11.04.1929
Neðri deild: 42. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í B-deild Alþingistíðinda. (633)

16. mál, fjárlög 1930

Jón Auðunn Jónsson:

Að vísu er enn mikið til af góðum sprekum til að kasta á eld þann, sem nú er gerður að stj. En þar sem umr. eru nú þegar orðnar nokkuð langar, mun jeg tína fátt eitt til viðbótar því, sem aðrir hafa gert.

Það var víst um það, að mörgum hnykti við, er þeir heyrðu ræðu hæstv. dómsmrh. um Tervani-málið, vörn hans við ásökunum hv. 2. þm. G.-K. Að vísu voru menn ýmsu vanir frá hæstv. ráðh. frá því í gamla daga. En þó tók nú út yfir. Má þar um segja, „að ill var þín fyrsta ganga, en því verri munu þær verða, sem fleiri eru“. Hæstv. dómsmrh. hefir nú verið hrakinn úr hverju víginu eftir annað í þessu máli. En síðasta vígið, sem hann velur sjer, er það að skjóta sjer á bak við verjandann í Júpitersmálinu. Auðvirðilegri frammistöðu get jeg ekki hugsað mjer hjá nokkrum dómsmrh. Einu sinni var það nú venja hæstv. dómsmrh. að kalla þennan málfærslumann „Lárus litla“. En nú, þegar hann er orðinn síðasta brjóstvörn hæstv. dómsmrh. í þessu máli, þá held jeg, að hann ætti að snúa uppnefninu við og kalla hann nú „Stóra-Lárus“. Svo mikið finst honum nú til um þennan málfærslumann. Mjer skilst, að ef hæstv. dómsmrh. hefði viljað rekja málið hlutdrægnislaust, þá hefði hann líka átt að lesa upp sóknarskjöl málsins. En hann mintist ekki á þá hlið málsins. Þá hefir hæstv. ráðh. heldur eigi lagt það niður, sem honum var tamt áður, en það er að bera hæstarjett sökum. Hann sagði, að Lárus Jóhannesson hefði sannað sakleysi skipstjórans á Júpiter, sem hæstirjettur dæmdi sekan. Að segja þetta er sama sem að segja, að hæstirjettur hafi dæmt rangan dóm. Það vill nú koma fyrir, þegar komið er í öngþveiti um að verja rangt mál, að þá er gripið til allra meðala, leyfilegra og óleyfilegra. En drengilegt er það ekki. Og það er í hæsta máta ódrengilegt og í alla staði ósæmilegt og á engum rökum bygt að bera hæstarjett sökum í þessu máli. Öll framkoma hæstv. dómsmrh. út á við hefir borið hinn ríkasta vott um undirlægjuhátt og heigulskap. En inn á við er hið gagnstæða uppi á teningnum; þar er beitt óbilgirni og hlutdrægni. En það er eitt atriði í þessu máli, sem leggja ber áherslu á, og það er, að jafnvel þótt sannast hefði, að skipstjórinn á Júpiter hefði verið saklaus, þá var það engin sönnun fyrir sakleysi skipstjórans á Tervani, því Tervani var að mun nær landi að veiðum en Júpiter. Það hljóta allir góðir Íslendingar að hryggjast yfir þessum herfilegu mistökum, sem stofna sóma og sjálfstæði þjóðarinnar í voða. Og jeg er viss um, að ef hæstv. dómsmrh. rannsakar sinn eiginn barm, þá finnur hann þetta, þótt hann skorti drenglund til að kannast við það. Hæstv. dómsmrh. er nú á flótta í þessu máli, og mun jeg ekki reka þann flótta lengur, enda var það ekki upphafleg ætlun mín að ræða þetta mál. En mjer fanst þó skylda mín að drepa á þetta, vegna hinna óþolandi svívirðinga um hæstarjett, sem komu frá vörum hæstv. dómsmrh. einu sinni enn.

Hjer hefir verið talað um bitlinga og eyðslusemi hæstv. sti., og þar er stj. sek, meira en fyrv. stj. Það má nú vera, að í sumum tilfellunum hafi verið höggvið nokkuð smátt í garð hæstv. stj. En enn hefir þó ekki verið minst á stærstu eyðslusemina og hina hættulegustu af allri eyðslusemi hæstv. dómsmrh. En það er meðferð hans á rekstri strandvarnarskinanna.

Það mun nú vera álit flestra, að nauðsynlegt sje að verja okkar landhelgi fyrir botnvörpuveiðum, sem skaðlegar eru taldar uppeldisstöðvum fiskanna. Ein varpa dregin um slíka staði getur máske eyðilagt tugi eða hundruð þúsunda af ungfiski. Þegar því þjóðin vaknaði til meðvitundar um þýðingu landhelgisvarnanna. Þá sáu menn, að sú vörn, ef því nafni má kallast, sem Danir veittu, var allsendis ónóg. Þá, um síðustu aldamót, fiskuðu togararnir í tugatali uppi við landsteina um hábjartan daginn. Máske hefir mest að þessu kveðið á Vestfjörðum, Arnarfirði, Dýrafirði og Aðalvík. Fóru þá margir að bera saman ráð sín um það, hvað gera skyldi. Og hið eina, sem hægt var að gera, var að reyna að handsama sökudólgana.

Jeg hygg, að öllum landsmönnum sje það í fersku minni, þegar Hannes Hafstein, þjóðskörungurinn, þáverandi sýslumaður Ísafjarðarsýslu, beið þess, að færi gæfist að ná í sökudólgana. Og eitt sinn, er hann var staddur á Dýrafirði, rjeðst hann í það áhættuverk að freista að taka einn slíkan sökudólg. Endirinn varð sá, að H. Hafstein komst nauðulega lífs af við annan mann, en 3 sjómenn af Dýrafirði, sem voru á bátnum með honum, ljetu lífið. Jeg held, að þetta meðal annars hafi orðið til þess, að Danir skildu, að okkur var full alvara um landhelgisvarnirnar. Heræfingaskipin dönsku voru betur á verði eftir þetta. — Þá er og alkunn viðureign Guðm. Björnssonar sýslumanns Barðstrendinga, og Snæbjörns Kristjánssonar, hreppstióra í Hergilsey, við breskan sökudólg, er þeir með frábæru snarræði rjeðust til uppgöngu á hinn breska landhelgisbrjót og voru fluttir til Bretlands. En þessir landhelgisbrjótar, sem teknir voru á þennan hátt, fengu báðir að greiða sínar sektir. Hugur alþjóðar fylgdi athöfnum þessara manna með aðdáun og þakklæti.

Það var fyrst árið 1918, að við Íslendingar fengum leyfi til þess að bæta landhelgisgæsluna með eigin fje og eigin athöfnum. Leið þá ekki á löngu, að hafist var handa í málinu. Fyrsti vísir til landhelgisvarna af okkar hálfu — fyrir utan útgerð staðbundinna smábáta — var það, er ríkisstj. leigði björgunarskipið „Þór“ til þess að stunda landhelgisgæslu á vissum tímum árs. Hjer á Alþ. hefir þetta mál — landhelgisgæslan — átt að fagna fylgi allra flokka, og nauðsyn þess verið viðurkend, eigi aðeins fyrir nútíðina, heldur miklu fremur fyrir framtíðina. Bráðum eigum við tvö fullkomin skip til landhelgisgæslunnar, auk „Þórs“. En því aðeins verða fullkomin not af þeim, að skipunum verði haldið fast að hlutverki sínu, en ekki flækt við ónauðsynleg störf eins og gert hefir verið síðari hluta ársins 1927 og 1928, til mikils skaða fyrir landhelgisgæsluna. Mönnum stórblöskra hinar óhæfilegu snattferðir, sem skipin eru notuð til. Haustið 1927 var „Óðinn“ sendur til Norðurlands. Þessi ferð tók 8–9 daga og var gerð á einum mesta annríkistíma gæsluskipanna. Ferðinni var hagað eins og venjulegt er með algeng mannflutningaskip. Þessa ferð mátti heita, að „Óðinn“ elti „Goðafoss“, var ýmist samtímis honum á höfnum eða hálfum degi á undan eða eftir. Um þetta bil var mest nauðsyn á eftirliti fyrir Vesturlandi; enda báru Hornvík og Aðalvík merki þess, að varðskipið var fjarri, því að enskir togarar komu þar inn og sópuðu fiskinum af miðunum. Á síðastliðnu sumri var jeg staddur hjer í Reykjavík. Og jeg verð að segja, að mjer þótti þá kynlega við bregða um landhelgisgæsluna, er jeg frjetti, að dómsmrh. hefði farið með gæsluskipin tvö, „Óðin“ og „Fyllu“, ásamt 6 eða 7 gestum í skemtiferð upp í Borgarfjörð. Sömu dagana var „Þór“ á dráttarbraut til viðgerðar, svo ekkert skip var til varna. Jeg trúði þessu ekki, fyrri en jeg fjekk að vita það í stjórnarráðinu. Þetta var sama og ef dómsmrh. hefði sagt við togarana: nú megið þið fara inn í landhelgina, ef þið viljið. Jeg er að skemta mjer og gestum mínum, og aðrir mega þá gera það líka. — Sumir gátu þess til, að „Fylla“ hefði verið tekin með í þessa för til þess að hægt væri að gefa gestunum „snaps“. En þessi ferð hefir orðið alldýr fyrir landhelgina. Á sama tíma var afli góður hjer í Faxaflóa og fult af útlendum togurum þar. Auk þessara ferða voru gæsluskipin látin fara fjölmargar ónauðsynlegar ferðir aðrar. Á síðastliðnu hausti voru skipin send í 4 snattferðir til Vestfjarða. Allar þessar ferðir, að einni undantekinni, voru algerlega ónauðsynlegar, því að um sama leyti voru önnur skip á ferðinni: Esja tveimur dögum fyr og önnur skip 2–3 dögum á eftir hverri þessari ferð Óðins. Á milli fjarða á Vesturlandi eru tíðar ferðir með góðum mótorbátum, og þær ferðir verðum við Vestfirðingar oft að gera okkur að góðu.

Það er óhætt að segja, að smærri fjárupphæðir — 20–30 þús. kr. —, sem eytt er að óþörfu, eru smámunir á móti þessari vanhirðu á landhelgisgæslunni. Þegar gæslan er vanrækt, bakar það þjóðinni margfalt meira tjón og hefir bakað. Það er undarlegt að þurfa að nota 2 strandvarnarskip upp í Borgarfjörð með 6–7 menn. Hvort dómsmrh. hefir gert þetta aðeins til þess að sýna gestunum mikillæti sitt, er ekki gott um að dæma, en það er algerlega óforsvaranlegt. Þegar þetta athæfi hans er borið saman við það, sem jeg nefndi áður, framkomu Hannesar Hafsteins, Guðm. Björnssonar og Snæbjarnar í Hergilsey, sjest mismunurinn ljóslega. H. Hafstein, Snæbjörn í Hergilsey og fjelagar hans sýna stórhug sinn í því að bjarga nauðsynjamálum þjóðar sinnar, jafnvel þó þeir þyrftu að stofna sjálfum sjer og fylgdarmönnum sínum í bersýnilegan lífsháska. En dómsmrh. sýnir stórhug sinn í því að sýnast fyrir útlendingum og veita kunningjum sínum og fylgismönnum greiða, vitandi, að það er gert á kostnað íslenskrar landhelgisgæslu í nútíð og framtíð. Getur verið meiri munur manna og athafna þeirra?

Um síðustu ferð „Óðins“ í janúar síðastl. brá svo gleðilega við, að hæstv. dómsmrh. virðist vera farinn að sjá missmíði á þessu háttalagi með varðskipin. því að í þessari snattferð ljet hann „Óðin“ ekki koma til Reykjavíkur, heldur skila flutningnum á land hjer suður með sjó, í Njarðvíkum eða Vogum. Ber þetta vott um blygðunarsemi og að hann muni vera farinn að sjá, að þetta er ekki eins og það ætti að vera. Sje þessi ástæðan, sem jeg vona, verður fremur reynt að fyrirgefa hæstv. dómsmrh. að nokkru leyti syndir hans í þessu máli. Jeg hefi ástæðu til að ætla, að þetta sje svo, þó að jeg sje eigi ugglaus, því að nú um hríð hefir ljett af þessum snattferðum varðskipanna. Í sambandi við þetta mál vil jeg benda hæstv. dómsmrh. á, hvað hin ógætilegu ummæli hans á Alþ. geta haft háskaleg áhrif á hugsunarhátt almennings í landinu í sambandi við landhelgisgæsluna. Hæstv. ráðh. sagði í þingræðu árið 1926 eða 1927, að íslenskir togarar hefðu á einni vertíð stolið í landhelgi svo skifti nokkrum tugum þúsunda skippunda af fiski, vegna þess að varðskipin hefðu eigi komið á þær stöðvar, sem þeir hjeldu sig mest. Og hann gat þess til, að fyrv. stj. hefði máske bannað varðskipunum að koma á þessar stöðvar. Slík ummæli og getsakir sem þessi geta haft ákaflega háskalegar afleiðingar inn á við, ekki síst ef þau eru töluð af manni í ábyrgðarmikilli stöðu, jafnvel af þingmanni; en þetta sagði hann á Alþ. 1926 eða 1927, áður en hann varð ráðh. Þessi orð geta haft hættuleg áhrif á hugsunarhátt manna í landinu. Og til þess að benda hæstv. ráðh. á, að svo hafi orðið í þetta sinn, skal jeg segja honum, að jeg hefi talað við allmarga ísl. sjómenn af einum togara nú á vertíðinni. Þeir gátu sjer þess til, að við lausn samninganna á milli sjómanna og útgerðarmanna, sem hæstv. atvmrh. átti þátt í nú í vetur, hafi það verið tilskilið, ísl. togurum í vil, að þeir mættu veiða í landhelgi undir Jökli á þessari vertíð. (SÁÓ: Hvaðan hafa þeir þetta?). Jeg veit það ekki; jeg hefi sagt þeim, að þetta hlyti að vera ósannindi. Ástæðan til þessa gruns hásetanna er sá óheillahugsunarháttur, sem dómsmrh. hefir lætt inn í þjóðina með ummælum þeim, er jeg átaldi hann fyrir að viðhafa hjer á þingi í hitteðfyrra.

Þessi sami ráðh. er sá maður utan þings og innan, sem gengið hefir lengst í því að seyra hugsunarhátt Íslendinga. Vonandi er, að gifta Íslands verði sú, að slík iðja, sem ódrenglyndir og hatursfullir menn fremja, ekki beri ávöxt í hugsunarhætti þjóðarinnar. Ef hæstv. dómsmrh. vill fá að vita nöfn þeirra manna, sem hafa sagt mjer þetta, þá skal jeg segja honum þau þegar hann vill, en auðvitað ekki hjer í þd. Enginn maður, sem þekkir til þessara mála hjer í hv. þd., getur látið sjer detta það í hug, að nokkur maður finni upp á því að segja sögu eins og þessa að ástæðulausu. En þegar hún er athuguð í ljósi þeirra orða, sem hæstv. dómsmrh. hafði á Alþingi 1926 eða 1927, þá skilst, hvaða hugsunarhátt þau hafa vakið meðal alþýðu.

Þá vil jeg með nokkrum orðum víta eina ráðstöfun stj., sem jeg hygg að gerð hafi verið af hæstv. forsrh., sem þá gegndi starfi fjmrh., og það er skipun núv. formanns bankaráðs Landsbankans. Því miður hefir sú ósvinna verið framin, að Landsbankinn hefir verið gerður að pólitísku bitbeini. Allir vita, að breyt. þær, sem gerðar voru á Landsbankalögunum 1928, voru að mestu leyti gerðar til þess að einn þingflokkur, öðrum fremur, fengi yfirráð í bankanum. Þetta er viðurkent af hv. 2. þm. Árn. Jeg sagði það þá, og held því fram enn, að það sje lítið keppikefli fyrir flokkana að ná svokölluðum yfirráðum í bankanum. Því það mun reynast svo, að meðan heilbrigð bankastjórn fer þar með völd, gætir lítils hins stóra höfuðs — bankanefndarinnar. Sú nefnd er minna en einskis virði. Nefndin hefir enga aðstöðu til að kynna sjer hag bankans eða ráða nokkru um störf hans.

Það er formið á skipun bankaráðsformannsins, sem jeg vil sjerstaklega vita. Ekki fyrir þá sök, að jeg óttist, að bankaráðsform. vilji beita eða geti beitt svo mjög pólitískri hlutdrægni í starfi sínu við bankann, heldur af öðrum ástæðum. Það er talin sjálfsögð venja og einkaráríðandi, að forstjórar og hátt settir starfsmenn banka megi ekki vera ábyrgðarmenn eða skuldunautar þess banka, sem þeir starfa við, og heldur ekki vera forstjórar eða í stjórn fyrirtækja, sem skulda bankanum. Í öðrum löndum hafa bankaráðsmenn sagt af sjer starfinu, ef þeir hafa tekið að sjer forstöðu við fyrirtæki, sem skuldskeytt hafa verið sama banka. Jafnvel er svo langt gengið, að bankaráðsmenn hafa ekki þótt hæfir til þess að gegna starfi sínu áfram, ef þeir hafa komist í stjórnarnefndir þeirra fyrirtækja, sem skulda við komandi banka. Þetta er gert til þess að enginn geti vakið minsta grun eða tortrygni gegn bönkunum. Síðustu dæmi um þetta, sem mjer er kunnugt um, eru frá Þýskalandi og 2–3 frá Englandi og 2 frá Svíþjóð síðan um aldamótin. En hið síðasta af slíkum dæmum er uppsögn formanns bankaráðs „ Privatbankans“ í Khöfn á síðastl. ári. Fyrst þessi regla hefir þótt nauðsynleg við „privat“-banka, þá er hún vitanlega miklu nauðsynlegri við þjóðbanka og seðlabanka. Því að hvergi er eins mikið undir traustinu komið og einmitt til handa seðlabönkunum. Hjer eru upp teknir aðrir síðir. Jeg vona, að þeir hafi eigi enn orðið Landsbankanum til hnekkis út á við. En verði það kunnugt utanlands, að einn af forstjórum þess verslunarfyrirtækis, sem mest skuldar Landsbankanum, skuli vera bankaráðsformaður, mun það þykja afarótrúlegt. Vil jeg á engan hátt halda því fram, að núv. formaður þess, Jón Árnason, hafi notað aðstöðu sína í vil því verslunarfyrirtæki, er hann starfar við, og álít jeg satt að segja þannig um búið, að það sje varla hægt. En jeg vil benda á, að það er mjög óvarlegt af landsstj. að brjóta þá reglu, sem annarsstaðar er viðhöfð í þessu efni og talin sjálfsögð. Jeg skil ekki annað en að hæstv. fjmrh. hafi átt völ á ýmsum öðrum jafnhæfum mönnum innan stjórnarflokksins sem þessum manni; ekki mun þekking hans sjerlega víðtæk á þessu sviði. Það er að sjálfsögðu rjett vegna Landsbankans að óska eftir, að þessu sje kipt í lag, en tefla ekki á tvær hættur með þá skipun, sem nú er á þessu starfi. — Það er ekki þýðingarlaust, að seðlabanki landsins haldi áliti sínu erlendis, og það er ósæmilegt að gera nokkuð, sem getur rýrt álit bankans í augum erlendra fjármálamanna.