11.04.1929
Neðri deild: 42. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í B-deild Alþingistíðinda. (638)

16. mál, fjárlög 1930

Sigurður Eggerz:

Áður en jeg ber fram eina eða tvær fyrirspurnir til hæstv. stj., vildi jeg víkja örfáum orðum að hinni erlendu strandgæslu hjer við land. Hefir mjer gefist ríkulegt tilefni til þess, þar sem birtst hefir viðtal við Borgbjerg í „National-Tidende“ í sumar, þar sem kvartað er yfir gagnrýni minni á starfsháttum varðskipsins „Fyllu“. Hann segir í blaðinu, að svo mikið kveði að þessari gagnrýni, að dómsmrh. hafi vítt Sigurð Eggerz fyrir hana og sagt honum „at holde Mund“, sem á íslensku mundi þýða að halda kjafti. Þessi sami stjórnmálamaður hefir sagt um afstöðu mína í stjórnmálum vorum:

„Det er da ogsaa den almindelige Mening í alle Partier paa Island, at Sigurður Eggerz nu er en Mand uden al Betydning paa Grund af hans ganske krampagtige Holdning“.

Og í sambandi við strandgæslu Dana hjer við land segir hann:

„.... idet man meget beklagede Sigurður Eggerz ubeföjede Kritik“.

En það er ekki aðeins í þessu viðtali, sem minst er á mig í sambandi við strandgæslu erlendu skipanna hjer við land. Í gerðabók sambandslaganefndarinnar er minst á mig einu sinni eða tvisvar í sambandi við strandvarnirnar. Þar er bókað eftir Kragh ráðh.:

„Kragh mintist á þá samninga, sem fram hefðu farið þegar Sigurður Eggerz setti á stofn hina sjerstöku Íslensku landhelgisgæslu. Hefði þetta orðið á fremur óformlegan hátt“.

Mjer er það ekki óljúft, þó Danir minnist á mig í sambandi við strandgæsluna. Hin sjerstaka íslenska landhelgisvörn var sett á stofn í minni stjórnartíð. Mætti þessi ráðstöfun mikilli andúð í byrjun frá danskri hlið. Var því haldið fram frá danskri hlið, að landhelgisgæslan ætti að vera óskift og auðvitað undir danskri stjórn. Eftir að jeg hafði haldið fast fram hinum rjetta málstað þjóðarinnar, fór svo, að Danir ljetu undan síga og fjellust á mínar kenningar í málinu.

Við og við hefir því verið haldið fram af Dana hálfu, að þeim bæri ekki skylda til að taka þátt í landhelgisgæslunni hjer, þar sem Íslendingar ykju svo mjög sína eigin landhelgisgæslu. Án þess að fara nánar inn á þetta atriði, vil jeg geta þess, að því hefir jafnan verið haldið fram af hálfu vor Íslendinga, að samkv. aths. við 8. gr. sambandslaganna beri Dönum að halda hjer uppi strandgæslu með einu skipi, meðan sambandslögin eru í gildi, án tillits til þess, hvort landhelgisgæsla vor hefði aukist meira eða minna.

Sú gagnrýni, sem Borgbjerg átti við, kom fram í grein í blaðinu „Ísland“. Jeg hefi ekki skrifað þá grein, en skal játa, að jeg er í öllum aðalatriðum samdóma því, er þar stendur. En efni greinarinnar er tekið úr fagriti, sem Fiskifjelag Íslands gefur út, tímaritinu „Ægi“, og hefir formaður Fiskifjelagsins ritað greinina, sem vísað er í. Virðist því ekki hægt að vjefengja það, sem þar stendur um frammistöðu Dana í strandvörnum hjer við land.

Samkv. því, sem í Ægi stendur, lá „Fylla“ 68 sólarhringa inni á Reykjavíkurhöfn árið 1926. Árið 1927 lá hún þar 85 sólarhringa af strandgæslutímanum. (HK: Hvað ætli hún hafi legið lengi á öðrum höfnum?). Um það er ekki getið.

Þegar litið er á niðurstöðuna af landhelgisgæslunni 1927, sjest, að „Óðinn“ hefir tekið 36 togara, „Þór“ 4 og „Fylla“ 1. Af þessu er ekki hægt að draga nema eina ályktun um dönsku landhelgisgæsluna, og þegar litið er á þessa niðurstöðu, sjest best, hve hamingjusamlegt það er að halda áfram í sjálfstæðisáttina á öllum sviðum.

Mjer þætti gaman að sjá framan í þann hv. þm., sem er ánægður með alla landlegudagana og niðurstöðuna af dönsku landhelgisvörninni. „Af ávöxtunum skuluð þjer þekkja þá“, stendur einhversstaðar skrifað. Þessi eini togari, sem „Fylla“ tók, talar sínu máli. En þrátt fyrir þetta er einn háttsettur maður hjer á landi, hæstv. dómsmrh., svo skapi farinn, að hann lýsti yfir því í sambandslaganefndinni, er kvartað var yfir ákúrum þeim, er landhelgisgæsla Dana hefði sætt hjer, að engir leiðandi menn hjer á landi mundu taka undir aðfinslurnar við landhelgisgæsluna dönsku. Í gerðabók nefndarinnar segir svo:

„Jónas Jónsson kvað aðfinslur þær, er komið hefðu fram gegn danska varðskipinu, ekki lýsa skoðun leiðandi stjórnmálamanna“.

Það er heldur leiðinlegur vitnisburður fyrir þessa „leiðandi menn“, ef þeir hafa svo litla einurð, að geta ekki sagt, að hjer sje um einstaka vanrækslu að ræða.

Ef vorir leiðandi menn eru þannig skapi farnir nú, þá verða nýir leiðandi menn að taka við, sem betur eru að skapi þjóðarinnar.

Það hefir verið sagt í „Tímanum“, og Borgbjerg vísar líka til þess í viðtali því, er jeg hefi áður minst á, að gagnrýni á starfsháttum dönsku varðskipanna væri óviðeigandi og mætti ekki heyrast. Þar var talað um hina ströngu vinnu varðskipanna á dimmum vetrarnóttum. Þessar aðfinslur væru syndsamlegar, þar sem skipin ynnu starf sitt fyrir ekki neitt ! En jeg álít, að flestir Íslendingar telji, að þessi strandgæsla Dana sje goldin fullu verði. Frá vorri hálfu hefir verið litið svo á, að strandgæslan kæmi á móti þeim fiskveiðarjettindum, sem Danir njóta hjer við land.

Það er því sorglegur misskilningur, þegar íslenskir stjórnmálamenn krjúpa fyrir Dönum og þakka þeim sjálfsagðar skyldur þeirra eins og einhverjar ölmusur. Það mun reynast happasælast í þessu máli sem öðrum að koma hreinskilnislega og einarðlega fram út á við.

Jeg hefi átt tal við Kragh ráðherra síðan þessi grein kom út í „Íslandi“, og mintist hann á hana. Jeg sagði, að það kæmi ekki fram í þessari grein einni, heldur væri það almannarómur hjer á landi, að landhelgisgæsla Dana væri slælega rekin. Og að þetta almenningsálit er á rökum bygt, hefi jeg sannað með tilvitnunum í fagrit það, sem jeg gat um áðan.

Um ummæli Kragh, að landhelgisgæslan væri ekki formlega sett á stofn, er ekki annað að segja en að þetta var eingöngu íslensk ráðstöfun, sem engir gátu sagt neitt um með rjettu nema Íslendingar, og þurfti því ekki samninga við Dani um þetta atriði, þó þeir ljetu sjer það koma við í byrjun.

Jeg læt svo úttalað um þetta atriði. Þótt jeg hafi orðið fyrir þessari „Kritik“ hinna dönsku stjórnmálamanna og hæstv. dómsmrh. í sambandi við strandgæsluna, þykist jeg vita, að þau ummæli muni ekki bergmála í hjörtum þjóðarinnar.

Mun jeg þá víkja að því, sem jeg vildi þó sjerstaklega gera hjer að umtalsefni.

Jeg vil minna á, að á síðasta þingi komu fram yfirlýsingar, sem jeg lít svo á, að hafi mikla þýðingu fyrir framtíðar-frelsisbaráttu vora. Eins og kunnugt er, bar jeg fram á þinginu í fyrra fyrirspurn um það, hvort hæstv. stj. vildi vinna að uppsögn sambandslaganna og undirbúa sem best, að við tækjum utanríkismálin í okkar hendur. Stj. svaraði þessari fyrirspurn vel og drengilega, og allir flokkar tóku undir svar hennar. Jeg vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp aðalatriðin úr ræðu hæstv. forsrh.:

„Ríkisstjórnin og Framsóknarflokkurinn telur það alveg sjálfsagt mál, „að sambandslagasamningnum verði sagt upp eins fljótt og lög standa til“ og þar af leiðandi er ríkisstjórnin og flokkurinn reiðubúinn til að vinna að því“.

Þetta voru skýr og ótvíræð svör, sem jeg þakkaði stj. innvirðulega fyrir. En nú langar mig til að spyrja hæstv. stj.: Hvernig stendur á því, að sú stj., sem lofað hefir svo hátíðlega að vinna að undirbúningi þessara mála, skuli ekki — og þá einkum hæstv. dómsmrh., sem fundinn sótti — hafa á þeim mörgu stjórnmálafundum, sem háðir hafa verið úti um landið síðan, skýrt kjósendum frá því, sem gerst hefir í þessu efni? Slíkt var alveg sjálfsagt og í samræmi við yfirlýsingu hæstv. forsrh. um að vinna að uppsögn sambandslaganna. En til þess að sú uppsögn nái fram að ganga, þarf ekki aðeins 2/3 atkv. í Sþ., heldur mikinn meiri hl. þjóðarinnar. Og því er nauðsynlegt að fá hvern Íslending til að skilja, að þetta mál stendur fyrir ofan öll önnur mál. Alt strit og stælur hjer á þingi eru hjegómi einn á móts við það, hvernig þetta mál verður til lykta leitt. Hjer er um hvorki meira nje minna að ræða en það, hvort við eigum landið okkar kvaðalaust eða ekki. Hjer er ekki eingöngu um formsatrið: að ræða, heldur stærsta fjárhagsmál þjóðarinnar. Hjer er um það að læða, hvort landsins börn eigi að njóta landsins gæða. Eins og nú standa sakir hafa Danir sama rjett til þessara gæða og við sjálfir, en með einni þjóðlegri atkvgr. er hægt að skera niður öll höftin, sem á landinu hvíla. Þess vegna er þetta mál málanna.

Þá vildi jeg spyrja hæstv. stj. um hvernig á því stendur, að þegar stj. er spurð erlendis um, hvað gerst hafi í þessu máli, þá gefur stj. þau svör, að tekin hafi aðeins verið ákvörðun um, að endurskoðun skuli fara fram á sambandslögunum. Eftir sambandslögunum má fyrst heimta endurskoðun 1940, síðan má segja samningnum upp þremur árum á eftir.

Á þinginu í fyrra, samkv. yfirlýsingu hæstv. forsrh. eins og hún var birt í Alþingistíðindunum, var gengið út frá því sem sjálfsögðu, að endurskoðunar yrði krafist, en aðalþungamiðja málsins var þó, að þingið lýsti því yfir, að það ætlaði að segja sambandslagasamningnum upp svo fljótt, sem unt væri, eða 3 árum eftir að endurskoðunarkrafan væri komin fram.

Fara nú erlendu blöðin með skakt mál? Nú óska jeg eftir því, að hæstv. stj. lýsi því ótvírætt og skorinort yfir, hvort erlend blöð fari hjer með skakt mál eða ekki. Læt jeg þess um leið getið, að hvert blaðið á fætur öðru flutti þau ummæli eftir hæstv. forsrh., að hjer væri aðeins um endurskoðun að ræða, og jafnþektur stjórnmálamaður og Zahle hefir sagt í grein, sem hann hefir skrifað, að aðeins einn maður á Íslandi vildi segja sambandslögunum upp. En einkennilegar eru þær frjettir, sem sambandsþjóð vor fær af Alþingi, ef þær eru á þessa lund, þar sem raddirnar á síðasta Alþingi voru alveg einróma um að segja upp samningnum.

En því er ver og miður, afturkippurinn um endurskoðun í stað uppsagnar kemur víðar fram en í erlendum blöðum. Þegar sjálft stjórnarblaðið hjer heima mintist 10 ára fullveldisafmælisins 1. des. 1928, stóðu í því þessi orð:

„Um það verður ekkert fullyrt að svo komnu, hvort sá rjettur (þ. e. uppsagnarrjetturinn) muni verða notaður. Því hefir veri lýst yfir af núverandi forsætisráðherra og fulltrúum allra íslenskra stjórnmálaflokka, að þeir teldu endurskoðun samningsins sjálfsagða“.

Í sjálfu stjórnarblaðinu, á 10 ára afmæli fullveldisins, eru yfirlýsingar síðasta þings viðvíkjandi sambandslögunum gerðar að lítilfjörlegri kröfu um endurskoðun.

Jeg verð að segja það, að mjer finst það raunalegt að lesa slík ummæli þegar á fyrsta ári eftir að Alþingi hafði látið í ljós ótvíræðan vilja á því, að segja sambandslagasamningnum upp. Og enn fleiri gögn hníga því til sönnunar, að hæstv. stj. hafi umfram alt viljað láta þann kaleik frá sjer víkja að kannast við, að Íslendingar ætluðu að segja samningnum upp. Þetta sjest m. a. í gerðabók dansk-íslensku ráðgjafaranefndarinnar frá síðastliðnu sumri. Þar stendur svo:

„Borgbjerg vitnaði til þess, að rjettur væri áskilinn til að minnast á fleiri mál, og kvaðst því vilja benda á, að á seinni tímum væri oft talað um þá alvarlegu hættu, sem leitt gæti af jafnrjettisákvæði danskra og Íslenskra ríkisborgara, í 6. gr. sambandslaganna, einkum fyrir atvinnulíf á Íslandi. Það gæti því verið gagnlegt, að kyrlát rannsókn yrði gerð á þessum efnum fyrir næsta fund í nefndinni að ári, á þann hátt, að báðir nefndarhlutarnir söfnuðu staðreyndum lútandi að því, hvernig ákvæðið hefði verkað í reynd. Slík rannsókn gæti lagt góðan grundvöll að síðari umræðum um þetta mál.

Kragh lýsti sig hlyntan þessari uppástungu og Jónas Jónsson áleit gott, að menn innan nefndarinnar reyndu að átta sig á þessu og án þess að gera of mikið veður út af máli, sem í raun og veru væri ekki ofarlega á dagskrá á Íslandi“.

Jeg verð að segja, að það kom ákaflega flatt upp á mig, að sama stj., sem gaf hina beinu og drengilegu yfirlýsingu á þingi í fyrra, skyldi nú fara að gefa gagnvart dönskum fulltrúum þá yfirlýsingu, sem fram kemur í fundargerðinni. Um það ætti þó a. m. k. enginn ágreiningur að vera, að segja upp 6. gr. sambandslaganna, sem beinlínis heimilar Dönum víðtækan ábúðarrjett á landinu. Það er sorglegt, að sjálfur dómsmrh. skuli skýra Dönum frá, að þetta mál sje ekki ofarlega á dagskrá hjá þjóð vorri, sem þingið með yfirlýsingum sínum setti efst á dagskrá allra mála.

Þá eru dálítið óviðkunnanleg ummæli, sem hæstv. dómsmrh. hefir látið danska blaðið Roskilde Tidende hafa eftir sjer, þegar hann var á ferðinni niðri í Danmörku í sumar. Fyrst talar hæstv. ráðh. um „den famöse Erklæring“, þ. e. yfirlýsingu þingsins. En svo er eins og hann þykist þurfa að mýkja blaðamanninn danska, sem hann er að tala við, ennþá betur, Hann dregur upp ákaflega átakanlega mynd af ungum dreng, sem er að fara út í heiminn einn síns liðs og skilur grátandi við pabba sinn og mömmu. Það er rjett eins og hæstv. ráðh. sje að gefa blaðamanninum hugmynd um, hve gráturinn muni verða sár hjer á landi yfir því að þurfa að skilja við „dönsku mömmu“. Og nú er Danmörk ekki lengur danska mamma, heldur einnig danski pabbi í hinni hjartnæmu ræðu ráðh. Hann fer um þetta þeim mýkstu orðum, sem hann á til. Það er eins og maður sjái átökin, þegar hæstv. dómsmrh. er að biðja þess, að hinn beiski kaleikur, skilnaðurinn, megi frá sjer víkja.

Mjer er vissulega engin ánægja að því að koma fram með gagnrýni á hendur hæstv. stj. í þessu máli. En hún verður að gefa yfirlýsingu um það, hvernig stendur á þeirri kynlegu framkomu, sem jeg nú hefi lýst. Ef stj. hefir sagt hinum erlendu blöðum það, sem þau hafa eftir henni, þá er stj. áreiðanlega komin í minni hl. hjer í þinginu. Það verður að koma skýrt fram hjer á Alþingi, hvort í nokkru er hvikað frá því, sem yfirlýst var á síðasta þingi. Sje svo, verður að hefja sterka og öfluga baráttu til þess að kenna þjóðinni að þekkja sinn vitjunartíma. Hver sá maður, sem veldur mistökum í þessu máli, á skilið harðan og þungan dóm.