11.04.1929
Neðri deild: 42. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í B-deild Alþingistíðinda. (637)

16. mál, fjárlög 1930

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Meðan hv. þm. Borgf. kemur ekki í deildina, ætla jeg að víkja að nokkrum atriðum almenns eðlis. Hann vildi halda því fram, að ekki hefði orðið neinn sparnaður við breytinguna á skipun bæjarfógeta- og lögreglustjóraembættanna í fyrra, heldur þvert á móti 40 þús. kr. kostnaðarauki, sem komi nú fram sem hækkun á útgjaldahlið fjárlaganna. Fjárlögin hafa nú verið athuguð í hv. fjvn. og hún álítur, að þessi útgjaldahækkun sje ekki 40 þús. kr., eins og hv. þm. Borgf. vill vera láta, heldur einar 17 þús., og eru þar ekki taldar með þær tekjur, sem á móti koma. Óbeinar tekjur þessara tveggja embættismanna voru orðnar svo miklar með gamla skipulaginu, að það var komið út yfir öll takmörk. Kunnugir menn álitu, að annar þeirra hefði um 80 þús., en hinn um 40 þús. kr. í tekjur á ári, en með breyt. frá í fyrra renna mestallar aukatekjurnar sumpart út til almennings og sumpart í ríkissjóð, svo að sparnaðurinn er auðsær fyrir þá, sem á annað borð vilja hafa opin augun fyrir honum. Jeg vonast til þess, að hv. þm. Borgf. sjái það, að hin háu laun þessara embættismanna hlutu að hafa mjög ill áhrif á hina illa launuðu embættismannastjett í landinu. Það var ekki von, að sýslumenn úti um land gætu verið ánægðir með lág laun og mjög takmarkað skrifstofufje, þegar gæðingar fyrv. stj., sem sátu í þessum feitu embættum, fengu alveg ótakmarkað skrifstofufje og svo há laun, að annar þeirra var látinn borga 9500 kr. í útsvar, sem er sama upphæð og þessir embættismenn eiga að geta fengið mest í tekjur á ári. Mig furðar satt að segja stórlega á því, að annar eins sparnaðarmaður og hv. þm. Borgf. þykist vera skuli ekki sjá, hvað þetta ástand er spillandi fyrir alla embættismannastjett landsins.

Mjer þótti undarlegt, að hv. þm. Borgf. skyldi fara svo óráðvandlega með þá reikninga, sem jeg var svo liðlegur að leyfa að sýna honum, eins og raun varð á. Hann hefir komist þarna í ýmsa reikninga ókláraða, og býr svo til missagnir og útúrsnúninga. T. d. fjölgar hann bílunum um helming og setur kostnaðinn við Borgarfjarðarferð varðskipanna á landhelgissjóð, sem hefir ekki borgað þar einn eyri. Það getur verið, að þetta komi hv. þm. einhvern tíma í koll, að fara svona að ráði sínu. Þegar honum er af góðvild hleypt í hálfgerða reikninga, þá notar hann aðstöðu sina til þess að misskilja, afbaka og snúa út úr og beinlínis falsa frásagnir. Það er varla hægt að hugsa sjer meiri mun á framkomu tveggja manna heldur en hjá okkur í þessu máli. Jeg sýndi honum þann drengskap að hleypa honum í reikningana, suma hálfgerða, en hann misnotar þá svo á hinn lúalegasta hátt til þess að ófrægja mig og svívirða. Af þessum ástæðum væri víst hyggilegast fyrir mig að taka upp sömu aðferð og íhaldsstj. hafði, að lofa engum að sjá neitt nema ákveðnum flokksbræðrum, því að þessi misnotkun er mjög áfellisverð á allan hátt.

Hv. þm. Borgf. byrjaði á því að tala um hina óhemjulegu eyðslu núv. stj. á ýmsum sviðum. T. d. fann hann að því, að maðurinn, sem á að standa fyrir vinnuhælinu og hafa marga fanga undir höndum, fær 1000 kr. ferðastyrk til þess að geta kynt sjer fyrirmyndar stofnanir í þessari grein erlendis. Þetta ætti þó enginn að telja eftir, því að bæði er styrkurinn lítill, og svo verður að vera trygging fyrir því, að þessi stofnun sje í góðum höndum. Hingað til hefir ekki verið til neinn staður fyrir þá menn, sem eiga ógoldið sektarfje í ríkissjóð, en í sumar verða þeir látnir vinna af sjer sektirnar við vegagerð í Flóanum, og þá undir stj. þessa manns, sem hv. þm. Borgf. vildi ekki láta gera hæfari til starfsins.

Í þessu sambandi vil jeg minna hv. þm. Borgf. á það, að í tíð fyrv. stj. voru einu íhaldskjördæmi greiddar 25 þús. kr. í skaðabætur fyrir skemdir á netum, vegna þess að varðskipið var fjarverandi þaðan í 3 daga. Mjer er sem jeg sjái framan í hv. þm. Borgf., ef stj. hefði látið bolsana á Ísafirði fá þessa upphæð, en af því að íhaldskjördæmi á í hlut, þá er alt gott og blessað í hans augum. Þetta var mikil eyðsla, 25 þús. kr., en íhaldsstj. borgaði þetta án þess að bera það undir þingið, og væri fróðlegt fyrir hv. þm. Borgf. að gera samanburð á þessari upphæð og þeim aurum, sem hann er nú svo flinkur að leggja saman.

Íhaldsstj. veitti upp undir 1/2 milj. kr. fram yfir heimild til hafnargerðar í Vestmannaeyjum, og nú er þar alt í mestu óreglu. Hv. þm. Borgf. telur þetta víst alveg leyfilegt, vegna þess að Vestmannaeyingar senda íhaldsmann á þing. Ofan á þetta bætist, að mikið af hafnargarðinum bilaði, og varð að gera við hann fyrir 70 þús. kr. í fyrra, og nú þarf víst einhverjar nýjar viðgerðir í sumar. Hv. þm. Borgf. væri því nær að líta nær sínum eigin dyrum og athuga öll þau hundruð þúsunda, sem þar hefir verið bruðlað, heldur en að vera með þennan sparðatíning í reikningum núv. stj. Jeg man ekki eftir að hann segði neitt á árunum 1920 og 1921 út af fjáraukalögunum miklu, en vill hann fletta upp í þeim og sjá póstana, þar sem hans eigin stj. fleygir hverjum bitanum öðrum feitari í gæðinga sína? Í samanburði við alt þetta er það hreint og beint hlægilegt að vera að telja eftir einar þús. kr. til manns, sem fer utan til þess að rannsaka þarflegt fyrirtæki til að bjarga heilli grein þjóðarviðskiftanna, sem Íhaldið skildi við í því ástandi, sem skrælingjum einum var samboðið. Hann talaði um, að einhver framsóknarlögfræðingur hefði fengið 17 hundr. kr. fyrir að semja lagafrv. fyrir núv. stj., en hann gat ekki um það, að annar lögfræðingur, sem er íhaldsmaður, fjekk 25 hundr. kr. fyrir alveg sama verk hjá hans eigin stj.

Hv. þm. Borgf. er enn ekki farinn að sætta sig við bílana. Jeg held þó, að hann sje farinn að sætta sig við bílana, sem notaðir eru við vegagerðina, og jafnvel bílinn, sem vegamálastjóri notar sjálfur, sjerstaklega eftir að hann frjetti, að vegamálastjóri borgaði einu sinni 500 kr. á viku fyrir bíla, meðan hann hafði engan sjálfur. Það mun þó vera mála sannast, þar sem stj. sjálf og starfsmenn hennar eru altaf öðruhverju í ferðalögum, að það væri heldur lítil búmenska af landinu að hafa ekki sína eigin bíla.

Jeg vil rjett drepa á, að þegar svona algengt fiskfirma eins og Kveldúlfur leyfir sjer að hafa 3–4 bíla fyrir „direktörana“ og tiltölulega fáa starfsmenn, ætti ekki síður að borga sig fyrir landið að hafa 2 bíla. Úr því að Kveldúlfur getur það, þó að ríkur sje talinn, ætti landið að geta það. Jeg vildi, að hv. þm. gerði í næstu bílaræðu sinni samanburð á Kveldúlfi og landinu í þessu efni, bæði þörfinni og getu.

Hv. þm. var óánægður með það, sem hann kallaði eyðslu úr landhelgissjóði. En jeg ætla að benda á eina eyðslu, sem bráðum mun sjást í reikningum landhelgissjóðs, frá vorinu 1926. Í aprílmánuði hefir einn merkur íhaldsmaður kvittað fyrir 4000 kr. úr landhelgissjóði. Síðan líða nokkrir mánuðir. Um þetta bil kom konungur til Íslands og Jón Magnússon dó í fylgd hans. Þegar svo þessi merki íhaldsmaður á að fara að standa skil á peningunum, segir hann, að þetta hafi verið fyrir Jón Magnússon, til þess að standast kostnað við konungskomuna. Jeg veit ekki, hvað satt er í þessu, en peningarnir hafa aldrei komið aftur, og enginn reikningur fyrir því, hvernig þeim var varið.

Í sambandi við útgjöld landhelgissjóðs vil jeg minna á það, að þegar jeg tók við stj., voru borgaðar 10 þús. kr. fyrir bókhald sjóðsins, sem þá var svo seinlega og klaufalega gert, að ekki var hægt að fá glögga hugmynd um hag hans. Maðurinn var að vísu heiðarlegur, en alls ekki fær um að inna þetta verk af hendi. Á sama tíma virðist fyrirrennari minn (MG) hafa gert samning við einn mann í stjórnarráðinu um, að hann skyldi fá 4000 kr. árlega fyrir að líta eftir skipum, senda skeyti o. s. frv. Þetta var borgað út fyrir árið 1925, þegar ekkert skip var til, 1926 og jeg má segja 1927, svo að þessi eini starfsmaður hefir, með beinum samningi við ráðh., lagt landhelgissjóði þunga byrði á herðar. Slíkar ráðstafanir gerði þessi mjög sparsami vinur hv. þm. Borgf. En í stað 10 þús. kr. bókhaldarans er nú kominn maður með 3 þús. kr. laun, sem þó gerir verkið betur en fyrirrennari hans. Og auk þess hefir hann haft annað á hendi kauplaust, til dæmis innkaup til spítala landsins.

Eftir stjórnarskiftin var byrjað að bjóða út kolin, og við fyrsta útboðið lækkaði sá liður á nokkurra mánaða eyðslu um 4000 kr. Á þennan hátt hefir landhelgissjóði sparast mikið fje. Jeg vil benda hv. þm. á einn lið, sem var óþarflega hár hjá fyrirrennara mínum, en það er fæðiskostnaður skipverja. Hver maður hafði kr. 4.50 á dag í fæðispeninga, það er að segja: brytinn fjekk það fyrir efnið í matinn. Alt annað leggur landið til, eldivið, áhöld og kaup bryta. Á Eimskipafjelagsskipunum er þetta kr. 3.75, og hefir nú verið fært niður á hinum skipunum. Þegar nýja varðskipið kemur, mun reynt að koma á enn ódýrara skipulagi í þessum efnum.

Hv. þm. var mjög óánægður yfir því, að skipshöfnin á Óðni skyldi fá 1–2 daga frí. Jeg er alveg hissa á hv. þm., að vera að telja eftir, þó að þessir menn, sem vinna á sunnudögum jafnt og aðra daga, fái örlítið frí á þeim tíma, sem langminst er að gera. Enda telur hv. þm. þetta í raun og veru ekki eftir þeim. Hann lætur svona, bara af því að það var jeg, sem gaf þeim fríið. Hefðu það verið hans vinir, þá hefðu skipsmennirnir mátt eiga frí í heila viku.

Jeg ætla að svara því, sem til mín var beint um lögjafnaðarnefndina, þegar annar hv. þm. hefir talað um sama efni. Hitt er misminni hjá hv. þm. Borgf., að upptökin að lækkun á kaupi lögjafnaðarnefndar hafi verið hjá íhaldsmönnum. Uppástungur í þá átt komu fyrst í greinum í Tímanum.

Það kennir dálítillar gleymsku hjá hv. þm., þegar hann segir, að vesalings íhaldsstjórnin hafi ekkert getað gert fyrir peningaleysi. Jeg get ekki verið hv. þm. sammála um það. Jeg trúi því ekki, að ekkert hafi verið hægt að gera eftir 1924. Og síðustu tvö árin var framkvæmd skattaniðurfelling, til flokksbræðra hv. þm. aðallega, en það var sama og að kasta frá landhelgissjóði peningum, enda varð tekjuhalli á eftir.

Þó tekur út yfir alt, þegar hv. þm. segir, að lausaskuldirnar 1924 hafi verið Tímanum að kenna. Jeg held, að hv. þm. sje búinn að gleyma því, þegar hann var á þingi 1917 og ’18 og studdi stj. Jóns Magnússonar, og 1920, ’21 og 22, þegar hallinn var 2–21/2 milj. á hverju ári og hv. þm. hreyfði hvorki legg nje lið. Það var fyrst eftir að andstæðingar hv. þm. bentu á, hvernig ástatt var um fjáraukalögin miklu, að farið var að laga þetta.

Þá kom. hv. þm. að áfengismálunum. Mjer hefði fundist, að hann hefði átt að snúa geiri sínum í aðrar áttir hvað það snertir. Hann hefði átt að tala um blöð íhaldsins, Morgunblaðið, Storm og Vörð. Hvenær hafa þau gert annað í áfengismálunum en að mæla með vínnautninni í landinu? Hverjir kölluðu löggæslumennina „þefara“ og reyndu á allan hátt að svívirða þá og sverta í augum almennings? En hv. þm. hefir aldrei haft neitt að athuga við það, hvernig blöð hans hafa talað í áfengismálunum og hvernig þau hafa reynt að gera hlægilegar allar tilraunir til að halda niðri stórofdrykkjunni. Svo segir hann; „Hvers vegna hefir dómsmrh. ekki fækkað útsölustöðum Spánarvína, úr því að hann greiddi atkvæði með því 1927, að það mál væri rannsakað?” Því er fljótsvarað. Þetta var felt árið 1927. Það var nóg til þess að sýna, að þó að hægt væri kannske að merja það fram eftir kosningarnar, þá hefði Íhaldið engu viljað fórna fyrir þetta. En hvorki 1923 nje ’27 var mín leið fær, nema sterkur þjóðarvilji væri á bak við, ef eitthvað kynni að slettast upp á. Það var ekki. Það var sem sje alveg óhugsandi að gera þetta með nokkru öðru móti en sterkum meiri hl. þingsins, sem þyrði og vildi hætta á einhvern hugsanlegan skaða um fisksöluna til að koma aftur á algerðu banni. En Íhaldsflokkurinn allur vill engu fórna til að koma á banni, ekki einum eyri á skippundi af fiski myndi hv. þm. vilja fórna. Flokkur hans opnaði fyrir Spánarvínin, flokkur hans drekkur Spánarvínin og flokkur hans gerir alt, sem hann getur leynt og ljóst, til að vinna á móti og svívirða viðleitni þeirra manna, sem í verki reyna að hamla móti ofdrykkjunni í landinu.

Hv. þm. segir, að betra hefði verið að hella birgðunum niður en að blanda þær. Þetta segir hv. þm. En setjum svo, að helt hefði verið niður 100 tunnum af áfengi, sem íhaldið hefði verið nýbúið að kaupa af Garðari Gíslasyni, honum til gróða. Þá hefði hv. þm. Borgf. risið upp og reiknað út og sagt; „Hvað hefði ekki mátt gera fyrir þessar krónur?“ Jeg get sagt hv. þm., að í þessu atriði á hann einn skoðanabróður, sem sje ritstjóra Storms. Hann hefir kveðið upp líkan áfellisdóm eftir sömu forsendum; „Þetta er of sterkt fyrir magann, of örvandi“, sagði hann. Í öllum öðrum efnum met jeg dóm hv. þm. Borgf. meira en þessa manns, en í þessu eina tilfelli met jeg dóm ritstjórans meira.

Hv. þm. talaði um, að styrkurinn til templara hefði verið lækkaður. Það kemur til umr. á sínum tíma, en hinsvegar hugsa jeg, að hv. þm. geti fengið að vita, að stj. hefir stutt templara á margan hátt, með löggæslu o. fl. Templarar hafa ekki ástæðu til að kvarta. En fjelag þeirra er svo fjölment, að því ætti ekki að vera vorkunn að halda uppi hinum daglega rekstri með fjelagsgjöldunum, þegar það auk þess fær styrk úr ríkissjóði. Það kennir mótsagnar hjá hv. þm., þegar hann er að kvarta um, að mistekist hafi að halda aftur af ofdrykkjunni í landinu, því að þar á hann einmitt við sjálfboðalið, sem hans eigin skoðanabræður, templarar, komu á fót til þess að styðja lögregluna í baráttunni gegn ofdrykkjunni. Hinsvegar voru það hinir pólitísku samherjar hv. þm., íhaldsmenn, sem á allan hátt reyndu að spilla starfi löggæslumannanna. Og nú tekur hv. þm. þeirra málstað.

Þá kom hv. þm. að því, að jeg væri linur í áfengismálinu sjálfu, af því að jeg viðurkendi, að hófdrykkja viðgengist víða um heim hjá góðum og reglusömum mönnum. Jeg endurtek það, að jafnandstyggilegt og „fyllirí“ er og ósamboðið siðuðum mönnum, eins hjákátleg og einstrengingsleg er skoðun hv. þm. Borgf. og sumra annara fáfróðra manna á þessum málum. Ef hv. þm. vissi meira en kötturinn um það, hvernig allur landslýður í hinum miklu löndum álfunnar notar ljett vín daglega án þess að andstygð ölvunarinnar sjáist, þá myndi hann ekki dæma jafnheimskulega um þessi mál. Nú er hann á því stigi, að hann styður á allan hátt ofdrykkjuskrílinn í sínu landi, sem er allur í hans flokki, en fordæmir hóflega notkun áfengis eins og hún er og hefir þekst hjá hinum mestu mentaþjóðum síðan löngu fyrir Krists daga.

Jeg hygg, að það sje ómögulegt fyrir mann, sem dvalið hefir langvistum í Suðurlöndum, til dæmis í Frakklandi, og sjeð, hvernig vín er notað hjá hinum prúðustu mönnum, fólkinu til gleði og ánægju, að verða eins mikill farisei og sumir hjer heima, sem þola ekki að heyra vín nefnt á nafn. En þeim er auðvitað vorkunn, sem aldrei hafa sjeð annað af því tægi en hina dæmalausu og ósiðlegu ofdrykkju á Íslandi.

Um mitt eigið „fyllirí“ skal jeg taka þar fram, að það er ekki verra en svo, að jeg gæti altaf gengið eins og linur Drafnar-goodtemplari, ef jeg væri mældur á þann mælikvarða. En hvort svo mikil hófsemi er algeng meðal nánustu samherja hv. þm. Borgf., skal jeg láta ósagt.

Sannast að segja er jeg á sömu skoðun og Lárus Jóhannesson um það, að ekki hefði átt að kæra „Júpiter“, af því að hin svokölluðu sönnunargögn voru til skammar, að þau máttu ekki sjást. Því talaði jeg um, að óvitahendur hefðu fjallað um málið, meðan Íhaldið fór með það.

Hv. þm. Borgf. hefir orðið starsýnt á blátt hefti, sem jeg hefi verið með hjer fyrir framan mig. Þetta hefti er einskonar handrit, sem jeg hefi notað eins og hv. þm. Borgf. hefir notað það, sem hann hefir párað upp sjálfur. Þetta bláa hefti er ritlingur um ýms dómstólamál, er mikið hefir verið um deilt, og mun hann síðar koma fyrir almenningssjónir. Úr því að Íhaldsflokkurinn hefir eytt þúsundum króna úr flokkssjóði til blekkinga og æsinga í „Tervani“-málinu, er óhjákvæmilegt að gefa út öll gögn málsins, svo að íhaldsliðinu haldist ekki lengur uppi að skaða þjóðina í því efni með ósannindum og álygum.