11.04.1929
Neðri deild: 42. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 945 í B-deild Alþingistíðinda. (646)

16. mál, fjárlög 1930

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. 2. þm. Reykv. hefir nú gert snarpan eldhúsdag að íhaldsmönnum, og er það ekki nema að vonum. En snemma í ræðu sinni vjek hann að nokkrum atriðum, er snerta mína stjórnardeild, og vildi jeg svara með nokkrum orðum.

Í upphafi ræðu sinnar, sem var aðallega almennar aths., gat hann þess, að mikil þörf væri á því að bæta kjör verkalýðsins, en að sjer fyndist, að fjárlfrv. það, er nú lægi fyrir, bæri þess lítt merki, að stj. væri umhugað um það. Jeg skal nú ekki fara út í það að ræða fjárl., enda þó þau sjeu nú mál það, er á dagskrá er, en hinsvegar get jeg tekið undir það með hv. þm., að það sje full þörf á því að bæta kjör verkalýðsins. Og jeg vil geta þess, með skírskotun til afstöðu Framsóknarflokksins til ýmsra mannúðar- og nauðsynjamála verkalýðsins, svo sem vökulaganna og samvinnufjelags Ísfirðinga, að þeir hv. þm., sem eru fulltrúar verkalýðsins, geta ávalt væntst stuðnings Framsóknar til þess að koma á löggjöf, er raunverulega miðar að því að bæta kjör verkalýðsins. En þrátt fyrir það, þó einhverju kunni að vera ábótavant í kjörum verkalýðsins ennþá, þá mun þó óhætt að segja, að engin stjett hjer á landi hefir fengið eins miklar rjettarbætur á ýmsu síðasta mannsaldurinn eins og verkamenn. Við erum nú ekki gamlir, hv. 2. þm. Reykv. og jeg, en við erum báðir uppaldir hjer í þessum bæ og höfum því nokkur skilyrði til þess að dæma um þetta. Og jeg veit, að ef hv. þm. lítur á þetta með sanngirni, muni hann kannast við það, að mikill munur er á því. hvað verkalýðnum líður betur nú en fyrir 30 árum síðan. Skal jeg svo ekki segja meira út af þessum alm. aths. hv. þm.

Þá skal jeg víkja lítið eitt að ýmsum atriðum, er mig snerta og mína stjórnardeild og hv. þm. þóttu aðfinsluverð.

Það var þá fyrst, að hv þm. beindi til mín nokkrum ásökunum fyrir það, að jeg skyldi ekki innheimta tekju- og eignarskattinn með 25% viðaukanum, og spurði, hvernig á því stæði. Jeg ætla ekki að fara að rökræða þetta nú við hv. þm., því það eru ekki nema svo sem 2 vikur síðan mikið var rætt um þetta hjer í þessari hv. d. Get jeg látið mjer nægja að vísa til þess, sem jeg sagði þá.

Hv. þm. sagði, að íhaldsmenn hefðu sungið mikið hósíanna út af þessu og svínbeygt stj., eða rjettara sagt mig, í þessu máli. Jeg er nú hræddur um, að það hafi verið nokkuð blandaður kór hjá íhaldsmönnum. Að vísu voru það 2 fulltrúar íhaldsins, sem litu með sanngirni á þetta mál. En jeg er hræddur um, að það hafi verið annað en hósíanna, sem sá hv. þm. söng, er nú stendur í fylkingarbrjósti hjá Íhaldinu. Annars er mjer alveg sama, hvort sagt er, að jafnaðarmenn eða íhaldsmenn hafi svínbeygt mig, fyrst skipin sigla um sjóinn og draga aflann á land.

Það næsta, er hann mintist á, var viðvíkjandi kaupi því, sem greitt er í vegavinnu. Annars vissi jeg varla, við hvað hann átti, því það er aðeins einu sinni, sem jeg hefi haft afskifti af þessu sem atvmrh., og veit jeg ekki til, að neitt hafi verið að athuga við framkomu mína í því máli. En í sambandi við það, er hann vjek að vegamálastjóra, vil jeg geta þess, að það er vitanlega atvmrh., sem ábyrgðina ber, og vil jeg á engan hátt reyna að setja mig bak við vegamálastjóra í þessu.

Hv. þm. átaldi það, að misjafnt kaup væri goldið við vinnu þessa, og býst jeg við, að honum sem foringja jafnaðarmanna virðist það óeðlilegt, en það er ekki ríkissjóður einn, sem sjer um verk þessi, heldur sýslur og sveitir landsins, sem ráða til sín menn og semja um kaup þeirra. Frá sjónarmiði stj. álít jeg ekkert eðlilegra en að hún hagi sjer líkt og láti þá menn, sem fyrir hana vinna, hafa sama kaup. Hinsvegar álít jeg það skyldu, að á þessu sviði sje reynt að ná sem bestum kjörum fyrir ríkissjóð, til þess að framkvæmdirnar geti orðið sem mestar. En nú vil jeg segja, svona meira í spaugi við hv. 2. þm. Reykv., að hann og hans flokkur vill hátt kaup og svo líka þjóðnýtingu, en nú vita allir, að enginn geldur jafnlágt kaup og ríkið, og þá hlýtur þetta að rekast á, nema þar, sem þeir hafa alla stj. með höndum.

Þá er ennþá einu ósvarað af því, sem hv. sami þm. mintist á, nefnilega viðvíkjandi innflutningi verkamanna. Jeg er nú aðeins búinn að sitja við stj. í rúml. eitt ár, og er því ekki ennþá kominn svo inn í það mál, þannig að jeg geti gefið ljósa úrlausn, en annars eiga lögreglustjórar að hafa umsjón með því. Nýlega hefir stjórnarráðið gert fyrirspurnir um suma útlendinga, sem hjer eru. Það hefir verið vilji stj. að fylgja þar anda laganna í þessu efni. Fleira var það ekki, sem hv. þm. beindi til mín.