11.04.1929
Neðri deild: 42. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í B-deild Alþingistíðinda. (636)

16. mál, fjárlög 1930

Pjetur Ottesen:

Það kom mjög greinilega í ljós í ræðu þeirri, sem dómsmrh. hjelt hjer í gærkvöldi laust fyrir miðnættið, að honum hefir þótt jeg koma nokkuð óþægilega við kaun sín, að því leyti, sem jeg mintist á fjáraustur stj. í ræðu minni í gær. Hann varði að minsta kosti fullum klukkutíma til þess að verja fjárbruðl stj., eins og það kemur fram í styrkveitingum og bitlingum til einstakra manna, en sem jeg hafði þó ekki aðstöðu til að draga fram nema lítið sýnishorn af, auk þess sem hann varði nokkrum tíma til að lýsa lífsskoðun minni.

Það, sem jeg vildi sýna hjer og átelja, er, að stjórnin leyfir sjer að verja í þessu skyni fje úr ríkissjóði og landhelgissjóði svo þúsundum skiftir og tugum þúsunda án þess að hafa nokkra heimild til þess.

Í fjárlögum er þingið til dæmis að taka búið að segja, hvað miklu fje skuli varið í utanfararstyrki og þessháttar. Það er gert með því að heimila stj. að verja ákveðnum upphæðum í þessu skyni, auk þess sem nokkurt fje er veitt á einstakra manna nöfn.

Þetta virðir stj. algerlega að vettugi. Og þetta gerir hún, þó að forsrh. lýsti því þrásinnis yfir á þingi í fyrra, og legði mjög mikla áherslu á það, að ekki skyldi farið út fyrir ákvæði fjárl. í þessu efni.

En það er ekki nema eðlileg afleiðing af því, hvernig komið er, þó sú spurning vakni hjá manni: Til hvers er þingið að setja fjárlög? Til hvers er þingið annars að skifta sjer af þessum málum? Eins og núv. stj. hagar framkvæmdum sínum í þessu efni, þá leggur það engar hömlur á stj. framar því, að þar stæði beinlínis, að stj. mætti „valta og skalta“ með þetta eins og henni sýndist.

Með þessu háttalagi er verið að draga valdið úr höndum Alþingis. Á

þessu þingi hefir allmikið verið um það rætt, hvernig styrkveitingum til utanfara yrði best fyrir komið, en það er til lítils að vera að tala um það eins og nú er komið.

Í öðru lagi vildi jeg sýna fram á það, að þetta fje, sem stj. er þannig að bruðla með í heimildarleysi, að því er ekki á glæ kastað frá flokkspólitísku sjónarmiði hennar. Jeg ætla, að þetta hvorttveggja hafi komið svo skýrt fram, að þar verði ekki um deilt. Og þó dómsmrh. geri sjer sýnilega far um það að leiða athygli manna frá þessu meginatriði, þá nær sú tilraun harla skamt. Dómsmrh. var eitthvað að gefa í skyn með það, að jeg hefði misbrúkað leyfi það, sem jeg hefði fengið til þess að líta í bækur ríkissjóðs yfir óviss útgjöld, og var hann ennfremur eitthvað að sveigja að því, að rjett mundi að torvelda þingmönnum aðgang að bókum ríkissjóðs. Já, það getur nú vel verið og væri ekki nema rjett eftir ýmsu öðru, að stj. fari að gera tilraunir til þess að loka bókum ríkissjóðs fyrir þingmönnum. En það sýnir ljóslega, hvernig stj. í raun og veru lítur á þessar tiltektir sínar. En að jeg hafi misbrúkað þetta leyfi nokkuð og farið rangt með tölur, er með öllu ósatt. En hitt getur verið, að sumar upphæðir sjeu þannig færðar, að ekki sje alstaðar gott að greina í milli, hvað fer til þessa og hvað fer til hins, eins og til dæmis að taka með þá upphæð, sem hjer hefir verið nefnd í sambandi við nafn Halldórs Júlíussonar. Hvað runnið hefir af þessu fje í hans vasa eða hvað hefir farið í málareksturinn að öðru leyti, það sjest þá væntanlega á sínum tíma. En það er víst, að sú upphæð, sem jeg nefndi, er síst of há; sennilega mun þar vera um nokkuð meira fje að ræða. Um dugnað Halldórs Júlíussonar við þessar rannsóknir og meðferð hans í þessum málum öllum verður fyrst dæmt, þegar sjeð verður fyrir endann á þessum málarekstri hans, en málunum er ekki enn lokið.

Þegar dómsmrh. er að verja fjárbruðlun stj., bitlingafargan og styrkveitingar til pólitískra gæðinga, þá er það altaf viðkvæðið, að það sje svo og svo mikill gróði að þessu, beinn og óbeinn gróði fyrir landið. Sama er og látið í veðri vaka, þegar dómsmrh. er að gera breyt. á embættaskipuninni. Alt á það að vera gert í því augnamiði að spara landsfje. Það er altaf viðkvæðið, enda þótt alþjóð sje kunnugt, að dómsmrh. gerir þetta alt í flokkshagsmunaskyni. Er breyt. á bæjarfógeta- og lögreglustjóraembættunum gott dæmi þess. Af þessari breyt. átti samkv. því, sem dómsmrh. hjelt fram í Tímanum, að leiða 80 þús. kr. sparnað á ári, en samkv. áætlun stj. í fjárlagafrv. því, sem fyrir þinginu liggur nú um kostnaðinn við þessi embætti, verður ekki annað sjeð en að árlegur kostnaður við rekstur embættanna næstu árin muni aukast um 40 þús. kr. frá því, sem áður var. Svona er þetta.

Dómsmrh. talaði mikið um eyðslu Jóns sál. Magnússonar í sambandi við mentaskólann. Það er nú ekki í fyrsta sinn sem dómsmrh. legst þar á náinn. Nú segir dómsmrh., að fyrir sínar aðgerðir og samkv. því frv., sem nú liggur fyrir þinginu um mentaskólana, þá muni sparast allmikið fje við mentaskólann í Reykjavík. En þó svo kunni nú að takast til, sem vitanlega er þó alveg ósýnt enn, þá er langt frá því, að hjer sje um að ræða nokkurn sparnað á mentaskólahaldi í landinu, því eins og kunnugt er, hefir dómsmrh. lagt mikið kapp á það á undanförnum árum að koma upp mentaskóla á Akureyri og fengið því framgengt. Það er þess vegna öldungis víst, að það, sem kann að sparast við mentaskólann í Reykjavík, það gleypir mentaskólinn á Akureyri — og miklu meira til. Það verður því sama uppi á teningnum hjer, að þar sem dómsmrh. talar um sparnað og gerir í því yfirskyni, að af því leiði sparnað — það verður aukin eyðsla.

Dómsmrh. hefir einnig mikið talað um það, að nauðsyn bæri til að draga úr stúdentaframleiðslunni. En samtímis því, sem hann er að fjargviðrast um þetta, fjölgar hann mentaskólunum. Afleiðingin af afskiftum hans af þessum skólamálum verður þess vegna alveg gagnstæð því, sem hann lætur í veðri vaka að sje tilgangurinn, nefnilega: Stóraukinn kostnaður við skólana og að stúdentaframleiðslan vex. Svo er dómsmrh. að tala um mótsetningar í fari annara manna.

Út af því, sem jeg sagði um bílakaup stj. fyrir fje landhelgissjóðs, þá vildi dómsmrh. ekki viðurkenna, að það hefði verið keyptur nema einn bíll fyrir fje úr landhelgissjóði. Hefði hann fengist með góðum kjörum, eða fyrir 11000 kr., en annars kostaði sú tegund 12000 kr. í reikningum landhelgissjóðs 1928 stendur, að 4. maí sje greitt á nafn Eysteins Jónssonar andvirði bifreiðar 11457 kr. Sje þetta rjett, þá hefir afslátturinn frá upprunaverði bifreiðarinnar ekki verið eins mikill og dómsmrh. heldur fram. En svo stendur aftur í reikningunum greitt á nafn sama manns 22. ágúst, eða rúmum hálfum þriðja mánuði seinna, til hestahalds, bifreiðar o. fl. kr. 11295,13. Jeg hjelt því, að í þessari stóru upphæð mundi felast andvirði annarar bifreiðar, því það er næstum óhugsandi, að rekstrarkostnaður á þessari einu bifreið gæti verið orðinn svona mikill á ekki lengri tíma, og þó að nokkru hefði verið til hestahalds, því varla hafa þeir verið þungir á fóðrum á þessum tíma. En hvað felst þá annars í þessari upphæð? Það væri gott að fá upplýsingar um það. Dómsmrh. fór mörgum orðum um það, hve mikill búhnykkur það væri fyrir landið, að stj. hefði eigin bíla til sinna ferða. Það getur náttúrlega vel verið, þegar miðað er við það ástand, sem nú er, þar sem dómsmrh. er sýknt og heilagt á sífeldum þeytingi út um allar jarðir með gæðinga sína til veisluhalda hjer og þar og annars af slíku tægi, að þá sje það ódýrara, að landið eigi bifreiðar en að leigja þær til þess af öðrum í hvert skifti.

Í þessu kemur vitanlega fram sama óhófið og fjárbruðlunin hjá ráðh. á fje ríkissjóðs eins og á öðrum sviðum, og er sú eyðsla, eða allmikill hluti hennar, sannarlega þess eðlis, að ástæða sje til þess að átelja það. En undir öllum kringumstæðum verður að mótmæla því kröftuglega, að ráðh. láti eyðslugengd sína í þessu efni ganga út yfir landhelgissjóðinn, þennan sjóð, sem verja á fje úr til alt annars og í ákveðnu augnamiði, og sem engan veginn hefir enn sem komið er yfir því fje að ráða, sem nauðsynlegt er til þess að hann geti svo sem þörf er á int af hendi sitt mikla ætlunarverk. Ef sjera Sigurður sál. Stefánsson væri risinn upp úr gröf sinni, þá er jeg þess fullviss, að honum mundi heldur en ekki bregða í brún að sjá fje landhelgissjóðs sólundað á svo gersamlega óviðeigandi hátt eins og hjer hefir verið lýst. Hann var svo sem kunnugt er frumkvöðull að stofnun sjóðsins og bar hag hans mjög fyrir brjósti.

Út af því, sem jeg sagði um Borgarfjarðarför dómsmrh. með lögjafnaðarnefndarmennina dönsku, þá vildi hann draga af því þá ályktun, að jeg hefði verið gramur yfir því, að hann hefði gefið þeim kost á að sjá náttúrufegurðina þar, sem hann raunar hjelt nú að jeg kynni máske ekki að meta. Það var nú síður en svo, að nokkur slík hugsun lægi til grundvallar fyrir þeim ummælum, sem jeg hafði um þessa för; mjer er það vitanlega gleðiefni, að sem flestir góðir gestir heimsæki þetta hjerað og njóti þeirrar náttúrufegurðar, sem það hefir að bjóða, og kynnist því myndarlega fólki, sem þar býr. En það var hitt, hvernig til þessarar ferðar var stofnað, sem jeg var að benda á, og svo það, að láta landhelgissjóð greiða þann kostnað, sem af þessu ferðalagi leiddi, sem jeg var að átelja.

Enginn maður með heilbrigðum hugsunarhætti getur gengið þess dulinn, að til grundvallar fyrir því að fara með þessa fáu menn í tveimur herskipum inn í Borgarfjörð liggur svo rótgróin fordild og hjegómaskapur, mjer liggur við að segja uppskafningsháttur, að það er til stórskammar. Og það er vonandi, að lögjafnaðarmennirnir dönsku hafi átt þess kost að kynnast svo íslensku þjóðinni, að þeir hafi getað gengið úr skugga um, að þetta tildur og tilberaverk dómsmrh. sje í algerðri mótsetningu við sannan og rjettan íslenskan hugsunarhátt. Þá ber þetta tiltæki áþreifanlega vott um áhugaleysi og skilningsleysi dómsmrh. á nauðsyn landhelgisgæslunnar, að láta tvö strandvarnarskipin liggja þarna dögum saman, og þegar þar við bætist, að það er nú upplýst, og það af ráðh. sjálfum, að þriðja strandvarnarskipið lá um sama leyti uppi í fjöru í Reykjavík, þá verður vannotkun þessa skipastóls enn berari og hirðuleysi hans um það, hvernig fer um landhelgisgæsluna. Enda er nú svo komið, að það er engu líkara en að ráðh. líti þannig á, að strandvarnirnar sjeu aukastarf þessara skipa, en snattferðirnar aðalstarfið. Hefir hjer verið minst á þetta atriði undir umr., og skal jeg ekki fara lengra út í það.

Dómsmrh. upplýsti það, að sá styrkur, sem Einar Einarsson stýrimaður hefir notið nú um hríð til þess að ferðast um í útlöndum, hafi verið veittur til þess að hann ætti þess kost að kynna sjer björgunarmál erlendis. Ef þessi ráðstöfun, að veita Einari þessum styrk í þessu skyni, hefir verið gerð í sambandi við það, að hið nýja strandvarnarskip á að vera útbúið með nokkrum björgunartækjum, þá virðist þetta harla kynleg ráðstöfun, því ganga má út frá því sem sjálfsögðum hlut, að annaðhvort skipstjóranum á Þór eða Óðni verði falin stjórn hins nýja skips, og þyrfti því sá þeirra, sem við skipinu tekur, að hafa þá þekkingu, sem er í samræmi við útbúnað skipsins og starfsemi að þessu leyti.

Dómsmrh. mintist eitthvað á það í sambandi við Borgarfjarðarferðina frægu, að einn af dönsku lögjafnaðarnefndarmönnunum hefði haft einhverja milligöngu með það að útvega fje til fyrirtækja hjer í Reykjavík. Þetta er nú ekkert sjerlega undarlegt, þegar þess er gætt, að þessi maður er meðeigandi í stóru dönsku verslunarfirma, sem mikil viðskifti hefir við Ísland. En annars ætti Íslendingum að vera það ljóst, og það er nauðsynlegt, að þeir sjeu sjer þess fullkomlega meðvitandi, að dönsku lögjafnaðarnefndarmennirnir koma hingað til að gæta danskra hagsmuna hjer, þeirra, sem þeir hafa samkv. sambandslögunum. Að þeir hafi fullkomna viðleitni í þá átt, sýnir útdráttur úr gerðabók lögjafnaðarnefndarinnar frá síðasta fundi hennar. Þar skín sannarlega í úlfshárin undan sauðargærunni. Það kemur mjög greinilega fram þar, að þeim er það ekkert smáræðis áhugamál að halda sem lengst í jafnrjettis ákvæðin, og hafa þeir lokkað fram ummæli hjá dómsmrh. Í því sambandi, sem jeg minnist máske á síðar. Það hefir áreiðanlega verið mjög að yfirlögðu ráði gert, þegar Danir fóru fram á það fyrir nokkrum árum að fjölga mönnum í lögjafnaðarnefndinni og fengu því framgengt, þar á meðal fyrir atbeina núv. dómsmrh.

Dómsmrh. mintist á, að kaup lögjafnaðarnefndarmannanna íslensku hefði verið alt of hátt áður. Þetta er alveg rjett; sjerstaklega keyrðu þó úr hófi ferðakostnaðarreikningar nefndarmanna, þegar fundir n. voru haldnir í Kaupmannahöfn. Vildi hann halda því fram, að einhver skuggi af þessu hvíldi á mínu baki. Að því leyti sem hjer er um skugga að ræða, þá hvílir hann á þinginu í heild, alveg eins á flokksmönnum dómsmrh. eins og öðru, því allir flokkar tóku þátt í kosningu manna í nefndina. En hverjir voru það, sem beittu sjer fyrir því, að kaupið var lækkað og komið var skipulagi á greiðslu ferðakostnaðar? Dómsmrh. vill eigna sjer þetta, en hann átti enga hlutdeild í því þegar borgun fyrir þessi nefndarstörf var færð niður. Það vorum við fjvnm. í Nd., sem bárum fram till. um að lækka kaupið, og frsm. n. var þá íhaldsmaðurinn Þórarinn á Hjaltabakka. Og þess má vænta, að sá grundvöllur, sem þá var lagður um að færa niður borgun fyrir þessi nefndarstörf, og það, sem síðar hefir verið gert í því máli, verði nægjanlega haldgott til þess, að meiru fje verði ekki varið í þetta humbugsstarf, því eins og kunnugt er var ákvæðunum um lögjafnaðarnefndina þröngvað inn í sambandslögin af Dönum, þvert á móti vilja Íslendinga.

Þá hjelt dómsmrh. langan fyrirlestur um fangahúsið. Það er nú ekki í fyrsta sinn síðan dómsmrh. komst í valdasessinn, sem hann leggur út af þessum texta. Það munu vera áhöld um, hvað hann hefir flutt marga pistla um þetta efni og vindsnældurnar, sem hann ljet setja í mentaskólann. Tala hvortveggja er orðin legíó. Það er segin saga, að þessi mál ber einatt á góma hjá ráðh. þegar hann þarf að tala um syndir íhaldsmanna. En dómsmrh. mætti vera það fullkunnugt, að það var ekki hægt um vik um fjárgreiðslur úr ríkissjóði til umbóta, þegar Íhaldsflokkurinn tók við völdum 1924. Hagur ríkissjóðs stóð þannig, þegar Framsóknarflokksstj. fór frá völdum, að ríkissjóður var kominn í fleiri milj. kr. lausar skuldir, sem hægt var að heimta greiðslu á hvenær sem var. íhaldsstj. varð því að láta það sitja fyrir öllu öðru að greiða þessar skuldir, til þess að koma fjárhag ríkissjóðs á rjettan kjöl aftur. Þetta tókst giftusamlega og mun fyr heldur en hægt var í upphafi að gera ráð fyrir.

Næsta verk íhaldsstj. var að reisa úr rústum verklegar framkvæmdir í landinu, en það var nú svo komið með þær, þegar framsóknarstj. fór frá völdum, að það, sem hafði verið áætlað í þessu skyni í fjárl., var ekki greitt nema að örlitlu leyti, og þar með fjellu niður nálega allar verklegar framkvæmdir á því ári. Þetta tókst og giftusamlega, að færa þetta til betra horfs, því eins og kunnugt er, var síðustu árin, sem Íhaldsflokkurinn var við völd, varið meira til verklegra framkvæmda heldur en nokkur dæmi voru til áður. Það varð sem sagt hlutverk Íhaldsflokksins að losa ríkissjóðinn úr skuldaviðjunum og reisa verklegar framkvæmdir úr dái, en svo mikið ávanst í þessu efni á jafnstuttum tíma, að það er ekkert undarlegt, þó það þyrfti að beita öllu bolmagni til þess að koma þessu í framkvæmd og að ekki væri hægt að sinna öðrum verkefnum og umbótum nema að litlu leyti.

Nú er aftur hægra um vik, þegar engar skuldir þarf að greiða, nema vexti og afborganir af samningsbundnum skuldum, og þar sem þessu er samfara eitthvert langbesta tekjuár fyrir ríkissjóðinn, sem nokkum tíma hefir komið. Nú getur stj. hrækt hraustlega, og jeg verð að segja það, að þegar ríkissjóðurinn er í öðrum eins hershöndum eins og hann virðist nú vera, að þá er ekki nema gott til þess að vita, að einhverju fje sje þó varið til þess að gera við hegningarhúsið og mentaskólann og til annara þarflegra hluta, þar sem þess sjer þó einhverja staði.

Þá ætlaði dómsmrh. heldur en ekki að hreinsa hendur sínar af fjáraustri sínum og bruðlunarsemi með því að lesa upp lista yfir nokkur veisluhöld, sem fram fóru í Kaupmannahöfn í sambandi við byggingu Óðins. Jeg skal fullkomlega játa það, að þarna hefir verið haldið á öðruvísi en vera átti, en þegar athugaður er kostnaðurinn við þessi veisluhöld í Höfn og það borið saman við útlagðan kostnað við Borgarnesför dómsmrh., þá kemur þó í ljós, að sú ferð hefir orðið landhelgissjóðnum mun dýrari. (Dómsmrh.: Það var ódýrt að borða í Norðtungu). Já, jeg veit vel, að Borgfirðingar eru menn gestrisnir og allra manna sanngjarnastir um greiðasölu, en það má náttúrlega berast svo mikið á þar eins og annarsstaðar, að hægt sje að eyða peningum, og þessa votturinn er, að dómsmrh. hefir tekist að eyða meiru fje í þetta ferðalag en þeim, sem stóðu fyrir dýru miðdögunum í Höfn. Þó er vitanlega ekki hjer með talinn sá kostnaður, sem af því leiðir að viðhafa svona mikinn og vandaðan skipastól, og þá vitanlega heldur ekki það tjón, sem íslenskir sjómenn hafa beðið við það, að landhelgin var óvarin allan þennan tíma. Það er engu líkara en að dómsmrh. sje að draga þetta fram til þess að sýna, að fyrst að einhversstaðar hafi verið viðhaft óhóf og sukk, þá sje sjer óhætt — ekki einasta að feta í sömu sporin, heldur að ganga miklu lengra í sukkinu. Það kemur nefnilega fram í þessu sú hugsun, sem altaf skýtur upp hjá ráðh. við hvert tækifæri; að reyna að nota þau verk og þær athafnir fyrirrennara sinna, sem hann hefir þyndarlaust skammað þá blóðugum skömmum fyrir, nota þau fyrir skálkaskjól, þegar hann kemst í þá aðstöðu að þurfa að verja sínar stóru fjárbruðlunarsyndir.

Dómsmrh. vjek eitthvað að því, að jeg hefði reynst óheill í landhelgisgæslumálinu, að jeg hefði lagst á móti frv. um eftirlit með loftskeytanotkun togaranna. Þetta er með öllu ósatt; jeg lýsti yfir fylgi mínu við frv., þó að jeg hinsvegar hefði ekki mikla trú á gagnsemi þess.

Þá held jeg, að jeg hafi drepið á þau helstu af einstökum atriðum, sem fram komu í ræðu dómsmrh.

Þá kem jeg nú að því, sem dómsmrh. byrjaði ræðu sína á; það var að gefa deildinni lýsingu á þeim mönnum, sem nú um langt skeið hafa kosið mig á þing. Og það eru að hans dómi yfirgangsmennirnir á Akranesi og afturhaldsmennirnir uppi í sveitum. Jeg læt mjer mjög í ljettu rúmi liggja, þó dómsmrh. láti sjer sæma að setja þennan stimpil á kjósendur mína, eins og jeg líka veit fyrir víst, að þeim er svo hjartanlega sama um það. En eina ósk hefi jeg fram að bera í þessu sambandi, og hún er sú, að hann láti Tímann flytja kjósendum mínum þessi ummæli óbrjáluð.

Þá tók dómsmrh. sjer næst fyrir hendur að lýsa lífsskoðun minni, og þótti honum þar heldur en ekki vera ósamræmi milli orða og gerða. Fór hann ýmsum lofsamlegum orðum um mig, sagði, að jeg væri sparsamur, reglusamur, vinnusamur o. s. frv., en þó legði jeg lag mitt við og væri í flokki með óhófs- og drykkjumönnunum í landinu, í stað þess að vera í flokki sparsemdarmannanna og reglumannanna, sem hötuðu vínið og berðust á móti ofdrykkjunni. Og það er nú svo sem ekki um að villast, hvaða flokkur það er, sem dómsmrh. á hjer við; það mun nú svo sem auðvitað vera Framsóknarflokkurinn.

Það er nú alkunnugt, hvernig dómsmrh. fer að, þegar hann er að skilja sauðina frá höfrunum. Þá er skilgreiningin þessi: Í Íhaldsflokknum eru eintómar eyðsluklær og ofdrykkjumenn, en í Framsóknarflokknum eintómir fjármálaspekingar og stakir reglumenn. Jeg hefi nú haft þessi ummæli upp eftir dómsmrh., skilgreining hans á mannkostum þeirra manna, sem í þessum flokkum eru, af því að mjer finst, að það komi fram í þeim svo rjett og sönn mynd af honum sjálfum, hans eigin virðulegri persónu.

Já, það er nú svo sem ekki að efa, að þeir eru allir reglumenn Framsóknarflokksmennirnir, og jeg efast svo sem ekki um það, að dómsmrh. yrði sjálfsagt að fara upp á nokkuð háan sjónarhól til þess að koma auga á nokkurn einstakan þeirra, sem sú lýsing ætti ekki við!! En út af því, sem dómsmrh. sagði um heilagleik Framsóknarflokksmannanna í bindindis- og bannmálinu, þá er ekki ófyrirsynju eða ástæðulaust að minnast á framkomu dómsmrh. sjálfs í þessum málum. Þrátt fyrir það, þó dómsmrh. látist vera eindreginn stuðningsmaður bindindis- og bannmálsins, og þó hann hafi haft töluverð umsvif í því sambandi, þá verður því ekki neitað, að hann hefir sýnt hin örgustu óheilindi í þessu máli og notað þetta góða mál til blekkinga í flokkspólitísku augnamiði. Skal jeg nú færa þessum orðum mínum stað. Meðan íhaldsstj. var við völd, linti hann aldrei hvorki í ræðu nje riti á skömmum og ádeilum á hana fyrir það að verða ekki við þeim áskorunum, sem fram komu um það, að leggja niður vínútsölurnar. Fullyrti hann, að ekkert væri því til fyrirstöðu eða stæði í vegi fyrir því, að þetta væri gert nema mótþrói íhaldsmanna, er halda vildu við drykkjuskaparóreglu í landinu.

Á þinginu 1927, næsta fyrir kosningarnar, var borin fram að hans tilhlutun þáltill. í Nd., þar sem skorað var á stj. að leggja niður vínútsölustaðina utan Reykjavíkur og að segja upp Spánarsamningunum. Þessi till. náði ekki fram að ganga af ótta við það, að aðstaðan til fisksölu á Spáni gæti við það breytst til hins lakara.

Þá skrifaði dómsmrh. skammagrein um íhaldsmenn, þar sem stóð meðal annars: Nú er engum íhaldsmanni að trúa framar í bannmálinu, ekki einu sinni Jóni Ólafssyni Drafnarforstjóra eða Pjetri Ottesen. Allir hafa svikið.

Þetta var nú látið klingja óspart fyrir kosningarnar. Eins og kunnugt er, þá á vínbannsstefnan ítök í hugum mikils meiri hl. manna í landinu, og það er alkunnugt, að þjóðin gekk sárnauðug en knúin af óhjákvæmilegri nauðsyn undir ok Spánarsamninganna, og þráir það af einlægum hug, að því oki verði af ljett. Það er þess vegna ekki ólíklega til getið, að einhverjir hafi orðið til þess að trúa þessum skrifum dómsmrh. og litið svo á að þar væri mælt af heilum hug en ekki fláttskap. Það getur þess vegna vel verið, að þetta hafi veitt Framsóknarflokknum brautargengi við síðustu kosningar. Ef til vill á dómsmrh. því það að þakka, að hann skipar nú þann sess.

En hvað skeður? Dómsmrh. komst eftir kosningarnar í þá aðstöðu að geta komið vilja sínum í þessu efni í framkvæmd. En hann hefir hvorki hreyft legg nje lið til þess að leggja niður vínútsölurnar. Þær standa í fullum blóma. Sú eina breyt., sem hefir þar á orðið, er sú, að koma þar í forstjórastöður framsóknarmönnum eða sósíalistum, sem íhaldsmenn voru áður. Það má því öllum ljóst vera, hve heill dómsmrh. og Framsóknarflokkurinn hefir verið í þessu máli. Dómsmrh. hefir ekki skirst við að nota þetta góða og göfuga málefni til þess að falsa heimildir á sjer og flokki sínum.

Þá hefir hjer verið minst á hina stórfeldu vínblöndun, sem fram hefir farið nú upp á síðkastið í birgðageymslu vínverslunarinnar undir forstjórn hins nýja vínverslunarforstjóra. Þar hafði verið komið allmikið safn af bragðdaufum vínum, sem lítt þóttu fýsileg þeim, er þrá sterka drykki. Eftir að forstjóraskiftin urðu, komu þeir sjer saman um það, hinn nýi vínverslunarforstjóri og dómsmrh., að hella þessum daufu vínum saman og hefja á þann hátt stórfelda blöndun, því það kom upp úr kafinu síðar, að þeir höfðu komist á snoðir um það við lítilsháttar tilraunir, sem fyrv. forstjóri hafði gert, en sem síðar, þegar annað stærra og meira var komið til sögunnar, var kallað kjótl, að á þennan hátt var hægt að framleiða vín, sem að áhrifum og styrkleik var næstum brennivíns ígildi. Það þarf svo sem ekki að tala um það, hver varð afleiðing þessarar blöndunar. Á þennan hátt tókst þeim fjelögunum, dómsmrh. og forstjóranum, að koma þessum bragðdaufu vínum leiðar sinnar ofan í almenning. (Dómsmrh.: Það er sama og breyta vatni í vín!). Það er nú svo, en samt hygg jeg, að á bak við þessa vínblöndun sje alt annað hugarfar en það, sem biblíufróðir menn skýra, að kraftaverk Krists hafi stjórnast af. En þetta innskot dómsmrh. getur til sanns vegar færst að því leyti til, að honum hefir máske þótt nokkuð mikið vatnsbragð að vínunum áður en blöndunin fór fram.

Jeg býst nú við því, að dómsmrh. muni svara mjer því til, að þetta sje hagsmunaatriði fyrir ríkissjóðinn og að illa sitji á mjer að amast við því, að tekjur hans vaxi. En jeg skal segja dómsmrh. og öðrum það hreinskilnislega, að þó að mjer sje umhugað um, að ríkissjóði áskotnist sem mest fje og að vel sje með það fje farið, þá hefði í þessu falli bann- og bindindismaðurinn í mjer orðið yfirsterkari, og er jeg mjer þess vegna fullkomlega meðvitandi, að dómsmrh. hefir breytt hjer alveg gagnstætt því, sem hver sannur bann- og bindindismaður hefði gert í hans sporum.

Ennfremur má benda á það, að goodtemplarareglan á engum sjerstökum vinsældum að fagna á þessum dögum hjá dómsmrh. í gildandi fjárl. nýtur stórstúka Íslands 12 þús. kr. styrks úr ríkissjóði til útbreiðslustarfsemi. En í fjárlfrv., sem stj. hefir nú lagt fyrir þingið, hefir hún lagt til að lækka styrkinn um 4 þús. kr. Starf reglunnar er bæði nauðsynlegt og stórþarft, enda óyggjandi margra ára reynsla fengin fyrir því, að starfsemi hennar er langsamlega sterkasti þátturinn í baráttunni gegn drykkjubölinu og baráttunni gegn því, að andlegum og efnalegum verðmætum þjóðarinnar sje fórnað á því altari. Starfsemi reglunnar er því þannig, að stj. og Alþ. ætti að vera það metnaðarmál að styrkja hana í sínu göfuga starfi. Það fje, sem þingið hefir til þessa veitt til þessarar starfsemi, hefir altaf verið naumt skorið, en það hlýtur að lama starfsemina mjög, ef dómsmrh. fær þeim vilja sínum framgengt, að lækka styrkinn um þriðjung.

Dómsmrh. fóðrar þessa till. um að lækka styrkinn til stórstúkunnar með því, að bannlagagæslan hafi verið aukin á öðrum sviðum. En hvernig hefir tekist til með þessa löggæslu? Eftir því sem jeg best veit, hefir almenningsálitið þegar gengið milli bols og höfuðs þeirri tegund hennar, sem hlotið hefir nafnið „þefarar“. Þetta hygg jeg að muni liggja í því, að dómsmrh. hefir valið menn í þessar stöður eftir flokksfylgi eins og í aðrar stöður, en ekki gætt þess, að þessir menn væru gæddir þeim eiginleikum, sem nauðsynlegir eru til þess að þeir kæmu að liði í starfi sínu og yrðu að því gagni, sem þeir hefðu getað orðið og þörf var á.

Meðal breyt. þeirra, sem gerðar voru á bannlögunum á síðasta þingi, var það, að bannaðar voru áfengisauglýsingar. Var dómsmrh. stuðningsmaður þessarar og annara breyt., sem þá voru gerðar á bannlögunum. En hvað skeður svo? Um svipað leyti skrifar dómsmrh. grein um það í Tímann, að Íslendingar sjeu ekki samsætis eða veisluhæfir nema þeir sjeu undir áhrifum víns eða ölvaðir, og í sömu grein eða annari um líkt leyti talar hann um það, að Íslendingar eigi að venja sig á að hafa vín um hönd að hætti Suðurlandabúa og drekka vín eins og þeir nú drekka kaffi eða aðra svipaða nautnadrykki. Jeg býst nú við því, að ef þau erlendu firmu, sem hjer auglýstu vín í blöðunum, hefðu vitað um þessi skrif dómsmrh., þá hefði þeim þótt þau bæta mikið úr því, að þau mistu rjettinn til auglýsinga, enda er það alveg víst, að þessi ummæli hafi vakið meiri eftirtekt og umtal en nokkur vínfangaauglýsing hefir gert.

Þegar alls þessa er gætt, þá finst mjer, að það sitji illa á dómsmrh. að vera með alt of mikla vandlætingasemi í garð annara manna í þessum. málum og að líta á sig og sinn flokk sem nokkurskonar merkisbera á þessu sviði. Og síst situr á honum að vera að nota jafnsterk orð og hann gerir um vínnautn annara, því sagt er, að ráðh. flökri ekki við því að vera með á því sviði rjett eins og hver annar, enda er það í fullu samræmi við drykkjukenningar hans í Tímanum, þær sem jeg mintist á áðan. Jeg hefi líka sjeð mynd af dómsmrh., þar sem hann situr í burgeisaveislu úti í Kaupmannahöfn með brennivínsglasið fyrir framan sig, og er komið gott borð á glasið og það verður ekki annað sjeð en að ráðh. renni fullkomlega hýru auga í löggina!

Hvaða drykkjarföng dómsmrh. kann að velja sjer hjer heima til þess að verða samkvæmishæfur, veit jeg ekki, en ætla mætti, að hann munaði í þá nýju uppfundingu, sem runnið hefir upp eins og fífill í túni undir vernd hans og umsjón með vínfangabúri ríkisins. Það hefir verið mikið talað um Tervani-málið í þessum umr., og er það ekki að ófyrirsynju, þó dómsmrh. fái maklega hirtingu fyrir það tiltæki sitt að gefa útlendum sökudólg upp sakir þvert ofan í landslög og rjett. Dómsmrh. hefir nú verið hrakinn úr einu víginu í annað í þessu máli. En nú þykist hann hafa fundið vígi, sem hann geti varist úr, og jeg verð að taka undir það með hv. þm. N.-Ísf., að mjer þykir það harla undarleg skjaldborg, sem hann hefir þarna flúið til og leitað sjer skjóls í. Það er sem sje vörn Lárusar Jóhannessonar málaflutningsmanns, sem hann flutti í undirrjetti í Júpitersmálinu. Eins og kunnugt er, þá hefir dómsmrh. gert sjer mjög mikið far um í fjölda blaðagreina að ófrægja þennan lögfræðing og gera lítið úr honum á allan hátt. En nú þykir dómsmrh. það hreinasta hnossgæti að flýja á náðir hans í þessu máli. (Dómsmrh.: Hann er einmitt til þess kjörinn!). Já, nýta flest í nauðum skal, hugsar dómsmrh. sjálfsagt. En sú oftrú og það skilningsleysi á dómgreind almennings, að láta sjer detta það í hug að ætla sjer þá dul að fleyta sjer yfir brim og boða í þessu máli á einhliða vörn annars aðilans í undirrjetti! Hvað sumum mönnum getur dottið mikil vitleysa í hug, það er öldungis undravert.

En meðal annara orða vildi jeg leyfa mjer að spyrja að því, hvaða bláa bók það er, sem dómsmrh. er altaf öðruhverju að lesa glepsur úr í þessum umr., bæði í sambandi við Tervani-málið og fleira. Jeg sje ekki, að það sje í annað hús að venda með það að fá upplýsingar um þetta, því eiginlega hafa ekki aðrir handleikið þessa bók hjer en hann. Raunar hefi jeg sjeð forsrh. með tvö eintök af þessari bók; öðru þeirra snaraði hann að sendiherranum danska, þar sem hann sat í dyrunum á ráðherraherberginu, en hitt lokaði hann sem snarast niðurískúffuna sína. Það hefir flogið fyrir sú saga, að dómsmrh. hefði í smíðum allstóra bók, þar sem rætt væri um ýms mál og gefa ætti út í 6000 eintökum. Máske er þetta plagg nú að skjóta hjer upp höfðinu, en að enn þyki ekki tímabært, að það sje nema í fárra manna höndum.

Út af því, sem dómsmrh. las upp úr þessari bók í sambandi við Tervani-málið, nefnilega þessa vörn Lárusar Jóhannessonar, þá datt mjer í hug: Skyldi þetta nú vera það eina, sem sagt er í þessari bók um það mál, eða skyldi nú alt annað, sem um það er þar sagt, vera bygt á þessum ummælum? Það væri nú svo sem ekki nema eftir annari framkomu dómsmrh. í þessu máli, þó það væri nú svo. Hingað til hefir aldrei þótt nema hálfsögð saga meðan einn segir frá. Hefði dómsmrh. viljað leggja málið óhlutdrægt fyrir almenning, hefði hann vitanlega látið prenta upp í bókina sókn og vörn í Júpiters-málinu í hæstarjetti. Á þann hátt gafst almenningi kostur á því að kynnast til hlítar málavöxtum á báða bóga. En annars ætla jeg ekki að fara frekar út í þetta. Hv. þm. N.-Ísf. hefir rjettilega bent á það, hve fjarstætt það er í fræðsluriti fyrir almenning að draga aðeins fram aðra hlið málsins, þar sem alt er teygt og togað og meira og minna úr lagi fært, eins og gengur. Það er vitanlega ný blekking í málinu og ekkert annað. Það hvílir því jafnt fyrir þessu óhrakinn með öllu sá þungi áfellisdómur, sem almenningsálitið hefir kveðið upp, yfir dómsmrh. fyrir það að ganga fram fyrir skjöldu dómstólanna og gefa hinum erlenda sökudólg upp sakir.

Annars vildi jeg beina þeirri fyrirspurn til dómsmrh., að úr því að hann leggur svona mikið upp úr vörn Lárusar Jóhannessonar í Júpiters-málinu, hvort hann undirskrifi þá ekki jafnfúslega vörn þessa sama lögfræðings í öðru máli, sem dómsmrh. er allmjög riðinn við, sem sje Hnífsdalsmálinu?

Dómsmrh. viðhafði þau orð hjer í gær, að nauðsynlegt hefði verið að bjarga Tervani-málinu úr óvitahöndum. Mjer er nú ekki vel ljóst, hvað dómsmrh. á við með þessum ummælum, nema ef það eru dómstólar landsins, sem hann hefir slík ummæli um. Því ef málið hefði gengið sinn gang, hefði það vitanlega farið fyrir dómstólana, annan eða báða. Það hljóta þess vegna að vera dómstólarnir, sem ráðh. hefir slík ummæli um, og er það þó sannarlega hart af þeim manni, sem samkv. stöðu sinni á að vera vörður laga og rjettar í landinu, að viðhafa slík orð um dómstólana á Alþingi.

Þá sagði dómsmrh., að auk þess sem „Trausti“ hefði verið illa útbúinn, þá hefði hann líka verið smyglunarbátur. Það er nú ekki í fyrsta skifti sem dómsmrh. talar um það og reynir að slá ryki í augu manna með því, að „Trausti“ hafi verið smyglunarbátur. Jeg sje nú ekki, hvaða blettur hafi getað fallið á bátinn, dautt verkfærið, þó að einhvern tíma hafi verið á honum menn, sem látið hafi niður í hann vínbrúsa og tekið þá upp úr honum aftur. Það voru alt aðrir menn á bátnum þegar Tervani var kærður. Það fjell heldur enginn skuggi á útgerðarmann bátsins í sambandi við þessa margumræddu smyglun, fremur heldur en að það hefir fallið skuggi á forstjóra Eimskipafjelags Íslands, þó það hafi komið fyrir, að einhverjir skipverja þar hafi gert tilraun til að smygla nokkrum vínflöskum. Þá er það og upp á sinn máta alveg sama að ætla sjer að fordæma varðbátinn „Trausta“ fyrir það atvik, sem fyrir kom á honum, að hann var notaður til þess að smygla víni, eins og að fordæma t. d. Eimskipafjelagsskipin fyrir það, að slíkt hefir komið fyrir á þeim.

Þá sagði dómsmrh., að þakklætisbrjef það, sem stj. hefði fengið frá utanríkisráðuneytinu enska fyrir að gefa styrktarsjóði í Englandi björgunarlaun þau, er Óðni bar, væri fyrsta viðurkenningin á íslensku rjettarfari. Þetta er algerlega rangt. Hver sá dómur, sem hjer er kveðinn um yfir útlendum sökudólg, hvort sem er togari, smyglari eða annað, og er látinn standa ómótmæltur og óvjefengdur, er bein og skýlaus viðurkenning á íslensku rjettarfari. En þakkarbrjef fyrir gjafir eða tilslakanir eiga ekkert skylt við það og í þeim felst engin slík viðurkenning.

Jeg mintist á það fyr í ræðu minni, að eftir útdrætti þeim að dæma úr fundabók lögjafnaðarnefndarinnar, sem fyrir liggur hjer í þinginu, fyndist mjer danski hluti lögjafnaðarnefndarinnar hafa gerst allíhlutunarsamur um alíslensk löggjafarmál. Á jeg þar sjerstaklega við rekistefnu þá, sem þeir hafa gert út af síldareinkasölulögunum. Þar er um alíslenskt löggjafarmál að ræða, sem þeir samkv. sambandslögunum hafa enga aðstöðu til þess að gagnrýna eða skifta sjer neitt af. Þetta þarf íslenski nefndarhlutinn að láta þá vera sjer fullkomlega meðvitandi um og hleypa þeim ekki feti lengra í íhlutun um slík mál en sambandslagasamningurinn innibindur.

Það skín og út úr ummælum þeirra á þessum nefndarfundum, að þeim hefir verið mjög í mun að fá umsögn íslensku nefndarmannanna um það, hver væri vilji og hugsun íslensku þjóðarinnar gagnvart uppsögn sambandslaganna. Og jeg verð að segja það, að ummæli þau, sem dómsmrh. ljet falla í því sambandi, koma mjer harla kynlega fyrir sjónir. Þau eru sem sje á þann veg, að sambandslögin sjeu ekki ofarlega á baugi hjá þjóðinni.

Mjer koma þessi ummæli harla kynlega fyrir af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi af því, að jeg get ekki hugsað mjer, að nokkur Íslendingur, sem kominn er til vits og ára, gangi þess nokkra stund dulinn, hvað mikið skortir á um það, að landsins börn eigi ein að hafa óskoraðan umráðarjett yfir gæðum landsins og auðsuppsprettum, meðan önnur margfalt stærri og ríkari þjóð hefir jafnan rjett til atvinnurekstrar í landinu. Og jeg ætla þess vegna, að þeir muni fáir vera, sem ekki eru fullráðnir í því, hvenær sem er, eftir að þeir hafa fengið þroska og aðstöðu til þess að skilja til hlítar þýðingu þessara jafnrjettisákvæða, að nota fyrsta tækifæri til þess að segja upp sambandslögunum, og að aldrei komi til mála undir neinum kringumstæðum að semja að nýju um nein slík jafnrjettisákvæði aftur. Í öðru lagi koma mjer þessi ummæli kynlega fyrir af því, að á síðasta þingi gerðust þeir atburðir í þessu máli, sem fullkomlega sýndu það, að þingið var vakandi og einhuga um það að nota fyrsta tækifæri til þess að segja upp samningunum. Og það er áreiðanlegt, að þingið er í þessu efni sannur spegill af þjóðinni. Það er þess vegna áreiðanlegt, að þessi ummæli dómsmrh. eru röng og að ófyrirsynju töluð. Það er báðum þjóðum best, að hreint sje gengið til verks um það, hvað sje í aðsigi í þessu máli, og að þar komist engin undanbrögð eða hálfvelgja að.

Sama er að segja um þau ummæli, sem dómsmrh. viðhafði í nefndinni um dönsku landhelgisgæsluna hjer við land, að á meðal stjórnmálamanna væri engin óánægja með hana. Þetta er með öllu rangt. Allir þeir, sem einhvern snefil hafa af áhuga fyrir landhelgisgæslunni, hljóta að vera óánægðir með það, hversu danska varðskipið sinnir því starfi lítið, þegar það er hjer við land. Langsamlega mest af tímanum, sem það er hjer við land, heldur það einhversstaðar kyrru fyrir, enda er eftirtekjan af starfinu nú síðustu árin ljósastur vottur þess, hversu mjög það muni hafa sig í frammi við landhelgisgæsluna. Það er þess vegna rjett og sjálfsagt, að rjettmætar umkvartanir um áhugaleysi þeirra manna í sínu kalli, sem stýra þessu skipi hjer, berist til eyrna ráðandi manna í Danmörku. Mættu af því leiða einhverjar umbætur frá því, sem nú er og verið hefir um hríð.

Út af því, sem jeg mintist á, að Halldór Júlíusson hefði ekki viljað láta konu eina á Vestfjörðum sverja við nafn guðs, heldur við nafn ákveðins togara vestur þar, þá gat dómsmrh. þess, að þetta hefði ekki verið neitt undarlegt, því þessi kona hefði verið orðin uppvís að því að hafa logið, og hann lagði mikla áherslu á það, að hún hefði logið. Út af þessu datt mjer það í hug, að ef það ætti nú fyrir Halldóri Júlíussyni að liggja að taka eið af dómsmrh., þá væri ekki ófróðlegt að vita, við hvers nafn hann mundi ráðleggja honum að sverja.