11.04.1929
Neðri deild: 42. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í B-deild Alþingistíðinda. (631)

16. mál, fjárlög 1930

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. 1. þm. Rang. hefir vikið að tveimur málum, sem varða hans hjerað og mitt ráðuneyti. Annað er járnbrautarmálið. Eins og jeg gat um í fyrradag, þá hafði mjer verið sýnd fyrirspurn um það mál, er hv. 1. þm. Árn. (JörB) hafði hugsað sjer að bera fram. Og nú er komin fram fyrirspurn frá hv. 2. þm. Rang. Gefst mjer því tækifæri til að ræða þetta mál síðar og get því að mestu leitt það hjá mjer nú. Jeg vil þó geta þess, að jeg finn smáar sakir á mjer hvíla út af því, að jeg hefi tafið fyrir járnbrautarmálinu eða neitað Titan um sjerleyfi. Um þetta mál hafa mjer borist áskoranir. Og meðal þeirra er ein frá 5 hv. þm. á járnbrautarsvæðinu, sem jeg, með leyfi hæstv. forseta, vil lesa upp. Hljóðar sú áskorun svo:

„Að veita fossafjelaginu Titan sjerleyfi til þess að virkja Urriðafoss í Þjórsá, svo framarlega sem fjelagið færir sönnur á, að dómi landsstjórnarinnar, að það hafi nægilegt fjármagn að sínum hluta til þess að leggja járnbraut frá Reykjavík að Þjórsá, með þeim hraða, sem sjerleyfislög ákveða“ (EJ: Þetta bjargar engu!). Það getur vel verið, að það bjargi mjer ekki alment, en það bjargar mjer áreiðanlega gagnvart hv. þm., sem var einn af þeim, sem hafa undirritað þetta. (EJ: Það var skorað á mig að gera það). Þessi áskorun með nafni hv. 1. þm. Rang. er vel geymd uppi í stjórnarráði, Og jeg held, að þetta mál hafi algerlega farið eftir óskum hv. þm. samkv. áskorun þessari. Annars eru nú skoðanirnar ærið skiftar í þessu máli, og jeg veit, að stj. fær víða fyrirgefningu á því að hafa eigi veitt þetta sjerleyfi. Og jeg er sannfærður um það, að í framtíðinni verð jeg síst dæmdur fyrir afstöðu mína til þessa máls.

Hitt er vatnamálið. Hv. þm. (EJ) gat þess nú að vísu, að hann áfeldi ekki stj. fyrir það mál. En hann óskaði eftir því, að stj. hefði beitt sjer fyrir fjárframlög til þess. Um þetta er nú það að segja, að áður en vatnafjelagið sneri sjer til stj. um þetta mál, hafði stj. lagt fyrir vegamálastjóra að gera þessa rannsókn. Fór hann svo utan til þess að kynna sjer þetta. En vegna hins harða vetrar úti gat hann ekki athugað þetta eins og skyldi. Jeg veit þó, að hann hefir dregið að sjer merkileg gögn um þetta mál. Nú er hann farinn austur til frekari athugunar og undirbúnings. Hv. 1. þm. Rang. hafði því rjett að mæla, er hann kvað stj. ekki ásökunarverða í þessu máli. Það er nú aðeins vika síðan vegamálastjóri kom úr utanför sinni. Um árangurinn liggur því enn eigi fyrir nema munnleg vitneskja. Má því upplýsa þetta betur síðar.

Hv. þm. gat þess að síðustu, að hann vonaði, að stj. veitti Rangæingum lið í þessu máli. Jeg get sagt það, að jeg vil gjarnan gera það.