11.04.1929
Neðri deild: 42. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í B-deild Alþingistíðinda. (645)

16. mál, fjárlög 1930

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg vil aðeins leyfa mjer að svara því, ef jeg fæ að tala hjer fyrir hæstv. forseta, að það er ekki venja annara forseta en þessa að hafa slíkt orðbragð í frammi við þm. nje um þá. Mun hann vera einasti þingforsetinn í heimi, sem hagar sjer svo, og er það furðulegt, að slíkur maður skuli sitja í þessu virðingarsæti, sem ætlað er rjettsýnum, óhlutdrægum manni.

Þegar stjórnarskiftin urðu og Framsóknarflokkurinn komst til valda og stj. hans, mun óhætt að segja, að þá hafi yfirleitt, meðal alþýðu að minsta kosti, verið ánægja yfir því. Bændurnir bjuggust við því, að þarna væri stj. komin, sem myndi vinna fyrir þá, og verkamennirnir vissu, að þá fór sú stj. frá, sem hafði verið þeim harðdrægust af öllum stj., sem hjer hafa setið, því að þótt sú stj. hafi setið stutt við völd, þá hafði hún þó orðið svo óvinsæl, að vafasamt er, hvort nokkur önnur stj. hefir orðið jafnóvinsæl hjer á landi fyr, eftir að stj. komst inn í landið.

Við þessi stjórnarskifti kom það fyrir á þingi, að þar voru þrír flokkar, en enginn einn í meiri hl., svo að Framsóknarflokkurinn gat því aðeins tekið við völdum, að Alþýðuflokkurinn lýsti yfir hlutleysi sínu, eins og líka sjálfsagt var, að láta Framsóknarflokkinn fá tækifæri til að sýna, hvað hann gæti og hvernig hann kæmi fram gagnvart íslenskum verkalýð. Það er að vísu ekki liðinn langur tími síðan þá, en þó mun óhætt að segja það, að að sumu leyti hefir Framsóknarflokkurinn gert það, sem búist var við af verkamönnum og fulltrúum þeirra.

Í fyrra var komið fram löggjöf, sem við jafnaðarmenn hefðum ekki getað komið fram nema með aðstoð Framsóknarflokksins. Á jeg þar við vökulögin, ennfremur lögin um skiftingu Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi, þar sem Hafnarfjörður var gerður að sjerstöku kjördæmi, og loks í fjárlögum 1929 ríkissjóðsábyrgðin fyrir Samvinnufjelag Ísfirðinga til þess að hjálpa Ísfirðingum eftir að íhaldsmenn höfðu gereyðilagt atvinnumöguleika þeirra, svo ekki var annað sýnt en að fólkið yrði mestmegnis að flæmast í burt þaðan. (MJ: Það er miklu fleira en þetta). Já, það er vitanlega ýmislegt smávegis annað, en þetta eru aðalmálin.

Jeg vil geta þess, að þótt Alþýðuflokkurinn meti það að verðugu við Framsóknarflokkinn að hafa komið þessu fram, þá er þetta ekki mikið í samanburði við það, sem Alþýðuflokkurinn. mætti ætlast til, eftir því atkvæðamagni, sem bak við hann stendur, sem mun vera á milli 1/4 og 1/5 hl. af öllum atkv. í landinu, þótt flokkurinn hafi ekki haft frambjóðendur nema í fáeinum kjördæmum. Það er alkunnugt, að það er enginn hreppur á landinu, þar sem Alþýðuflokkurinn hefir ekki nokkur atkv., svo að líklegt er, að hann hafi meira en fjórða hluta allra atkv. landsmanna, sennilega 1/3. Það væri því ekki undarlegt, þó að störf þingsins og löggjöf gengju nokkuð í þá átt að bæta hag verkalýðsins, þeirrar stjettar, sem aðallega fyllir Alþýðuflokkinn, og sjerstaklega þegar þess er gætt, að áður, um mörg undanfarin ár, hefir mjög lítið verið hugsað um verkalýð landsins, meðan hin svarta íhaldsstj. ríkti, er síðast vjek frá völdum. Það hafa verið aðrir og annara hagsmunir, sem hafa setið fyrir öllu.

Þess ber líka að gæta, að þau lög, sem jeg mintist á, hafa ekki kostað ríkið neitt. Ríkissjóðsábyrgðin fyrir Ísfirðinga getur auðvitað kostað eitthvað síðar meir, ef illa fer, en væntanlega kemur hún ekki til að kosta neitt. Leiti menn nú í fjárlögunum, eins og þau koma frá hæstv. stj., þá virðist heldur ekki, að það ráð sje upp tekið að veita mikið fje til umbóta fyrir verkalýðinn, enda þótt það muni fáir vera í öðrum flokkum, sem geti neitað því, að sú stjett, sem ætti mesta kröfu á, að henni væri lyft í áttina til sólar og kjör hennar bætt, er einmitt verkamannastjett þessa lands.

Þá vil jeg minnast á eitt mál, sem mjer skildist hv. 1. þm. Reykv. vilja telja flokksmál okkar jafnaðarmanna, er framgang hefði fengið; það er síldareinkasalan. Það er auðvitað, að jafnaðarmenn fylgja slíkum málum, vegna þess að þeir álíta, að slíkt fyrirkomulag hafi sína yfirburði yfir frjálsa samkepni eða hringi einstakra manna. En það er ekki hægt að segja, að slík einkasala sje sjerstaklega fyrir jafnaðarmenn, þegar henni er þannig fyrir komið, að verkamenn hafa ekki neinn sjerstakan hag af henni, heldur þvert á móti útgerðarmennirnir. Ef um þjóðnýtt fyrirtæki væri að ræða, mundu bæði þeir, sem við fyrirtækið vinna, og hinir, sem við það skifta, eiga þátt í stjórn þess og hluttöku í arði. En hingað til hafa það verið útgerðarmennirnir, sem eingöngu hafa haft hag af síldareinkasölunni. (MJ: Það er ein tegund socialisma). Það er ríkisrekstur, en ekki socialistiskt fyrirtæki, þjóðnýtt stofnun.

Það var minst á það á þinginu í fyrra, að orðið hefði samkomulag um mjög mikilsvert atriði milli Alþýðuflokksins og Framsóknarflokksins um afgreiðslu fjármálanna. Það var þegar hinar mjög gálauslegu till. hv. þm. Borgf. og hv. 2. þm. Skagf. komu fram, en þær gengu í þá átt að auka mjög verklegar framkvæmdir ríkissjóðs, án þess að afla honum aukinna tekna um leið. Þá var það, að bæði Framsóknar- og Alþýðuflokkurinn fjellust á að auka framkvæmdir ríkissjóðs, en aðeins með því að auka jafnframt tekjur hans. Út af þessu varð svo samkomulag milli flokkanna um öflun þess fjár, bæði með hækkun verðtolls, kola- og salttolls og fjórðungshækkun á tekjuskatti.

Nú skyldu menn halda það, að þetta samkomulag myndi standa, sjerstaklega þar sem ríkisstj. var kunnugt um það, að Alþýðuflokknum var það mjög nauðugt að ganga inn í nokkrar hækkanir tolla, og að það var eingöngu vegna þess ástands, sem jeg hefi þegar minst á, að yfirleitt var gengið inn á þessa braut, og vegna þess að hækkunin á verðtollinum, sem tekjuhækkunin bygðist að allmiklu leyti á, gilti aðeins til tveggja ára, eða fram yfir 1930. Hvernig eru efndirnar? Í ársbyrjun lítur að vísu svo út sem atvmrh., sem þá var jafnframt fjmrh., ætli að innkalla þessar tekjur, sem ráð var fyrir gert. En um sama leyti stóð yfir kaupdeila á milli sjómanna og útgerðarmanna, sem hæstv. forsrh. reyndi að jafna og lagði mjög mikla vinnu í, sem honum að því leyti skal þakkað fyrir.

Þegar hæstv. ráðh. tókst að leysa þessa kaupdeilu, þá var enginn af sjómönnum eða samningamönnum þeirra, sem vissu neitt um það, hver meðul hæstv. ráðh. hefði notað til þess; menn vissu ekki annað en að það hefði aðeins tekist fyrir hans milligöngu og báðir aðiljar hefðu á síðustu stundu heldur kosið friðinn en tvísýna baráttu. En næsta morgun eru allar götur fullar af hlakkandi íhaldsmönnum, sem syngja hósíanna yfir því, að nú sje búið að fella niður fjórðungshækkunina á tekju- og eignarskattinum.

Nú er það svo, að verkafólk, hvort sem það eru sjómenn, verkakonur eða verkamenn í landi, vilja náttúrlega gjarnan nota öll sæmileg ráð til þess að koma á viðunandi samkomulagi milli þeirra og atvinnurekenda um kaupgjald. En það er langt frá því, að verkalýður hjer á landi trúi ekki á mátt sinn og megin í slíkum deilum, og að hann áliti leyfilegt og rjettmætt að nota almannafje, ríkissjóðinn, á þann hátt að ausa út fje til beggja handa til að kaupa sjer frið; það er einmitt þetta, sem hæstv. forsrh. hefir gert, því að það vita allir, að þeir, sem eingöngu höfðu hag af þessu, voru stóratvinnurekendurnir hjer í bæ. Það mætti því segja í þessu máli, að hæstv. forsrh., sem er höfuð Framsóknarflokksins, hefði orðið að lúta í lægra haldi fyrir aðalandstæðingum sínum og að íhaldsmenn hefðu getað sagt, að þeir hefðu svínbeygt þann, er Svíanna var ríkastur, enda leyndu þeir ekki gleði sinni. Er leitt til þess að vita, þegar þess er gætt, að hæstv. forsrh. hefir lýst yfir því hjer í þinginu, að skoðun hans væri ekki á neinn hátt breytt í þessum skattamálum nje heldur að hann hafi nokkurntíma sagt, að hann teldi þessi lög órjettlát. En afleiðingin af þessu er sú, að það samkomulag, sem varð um öflun tekna, er algerlega svikið af Framsóknarflokknum! Það er haldið áfram að ná tekjum ríkissjóðs með tollum, en ekki lagðir tilsvarandi beinir skattar á gjaldendur. Ef hagur ríkissjóðs stæði með þeim blóma, að hægt væri að minka gjöld á þegnunum, þá hefði hæstv. forsrh. og flokkur hans átt að hallast á þá sveif að minka tollana, frekar en að fella niður þennan skatt.

En Framsóknarflokknum og stj. hans verður nú að nokkru leyti gefið tækifæri til þess að sýna hreinan lit í þessu máli, með frv. því, sem liggur fyrir þinginu um lækkun verðtolls, en sem af einhverjum óskiljanlegum ráðstöfunum hæstv. forseta (BSv) hefir ekki enn komið til umr., þótt það sje elsta frv. af þeim, sem nú liggja fyrir og ekki hafa enn komið til umr.

Jeg vil aðeins benda á þetta mál til þess að sýna það, að þó að Framsóknarstj. hafi að ýmsu leyti verið miklu betri en íhaldsstj., sem áður var, þá virðist þó sem nokkur veila sje á henni orðin á síðustu tímum. Jeg skal hjer nefna annað, máli mínu til frekari sönnunar; það er vegavinnukaupið. Það er alkunnugt, að á dögum íhaldsstj. var vegamálastjóri notaður sem einskonar verkstjóri atvinnurekenda til þess að þrýsta niður kaupi verkamanna um alt land. Aðferðir hans í þeim efnum voru svipaðar því sem notaðar voru hjá harðdrægustu verkstjórum íhaldsatvinnufyrirtækja, og hann átti því betri aðstöðu við þetta, sem flestir þessir menn, sem hjá honum unnu, voru ekki í verkalýðsfjelögum, heldur var mikið af því fólki skólafólk og fáækir bændur, auk þess sem nokkrir fjelagsbundnir verkamenn stunduðu þessa vinnu. En af því að flestalt þetta fólk hafði engan fjelagsskap með sjer, hafði það verri aðstöðu gagnvart vegamálastjóra. Menn hjeldu, að þegar íhaldsstj. slepti völdunum, þá mundi þetta breytast til batnaðar, því að frá almennu sjónarmiði er engin ástæða til fyrir ríkissjóð, þegar hann á við verkamenn, frekar en aðrar stjettir, að reyna að nota sjer aðstöðu sína, sem er sjerstaklega voldug, til að þrýsta niður kaupi þeirra. Þannig notar ríkið vald sitt til þess að gera vegagerðir og opinberar byggingar ódýrari fyrir ríkissjóð á kostnað verkamanna, með því að taka allmikinn hluta af kaupi þeirra til þessa. Þetta virðist þó halda áfram að mestu leyti eins og áður, þannig, að hæstv. atvmrh. hefir, annaðhvort viljandi eða óviljandi, látið vegamálastjóra ráða í þessu efni og halda uppteknum hætti. Hann er því nú sem fyr einn helsti böðull verkalýðsins hjer á landi.

Jeg hefi leitað mjer upplýsinga um það, hvert kaup hafi verið síðastliðið ár við vegavinnu; kemur þá í ljós, að tímakaupið hefir verið um vorið 55, 60 og hæst 75 aurar, utan Gullbringu- og Kjósarsýslu, þar sem það var hæst og komst upp í kr. 1.10 um vorið, en yfir sumarið nær aldrei meira en 85 aurar um klukkustund.

Nú munu menn sjá það yfirleitt, að til móts við það, sem menn þurfa til að lifa af hjer á landi, þá er þetta freklega skorið við nögl, enda sjest það best, þegar miðað er við kaupgjald kaupafólks á sumum stöðum, og sjerstaklega, ef borið er saman við kauptaxta verkalýðsfjelaganna í nágrannasveitunum. Þessi samanburður verður þá þannig, að kaupgjaldið hjá verkalýðsfjelögunum er frá 90–140 aurar um klst., m. ö. o. um vorið er þriðjungur af kaupi þessa fólks tekinn og látinn ganga í ríkissjóð, og auk þess verulegur hluti af kaupinu yfir sumartímann.

Annað er það líka, sem jeg vildi gjarnan fá skýringu á hjá hæstv. atvmrh. Hvernig stendur á því, að kaupið er misjafnlega hátt í ýmsum sýslum landsins? Það er t. d. í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslu 55 aurar um tímann, en t. d. í Árnessýslu 75 au., en þó hefir kaupið verið hærra í kauptúnunum en í sýslunum í kring, t. d. hærra á Blönduósi og Hvammstanga heldur en í sýslunni. Það mun vera um 600 þús. kr., sem ríkissjóður hefir greitt í vinnulaun, en sparað um 80–100 þús. kr. á kaupinu, svo að það er ekki svo ýkjamikið fje, sem sparast með þessu lága kaupi af 11–12 milj. kr. útgjöldum ríkissjóðs, þó að það sje allmikill hluti af kaupi þeirra, sem þarna vinna. En sjerstaklega finst mjer, að hæstv. atvmrh. ætti þó að athuga það, að langmestur hluti af þessum kaupmismun, sem dreginn er ríkissjóði, myndi lenda hjá fólki, sem hæstv. ráðh. vill láta Framsóknarflokkinn vinna sjerstaklega fyrir, nefnil. bændur og skólafólk úr sveitunum.

Með þessu öðru dæmi þykist jeg benda á það líka, að ekki sje algerlega skift um stefnu, þótt Framsóknarflokkurinn hafi tekið við stjórn. Það virðist svo, sem hæstv. stj. hafi ekki gengið miklu betur en íhaldsstj. að átta sig á því, að ekki eigi að nota ríkisvaldið til þess að níðast sjerstaklega á verkamönnum og þeim öðrum, sem vinna baki brotnu í þjónustu ríkisins.

Loks vil jeg beina einni fyrirspurn til hæstv. atvmrh. Hún er um lögin um takmörkun á innflutningi erlendra verkamanna hingað til lands. Jeg vil nú beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðh., hvort lögreglustjórarnir hafi nokkrar fyrirskipanir frá ráðuneytinu um að hafa eftirlit með slíku. Jeg veit ekki annað en að hjer í Reykjavík — og sennilega víðar — komi menn frá útlöndum og stundi atvinnu sína hjer eins og engin lög væru til. Jeg segi ekki, að þetta sje í stórum stíl, en það virðist þó benda á, að þessum lögum sje ekki hlýtt ennþá, og væri að minsta kosti mjög æskilegt, ef slíkt eftirlit hefir ekki verið framkvæmt, að það væri þá gert hjeðan í frá.

Þá vil jeg með fáeinum orðum snúa mjer að hæstv. dómsmrh. Það má segja eitthvað líkt um hæstv. dómsmrh. eins og hæstv. atvmrh., ýmislegt gott af hálfu verkamanna, en því miður virðist tíminn sanna það, að ekki sje eins þykkur skilveggur á milli hans og fyrirrennara hans í stj. eins og mætti halda eftir nöfnum flokkanna.

Jeg vil með fáum orðum minnast á Vífilsstaðahælið við hæstv. ráðh. Við skulum segja, að skilningur hæstv. ráðh. væri rjettur, að það hefði þurft að einhverju leyti að breyta um stjórn á hælinu, og t. d. að kona sú, sem hafði þar ráðskonustöðu, hefði átt að fara. Jeg skal engan dóm á þetta leggja, en hvaða ástæða getur verið til þess, að þótt svo væri, þá þyrfti endilega að segja upp öðru fólki, sem ekki er vitað um, að hafi rækt starf sitt illa að neinu leyti, t. d. skrifstofustúlku og hjúkrunarkonum, sem þar voru. Skrifstofustúlkan hefir vitnisburð allra, er til þekkja, að hún hafi gegnt starfi sínu óvenjulega vel, og virðist það eitt hafa til sakar unnið að vera skyld lækni hælisins. Og sjerstaklega er þetta undarlegt, þegar þess er gætt, að yfirhjúkrunarkonan, sem þar var, en var látin fara þaðan nauðug, hefir síðan verið ráðin að Kleppi, að jeg hygg fyrir tilstilli hæstv. dómsmrh. Nú vil jeg spyrja: Ef hún var óhæf til starfsins á Vífilsstöðum, hvers vegna var þá verið að ráða hana til samskonar starfa að Kleppi? Eða ef hún var hæf til starfsins, hvers vegna var þá verið að taka hana nauðuga þaðan, sem hún var áður? Og hvaða ástæða er til þess yfirleitt, að sagt var upp öllum hjúkrunarkonum við spítala ríkisins, og þeim sagt um leið, að það kaup, sem þær geti fengið, sje aðeins 100 krónur á mánuði, þegar á sama tíma er verið að samþykkja lög um hækkun á launum yfirsetukvenna, sem líkt er um og hjúkrunarkonurnar?

Ef því á annað borð var ástæða til að fara að lækka laun starfsmanna landsins, þá hefði hæstv. ráðh. átt að ráðast þar á garðinn, sem hann var hærri. Enn get jeg bætt því við, að nú stendur fyrir dyrum endurskoðun á launakjörum embættismanna, og bar varla brýn nauðsyn til að taka þennan starfsmannaflokk út úr. Með þessari lækkun eru laun hjúkrunarkvenna hjer komin langt niður fyrir launakjör þeirra í nágrannalöndunum. Sjeu þau t. d. borin saman við kaupið í Noregi, þá er það nú fjórðungi lægra hjer. Auk þess vantar okkur hæfar hjúkrunarkonur hjer, og væri því ástæða til að launa þeim nokkuð betur til að hvetja stúlkur til að læra til þessa starfa.

Þá má t. d. benda á það tiltæki hæstv. dómsmrh., að takmarka tölu þeirra, er fái aðgang að mentaskólanum. Mun þar hafa vakað fyrir honum að takmarka tölu þeirra manna, er háskólanám stunduðu. Jeg er slíku algerlega mótfallinn. Ef menn vilja leggja á sig erfiði námsins, þrátt fyrir það, að þeir fái ekki embætti, þá eiga menn að fá að gera það, og það getur komið bæði manninum og þjóð okkar að jafnmiklu gagni. Það á ekki að skoða háskólann sem eingöngu embættismannaskóla, þannig að þeir, sem útskrifast úr honum, komist allir í embætti og aðrir eigi ekki að taka próf. Háskólinn er og á að vera æðsta mentastofnun landsins, sem búi menn undir lífið yfirleitt og þroski, þótt menn stundi þar sjernámsgreinir. Þegar hæstv. ráðh. tók upp þessa tilbreytni, þá varð ekki vitað, að neinu öðru ætti að breyta í þessu efni, og var út frá því sjónarmiði þetta tiltæki hans mjög vítavert. En nú hefir hann lagt fram nýtt frv. í Ed., sem jeg vænti, að ráði að nokkru bót á þessu, og eins hitt, að sagt er, að hann ætli að leyfa utanskólamönnum að taka bekkjarpróf í vor.

Hjer hefir verið minst á Shell-málið í dag. Jeg álít, að það hafi verið rjett að láta þá rannsókn fara fram. Það mun mörgum vera kunnugt, að tveim árum áður en einkasalan hætti, þá fjekk þáverandi atvmrh., hv. 1. þm. Skagf., boð frá því steinolíufjelagi, er einkasalan skifti við, British Petroleum Co., að það skyldi lána nauðsynlegt fje til byggingar olíugeyma. Lánið átti aðeins að greiðast með gróða þeim, er af olíugeymum þessum yrði. Nú hefði mátt halda, að stj. hefði tekið þessu boði, eða ef hún hefði ekki viljað binda sig svo lengi til að versla við sama fjelagið, þá útvegað lán annarsstaðar til að koma geymunum upp. Flestum er kunnugt um þann mikla sparnað, er leiðir af notkun geyma í steinolíuverslun, að þá fyrst er slík verslun komin í nútímahorf. Þessu tilboði neitaði hv. þm. Skagf. gagngert. Hann ætlaði sjer að koma einkasölunni fyrir kattarnef, og stóð því eins og veggur á móti því, að ríkið bætti steinolíuverslunina og græddi sjálft á því. Fyrir þessu öllu eru til plögg í stjórnarráðinu.

Þegar svo var komið, að menn vissu, að einkasalan yrði lögð niður og steinolíusalan kæmist í hendur einstakra manna, þá var eðlilegt að búa svo um, að verslunin yrði innlend að sem mestu leyti. Það var vitað, að hjer á landi var enginn svo fjesterkur, að geta haft olíuverslun á hendi án erlends fjármagns. En þá var eðlilegt að búa svo um, að hið erlenda fjármagn yrði ekki drotnandi, heldur þjónandi. Hæstv. ríkisstj. var því skylt að fylgjast með í því, hvernig um þessi mál færi og hagsmuni landsmanna gagnvart útlendingum.

Þó jeg sje því sammála, að rjett væri að láta fram fara rannsókn á þessu, þá þóttist jeg samt vita, að Shell-fjelagið yrði ekki dæmt. Jeg þóttist vita, að alt væri svo umbúið, að fjelagið væri löglegt, enda góður lögfræðingur, sem sá um stofnun þess. En það, sem hægt var að fá upplýst, var það, hvort yfirráðin væru á höndum erlendra eða innlendra manna. Af skýrslu þeirri, sem hæstv. dómsrh. las upp, virtist hlutafjeð skiftast þannig:

Björgúlfur Ólafsson kr. 244000, 4 aðrir Íslendingar kr. 8000, The Anglo Saxon Petr. Co. Ltd. kr. 150000 A. S. Debenham kr. 98000.

Eftir þessu er hlutafjelagalögunum fullnægt að því leyti, að helmingur hlutafjárins er ísl. eign. Jeg geng út frá því, að Bj. Ólafsson eigi það fje, er hann hefir sagst eiga í fjelaginu. En enda þótt hlutafjeð sje svona skift, þó meiri hluti þess sje í ísl. höndum,

þá er hlutafjelagalögunum samt svo fyrir komið, að í þessu tilfelli, hjá Shell-fjelaginu, ræður erl. hlutafjeð meiru en það íslenska. Skal jeg vitna í lögin til að sýna, hvernig þetta má verða. L. nr. 77 1921 31. gr. 2. mgr.: „Afl atkvæða ræður á hluthafafundum, nema öðruvísi sje kveðið á í samþyktum. Enginn hluthafi getur þó farið með meira en 1/5 samanlagðra atkvæða í fjelaginu“.

Afleiðingin af þessu er sú, að B. Ó. fær ekki nema 100 atkv., eða 20% af atkvæðamagni fjelagsins. 144 atkv. hans falla ógild til jarðar. Íslendingar hafa því ekki nema 108 atkv. samtals. Anglo Saxon Petr. Co. fær aftur á móti 100 atkv. fyrir sínar 150000 kr. og Debenham 98 atkv. Erlendu atkvæðin verða því 198 móti 108 ísl. atkv., eða nær því 2:1. Þannig verður það, þó gengið sje út frá, að B. Ó. eigi hlutafje það, er hann leggur fram. Og þó er búið um fjelagið á löglegan hátt. Stjórn fjelagsins eiga að vísu Íslendingar að skipa, en á aðalfundi, sem öllu ræður í fjelaginu, ráða hinir erl. hluthafar. Þetta kemur til af hinum óheppilegu ákvæðum í hlutafjelagalögunum. Vænti jeg þess, að hæstv. stj. taki þetta mál til athugunar fyrir næsta þing og svo verði gengið frá lögunum, að slíkt geti ekki komið fyrir. Það er auðsjeð, að þetta er með ráði gert, að skifta erlendu hlutunum á tvö nöfn, en hlutafjelagalögin ná ekki tilgangi sínum fyr en þau eru svo úr garði gerð, að Íslendingar hljóti ávalt að hafa yfirráðin í íslenska hlutafjelaginu.

Hv. þm. Borgf. taldi upp marga jafnaðarmenn, er fengið hefðu bitlinga hjá stj. Virtist hann helst álíta, að það væri gert til þess, að stj. hjeldi hlutleysi jafnaðarmanna. Er rjett að athuga, í hverju bitlingarnir eru fólgnir. Hv. 4 landsk. er í bankaráði Landsbankans. Hv. þm. telur það starf líklega ekki mikið, úr því að hann kallar það bitling. En nú er hv. þm. Seyðf. í hinu sama bankaráði, og virðist hann því vera sömu fordæmingunni ofurseldur. Hvers vegna minnist hv. þm. Borgf. ekki á þennan flokksmann sinn nje aðra bankaráðsmenn? — Hv. þm. Ísaf. var í ríkisgjaldanefndinni og vann þar um þriggja mán. skeið. Upp úr því starfi mun þetta sífelda tal um bitlinga jafnaðarmanna hafa komið, því ríkisgjaldanefndin sýndi einmitt, hvernig íhaldsstjórnin hrúgaði bitlingum upp á gæðinga sína. Þessi hv. þm. hefir og annan „bitling“; hann er í milliþinganefnd í skattamálum. Í þessari sömu nefnd er sjálfur formaður Íhaldsflokksins. Eftir því ætti hann líka að vera keyptur til einhvers af stj. — Hv. þm. Ak. er í stjórn síldareinkasölunnar; í henni er líka fyrv. þm. Ak., íhaldsmaðurinn Björn Líndal, og ætti honum þá að ganga til þess einhverjar óhreinar hvatir. — Hv. 4. þm. Reykv. hefir undirbúið 2 lagafrv. með íhaldsmanninum formanni Fiskifjelagsins.

Það er einkennilegt, að hv. þm. Borgf. skuli ekki sjá þessa veiku bletti í röksemdaleiðslu sinni, að störf jafnaðarmanna skuli öll talin bitlingar eða einskonar mútur, en samskonar störf íhaldsmanna eru ótalin eða talin nauðsynleg og mikils virði. Sjálfur er jeg í yfirskattanefnd og stjórn Slysatryggingarinnar. Er jeg víst að reyna að græða fje með þeim 500 kr., sem jeg fæ fyrir að vera í yfirskattanefndinni! Jeg get fullvissað hv. þm., að jeg vinn ekki að neinu eins illa launuðu starfi og mundi ekki vilja sinna því starfi, ef það væri ekki það, að jeg telji mig geta int þar af hendi alveg sjerstakt verk.

Annars er vel hægt að skilja þessa reiði íhaldsmanna yfir því, að jafnaðarmenn komist í opinberar stöður eða taki að sjer opinber störf. Íhaldsstjórnin sneiddi jafnan hjá jafnaðarmönnum til slíks og reyndi að flæma þá burt, þá sjaldan, er þeir fengu slík störf. Vil jeg beina þeim orðum til hv. 1. þm. Skagf. sjerstaklega, að þegar hann var atvmrh., reyndi hann að bola mjer burt frá landsverslun. Hann kallaði mig upp í stjórnarráð hvað eftir annað og hótaði mjer brottrekstri, ef jeg ekki ljeti af formensku „Dagsbrúnar“, sem jeg vitanlega tók ekki í mál. Og loks er tóbakseinkasalan var niður lögð, tók hann þegar um vorið loforð af forstjóra hennar um, að mjer yrði sagt upp atvinnu minni, en jeg ekki látinn halda áfram við steinolíuverslunina, þar sem jeg hafði unnið mest og full þörf var á áframhaldandi skrifstofustjóra. Á sama hátt laut hv. þm., þá ráðh., svo lágt, að hann bolaði bílstjóra í burtu frá landsverslun fyrir það eitt að vera. í stjórn Sjómannafjelags Reykjavíkur. Það er því skiljanlegt, að íhaldsmönnum svíði, að jafnaðarmenn nú komist í opinberar stöður sem aðrir menn. Jeg hygg, að hjá núv. stj. sje minstur munur gerður á, hvort maðurinn er jafnaðarmaður eða íhaldsmaður, þótt framsóknarmaður þyki geðfeldastur. Annars er hlægilegt að hugsa sjer það, að menn, sem eru þingmenn með mikið atkvæðamagn bak við sig, eigi ekki að geta unnið venjuleg verk í opinberum stöðum. En íhaldinu svíður það fyrst og fremst, þegar jafnaðarmenn komast í opinberar stöður, að þá sjá þeir handatiltektir íhaldsins þar á undanförnum árum og ljósta upp um aðfarir þess.

Út af því, að hv. þm. Borgf. fór að nefna bitling minn við yfirskattanefnd, og að gefnu tilefni frá hv. 1. þm. Reykv., skal jeg skýra nokkru nánar frá starfi hennar. Hv. 1. þm. Reykv. gerði meinlausa fyrirspurn, eftir hvaða heimild skattstjórinn í Reykjavík grenslaðist nákvæmar eftir eignum manna og skuldum. Í 31. gr. tekjuskattslaganna (nr. 74 1921) segir svo: „En hann er skyldur að láta skattanefnd í tje allar upplýsingar, er hún þarf til þess að gera tekjuframtal hans sem rjettast, svo sem sundurliðaða skýrslu um eignahag hans í ársbyrjun og árslok, um kostnað til fjölskyldu hans, um allar greiðslur gjalda og tekna, er heimili hans og atvinnuveg snerta, o. s. frv.“.

Svo segir í 33. gr.:

„Eftir skýrslum þeim, er skattanefnd tekur gildar, skal hún kveða á um tekjuupphæð og eign hvers eins. Þyki nefndinni skýrsla einhvers tortryggileg, skal hún skora á hann að láta nefndinni í tje frekari skýringar og sannanir“.

Enn segir svo í 38. gr.:

„Yfirskattanefnd skal nákvæmlega endurskoða allar skattskrár í umdæmi því, sem hún er skipuð yfir, og hafa strangt eftirlit með því, að skattanefndir gegni skyldu sinni, að ganga ríkt eftir rjettu tekju- og eignaframtali. Ef nefndinni virðist framtalsskýrslur vera ófullnægjandi eða eitthvað óljóst eða rangt í skattskránum, að einhver sje vantalinn eða tvítalinn á skrá, getur hún heimtað nánari skýringar, og skal síðan lagfæra skattskrárnar eftir því, sem henni þykir rjett vera“.

Í öllum þessum gr. er heimild til slíkra hluta.

En tekjuskattslögunum hefir verið breytt, til verulegra óþæginda fyrir skattanefndir, með reglugerð, sem hv. 1. þm. Skagf. gaf út. Samkv. 32. gr. laganna getur skattanefnd krafist upplýsinga hjá bönkum og sparisjóðum um innieignir manna. En í reglugerðinni er, auðvitað án lagaheimildar, einu orði bætt inn í: „nafngreindra“, — „nafngreindra manna“. Geta því bankarnir neitað að gefa upplýsingar um sparisjóðsinnieignir alment. Nú er það algengt, að menn hafa sparisjóðsbækur sínar á ýmsum nöfnum, tölustöfum, blómanöfnum o. s. frv. Starfsmenn bankanna geta komist eftir, hverjir eigendurnir eru, með tiltölulega lítilli fyrirhöfn, og venjulega mun nafn þeirra vera skrifað með ritblýi á viðskiftareikning þeirra. En fyrir tilstilli hv. 1. þm. Skagf. getur skattstofan ekkert fengið að vita um slíkar innieignir, þar sem ekki eru nafngreindir menn, sem eru skrifaðir fyrir reikningunum.

Því miður hefir hæstv. atvmrh. er hann var fjmrh. ekki breytt þessu.

Það er rjett, að skattstjórinn, sem nú er hjer í Reykjavík, virðist ganga með dugnaði og festu að því, að menn telji rjett fram. Það er líka rjett, að allmikill kurr er í liði íhaldsmanna hjer út af þessu. Er það mjög eðlilegt, þar sem þeir eru margir, er hafa dregið allmikið undan í eigna- og tekjuframtölum sínum. Þetta stafar svo vitanlega af því, að fyrv. skattstjóri, Einar Arnórsson, hefir í embættistíð sinni ekki gengið nógu fast eftir því, að rjett væri talið fram. Skattstjórinn hefir heimild til þess að láta fara fram sjálfstæða rannsókn á reikningum og bókhaldi ýmsra stofnana. Þetta er mjög víða gert erlendis, því það er vitanlega skylda þeirra embættismanna, er fara með þessi mál, að líta eftir því, að menn telji rjett fram í skýrslum sínum til skattstofunnar. Og er síst ástæða til þess að freista manna til að draga undan framtali með því að vera of eftirlátssamur. Fyrv. skattstjóri ljet aldrei slíka sjálfstæða rannsókn fara fram. Það var í mesta lagi, að hann krafðist stundum smávægilegra skýringa á framtalinu, en bókhald manna og stofnana ljet hann aldrei rannsaka, og þá ekki heldur framtölin að öðru leyti. Eignaframtal manna ljet hann alveg afskiftalaust og gekk jafnvel svo langt í því, að mann stórfurðar á því, að slíkt skuli hafa getað átt sjer stað. T. d. ljet hann menn alveg sjálfráða um það, hvernig menn mátu eignir sínar, svo sem húseignir o. fl. Ennfremur tók hann gildar afskriftir af skuldum, ef aðeins fylgdi framtalinu listi yfir þær. Og í stað þess að rannsaka þetta alt sjálfur, gaf hann mönnum fullkomið sjálfdæmi í þessum efnum. Þar gilti sjálfsmat í stað rannsóknar. Sama máli var að skifta um tekjuliðina. Þó var það einn liður, sem hann gekk ríkt eftir, og mun það líklega vera orsök þess, að menn hjeldu alment, að hann væri duglegur og stæði vel í stöðu sinni. Þessi liður var fastar og lausar tekjur þeirra manna, sem voru í þjónustu annara, en „burgeisarnir“ og sjálfstæðar stofnanir og atvinnufyrirtæki fengu að telja fram eftir eigin geðþótta.

Hjer í bæ er fjöldi manna, er eiga miklar húseignir, og sumir lifa beinlínis á þeim og eiga margar. Hvort framtaldar tekjur af þessum eignum væru rjettar, athugaði hann aldrei. Sjerstaklega var hann þó hirðulaus um framtalda leigu af eigin íbúð. Munu þess fá dæmi, að menn hafi reiknað sjálfum sjer sömu leigu af íbúð sinni og öðrum, er þeir leigðu. Jafnvel munu dæmi þess, að menn, sem búa í 100–150 þús. kr. húsum, hafi reiknað sjer í húsaleigu 1200 til 1500 kr.; verður það þá sama sem 12 til 15 þús. kr. tekjufrádráttur, eða 10 til 15% af verði hússins. Á þann hátt var hægt að minka skatttekjur sínar í stjórnartíð fyrv. skattstjóra.

Jeg þykist nú hafa sýnt fram á, að fylsta ástæða hafi verið til þess að skifta um skattstjóra. Og sannast að segja mun uppsögn hans ekki hvað síst stafa af því, að yfirskattanefnd tók eftir því, hvernig hann gegndi starfi sínu. Og þó mjer væru veittar 500 kr. árlega æfilangt í eftirlaun, þá væri það ekki nema lítið endurgjald fyrir þann hagnað, er ríkið mun hafa af því að koma Einari Arnórssyni úr skattstjórastöðunni.

Menn ættu auðveldlega að geta getið sjer til, hvernig á því stendur. Jú, þessi maður er gamall íhaldsmaður og er í innilegu sambandi við Íhaldið, og ef starf hans í útsvarsmálunum er athugað, sjest þetta hvað best. Því er nú svo háttað, að niðurjöfnunarnefnd er skipuð íhaldsmönnum, og er skattstjóri formaður hennar. (ÓTh: Var ekki einn jafnaðarmaður í henni?). Jú, einn, sem brást skyldu sinni. (HK: Það var ljótt að heyra og leiðinlegt).

Samkv. 3. gr. útsvarslaganna frá 1926 á að jafna niður á gjaldþegna hverrar sveitar þeim gjöldum, sem sveitin þarf að greiða, að viðbættum 5–10 %, sem á að vera fyrir vanhöldum. Á hverju fjárhagsári skal svo ákveða, hve hárri upphæð skuli jafnað niður, og skal það bókað. Þegar nú yfirskattanefndin fór að athuga, hve hárri upphæð hefði verið jafnað niður árlega hjer í bænum undanfarin ár, kom það í ljós, að ekkert sást um það í bókum niðurjöfnunarnefndar. Þegar svo sú nefnd er spurð að þessu, fást engin svör þar að lútandi. Varð því að fá sjerstaka menn til þess að athuga þetta. Kom þá í ljós, að ástæðan til þess, að nefndin vildi ekki gefa nein svör um þetta, stafaði af því, að hún hafði á 6 árum jafnað niður á borgara bæjarins 717 þús. kr. meira en lög stóðu til. Hvernig stendur nú á þessu? Það sjest á tvennu: Hvernig þeir hafa notað peningana og hvernig þeir hafa jafnað niður. Þetta fje hefir verið notað til þess að greiða ýms óákveðin útgjöld, sem ekki hafa verið á fjárhagsáætlun bæjarins, og eftirgjafir útsvara ýmissa stórra gjaldenda. Hefir almenningi því ekki verið eins kunnugt um það, hvað gekk í súginn hjá borgarstjóra, og þess hefir verið auðveldara fyrir hann að berja sparnaðarbumbuna þegar ekki sjest, hvað lagt er á. (ÓTh: Bumbuna?!!) Já, sparnaðarbumbu sína.

Þá er rjett að taka ofurlítið til athugunar, hvernig niðurjöfnunin er framkvæmd hjer í þessu hreiðri íhaldsins. Það er alt annað en lítið vald, sem niðurjöfnunarnefnd er gefið til þess að fara ofan í vasa almennings eftir peningum. Það er ekki svo með útsvörin sem eigna- og tekjuskattinn, að þau sjeu ákveðin eftir vissum „skala“. Niðurjöfnunarnefnd er alveg sjálfráð, hversu mikið hún leggur á hvern einstakan. Og hvernig hefir nú niðurjöfnunarnefndin rækt þetta starf sitt? í framkvæmdinni er það svo, að hún notar 2 „skala“. Annar er fyrir almenning, sauðsvartan almúgann, en hinn er fyrir stóreignamennina og hátekjumennina. Fyrst er almenningsskalanum beitt og jafnað niður á allan almenning, en svo er því, sem þá er eftir ójafnað niður, og sem er tiltölulega lítið, jafnað niður á stóreignamennina. Afleiðingin af þessari aðferð er sú, að togarafjelögin, sem velta hundruðum þúsunda, hafa venjulega, að undanskildum tveimur, ekki greitt nema ca. 1000 kr. af togara. Þetta er vitanlega með ráði gert, svo að þessir máttarstólpar íhaldsins, er leggja fje í blöð þess og kosningar, sleppi hjá sem mestum útgjöldum til hins opinbera.

Það er því greinilegt, að niðurjöfnunarnefndin hjer hefir skráð sín eigin lög og að þau lög eru alveg gegn landslögum, því það er ekki lagt á menn „eftir efnum og ástæðum“, eins og skipað er fyrir í landslögunum. (MJ: Yfir hverjum er þm. að halda eldhúsdag?) Auk fyrv. ríkisstj., þar sem þetta þróaðist og óx, meðal annars yfir hv. 1. þm. Reykv., er ver þessa spillingu og gerist málsvari skattsvikaranna hjer á Alþingi.

Á þennan hátt munu það vera um 37 milj. af eignum íhaldsins, sem sloppið hafa undan útsvari árlega undanfarin ár. Menn geta því skilið, að með slíku háttalagi er það íhaldinu til lítillar gleði, þegar kemur nýr skattstjóri, er tekur föstum tökum á þessum málum, eða ný yfirskattanefnd, er beinir athygli manna að því. En skattstjóri getur ekki gert annað en að laga eigna- og tekjuframtalið. Hann getur ekki tekið fyrir ójöfnuð niðurjöfnunarnefndar. Við honum er ekkert ráð, nema það að setja lög, er skipa fyrir um það, hvernig jafnað skuli niður, svo íhaldinu hjer í bæ haldist það ekki lengur uppi að níðast á andstæðingum sínum, sem eru minni máttar í þessum efnum. (ÓTh: Jeg hefi nú líka orðið fyrir barðinu á niðurjöfnunarnefndinni). Jeg gæti sagt hv. þm. sögu um viðskifti hans við nefndina, og skal gera það utan þings, ef hann óskar eftir, sem sýnir þveröfugt. — Það mun rjett, að menn þeir, er framarlega standa í Alþýðu- og Framsóknarflokknum, muni hafa goldið alt að því 50% meira að tiltölu, miðað við aðra. (ÓTh: Annað sagði dómsmrh.).

Þá talaði hv. 1. þm. Reykv. mikið um það, hversu fordæmanlegt væri sambandið milli Framsóknar og socialista. Það ætti nú öllum að vera skiljanlegt, að jafnaðarmenn kæra sig ekki mikið um að vera í sambandi við íhaldsmenn, sem hafa svo óhreinan skjöld í hvívetna. Hinsvegar er alls ekki víst, að sambandið milli jafnaðarmanna og Framsóknar standi lengi. (MJ: Viljið þið vera með í vantrausti?). Auðvitað, undireins og við álítum þess þörf og við getum ekki komið þörfum og mikilsverðum málum fram. En við viljum ekki hleypa íhaldinu strax að. Það veitir ekki af að kenna því dálítið að lifa áður en það kemst að aftur.

Það er hlægilegt að heyra hina vesölu kveinstafi hv. 1. þm. Reykv. yfir því, hve illa sje farið með íhaldið, og harmatölur hans um það, að ekki skuli farið illa með jafnaðarmenn líka. Og í ofurkappi sínu um það að koma stj. frá, þá gerist hann svo ósvífinn, að hann skorar á framsóknarmenn að vega að sinni eigin stj. Ekki er sigurvonin mikil við almennar kosningar, þegar eina vonin um að ríða stj. niður er að fá flokksmenn hennar til að reka rýtinginn í hana.

Annars væri gaman að vita, hvernig hv. þm. hugsar sjer þingræði, er hann segir, að jafnaðarmenn eigi ekki að vera hlutlausir við Framsókn. Nú á ekki Íhaldið að vera hlutlaust heldur, og hvernig á þá flokkur, sem hefir meiri hl. þings á móti sjer, að mynda stjórn? Nei, meiningin með öllu þessu hjali er sú, að nú er íhaldið að bjóða Framsókn litla fingurinn og mælast til þess, hvort það megi ekki fá að vera hlutlaust. En ef svo fer, að samvinnan milli Íhalds og Framsóknar verður svo náin, að þar kemst ekki hnífurinn í milli, og að því er unnið nú af ýmsum mönnum í báðum flokkum, þá er víst, hvað við gerum, jafnaðarmennirnir. Jeg hygg, að við munum ekki eiga lengi samleið með íhaldinu.