.

Veðdeildarstofnun þessi, samkv. III. kafla frv. þessa, er því gersamlega óþörf og þýðingarlaus. Hún er beinlínis til tjóns, þar sem taka á meiri hluta viðlagasjóðslánsins henni til tryggingar, alveg að óþörfu, enda er hann frá stofni ætlaður til alls annars.

Þar sem á að draga meiri hlutann af viðlagasjóði landsins inn í þetta fyrirtæki, verð jeg að minnast á hann.

Viðlagasjóðurinn er, eins og hver annar varasjóður, fyrst og fremst ætlaður til þess að borga með honum reikningshalla, ennfremur tjón vegna ábyrgða, sem ríkissjóðurinn hefir tekið upp á sig fyrir einstaka menn og stofnanir. Og siðferðilega og viðskiftalega sjeð má telja hann veðsettan fyrir þessum ábyrgðum.

Þá er honum ennfremur ætlað að hjálpa í neyð, ef hallæri ber að höndum yfirleitt eða í einstökum hjeruðum.

Kunnugt er, að ríkissjóðurinn hefir tekið upp á sig fleiri tugi miljóna í ábyrgðum. Í árslok 1927 var viðlagasjóðurinn einar 2027405,31 kr. Af honum á nú að verja kr. 1250000,00 til tryggingar veðdeildinni, og handa bústofnslánadeild á að verja kr. 700000. Það er samtals 1950000 kr. Er sjóðurinn þar með mikið meira en tæmdur, þar sem skuldabrjef einstakra manna og fyrirtækja, sem má verja til þessa, nemur aðeins 1666474 kr. Og í hverju liggur svo þessi viðlagasjóður, sem ætlaður er til þess, sem jeg áður nefndi? Hann liggur að miklu leyti í meira og minna óvissum skuldabrjefum einstakra manna og fyrirtækja, eins og áður er sagt. Yfir 11/2 milj. kr. standa í þesskonar dóti. Viðlagasjóðinn virðist mjer verða fremur að auka en minka, eftir því sem hann tekur að sjer meira af ábyrgðum. Og auðvitað á hann að liggja í handbæru fje, en ekki að vera banki fyrir allrahanda þörf og vafasöm fyrirtæki.

Kem jeg þá að sjálfum brtt., sem jeg óbeint hefi verið að tala um; er 5. till. aðalbrtt. eins og sjá má. Hinar eru flestar afleiðing af henni.

6. brtt. leggur til, að stofnaður verði einn eða fleiri veðdeildarflokkar innan veðdeildar Landsbankans, sem eingöngu sje ætlað til lána út á jarðarveð. Og eins og jarðarveð hafa setið í fyrirrúmi áður, er lán voru veitt, eins geng jeg út frá, að Landsbankinn láti bændur sitja í fyrirrúmi með kaup á verðbrjefum þessara flokka fyrir sparisjóðsfje. Og þar sem einmitt er gert ráð fyrir þessu, er síðustu veðdeildarlög voru samþykt 1928, að hafa flokka með mismunandi vöxtum, þarf engin ný lög til þess, en aðeins reglugerð fyrir þann flokk eða flokka. Með þessu móti tel jeg bændur betur setta en þó ný veðdeild væri stofnuð, með nýjum óþektum brjefum, sem enginn veit nú, hversu útgengileg verða við hliðina á þektum veðdeildarbrjefum, sem verið hafa á markaðnum í 28 ár. Og með þessu kemst Alþingi hjá að eyða 1250 þús. kr. af viðlagasjóðnum til tryggingar þessari nýju veðdeild.

Brtt. við 3. gr. er afleiðing af breytingunni við III. kafla. Sömuleiðis breytingin við 8. gr.

Þá legg jeg til, að orðið „erlendir“ falli úr 11. gr. Jeg sje enga ástæðu til að rígbinda stjórn við að taka slík lán erlendis, í staðinn fyrir að gera tilraun með að bjóða slík lán út hjer; ætti að fara að venja þjóðina við að kaupa verðbrjef af því tægi við útboð.

Þá hefi jeg leyft mjer að gera brtt. við 4. málsgr. 5. gr., um að færa laun aðalbankastjóra úr 12000 kr. niður í 8000 kr., með 500 kr. hækkun 3. hvert ár upp í 10 þús. kr. Stofnun þessi verður fátæk til að byrja með og dýr í rekstri yfir höfuð. Hinsvegar engin trygging, að hæfur maður veljist í stöðuna, þar sem aðalreglan hjer virðist vera að velja menn í bankastjórn, sem aldrei hafa nærri verslun eða bankastörfum komið, enda fer árangurinn þar eftir. 8000 kr. laun ættu að vera næg byrjunarlaun auk dýrtíðaruppbótar, og þakkað mundi jeg hafa fyrir að fá slík laun, meðan jeg var við Landsbankann, sem hafði aðeins 6000 kr. laun til 1. okt. 1918, eða fram yfir styrjöldina miklu, og naut engrar dýrtíðaruppbótar. 7. brtt. er afleiðing af 5. brtt. Ef nú brtt. mínar verða samþ. um III. kafla, þá flýtur þar af, að taka verður upp greinar þær úr III. kafla, sem vísað er til í bústofnslánadeildarkaflanum, og mun jeg sjá um að koma með þær brtt. við 3. umr. Mjer þótti ekki taka því að leggja verk í að koma með brtt. við þann kafla, fyr en jeg sæi, hvort hv. deild vildi fallast á að fella veðdeildarkaflann í burtu. Jeg hefi ekki hugsað mjer að tala um bústofnslánadeildina að sinni. Jeg lít svo á, að þar sje eingöngu um hjálparstofnun að ræða, þar sem veðin, sem þar getur um, eru ekki bankahæf. Sú stofnun getur því ekki talist bankastofnun. Bankar lána nú 40% út á hús og 50% út á jarðir eftir matsverði. Þetta er því hjálparstofnun, þar sem lána á út á ótrygt kýrveð 50% til bænda, sem jeg skal ekki telja eftir, því fátt er bændum þarfara gert en að hjálpa þeim til að auka bústofn þeirra. En happasælla teldi jeg að ala bændur upp til þess, að geta notið lánstrausts sjálfir með óveðsettum eignum sínum en að færa það lánstraust yfir á kýrnar. En um það mál þarf að tala lengi og vel, áður en því er ráðið til lykta, svo það geti orðið að tilætluðu gagni.