11.04.1929
Neðri deild: 42. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í B-deild Alþingistíðinda. (640)

16. mál, fjárlög 1930

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Hv. þm. Dal. beindi til mín nokkrum orðum út af strandgæslunni, og þá einkum um það, hvort danska varðskipið Fylla myndi hafa int af hendi skyldur sínar lögum samkvæmt. Jeg vil benda þessum hv. þm. á, að hann var einn þeirra, sem áttu verulegan þátt í sambandslagasamningnum 1918. Í sambandslögunum er tekið fram, að Danir skuli leggja eitt skip til strandgæslu hjer við land ákveðinn tíma á hverju ári. En um starfsemi þess skips er ekki nánar ákveðið. T. d. er ekkert tekið fram um það, hve lengi það megi dvelja í höfn, þegar ketilhreinsun fer fram. Um alt slíkt verður að fara eftir samkomulagi og ástæðum. Ekkert er heldur sagt um það, að þetta skip skuli vera beinlínis lagað til strandgæslu. íslenska stj. gat ekki. hvorki nú eða þegar hv. þm. var dómsmrh., krafist þess, að Danir bygðu skip eins og t. d. Óðin til að verja landhelgina hjer. Stj. íslenska hefir aðeins rjett til að heimta skip. Það er ekki hægt að búast við, að Danir uppfylli meira en í samningnum stendur. Það hafa þeir gert. En þeir hafa aldrei sent hingað skip, vel fallið til strandgæslunnar. Islands Falk og Fylla eru fyrst og fremst herskip. Þeim er mjög mikið ábótavant sem strandvarnaskipum. En úr því verður ekki bætt, nema með því að smíða nýtt skip, og þess getum við ekki krafist af Dönum.

Hv. þm. las upp skýrslu um það, hversu marga daga danska varðskipið hefði legið í höfn. En þó að talan, sem hann nefndi, sje nokkuð há, þarf það ekki að vera samningsbrot. Því hefi jeg gert grein fyrir. En sje samningurinn ekki í lagi, þá á hv. þm. það mest við sjálfan sig.

Jeg vil líka gjarnan spyrja hv. þm., hversu marga daga dönsku skipin hafi verið úti á sjó og hversu marga daga þau hafi legið inni í höfn, þegar hann var dómsmrh. Jeg vona, að hv. þm. svari þessari spurningu, einkum af því að orð hans mátti skilja sem ásökun til eftirmanna hans, hv. 1. þm. Skagf. og mín. Grunur minn er sá, að ástandið hafi verið eitthvað svipað þá og nú. Sje sá grunur órjettmætur, er hv. þm. væntanlega ljúft að leiðrjetta það.

Að því er jeg hygg, líta Danir svo á, að strandgæslan hjer við land eigi að hafa tvöfalt takmark. Skipin munu ekki vera send hingað eingöngu til þess að fullnægja gerðum samningi, heldur eiga þau jafnframt að vera skóli fyrir unga sjóliðsmenn. Og þótt kostnaðurinn, sem af þessum ferðum leiðir, valdi nokkurri óánægju, eru þær mjög vinsælar í danska flotaliðinu. Baráttan við óveðrin og stórsjóina hjer við land eru hollur skóli. Og þess háttar erfiðleikar eru sjaldan fyrir hendi niðri við Danmörku í eins ríkum mæli og hjer. En af því að skipin eiga að vera skólaskip, jafnframt því, sem þau annast strandgæsluna, leiðir það, að þau eru stærri og óhentugri en ella til þess, sem við eigum að nota þau.

Hv. þm. gerði samanburð á tölu þeirra togara, sem Óðinn hefir tekið í landhelgi, og hinna, sem Fylla hefir tekið. Sá samanburður var ekki alveg óhlutdrægur. Jeg held, að hv. þm. hafi valið það ár, sem Fylla tók fæsta togara. En árið 1926, svo að jeg nefni dæmi, tók hún marga. Mig furðar líka á því, að hv. þm. skuli dæma gæsluna eingöngu eftir því, hversu margir togarar eru „teknir“. Jeg skal ekki neita því, að það sje mikils vert að „taka“ togara. Og í því er fólgin „romantikin“ við landhelgisvarnirnar, ef svo mætti að orði komast. En því má ekki gleyma, að takmark þeirra er ekki í því fólgið. Eftir að landhelgisgæslan er komin í gott horf, verða sjálfsagt tiltölulega fáir togarar teknir. Þeir þora þá ekki að koma nærri landinu. Hið „ideella“ takmark er, að enginn togari þori að fara inn fyrir landhelgislínuna, þó að hitt væri raunar ennþá æskilegra, að þeir vildu ekki gera það. Jeg er ekki viss um, að hv. þm. geri sjer fulla grein fyrir þessu.

Munur hins sýnilega árangurs af starfsemi skipanna síðastliðið ár getur líka að nokkru leyti stafað af þeirri verkaskiftingu, sem átti sjer stað milli þeirra í fyrra. Fylla gætti þá vesturstrandarinnar um vertíðina, en Óðinn var fyrir sunnan land. Hv. þm. má gjarnan gera gys að því eins og hann hefir gert, að danska varðskipið sigldi þá á mjög stuttum tíma um 15 þús. sjómílur og hjelt veiðiþjófum frá landinu. En við vesturströndina er tiltölulega erfitt að festa hendur á togurum. Ef vel ætti að vera, þyrfti strandvarnaskip stöðugt að liggja við Snæfellsnes. En það skip myndi örsjaldan „taka“ togara. Við suðurströndina eru togararnir oftast teknir. Þetta ætti hv. þm. að vera kunnugt um.

Hv. þm. Dal. ætti að geta skilið, að þetta er ekki gert til að kasta skugga á útgerð „Fylla“, þar sem þessi verkaskifting var gerð í samráði við stj. í fyrra, og þess er engin von, að stj. taki því vel, þegar verið er að draga rangar ályktanir af þessari verkaskiftingu, þó að strandgæslan fyrir vestan land hafi ef til vill þá um stund ekki borið neinn „rómantískan“ árangur. Við höfum ekki samningslegan rjett til að heimta, að varðskipið hafi vjel, sem hægt sje að hreinsa á 2–3 dögum, og hv. þm. Dal. getur meðal annara þakkað sjer, að ekki var betur gengið frá þessu atriði sambandslaganna. Þetta skip, sem Danir hafa hjer við strandgæslu, er orðið gamalt og að mörgu leyti úrelt. Jeg mintist á það í fyrra við skipstjórann, að mjer þætti skipið liggja of lengi í höfn vegna hreinsunar, en hann svaraði á þá leið, að fyrir því lægju bein fyrirmæli, svo að við þessu verður með engu móti gert.

Jeg held, að hv. þm. Dal. hafi í blaði sínu meira túlkað eigin pólitískar skoðanir en landa sinna. Flestir Íslendingar líta svo á, þar sem við á annað borð æskjum ekki til lengdar eftir fjelagsskap við Dani um strandgæsluna, að ekki sje rjett að ganga lengra í því efni en samningurinn segir til um. Auk þess er ekki hægt að búast við, að Danir leggi eins mikla alúð við strandgæsluna og við, með því að þeir stunda hana af alt öðrum hvötum og í öðrum tilgangi en við, nefnilega til að æfa sjómenn sína. Og þess vegna verðum við að kosta kapps um að búa íslensku varðskipin sem best úr garði, og eigum og megum alls ekki varpa áhyggjum okkar upp á Dani í þessum efnum, þó að við auðvitað færum okkur í nyt samninginn frá 1918, meðan hann er í gildi. Annars veit jeg ekki, hvað jeg á að segja um annað eins og það, þegar verið er að draga inn í eldhúsdagsumr. meira og minna órökstudda dóma, sem fram hafa komið í blaði hv. þm. Dal. af fákunnáttu ritstjórans. Þegar sá tími kemur, að við Íslendingar gerum upp skifti okkar við Dani, munum við gera það eftir rjettlátum, mannlegum línum, en við höfum ekki framar ástæður hins undirokaða. Á meðan við áttum við þá aðstöðu að búa, var okkur vorkunn, þó að við legðum alt út á verri veg fyrir Dönum. En nú er þessi gamla undirgefni horfin, og sömuleiðis löngunin til að gera Dönum rangt til og leggja þeim illar hvatir í brjóst, enda vitum við, að hjer eftir verða skifti okkar við þessa frændþjóð eins og milli tveggja sjálfstæðra og jafnhárra aðilja. En um blað hv. þm. Dal. er það að segja, að ritstjóri þess hefir fengið einhverja dularfulla gáfu til að geta sjer til um hugsanir hv. þm. Dal., og er því ekki gott að skilja í sundur og segja um, hvað hvor þeirra segir. Hv. þm. Dal. verður að gæta að því, að hans mentalíf er orðið gamalt. Hann hefir eins og stansað á þróunarbrautinni á einum vissum stað og hefir því kýmileg áhrif á samtíð sína. Í honum lifir enn þessi gamli andi, sem ríkti bæði í mjer og öðrum, á meðan ástæða var til að hata Dani.

Þetta getur til bráðabirgða verið nóg svar af minni hálfu. Jeg álít, að við höfum ekki ástæðu til að gera gildandi samningsbrot á Dönum í þessu efni. Strandgæslan er misgóð, eftir því hve duglegir foringjar varðskipsins eru. Hjer í bænum er nú búsettur danskur maður, sem hefir að baki sjer glæsilega frammistöðu við strandvarnirnar hjer við land frá „rómantísku“ sjónarmiði sjeð. Það hefði verið best fyrir okkur, að þessi maður hefði altaf verið við þetta, en eins og eðlilegt er, nota Danir sjóforingja sína til skiftis til þessa starfa. Hv. þm. Dal. getur haft þær hugsanir sem hann vill í þessu efni. Foringinn, sem nú er á „Fyllu“, sjest hjer ekki oft. Hann hefir tekið allmarga togara nú þegar, og jeg hefi orðið þess var, að hann gengur með fullri alvöru að þessu starfi sínu. Jeg skora á hv. þm. Dal. að láta Dani njóta sannmælis í þessu efni og draga ekki einungis fram legudaga „Fyllu“ hjer í Reykjavík vegna ketilhreinsunar, heldur hitt líka, þegar foringinn er vakinn og sofinn í að vinna þetta starf í okkar þágu, auk þess sem hann um leið er að vinna skólaverk fyrir sína þjóð.

Annars hjelt jeg, að hv. þm. Dal. væri of mikill blaðamaður til þess að geta sjest yfir, að þessi djörfu orð, sem hann hafði eftir mjer, eru frítt útlögð. Og jeg veit ekki til þess, að textinn sje til á íslensku, eða dönsku, eins og hann vill vera láta. Það er ekki alt rjett, sem í blöðunum stendur, og margt getur skolast til á skemri leið en landa á milli. Að hinum blaðaummælunum, um foreldrahúsin, skal jeg víkja seinna, en fyrst ætla jeg að minnast á setningu, sem hann las upp úr fundargerðum lögjafnaðarnefndarinnar. Mjer skildist svo eftir upplestrinum, að jeg hefði gert lítið úr pólitík hans. Jeg geri ráð fyrir, að hann hafi haft þetta rjett eftir, og vil benda á, að það er ekki nema einn maður í einu blaði, sem talar mikið um sambandsmálið hjer á landi nú sem stendur, og þessi maður er hv. þm. Dal. Að segja annað væri að segja ósatt. En það vill nú svo vel til, að það eru gefin út fleiri stjórnmálablöð hjer á landi en blað hv. þm. Dal., og það væri gaman að ganga í gegnum þau og vita, hve margar greinar eru í þeim um sambandsmálið að skapi hv. þm. Dal., það er að segja, eru lof um hann sjálfan fyrir fyrirspurnina frægu, bergmál af hans eigin blaði um það, hvílíkur yfirþjóðarvinur hann sje og hvílíkt leiðarljós sögunnar. Jeg er hræddur um, að hv. þm. Dal. myndi ekki finna neitt í þessa átt, þó að hann leitaði með logandi ljósi, nema í sínu eigin blaði. Að minsta kosti man jeg ekki eftir neinu slíku. Að vísu les jeg ekki öll blöðin, en í þeim, sem jeg les, er ekki nema lítið eitt um þetta efni, og í flestum ekki neitt.

Er þetta mál, sambandsmálið, efst á baugi meðal þjóðarinnar? Ef jeg sæi ekki annað blað en blað hv. þm. Dal., mundi jeg segja, að svo væri. Annars það gagnstæða. Hv. þm. Dal. fylgist ekki með því, sem er að gerast í hans eigin samtíð. Það er enginn nema hann einn, sem talar um það nú sem stendur, í hvaða fötum við eigum að vera 1943. En þar með er ekki sagt, að enginn hugsi um það. Hitt er það, að menn vita, hvað þeir vilja: að við eigum að halda áfram sjálfstæðisbaráttunni eftir okkar eigin þroskaleiðum. Jeg held, að hin pólitíska sjerstaða hv. þm. Dal. hafi vilt honum sjónir. Hann vildi mynda flokk utan um sjálfstæðismálið, en var svo óheppinn, að þjóðin var búin að koma sjer niður á fastar línur til að fara eftir í þessu máli. Þjóðin gerir lítið úr því, sem hv. þm. Dal. segir, enda hefir hún ekkert þurft til hans að sækja í þessu efni, og mun ekki þurfa þess. Það verður ekki annars krafist af hv. þm. Dal. en að hann geri skyldu sína, eins og hver annar góður borgari. Það er ekkert unnið við það að tala mikið, heldur á að búa þjóðina, ekki undir eitthvert ákveðið átak, heldur undir það að lifa í framtíðinni, þroska hana til þess að geta lifað lífi sjálfstæðrar þjóðar. Þetta er meginliður sjálfstæðisbaráttunnar, og það er vissan um, að svo sje, sem hefir gert það að verkum, að þeir menn, sem eru að vinna þjóðina upp, brosa góðlátlega í áttina til þess manns, sem er símalandi um frelsi og sjálfstæði, en sjaldnast viðlátinn, þegar um er að ræða hina sönnu viðreisnarstarfsemi. Jeg skal færa því nokkur dæmi, að hv. þm. Dal. hafi ekki verið viðlátinn, þegar landið hefir kallað á hann. Þess er skemst að minnast, þegar hæstv. forsrh., er hann var enn í minni hl., barðist fyrir því, að ríkið hjálpaði bændum til að útvega sjer erlendan áburð, svo að þeir gætu lagt fult kapp á ræktun landsins. En þetta, að rækta landið, búa vel og afla nógra heyja, að tryggja sterkt og heilbrigt bændalíf í landinu, er kjarnaliður hinnar sönnu og ævarandi frelsisbaráttu okkar Íslendinga. En hvað gerðist þá? Hv. þm. Dal. gekk í lið með dönskum verslunarhring hjer í Reykjavík, sem hjelt hjer úti blaði, og gerði sitt til að koma þessari tilraun til eflingar landbúnaðinum fyrir kattarnef. Jeg geri ráð fyrir, að það hafi ekki verið hjarta hv. þm., Dal., sem leiddi hann afvega í þessu máli, heldur heili hans, sem ekki var nógu sterkur. Við Íslendingar verðum að stefna að því að öðlast ráðin yfir atvinnuvegunum sjálfir og þora að stíga á strá jafnt innlendra sem útlendra gróðamanna. Það er einn liðurinn í baráttunni fyrir atvinnulegu sjálfstæði, þegar síðasta Alþingi tók síldarmálin úr ljelegum höndum innlendra og útlendra fjárplógsmanna, sem voru á góðum vegi með að eyðileggja sjálfa sig, bankana, bændurna og verkalýðinn. Hvar stóð hv. þm. Dal. í þessu máli? Hann gerði alt það litla, sem hann gat, til að spilla fyrir því. Fyrir honum mátti bönkunum blæða út og þetta óstand haldast óbreytt og arður síldarútvegsins hverfa í sjóinn beint eða til erlendra leppa og hringa. Þegar hv. þm. Dal. var á „vegferðarreisu“ sinni árið 1926, skorti ekki hnútur og staðlausar dylgjur í garð kaupfjelaganna. Þá var ekki verið að meta starfsemi þeirra í þágu þjóðfjelagsins, en þau hafa unnið meira en nokkur annar fjelagsskapur að því að ala þjóðina upp, svo að hún geti orðið í raun og veru, ef það þá er unt vegna fæðar okkar, sjálfstæð í lýðveldi þjóðanna.

Það vill enginn taka af hv. þm. Dal. þá gleði, sem hann hefir af að skrifa og tala um sambandsmálið, en hann getur ekki neitað því, að eins og hann er orðinn einn í flokki, eftir að hafa verið fyrir nokkrum árum í stj. stærsta þingflokksins, eins er hann nú orðinn einangraður í umr. augnabliksins um sjálfstæðismálið eins og orðmörg en áhrifalaus skrafskjóða. En þeir menn, sem eru að vinna að hinu raunverulega sjálfstæði landsins, gera ekki mikið úr þeirri þýðingu, sem skraf hans á að hafa, en munu gleðjast yfir að sjá hann koma til fyrirheitna landsins, eftir sínum einmanalegu leiðum, til hinna, sem báru raunverulega hita og þunga dagsins.

Þá var það líkingin um unga manninn, er yfirgaf heimili sitt. Hvað sem er að segja um æskileika þess að skilja við Dani, þá er það nú svo, fyrir forgöngu góðra manna, að frá því að vera innlimaður sem amt í Danmörku erum við nú sjálfstæð þjóð og okkur ber að keppa að því að vaxa til þess að geta tekið mál okkar að öllu leyti í hendur okkar sjálfra og notað alla möguleika landsins, sem við byggjum. Og jeg hygg, að það sje stærri og víðtækari hugsjón en fólst í fyrirspurninni nafnkunnu, sem hv. þm. Dal. bar hjer fram á þinginu í fyrra. En setningarnar um sonartárin voru hvergi í samtalinu, svo að hv. þm. Dal. hlýtur að hafa skáldað það sjálfur inn í. Það er ekki hægt að segja, að hv. þm. Dal. geti sjálfur lifað eftir þessari endurbættu útgáfu hins grátna unglings. Hann lifir og nærist á dönskum brjóstum og hann hefir lagt sig sjálfur á þau. Þegar hann hætti að vera trúnaðarmaður þjóðar sinnar, kaus hann sjer framtíðarstöðu við fjármálastofnun hjer í bæ, sem er að eign til í höndum útlendinga, og sjerstaklega Dana. Hin brennandi Íslandsþrá hans virðist ekki hindra hann í að vinna undir handarjaðri þessara útlendu eigenda stofnunarinnar. Hann virðist ekki geta slitið sig frá þessu foreldri, ekki einu sinni með tárum.