11.04.1929
Neðri deild: 42. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 857 í B-deild Alþingistíðinda. (634)

16. mál, fjárlög 1930

Fors.- og atvmrh. Tryggvi Þórhallsson):

Hv. þm. N.-Ísf. beindi til mín einu atriði í ræðu sinni, þar sem hann vítti stj. fyrir það, hver hefði verið skipaður formaður í bankaráði Landsbankans. Hv. þm. orðaði það svo, að hann vildi víta stj. fyrir skipun hennar á formanni bankaráðsins. Jeg get gefið hv. þm. þær upplýsingar, að í minni stjórnartíð hefir enginn verið skipaður formaður bankaráðsins. Fyrv. fjmrh., Magnús heitinn Kristjánsson, hafði ákveðið að skipa nýjan formann bankaráðsins um síðastl. áramót. Jeg gegndi starfi fjmrh. aðeins í 3 mánuði og áleit ekki rjett af mjer, þó jeg hlypi þar í skarðið um stundarsakir, að taka fasta ákvörðun um þá skipun, og ákvað því að setja aðeins mann í starfið. Og í þetta embætti setti jeg þann mann, sem Framsóknarflokkurinn hafði efstan á sínum lista þegar kosið var í bankaráðið. Hann er framkvæmdarstjóri í öflugasta verslunarfyrirtæki bænda í landinu. Og jeg álít, að það hefði verið rangt af mjer að gera annað en að setja mann í þetta starf, og rangt að setja í það annan mann en þann, sem settur var.

Vil jeg láta þá skoðun mína í ljós, að jeg er algerlega ósammála hv. þm. um það, að ósæmilegt sje, að þessi maður sje formaður bankaráðsins, þar eð hann sje formaður Sambands ísl. samvinnufjelaga, og það hafi orðið til þess að spilla fyrir bankanum út á við, að bændaflokkurinn setti forstjóra stærstu bændaverslunarinnar sem formann bankaráðsins. Jeg álít, að á engan hátt sje hægt að fetta fingur út í það.