11.04.1929
Neðri deild: 42. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 950 í B-deild Alþingistíðinda. (648)

16. mál, fjárlög 1930

Magnús Guðmundsson:

Mjer er sagt, að hæstv. dómsmrh. þurfi að flýta sjer burt úr bænum, og þess vegna mun jeg nota tækifærið meðan hann enn er hjer, og sný jeg mjer því að honum, Á þinginu í fyrra flutti hann eða ljet flytja frv., sem gekk í þá átt, að bæjarfógetaembættið og lögreglustjóraembættið skyldu lögð niður og stofnuð þrjú embætti í staðinn. Í ástæðunum fyrir frv. var sagt, að af því mundi leiða 80000 kr. sparnað fyrir ríkissjóð. Jeg gat þess þá, að þetta gæti ekki stuðst við nein rök, og mæltist til þess, að hann gæfi á því frekari skýringu, en það neitaði hann að gera. Það hefir nú sýnt sig, að jeg hefi haft þá rjett fyrir mjer. Í fjárlögum í fyrra er kostnaðurinn við þessi embætti áætlaður svo: Skrifstofukostnaður bæjarfógetans í Reykjavík 32340 kr. Skrifstofukostnaður lögreglustjórans í Reykjavík 69000 kr., eða samtals 101340 kr. Þetta var sú áætlun, sem núv. stj. gerði og átti að sýna kostnaðinn við þessi embætti, og svo kemur áætlun fyrir næsta ár, þegar hið nýja sparnaðarfyrirkomulag er komið á, og er það sem hjer segir:

Skrifstofukostnaður lögmannsins í Reykjavík 28600 kr. Skrifstofukostnaður tollstjórans í Reykjavík 86000 kr. Skrifstofukostnaður lögreglustjórans í Reykjavík 25000 kr. Þetta verður samtals 139600 kr. eða að kostnaðurinn er áætlaður 38260 kr. hærri en gert var ráð fyrir, þegar gamla fyrirkomulagið var við lýði. En nú er aðgætandi, að þetta er aðeins sá kostnaður, sem leiðir af skrifstofuhaldi þessara embættismanna, en svo bætast við laun þeirra sjálfra og svo biðlaun bæjarfógeta, en þau laun, sem þessum mönnum eru greidd, verða hjer um bil 15000 kr. hærri heldur en launagreiðsla til þeirra var áður, Þetta sýnir, að við þessa breyt. hafa útgjöld ríkissjóðs aukist um 53260 kr. Þá ber að taka tillit til þess, sem vinst við stimpilgjöldin. Það hefi jeg nú að vísu ekki reiknað nákvæmlega út, en býst við, að það fari ekki yfir 20–25 þús. kr. Þá verður niðurstaðan sú, að aukinn kostnaður við þetta verður 30000 kr., í stað 80000 kr. sparnaðar. Þessi niðurstaða er töluvert verri en jeg bjóst við í fyrra, en orsökin til þess er sú, að skrifstofukostnaður tollstjóra er færður úr 69 þús. upp í 86 þús. kr.

Það er gaman að því að fletta upp í gömlum Tímablöðum og sjá, hvað sagt er þar um hinn óþarfa kostnað af þessum embættum, og þó var kostnaður þessi miklu minni þá en hæstv. ráðh. áætlar hann nú. Þessi ummæli sanna, að hæstv. dómsmrh. getur ekki einu sinni talist til minni spámannanna, heldur hefir hann enga spádómsgáfu til að bera, en jeg efast ekki um, að hann sje stoltur af þeirri gáfu sinni; það væri honum líkt. Þessi áætlun hans í fyrra studdist ekki við nein rök, og áætlunin í frv. fyrir 1930 er of lág. bæði hjá lögmanni og tollstjóra. Hæstv. dómsmrh. hefir viljað skýra það svo, að þessi mikli aukni kostnaður leiði af stofnsetningu þessara embætta, en það er hin mesta blekking, því að sá kostnaður kemur fram á yfirstandandi ári, en ekki á því næsta. Þetta tek jeg fram til að sýna, að þegar hæstv. ráðh. kom fram með þetta. fór hann vísvitandi með blekkingar og yfirvarp, en bað er gaman fyrir mig að láta hann leggja sannanirnar upp í hendur mjer fyrir því, sem jeg hjelt fram í fyrra gegn andmælum hans.

Næsta atriði, sem jeg vil benda á, er nefndafarganið. Síðan núverandi stj. settist á laggirnar, hefir rignt yfir nefndarskipunum meir en nokkru sinni fyr. Starfandi nefndir, sem hæstv. stj. hefir skipað, eða sem settar hafa verið að frumkvæði hennar, eru svo margar, að jeg verð að biðja velvirðingar á, ef jeg gleymi fleiri eða færri þeirra. Einn heili getur varla rúmað öll þau býsn. Þær nefndir, sem jeg man eftir frá stjórnartíð núv. stj., eru 14 og í þeim eiga sæti yfir 70 menn, en ekki nema ein stjórnskipuð kona, svo að ekki er hægt að brigsla hæstv. stj. um of mikla kvenhollustu.

Nefndirnar eru þessar:

Ríkisgjaldanefnd 3 menn

Landsbankanefnd 15 —

Þingvallafriðunarnefnd 3 —

Skattanefnd, að

meðtöldum ritara 4 —

Kirkjumálanefnd 5 —

Samgöngumálanefnd 5 —

Siglingalaganefnd 5 —

Hegningarlaganefnd 2 —

Síldarnefnd, síldarstjórn og

endurskoðendur 10 —

Utanríkismálanefnd 7 —

Nefnd til að rannsaka

magn upptækra vína 2 —

Bókfærslunefnd

sýslumanna 3 —

Landsspítalanefnd 5 —

Útgáfunefnd

heilsufræðirits 5 —

Þetta verða í alt 72 menn, sem vinna í þessum nefndum fyrir hæstv. stj. (Forsrh.: Guðmundur ríki hafði 100 húskarla. — ÓTh: Það sæmir ekki fátækri sócíalistastjórn). Hæstv. forsrh. viðurkennir þá, að hann skipi nefndir til þess að útvega sjer þjóna. Jeg hlýt að biðja velvirðingar á, ef jeg hefi ekki farið rjett með nöfn sumra nefndanna eða gleymt einhverjum þeirra, því að um sumar þeirra hefir verið pukrað svo, að enginn veit, hvað stj. hefir skírt þær. Sumar hafa líka breytt um nafn, eins og t. d. ríkisgjaldanefndin. Hún hjet í byrjun sparnaðarnefnd, og hefir líklega hlotið það nafn í skemmriskírn eða primsigningu. Sumar þessara nefnda starfa kauplaust og síldarstj. borga síldarframleiðendur, en að öðru leyti munu þær hvíla á ríkissjóði, og verð jeg að segja eins og er, að jeg get ekki sagt neitt ákveðið um, hvað þær muni kosta ríkið, en beinn útlagður kostnaður get jeg ímyndað mjer, að verði ekki undir 100000 kr. Ef jeg verð ofar moldu nokkra hríð, má vera, að jeg geti skýrt frá því síðar, og skal jeg þá ekki telja það eftir mjer. Jeg dreg það af því að sparnaðarnefnd hefir kostað um 12 þús. kr. og póstmálanefnd um 7 þús., skattamálanefnd er þegar búin að fá eitthvað um 8000 kr., en hún á eftir að fá miklu meira. Þá er ekki búið að borga kirkjumálanefnd, því að hún er tiltölulega ný.

Jeg ætla ekki að fara út í nauðsyn eða rjettara sagt nauðsynjaleysi þessara nefnda, en þó ætla jeg að segja fáein orð um sumar þeirra. Það er þá fyrst sparnaðarnefndin. Hún var með öllu óþörf, enda er nú búið að leggja hana niður og fela ríkisbókara að vinna hennar störf. Það var leiðinlegt, að stj. skyldi ekki sjá strax, að ekki þurfti annað en að fela þetta ríkisbókara; með því hefði hún sparað talsvert fje. Annars er það auðvitað, að sparnaðarnefndin var skipuð til þess eins að snuðra um gerðir íhaldsmanna, í von um að finna eitthvað það í meðferð þeirra á fjármálum þjóðarinnar, sem hægt væri að hengja hatt sinn á. En það var erfitt að finna nokkurn snaga. Eitt atriði hefir þó ritstjóri Alþýðublaðsins fundið og óspart notað í blaði sínu, og það er aukaborgun til skrifstofustjóranna í stjórnarráðinu, sem þeir hafa fengið um langan aldur, og því er auðvitað ekki frekar hægt að kenna íhaldsstj. um það en öðrum stj. á undan henni. En ef eitthvað er athugavert við þetta, er það mjög merkilegt, að hæstv. núv. stj. heldur áfram að borga skrifstofustjórunum þetta, og hefir meira að segja bætt talsverðu við þá upphæð, sem ritstjóri Alþýðublaðsins hneykslaðist á. En þessi samviskusami ritstjóri gleymir alveg að hneykslast yfir því, af því að hans elskulega framsóknarstjórn á í hlut. Jeg segi þetta ekki af því að jeg öfundist yfir því, þó að kjör þessara manna sjeu bætt, heldur til þess að sýna fram á, að hæstv. stj. hefir hjer, eins og svo oft áður, gert það sama og hún hefir vítt fyrv. stj. fyrir að gera.

Jeg geri ráð fyrir, að það muni verða fróðlegt að athuga það síðar meir, þegar stjórnarskifti verða — því að einhverntíma verða stjómarskifti —, hvernig samskonar skrá yfir meðferð fjárins hjá núv. hæstv. stj. lítur út. Jeg er nokkum veginn viss um, að slík skrá verður búin til — hún skal verða búin til, — og þá kemur áreiðanlega í ljós mikill munur, sem ekki verður núv. stj. í hag.

Jeg get rjett nefnt Landsbankanefndina, þetta 15 manna stóra höfuð, en það er það einkennilega við þá margmennu nefnd, að hún hefir hreint ekkert að gera. Aðalstarf hennar er að hóa saman mönnunum. Það hefir gengið í stöðugu stríði að ná þeim saman nógu mörgum til þess að hægt yrði að koma á húmbugsfundi. Alt hefir verið eintómt vafstur, ekkert starf. Það er ekkert annað, sem nefndin á að gera, en að kjósa í bankaráðið og setja reglugerð og svo að samþ. reikningana, náttúrlega ósjeða, því að um annað er ekki að tala. Aðalformaður nefndarinnar er nú svo heppinn að vera búsettur austur á landi, varaformaður hefir lagt á sig mikil ómök við smalamenskuna, og 2. varaformaður hefir stundum hlaupið undir bagga, en þá tókst allra verst, því að fundurinn gleymdist.

Þá er Þingvallafriðunarnefndin, þar sem hæstv. dómsmrh. og jeg eigum báðir sæti. Sú nefnd er ólaunuð, en kostnaður af henni verður áreiðanlega nægur til þess að jeta upp eftirgjaldið eftir allar jarðirnar í Þingvallasveit, sem nú á að leggja í eyði; í gistingar, ferðalög, hesta og matarveislur fer eftirgjaldið. Sá reikningur verður ekkert betri en Óðinsreikningurinn. Í haust var til dæmis haldin mikil veisla, fyrir eina 15 menn, og ef það er rjett hjá hæstv. dómsmrh., að tveggja manna morgunverður hafi kostað 200 krónur, þá má nærri geta, hvað þessi 15 manna veisla hefir kostað. Annars er ekki hægt að segja, að Þingvallafriðunarnefndin sje kostalaus. Aðalkostur hennar er sá, að hún hefir ekkert unnið að sínu ætlunarstarfi, og það er höfuðkostur, því að hún átti að framfylgja þeim fáránlegustu lögum, sem samþ. hafa verið á þingi, að banna sauðfjárrækt þar á landinu, sem er einna best fyrir sauðfje. Þó hefir nefndin gert eina mikla vitleysu. Hún hefir ákveðið að láta flytja af hentugum stað á óhentugan stað bæði gistihúsið og konungshúsið. Og til þess að það verði hægt, þarf að kosta ekki minna en 50–60 þús. kr. til flutnings á húsunum, til brúar yfir Öxará og vegagerðar að þeim stað, sem húsin eiga að standa.

Nei, þó að n. sjeu ekki launaðar, geta þær verið dýrar fyrir því. Jeg vona, að jeg þurfi ekki að taka það fram, að jeg var gersamlega ósamþykkur þessum heimskulegu framkvæmdum n.

Kirkjumálanefndina þarf jeg varla að minnast á. Það hefir verið gert áður, en jeg vil undirstrika, að það er mjög undarlegt af hæstv. ráðh. að skipa nefndina um þingtímann upp á sitt eindæmi. Af hverju leitaði hæstv. ráðh. ekki til þingsins? Það er þetta alræmda einræðisbrölt hjá hæstv. ráðh. Hann virðir þingið svo lítils, að honum dettur ekki í hug að spyrja það ráða. Hann ætti þó ekki að vera hræddur um að geta ekki komið þessu í gegnum þingið.

Hæstv. ráðh. er sífelt að unga út nefndum. Nú er komin ný landsspítalanefnd og auk þess 5 manna n. til útgáfu heilsufræðirits. Af hverju spyr hæstv. ráðh. ekki þingið? Af hverju fær hann ekki lögmæta fjárveitingu til allra þessara nefnda? Af því að hann vill einn öllu ráða og skeytir ekki um nein lög.

Næst get jeg nefnt utanríkismálanefndina. Hún er meðal hinna ólaunuðu og á að vera stj. til ráðuneytis. Eina utanríkismálið, sem fyrir hæstv. dómsmrh. hefir komið í hans stjórnartíð, er hið margumtalaða Tervani-mál, en það hefir aldrei í utanríkismálanefndina komið. Þó er hans aðalvörn í því máli sú, að það sje utanríkismál. Hann heldur því fram, að það megi ekki dæma erlend mál á sama mælikvarða og innlend, en hefir þó ekki borið þetta mál undir n. Og af hverju? Af því að hann vill einn öllu ráða. Ef þetta mál hefði verið borið undir nefndina, er jeg viss um, að úrslitin hefðu orðið alt önnur en raun varð á. Annars ætla jeg ekki að fara frekar út í þetta mál að svo stöddu. Jeg býst við, að jeg komi að því síðar, þegar jeg fer að svara ýmsu, sem hæstv. ráðh. sagði í dag og í gær.

Samgöngumálanefndin sýnist nú hafa lokið starfi sínu, og hefir frv. frá henni verið lagt fyrir þingið og hefir hæstv. forsrh. gert það að sínu máli með því að fela n. í hv. Ed. að flytja það. Þar sem frv. þessu fylgir álit n. og búast má við, að bráðlega komi frv. í sömu átt, þykir mjer ástæða til að segja um þetta mál nokkur orð.

Álít þetta er miðað við þá meinlegu villu, að bygt skuli nýtt strandferðaskip í samræmi við heimild síðasta þings þar um, og jeg fæ ekki betur sjeð en að hjer skjóti upp kollinum angi af hinni sömu fáránlegu kenningunni, sem óneitanlega liggur til grundvallar fyrir þessari skipsbyggingu, sem sje þeirri, að meiri áherslu beri að leggja á samgöngur á sjó en landi. Það er vissulega sami þefurinn af þessari nýju kenningu, að hætt skuli að hafa reglubundnar póstferðir milli hjeraða landsins landleiðina. Við leggjum árlega með rjettu stórfje í það að leggja vegi milli hjeraða, t. d. um Holtavörðuheiði, Vatnsskarð, Öxnadalsheiði, og þegar ekki eru nema fá ár eftir þangað til um þessi höft milli hjeraða og landshluta eru komnir akfærir vegir með brunandi bifreiðum, þá er stungið upp á að hætta að láta flytja póst að staðaldri um þessa vegi. Er nokkurt vit í þessu? Jeg get ekki skilið það. Er t. d. nokkurt vit í því að senda póst, sem á að fara norður í Húnaþing, með skipi fyrir alla Vestfjörðu, þegar ekkert kostar að koma honum á skipi til Borgarness og lítið að koma honum í bifreiðum þaðan norður. Og þetta kemst pósturinn á 1–2 dögum með þessari ferð, en ella er hann 4–5 daga að minsta kosti. Og þó að Holtavörðuheiði sje ekki bílfær, þá er sannarlega ekki mjög örðugt að flytja póstinn á hestum yfir hana. Og hvernig mun póstflutningur með skipum ganga þegar hafís er? Hann mundi geta gert slæmt strik í reikninginn. Jeg get hugsað, að sumir Húnvetningar og Skagfirðingar brosi í kampinn, þegar þeir sjá, að póstmálanefndin telur veginn yfir Hrútafjarðarháls fjallveg og að illfært sje á bifreið heim að Víðimýri. Þetta er kannske ekki mikilsvert, en það sýnir, að þessi n. hefir ekki lagst djúpt.

Það slær mig mjög, að í till. um þessar nýju póstgöngur er sagt, að ekki megi slíta póstsambandi landleiðina milli Akureyrar og Húsavíkur nje milli Vopnafjarðar og Fljótsdalshjeraðs. Af hverju skyldi n. hafa komist að þessari niðurstöðu? Ætli það sje ekki af því, að einn nefndarmanna var Þingeyingur og annar Norðmýlingur! Þeir fundu því þörfina á þessum slóðum. En ætli hún sje ekki svipuð víðar. Jeg er ekki í neinum efa um, að svo er. Og jeg er sannfærður um, að verði þessi fáránlega aðferð tekin upp, rís þar af svo megn andúðaralda, að um verður breytt eftir fá ár.

Er nokkurt vit í því að hugsa sjer, að póstur, sem á til dæmis að fara frá Bólstaðahlíð til Víðimýrar, verði sendur niður allan Langadal og svo á skipi frá Blönduósi til Sauðárkróks og þaðan til Víðimýrar, í stað þess að senda hann yfir Vatnsskarð. Til þess að komast í skip, þarf að flytja hann mörgum sinnum lengri leið en leiðin er að ákvörðunarstaðnum.

Jeg ætla þá að snúa mjer að einu máli, sem snertir mitt eigið kjördæmi og sýnir mikla hlutdrægni af hálfu hæstv. dómsmrh. Svo er mál með vexti, að síðastliðið vor höfðu Sláturfjelag Skagfirðinga og Kaupfjelag Skagfirðinga ákveðið að reisa frystihús saman, og tilætlunin var að fá til þess lán úr viðlagasjóði. En þegar leitað var eftir láninu hjá hæstv. dómsmrh. —hann hafði með þetta að gera, af því að atvmrh. var ekki í bænum —, fjekk fjelagið það svar, að lán fáist ekki, ef sláturfjelagið yrði meðeigandi í fyrirtækinu, en kaupfjelagið eitt geti fengið lánið. Þegar þessi fregn barst norður, fylltust allir undrun, og jeg hefi það fyrir satt, að þetta hafi jafnt gilt um stjórnarstuðningsmenn og stjórnarandstæðinga. Þetta þótti því undarlegra, sem sýslunefnd Skagafjarðarsýslu hafði ákveðið með Öllum atkv. á aðalfundi árið 1928, að ef ekki fengist samkomulag á milli þessara aðilja um bygginguna, skyldi sláturfjelagið fá ábyrgð sýslusjóðs. Með þessu sýndi sýslunefndin, að það var hennar vilji, að sláturfjelagið ætti að fá þetta og ætti að ganga fyrir öllum öðrum um ábyrgð af hálfu sýslufjelagsins, enda var það eðlilegt, því að markmið fjelagsins er að starfa að slátrun og koma slátrunarafurðum í peninga. En hæstv. stj. var ekki beinlínis á því að láta hjeraðsbúa ráða þessu. Hún tók ráðin af skagfirskum bændum og sagði, að kaupfjelagið gæti fengið lán, en sláturfjelagið ekki. Hæstv. stj. tók það fjelagið fram yfir hitt, sem hafði það að markmiði að útvega erlendar vörur, en útilokar það fjelag, sem vinnur á því starfsviði, sem frystihúsin einmitt byggjast á. Bæði kaupfjelagið og sláturfjelagið eru í Sambandi ísl. samvinnufjelaga, en sá er hængurinn á með sláturfjelagið, að það hefir ekki viljað taka á sig hina ótakmörkuðu samábyrgð.

Árangurinn af þessari ákvörðun hæstv. stj. varð sá, að kaupfjelagið reisti frystihús á Sauðárkróki og sláturfjelagið hefir ákveðið að reisa annað. Ákvörðun hæstv. stj. veldur sem sje því, að sýslubúar þurfa að leggja á sig miklu meiri kostnað en annars hefði orðið. Hæstv. stj. hefir með hlutdrægni sinni bakað þeim aukin út gjöld, sem nemur kannske tugum þúsunda. Þetta er mjer skylt, sem þingmanni sýslunnar, að átelja harðlega. Stj. hefir þarna — jeg veit ekki með hvaða rjetti — blandað sjer eins og hjónadjöfull í mál þessara tveggja fjelaga, til þess, að því er virðist, að reyna að kúga bændur inn á aðrar brautir í fjelagsmálum en þeir hafa ætlað.

Stj. gat neitað sláturfjelaginu um lán til frystihúsbyggingarinnar í samlögum við kaupfjelagið, en hún gat þó ekki hindrað, að sláturfjelagið bygði sitt eigið frystihús, því að nú mun vera byrjað á að reisa það. Nú höfum við þm. Skagf. reynt að fara fram á það við hæstv. atvmrh., að hann veitti lán til þeirrar byggingar. Hæstv. ráðh. mun hafa ráðgast um þetta við S. Í. S., en er Sambandið kvaðst ekki vilja taka afstöðu til þessa máls, þóttist hæstv. ráðh. ekki heldur geta það. Er því ekki annað sýnna en að S. Í. S. sje orðið einhverskonar yfirráðherra.

Væri fróðlegt að heyra, hvernig stj. fer að rökstyðja þá aðferð, er hún hefir beitt í þessu máli, og hvers vegna hún lagðist á móti því, að sláturfjelagið yrði meðeigandi í frystihúsinu. Mjer virðist ekki vera til nema ein skýring á því, og hún er sú, að stj. vilji sláturfjelagið feigt og hafi ætlað að þröngva mönnum inn í kaupfjelagið. Það þarf auðvitað ekki að ítreka það, að þetta er röng aðferð og gagnstæð lögum og rjettarmeðvitund manna, því að hingað til hafa menn mátt vera í þeim löglega fjelagsskap, sem þeir vilja, og versla þar, sem þeir sæta bestum kjörum, en ekki þurft að spyrja stj. leyfis um slíkt. Og um þetta áttu menn að vera frjálsir hjer sem annarsstaðar. Það er því stórum ámælisvert, að landsstj. skuli reyna að kúga menn til að hætta við áhugamál sín og gera tilraun til að hefta frelsi þeirra og atvinnulíf.

Mjer er ekki kunnugt um, hvernig stj. hefir ráðstafað fje því, sem ætlað er til frystihúsa. Þó er mjer kunnugt um, að hún hefir lánað kaupmönnum á Akranesi fje í þessu skyni, að vísu fyrir milligöngu Sláturfjelags Suðurlands. Hæstv. stj. hefir látið svo, sem hún væri ekki sjerlega vinveitt kaupmönnum, en þó virðist henni hlýrra til þeirra en hinna skagfirsku bænda, sem standa að Sláturfjelagi Skagfirðinga. Allir sjá því, að hjer er um óhæfilega hlutdrægni að ræða. Ef stj. hefir veitt kaupfjelaginu lánið af umhyggju fyrir landbúnaðinum, hvað gat þá verið á móti samvinnu þessara tveggja fjelaga, sem lengi hafa unnið saman í ágætri samvinnu, svo að sláturfjelagið hefir jafnvel lánað kaupfjelaginu hús sín? Fjelögin höfðu ætlað sjer að eiga frystihúsið saman. Nú vil jeg spyrja: Hvers vegna mátti þetta ekki vera svo? Hví skiftir stj. sjer af fjelagsskap, sem henni kemur ekki við? Hvers vegna reynir stj. að sá frækornum haturs og tvídrægni meðal bænda landsins og auka kostnað við framkvæmdir þeirra? Jú, skýringin er sú, að stj., og þá einkum hæstv. dómsmrh., hefir þótst þurfa að hefna sín á bændum í Skagafirði, af því að þeir hafa ekki reynst honum nógu þægir. (Dómsmrh.: Jeg læt það alveg vera). Jeg get ekki ímyndað mjer, að ástæðan sje önnur. En jeg get sagt honum það, að jeg þekki þessa bændur, og við þá dugir ekki þvílík aðferð Þeir láta ekki kúga sig. Jeg þekki þá svo vel, að jeg veit, að þeir láta ekki kúgast, og mjer er meðal annars vegna trygðar þeirrar, sem þeir hafa sýnt mjer, mjög ljúft að tala þeirra máli í þessu efni. Og jeg get glatt hæstv. dómsmrh. með því að segja honum það, að hið nýja frystihús sláturfjelagsins mun blasa við honum næst þegar hann kemur til Sauðárkróks.

Við tækifæri eins og þetta er ekki unt að ganga framhjá meðferð hæstv. dómsmrh. á dómsmálunum, því að í hans stjórnartíð hefir það skeð, sem ekki hefir komið fyrir hjer á landi og hvergi má eiga sjer stað, að dómsmál sjeu tekin í pólitíska þjónustu og notuð til að sverta andstæðinga. Það er bein óhæfa, að sakamál skuli vera tekin og notuð sem vopn í dægurdeilum, og það er fyrirlitlegt að reyna jafnvel að nota gömul og afgerð sakamál til þess að reyna að ófrægja andstæðinga.

Þessa aðferð hóf hæstv. ráðh. þegar eftir að hann tók við embætti sínu, því er hann nú gegnir, og byrjað var á Hnífsdalsmálinu. Það var reynt að sverta allan Íhaldsflokkinn með því máli, og svo langt var gengið, að hv. þm. N.-Ísf. var útilokaður frá þinginu um lengri tíma vegna þess mál, jafnvel þótt svæsnustu andstæðingar þyrðu ekki einu sinni að gefa það í skyn, að hann væri hið allra minsta við þetta mál riðinn. Hnefarjetturinn var gerður að hæstarjetti í sjálfu löggjafarþinginu, þótt ekki stæði það þá nema nokkra daga. Og það verður að segjast Framsóknarflokknum til lofs, að þegar hann sá, hvert stefndi, neitaði mikill hluti hans að fylgja þessum ráðh. út í ófæruna, og ef til vill var það mikið að þakka hinum látna fjármálaráðherra flokksins (MKr). Mun þess sjálfsagt lengi minst, er hann reis upp úr sæti sínu í þessum sal, snerist öndverður gegn embættisbróður sínum og lýsti því yfir, að hann mundi greiða atkv. á móti honum.

Hæstv. ráðh. hefir álasað mikið fyrv. stj. fyrir það, að hún hafði ekki leitt til lykta Hnífsdalsmálið á þeim 2–3 mánuðum, sem liðu frá því málið kom upp og til þess stjórnarskiftin urðu. En síðan hann tók við völdum eru liðnir 19 mánuðir og dómur í málinu í undirrjetti er nýfallinn og áreiðanlega mjög langt þangað til málið er útkljáð fyrir hæstarjetti. Hjer er því bert, að ráðh. gerir hærri kröfur til annara en sjálfs sín. Ætti þetta að vera honum áminning um að gera fyrst og fremst kröfur til sjálfs sín, því að með því einu móti er honum heimilt að gera kröfur til annara.

Ástæða er til að minnast hjer á afsetningarmál sýslumanns Barðstrendinga. Á síðasta þingi raupaði hæstv. ráðh. mikið af dugnaði sínum í því máli. En hvernig er nú því máli komið? Því er þannig komið, að stj. hefir að allmiklu leyti tapað því máli, er hún höfðaði gegn honum. Og hún viðurkennir dóminn rjettan með því að áfrýja honum ekki, en í þess stað fer hún í sakamál við hinn afsetta mann, og enginn veit, hvenær það endar. Jeg get þess aðeins, af því að það mundi ekki þykja líklegt eftir aðferð ráðh. í öðru máli, að stj. hefir ekki krafið hinn afsetta sýslumann um vexti af búafje, sem stóð inni hjá honum.

Eftir öllu þessu sje jeg ekki, að hæstv. ráðh. hafi ástæðu til að gorta af aðgerðum sínum í þessu máli. Ef sjóðþurð hefir verið hjá þessum embættismanni, sem jeg efast ekki um eftir því, sem frá er skýrt, þá gerði ráðh. ekkert nema skyldu sína, er hann veik honum frá embætti, en ráðh. hefir farist þetta svo klaufalega, að aldrei hefir nokkrum starfsmanni verið vikið frá með slíkum harmkvælum og vetlingatökum vanþekkingar og klaufaskapar.

Sjóð þurðarmálið í Brunabótafjelagi Íslands verð jeg líka að nefna hjer, því að þessi sami ráðh. hefir í blaði sínu margoft gert það að umtalsefni. Þessi sjóðþurð var 60–70 þús. kr. Jeg hafði fyrirskipað rannsókn út af þessu áður en jeg fór úr stjórnarráðinu, og ennþá er þetta mál þó ekki á enda kljáð. Í byrjun var þó ekki meiri alvara í stj. um þetta mál en svo, að hæstv. forsrh. samdi við umboðsmann hins seka um eftirgjöf sakarinnar gegn greiðslu, og er upplýst með vitnaleiðslu, sem nýlega hefir farið fram, að samningar voru komnir á milli hæstv. forsrh. og hins seka, en þeim samningi var riftað af hæstv. dómsmrh.

En það er hjer sem oftar, að ráðh. vill nota sakamál til þess að ná sjer niðri á andstæðingum sínum. í þessu tilfelli var það forstjóri Brunabótafjelags Íslands, sem hann vildi ná sjer niðri á, en það er næsta erfitt, því að hann einmitt var það, sem kom þessari sjóðþurð upp, og sýnist það frekar þakkarvert. Og úr því að hæstv. stj. taldi hjer ekki um meira að ræða en það, að hún gæti um það samið, mundi heppilegast fyrir hana sjálfa að halda þessu máli sem minst á lofti.

Það hlýtur nú að koma til álita fyrir hæstarjetti, hvort ekki hafi verið búið að gefa þessum manni upp sakir, og hvort hægt sje að heimta dóm yfir honum. Annars er hæpinn ávinningur að fá dóm yfir þessum manni, þar sem hann mun nú vera orðinn geðbilaður, og hefir reyndar verið það í mörg ár, þótt hann hafi ekki orðið óður fyr en nú nýlega. Mjer finst því álitamál, úr því að greiðsla var boðin að miklu leyti, hvort ekki hefði verið rjettara að taka henni heldur en að fá dóm yfir geðveikum aumingja.

Klukkan er nú nærri 6 fyrir hádegi og jeg fer fram á, að hæstv. forseti geri fundarhlje til kl. 6, svo að jeg og aðrir góðir menn getum fengið okkur morgunkaffi. [10 mín. fundarhlje].

Jeg mun hafa verið að tala um sjóðþurðarmálið í Brunabótafjelagi Íslands. Gjaldkerinn, sem sakfeldur var, er orðinn geðveikur, og er vafasamt, hvort hann verður ekki sýknaður, af því að svo verði litið á, að stj. hafi verið búin að gefa honum upp sakir. Jeg er þessu ekki persónulega kunnugur, en hefi heyrt um það talað á meðal lögfræðinga. Það virðist vera lítil svölun í því að vega að manni, sem kominn er á glæpamannabrautina vegna geðveiki. En jeg þykist vita, að hæstv. dómsmrh. hafi ekki beinlínis ætlað að ná til hans. heldur notar hann þetta sakamál til þess að vega að stjórnmálaandstæðingum sínum. Jeg segi ekki, að hann hafi ætlað að særa með því veikan mann. En í þessu tilfelli var það pólitískur andstæðingur, þáverandi forstjóri Brunabótafjelagsins, sem hann vildi ná sjer niðri á. Og það verður næsta erfitt fyrir hæstv. dómsmrh. að verja framkomu stj. í þessu máli, því það var einmitt forstjórinn, sem kom þessari sjóðþurð upp, og sýnist það frekar þakkarvert. Þetta mál upplýsist bráðlega; jeg veit ekki, hvort það verður birt í „bláu bókinni“, en ef það verður ekki, þá mun ef til vill hægt að koma skjölum þess á annan hátt til almennings, þó það verði kannske ekki í 6000 eintökum. — En út af eða í sambandi við þetta sjóðþurðarmál er ómögulegt annað en að nefna annað sjóðþurðarmál miklu stórkostlegra, hjá útibúi landsverslunarinnar á Seyðisfirði, sem jeg veit ekki betur en að um hafi verið samið, að minsta kosti að nokkru leyti. Hæstv. dómsmrh. hefir að sönnu sagt mjer fyrir nokkrum dögum, að þetta mál ætti að rannsakast, en hvað á að rannsaka, veit jeg ekki. Það liggur fyrir viðurkendur reikningur og landsreikningarnir sýna, hve há skuldin er. Hvað á að rannsaka? Útibússtjórinn er búinn að gefa veð fyrir skuldinni, og er álitið, að hann hafi þar með fengið fyrirgefningu.

Hjer er ekki um neina smáupphæð að ræða; sjóðþurðirnar í Brunabótafjelaginu og Barðastrandarsýslu eru báðar til samans víst ekki meiri en Seyðisfjarðarsjóðþurðin ein. Það mun því verða erfitt fyrir hæstv. ráðh. að flagga með rjettlætistilfinningu sinni í þessum málum, þegar hann hefir um langt skeið látið óátalið eitt stærsta sjóðþurðarmálið, sem jeg þekki hjer á landi, og ekkert gert til að rannsaka það.

Hætt er við, að hæstv. ráðh. verði fyrir óþægilegum spurningum, þegar hann ámælir stærsta stjórnmálaflokki landsins fyrir þær ávirðingar, sem hjer er um rætt. Það er hætt við, að hann verði spurður, í hvaða flokki útibússtjórinn á Seyðisfirði hafi verið. Og svarið verður, að hann sje í Framsóknarflokknum. Það þarf ekki nema lítið brot af illvilja hæstv. ráðh. til að halda því fram, að þessi maður hafi sloppið af því hann er samherji ráðh. Þetta er ekki nema brot af því, sem hæstv. ráðh. segir um okkur íhaldsmenn.

Jeg held, að þetta sje eitt stærsta sjóðþurðarmál hjer á landi. Hvað halda menn nú, að hæstv. ráðh. mundi hafa sagt eða gert, ef íhaldsflokksritstjóri eða önnur persóna úr þeim flokki hefði átt hlut að máli? Mjer er sem jeg sjái stóru yfirskriftirnar og skammaryrðin í blaði hans.

Jeg sje heldur ekki ástæðu til annars en minnast hjer á mál, sem hæstv. dómsmrh. hefir látið höfða gegn mjer, hið svonefnda Shell-mál, en af því að jeg á þar sjálfur hlut að máli, mun jeg ekki fara langt inn á það. Þess er þó rjett að geta, að ráðh. þótti svo mikils um vert, að almenningur fengi að vita um þessa málsókn, að hann ljet blað sitt skýra frá því, að hann hefði höfðað opinbert sakamál gegn mjer, og ljet með því í veðri vaka, að það varðaði ærumissi, ef dómur fjelli ráðh. í vil.

Sem átylla til þessarar rannsóknar var það notað, að yfirlýsing, sem jeg hafði undirritað um innborgun hlutafjár í Shell-fjelagið, mundi ekki vera rjett. Hefði yfirlýsingin verið röng, gat það varðað sektum og lögreglumálsmeðferð, en til þess að gera þetta alt sögulegra, var það látið heita sakamál.

Jeg hefi fyrir satt, að hæstv. ráðh. hafi látið höfða þetta mál gegn mjer af því, að jeg er honum ekki fylgispakur nje þægur við hann í landsmálum, og að hann hafi viljað hefna sín á mjer sem stjórnarandstæðingi. Jeg hefi gaman af því, þegar jeg fæ að sjá „bláu bókina“, að athuga, hvað í henni stendur. Mig grunar, að þar verði ekki alt birt, sem komið hefir fram við rannsókn þessa máls. — En það varð lítið úr hinu háttreidda höggi. Hæstirjettur sýknaði og ríkissjóður borgar flanið. Fjórum lögfræðingum var falið að rannsaka þetta mál, hverjum eftir annan, og er auðsjeð af þessu, að hæstv. ráðh. sparaði hvorki fje nje mannvit. Svo þegar dómur var fallinn í undirrjetti, var sóttur sýslumaður vestan úr Barðastrandarsýslu á varðskipi ríkisins, og var hann síðasti rannsóknardómarinn í málinu, en þá var jeg búinn að gera svo hreint fyrir mínum dyrum í málinu — orðinn svo engilhvítur í augum rannsóknardómarans —, að fyrir hann var jeg alls ekki kallaður, og mundi því þó tæplega hafa verið slept, ef einhver átylla hefði verið til þess.

Það muna víst allir eftir ærslunum í hæstv. dómsmrh. á eldhúsdaginn hjer í d. í fyrra. Það var svo sem við að búast, að allur sá vindur þyrfti að fá útrás, og það hefir nú orðið með þessari málsókn, en hvort hæstv. ráðh. sjálfum þykir betur farið en heima setið, að því skal jeg engum getum leiða. En það vil jeg segja hæstv. dómsmrh., að það er alls ekki víst, að jeg sje þagnaður um þetta mál. Jeg hefi þar ýmislegt í pokahorninu til þess að sýna hlutdrægni hans, ekki síst í framkomu hans gagnvart öðru steinolíufjelagi, British Petroleum, sem hjer verslar einnig. Í þetta skifti fer jeg þó ekki út í annað en það, að hæstv. ráðh. gerði mikið veður út af því, hversu mikil hætta stafaði af Shell-fjelaginu með 1/2 milj. kr. höfuðstól, en hann hefir ekki minst á það, að nokkur hætta stafaði af British Petroleum, þótt auglýst sje í Lögbirtingablaðinu, að höfuðstóll þess sje 3 milj. sterlingspunda, eða sem næst 661/2 milj. kr. öllu berari hlutdrægni en þetta held jeg að varla sje hægt að sýna, og það virðist fífldirfska að krefjast úrlausnar dómstólanna um mál, sem þannig er í pottinn búið. Jeg veit ekki, hvort jeg á að trúa hv. 2. þm. Reykv. (HV) um það, að hæstv. dómsmrh. hafi gert sjer vonir um að vinna þetta mál. Jeg hjelt, að hann væri ekki svo mikið barn í lögum.

Hæstv. dómsmrh. vildi ekki ræða bæjarfógetamálið svokallaða, svo að jeg ætla ekki að gera það heldur, enda á jeg nú að verja það fyrir hæstarjetti eftir nokkra daga. Tækifærin verða líka nóg síðar til þess að koma inn á það. Jeg vil þó geta þess, að jeg geng þess ekki dulinn, að þar er um pólitískt hatursmál að ræða, svo andstyggilegt, að jeg hefi engin orð til að lýsa því.

Ýmislegt fleira í dómsmálaferli ráðh. væri mikil ástæða til að nefna, en jeg verð að láta hjer staðar numið. Það hefir fyllilega komið fram, sem margir óttuðust, er þessum manni var falið dómsmálaráðherrastarfið, að hann væri ekki fær um að rækja það viðunanlega. Ekki óttuðust menn þetta einungis af því, að vitanlegt var, að hann var ákaflega ófróður um þessi mál, heldur einnig af því og meira að segja sjerstaklega af því, að oft hafði komið í ljós einræðishneigð hans og pólitísk hlutdrægni. Það verður að segja eins og er um það, að ókostir þessir hafa í ríkum mæli gert vart við sig hjá hæstv. ráðh., og nú er svo komið, að það er álit margra, að sakamálarannsóknum sje beitt í pólitíska þágu. Sum þeirra misgripa, sem hafa átt sjer stað, stafa ef til vill af vanþekkingu, en hið mesta stafar ekki af því. Það er jeg fyrir mitt leyti sannfærður um.

Það er skylda hvers dómsmálaráðherra sem er, einhver skýlausasta skylda sem til er, að beita ekki sakamálsrannsókn nema full ástæða sje til. Æra manna er þeim yfirleitt helgur dómur, er enginn hefir heimild til að rýra eða ræna án þess að full ástæða sje til. Fyr á tímum beittu harðstjórar lífláti eða útlegð gagnvart andstæðingum sínum, oft og tíðum gersamlega að ósekju. Nú er þetta víðast lagt niður, því menning nútímans bannar það. En er betra að reyna að ræna menn æru sinni? Jeg efast um það, og að minsta kosti er sá þjófur allra þjófa verstur, sem stelur æru manna, en allra verst er þó, ef það er gert í nafni rjettvísinnar, því að þá eru notaðir falskir lyklar til þess að ná því, sem dýrmætast er í eigu hvers óspilts manns.

Jeg hafði ætlað mjer að minnast á hið svonefnda Árbæjarmál, en af því að jeg mundi verða of langorður, ef jeg ræddi það nákvæmlega, þá mun jeg að mestu sleppa því. Jeg vil hjer aðeins minna á það, að hæstv. ráðh. ætlaði með skrifum sínum um það að sýna fram á, að jeg hefði sýnt hlutdrægni í því máli í vil hv. 3. þm. Reykv., jafnvel þótt skjöl málsins, sem ráðh. hafði í höndum, bæru þess ljósan vott, að jeg hefði ekki komið neitt nærri málinu. Svona aðferð er gersamlega ósamboðin hverjum góðum dreng.

Jeg sje, að hæstv. fjmrh. er ekki við, en mig hefði langað til að spyrja hann, hvernig gengur með þær lántökur, sem stj. hefir haft á prjónunum nú um alllangt skeið. Mjer skilst, að vegna byggingar- og landnámssjóðsins sje illfært að draga lántöku lengi, ef ekki á að draga á tálar með fögrum loforðum fjölda manna um land alt. Lögin um sjóð þennan öðluðust gildi 1. jan., eða fyrir þrem mánuðum síðan, og ennþá veit enginn, hvenær hann muni taka til starfa. (Forsrh.: Sjóðurinn hefir fengið alla þá peninga, sem til var ætlast). Það er undarlegt. Forstjóri ræktunarsjóðsins hefir sagt mjer, að það dyngdust að lánbeiðnir úr öllum áttum, en að ekkert væri afgr., svo að jeg hjelt, að það stæði á peningunum. (Forsrh.: Hann er búinn að fá 50 þús.). Mjer dettur ekki í hug að rengja hæstv. forsrh., en hvað segja 50 þús. kr. til fullnægingar 100 lánbeiðnum? Þær eru eins og krækiber í ámu. Jeg minnist þess, hvílíkum gauragang hæstv. forsrh. kom af stað á sínum tíma út af því, að búnaðarlánadeildin tók ekki til starfa á tilteknum tíma, svo að jeg er hálfhissa á því, að hann skuli ekki segja forstjóranum að láta sjóðinn taka til starfa, úr því að ekki stendur á peningunum. (Forsrh.: Jeg er búinn að því. En jeg hygg, að það standi á teikningum frá húsameistara). Jeg fæ með engu móti skilið, að það sje svo mikið verk að gera þessar teikningar, að á því þurfi að standa mánuðum saman. Annars hafði jeg hugsað mjer að gefa hæstv. forsrh. dálítinn pistil út af þessu, en þar sem nógu er úr að moða öðru, læt jeg það bíða að sinni og saka stjórnina ekki um trassaskap fyrst um sinn.

Þá kem jeg loks að því öllu, sem jeg hefi skrifað upp eftir hæstv. dómsmrh. í dag og í gær. Er það þá fyrst Tervani-málið. Það var auðheyrt, þegar hæstv. ráðh. var að verja það, að það var mál, sem kom við hjartað í honum, Jeg var satt að segja undrandi yfir því, hve mikið hæstv. dómsmrh. lagði upp úr varnarskjölum Lárusar Jóhannessonar. Hingað til hefir Lárus Jóhannesson ekki vegið svo mikið í augum hæstv. ráðh. Mjer virtist jafnvel sem hæstv. ráðh. legði meira upp úr því, sem Lárus Jóhannesson segir í þessu máli, en sjálfum hæstarjetti. Hæstv. dómsmrh. eyddi löngum tíma í að sanna, að Júpiter væri sýkn. En ef svo er, er þá ekki sjálfsögð rjettlætiskrafa að borga sektarfjeð aftur, ekki síst þar sem annar sökudólgurinn slapp? Ef hæstv. dómsmrh. telur, að svo sje ekki, er rjettlætistilfinning hans ekki í lagi. Það hljóta allir að viðurkenna, að þegar tvö skip eru á veiðum á sama tíma hvort við hliðina á öðru, er rangt að refsa öðru skipinu, en láta hitt sleppa. Mjer skildist á hæstv. dómsmrh., að báðir þessir togarar væru sýknir, og er þá skilyrðislaus skylda hans að endurgreiða Júpiter þetta rangfengna fje.

Jeg vil leiðrjetta einn misskilning, sem komið hefir fram í umr. um þetta mál. Því hefir sem sje verið haldið fram, að vjelbáturinn „Trausti“ hafi verið varðbátur ríkisstj., en það er með öllu rangt. Suðurnesjamenn fengu styrk úr ríkissjóði til að halda þessum báti úti, og þeir rjeðu sjálfir menn á hann, sem ekki höfðu neitt lögregluvald, en var ætlað að athuga, hvort togarar væru innan við landhelgislínuna á veiðum. Það er því langt frá því, að þessum mönnum hafi borið nokkur skylda til að hafa bækur eða ritföng um borð. Hæstv. ráðh. heldur því fram, að það hafi ekkert sönnunargagn verið, þó að þessir menn, er á varðbátnum voru, hafi rispað eitthvað niður með nagla. Auðvitað var það ekkert sönnunargagn, en vitnisburður þeirra var það. Jeg man ekki betur en að vitnisburður sjómannanna í Vík gegn togaranum „Maí“, sem var á veiðum undan Dyrhólaey, hafi verið tekinn sem fult sönnunargagn. (JJós Það eru margir útlendir togarar, sem hafa verið dæmdir á þessum grundvelli). Já, alveg rjett, enda eru mið sjómanna yfirleitt eins glögg og verið getur. (SÁÓ: Hvernig var það með Maí?). Það er gaman, ef þessi gamli skipstjóri, hv. 4. þm. Reykv., ætlar að fara að halda því fram, að ekki sje takandi mark á framburði sjómanna. Mið sjómanna eru mjög nákvæm. Og er það ekki full sönnun, ef þeir staðfesta mið sín með vitnaeiði? Það er gott slagorð þetta með naglann, en hann kemur þessu máli bara ekkert við. Það eina, sem hjer þurfti að ákveða, voru miðin, sem skipin voru á, og það gerði skipshöfnin á „Trausta“ og staðfesti síðan með framburði sínum.

Hæstv. dómsmrh. leggur meira upp úr Lárusi Jóhannessyni í þessu máli en hæstarjetti og er búinn að prenta undirrjettarvörn hans í „bláu bókinni“, en ef hæstv. ráðh. vill ekki gefa villandi skýrslu um Tervani-málið, á hann líka að birta það, sem upplýstist í hæstarjetti í þessu máli. Það er annars skrítið, að það skuli enginn mega sjá þessa „bláu bók“, nema hann sjálfur, úr því að búið er að prenta hana. Hæstv. dómsmrh. vill hafa einkarjettindi til að nota hana í þessum umr., og minnir það á, þegar hv. þm. Ísaf. (HG) fjekk einn að nota skýrsluna um Shell-málið í fyrra. En það er svo með hæstv. dómsrh., að hann vill fá að sá ýmsu út sjálfur, áður en aðrir fá tækifæri til að leiðrjetta, svo að hann geti gefið hlutdrægni sinni lausan tauminn.

Þá fór hæstv. dómsmrh. að tala um það, að útlendi togarinn „Regulus“ hefði verið sýknaður. En hvað kemur það þessu máli við? Er það svo sjálfsagt, að hjer hafi verið um samskonar hluti að ræða? Nei, því fer fjarri, enda er hægt að nefna óteljandi dæmi þess, að útlendur togari hafi verið sýknaður.

Hæstv. dómsmrh. færði það til, að útlendingar væru mjög óánægðir í þessum efnum, eins og mörg skjöl í stjórnarráðinu bæru vitni um. Mig undrar þetta ekki. Þeir eiga að vera óánægðir, og ef þeir eru það ekki, stafar það af því, að þeim er sýnd óhæfileg linkind. Þessir menn telja sjer skylt að segja, þegar þeir eru komnir heim, að þeir hafi verið utan við landhelgislínuna, en samt verið teknir og sektaðir. Og heldur hæstv. dómsmrh. virkilega, að það sje meðalið, að gefa þessum mönnum upp sakir? Nei, það á að refsa þeim og sýna þeim fram á, að þeir sjeu ekki of góðir til að hlíta okkar íslensku lögum, frekar en við sjálfir. Það er ekki nema vitleysa að vera að halda því fram, að nokkur þjóð leyfi sjer að hafa á móti þeim dómum, sem hjer eru feldir.

Kenning hæstv. dómsmrh. virðist vera þessi: Beygðu þig fyrir útlendingum og láttu togara þeirra sleppa. Hitt gerir ekkert til, þó að innlendir togarar sjeu sektaðir fyrir sama brot sem útlendum togurum er fyrirgefið.

Jeg fæ nú ekki skilið, að útlendingar eigi kröfu til annarar meðferðar í þessum málum en innlendir menn, og skora á hæstv. ráðh. að rökstyðja það, að rjett sje að gera þennan mun. Það eru engin rök, þó að einhver þjóð verði reið, enda mun varla til að dreifa dæmum um slíkt. Og jeg man ekki betur en að utanríkisráðh. breski hafi lýst yfir því í parlamentinu, að gefnu tilefni út af þessum málum, að breska heimsveldið færi ekki að taka upp þykkjuna fyrir lögbrjóta. Englendingar segja sem svo: Passið ykkur, þið ensku menn, sem eruð á veiðum uppi við Ísland, að brjóta ekki íslensk lög. Þið megið vita, að þið fáið ekki hjálp hjá okkur til þess að komast hjá refsingu.

Þá sagði hæstv. dómsmrh., að sannanirnar, sem Júpiter hafi verið dæmdur eftir, hafi verið til skammar. Jeg hjelt nú satt að segja, að sannanir væru aldrei til skammar. Sannanir eru sannleikur. (Dómsmrh.: Jeg sagði, að það, sem kallað hafi verið sannanir í því máli, hafi verið til skammar). Hvað var það, sem kallað var sannanir? Það var vitnisburður sjómannanna, og jeg hefi aldrei heyrt annað en að vitnasannanir væru þær bestu sannanir, sem hægt væri að fá, enda eru þær notaðar af öllum þjóðum.

Hæstv. dómsmrh. gat ekki setið á sjer að grobba af þakkarbrjefinu, sem hann hefði fengið frá Englendingum. Jeg hefði heldur viljað vera laus við það. Hvað var að þakka, ef hjer hafði verið sýnt rjettlæti? Á að þakka hæstv. dómsmrh. fyrir það, þó að hann geri ekki það, sem rangt er? Brjef þetta er talandi vottur um, að þessir útlendingar telja sig í þakkarskuld við ráðh. Og það er rjett hjá þeim. En gaf ráðh. af eigin fje sínu? ónei, hann gaf af fje ríkissjóðs að ófrjálsu.

Ef rjettlæti rjeði hjer, ætti hann að endurborga þetta fje.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að Tervani-málið hefði verið íhaldsstjórninni að kenna. Þetta má máske til sanns vegar færa, því ef Júpiter hefði ekki verið dæmdur, þá hefði aldrei komið neitt til með Tervani. En jeg gat ekki varast það, að áfrýjun þess máls yrði til þess, að hæstv. dómsmrh. mundi lenda í þessum leirforarpytti út af Tervani-málinu. Mjer datt hreint ekki í hug, að þetta gæti haft jafnslæmar afleiðingar fyrir hæstv. ráðh. og raun er á orðin. En það vil jeg segja, að jeg hefði gert hið sama og jeg gerði í Júpiters-málinu, þótt jeg hefði fyrirfram vitað um angist og pínu hæstv. ráðh., því að jeg met meira að gera rjett en varðveita sálarró hans.

Þá var hæstv. dómsmrh. að breiða sig yfir það, að einn af togurum Kveldúlfsfjel. hefði verið sektaður. En nú vil jeg spyrja hæstv. ráðh. einnar samviskuspurningar: Finst honum það ekki bera vott um óhlutdrægni fyrv. stj. að áfrýja því máli? Og heldur hæstv. ráðh., að hann hefði sjálfur gert það? — Jeg held, að hann hefði ekki gert það. Jeg held, að hæstv. dómsmrh. hafi ekki svo sterka rjettlætistilfinningu, að hann hefði talið fært að gera á hluta flokksmanns síns. (Dómsmrh.: Var gert á hluta Kveldúlfs með því að áfrýja dómnum?). Þetta var máske ekki sem heppilegast orðað, en þó rjett, því að afleiðingin varð áfellisdómur og sektin þótti sönnuð og rjetturinn gekk fram. Þá er það algert öfugmæli hjá hæstv. dómsmrh., að lögin gangi jafnt yfir alla. Þau gerðu það áður en þessi stj. tók við völdum. En gera þau það nú? Fram á það hefi jeg nú sýnt.

Þá talaði hæstv. ráðh. um borgun til setudómara í Hnífsdalsmálinu og kom enn með það, að Steindóri Gunnlaugssyni hefðu verið greiddar 100 kr. á dag. Þetta er rjett, og mjer þótti þetta langt of mikið. Og jeg ávísaði því nauðugur. En hann setti þetta upp, og það hafði ekkert verið samið við hann fyrirfram. Jeg var ekki heima, er hann fór þessa ferð, og annar maður hafði ráðið hann til þess. En þess ber þó að gæta, að í þessari upphæð er innifalinn allur kostnaður, sem af ferðinni leiddi. En jeg vil spyrja hæstv. dómsmrh. að því, hvort í þessu 30 kr. dagkaupi Halldórs Júlíussonar er innifalinn allur kostnaður. (Dómsmrh.: Jeg mun svara því á eftir!). Vill hæstv. dómsmrh. segja það strax — já eða nei! (Dómsmrh.: Jeg tala á eftir! — Forseti (JörB); Ekki samtal!). Hæstv. ráðh. vill þá ekki svara því nú. En jeg áskil mjer þá rjett til að koma nánar að því síðar, þegar jeg hefi fengið vitneskju um það. Og þegar reikningarnir koma, ætti þetta að sjást. Það getur þá að minsta kosti komið til athugunar á næsta eldhúsdegi. Og verði jeg dauður þá, munu aðrir taka það upp. Jeg hefi skrifað hjer hjá mjer orðið „Skjaldbaka“. En hæstv. forseti (JörB) er svo mikið við það mál riðinn, að jeg er í vanda staddur, því jeg hefði þurft að leiða hæstv. forseta fram sem vitni í því máli. Jeg sje nú, að hæstv. forseti víkur úr forsetastóli. Get jeg því vitnað undir hann, hvort „Skjaldbakan“ var ekki góður hestur. Jeg býst nú raunar við, að vitnisburðurinn verði ekki tekinn gildur, nema hann sje krotaður niður með penna eða blýant — eða að minsta kosti nagla! Jeg hefi reynt núverandi hesta ríkissjóðs, og jeg verð að segja það, að argari tindabykkjum hefi jeg ekki komið á bak. Og jeg vildi engan þeirra eiga, þó að mjer væru gefnir þeir. Því miður er Spegillinn ekki hjer, en í honum mátti sjá einn þeirra. Var hann að sligast undir hv 4. landsk. En sá hv. þm. er nú máske fullþung byrði. Þeir hestar, sem ríkissjóður átti þegar stjórnarskiftin urðu, voru allgóðir og þægilegir hestar, en þeim var öllum fargað og þeir hestar fengnir í staðinn, sem jeg nú hefi lýst.

Þá var það veislukostnaður skipstjórans af Óðni meðan hann var í Kaupmannahöfn að líta eftir byggingu Óðins. Voru það 500–600 kr., sem fóru þar í veislukostnað. En jeg held, að hæstv. dómsmrh. hefði verið best að bíða með að minnast á þetta og sjá fyrst, hvort ekki verður einhver veislukostnaður í sambandi við byggingu hins nýja skips. Við skulum sjá til. Máske við lifum það líka.

Þá var það viðvíkjandi því, hver á að sjá um byggingu hins nýja skips í Kaupmannahöfn. Hæstv. dómsmrh. sagði, að það væri forstjóri Nielsen, sem hefði það á höndum af hálfu stj. En nú vita allir það, að hann er hjer heima. Og þegar svo er, hvernig getur hann þá haft eftirlit með smíði skipsins úti í Kaupmannahöfn? Og hví er hæstv. dómsmrh. að skrökva því, sem allir vita að er ósatt? En hæstv. ráðh. vildi dylja það, að sami maðurinn sæi um byggingu nýja skipsins sem var eftirlitsmaður um byggingu Óðins. En hvers vegna að skjóta sjer undir Nielsen? Þarf nú eitthvað að straffa hann? — Og svo lætur hæstv. dómsmrh. sæma þennan danska mann heiðursmerki fyrir eftirlit sitt með byggingunni á Óðni!

Hæstv. dómsmrh. fór þá að tala um stjórnarbílana og hversu ódýrt sje að hafa þá. Jeg hafði nú ekkert átalið þetta. En jeg veit þó það, að til þess að starfrækja bíl þarf fleira en að kaupa bílinn. Það þarf að launa bílstjóra, eiga til hús fyrir bílinn, láta hreinsa og gera við hann o. fl. Hygg jeg, að eigi veiti af að ráða til hans fastan mann, — ekki er ferðast svo lítið á honum. Getur það orðið talsvert dýrt.

Þá talaði hæstv. sami ráðh. um launagreiðslur og talaði í því sambandi um launaupphæð þá, er Mogensen fjekk, og þótti hún há. Það er satt, að hann fjekk há laun. En hvað ætli hann hafi nú? Ætli hann hafi ekki eins há laun nú? Eða öllu heldur, ætli þau sjeu ekki tvisvar til þrisvar sinnum hærri? Munurinn er aðeins sá, að áður voru þau greidd úr ríkissjóði, en nú eru þau greidd af borgurum þessa bæjar. En hæstv. ráðh. álítur, að það skifti ekki máli, þegar talað er um laun Eggerts Claessens bankastjóra, hvort laun hans eru greidd úr ríkissjóði eða öðrum sjóðum. Og þá ætti að gilda sama um Mogensen.

Þá sagði sami hæstv. ráðh., að landsstj. hefði áður látið kunningja sína hafa endurskoðun vínverslunarinnar. Þetta er rangt. En hvernig er það nú? Eru það ekki kunningjar hans, sem nú hafa það starf? Jú, jeg held það. Ef hæstv. ráðh. neitar því, þá neitar hann því um leið, að hann og Jón Guðmundsson sjeu kunningjar. En það er nú hægt að sanna, að svo er. Hæstv. ráðh. sagði, að bókhald vínverslunarinnar hefði verið í góðu lagi. Og jeg veit, að það er satt. Það var í afbragðs lagi. En hvernig launaði svo ráðh. bókhaldaranum? Með því að leka hann frá. En hann var ekki framsóknarmaður eða sócialisti. Því var hann rekinn. Jeg veit að vísu, að sá maður hafði orðið fyrir fjárhagslegum óhöppum og var þar af leiðandi eitthvað skuldugur. En var nokkurt vit í því að reka hann í burtu þess vegna? Var ekki einmitt meiri von um, að hann gæti greitt skuldir sínar, ef hann fengi að halda starfinu áfram? Jeg veit ekkert misjafnt hægt að segja um þann mann. Og flinkari mann er naumast hægt að fá, og reglumaður er hann.

Þá talaði hæstv. ráðh. um ágengni þá, sem heildsalar hefðu sýnt Mogensen. En ætli það verði þá ekki eitthvað svipað við hinn nýja forstjóra? Og það er spurning, meðan engin reynsla er fengin um það, hvort hann verður nokkuð harðari að hafa þá af sjer. Hinn nýi forstjóri sagði, að svo mikið hefði verið flutt inn af koníaki síðustu mánuðina áður en forstjóraskiftin urðu, að endast mundi til langs tíma. En þetta sýnir, að núv. stj. hefir haft slælegt eftirlit með þessu.

Þá talaði hann um töp á skuldum áfengisverslunarinnar, en þær voru 136 þús. kr. En jeg held nú, að jeg þyrði hiklaust að bjóða í þær 100 þús. kr., í von þó um sæmilegan ágóða. (Dómsmrh.: Það er búið að afskrifa mikið af þeim!). Þær voru þetta við síðustu áramót. En hvenær hafa þessar skuldir, sem búið er að afskrifa, fyrnst? Hvenær fyrntist skuldin hjá Magnúsi Pjeturssyni lækni? Ekki þó hjá hæstv. núv. stj., vænti jeg? Það er engin ástæða til að leyna því, hjá hverjum skuldin var. Og jeg hygg, að hún hafi fyrnst í tíð hæstv. ráðh. sjálfs. (Dómsmrh.: Hvenær var skuldin stofnuð?). Já, hvenær var hún stofnuð! Skuldir fyrnast nú ekki á einum degi; þær fyrnast á 4 árum. Og sá dagur, sem skuldin fyrntist á, hygg jeg að hafi verið í stjórnartíð hæstv. ráðh. En þetta má rannsaka. Jeg vil ekki alveg fullyrða, að svo hafi verið. Ætli það væri ekki líka vissara að fara að líta eftir 4 þús. kr. skuld hjá öðrum lækni, flokksbróður hæstv. dómsmrh? Ætli sú skuld liggi ekki líka undir skemdum, rjett eins og hin?

Hæstv. dómsmrh. talaði um, hve ódýr endurskoðun vínverslunar væri orðin. En hjer er yfirlit yfir það, og þar stendur, að endurskoðun og eftirlit hafi kostað á tímabilinu 1. júlí til 31. des. 1928 kr. 6148.96. Á heilu ári hefði þetta þá átt að vera helmingi hærri upphæð, eða um 12300 kr. — Þetta kallar hæstv. ráðh. ódýrt; jeg kalla það dýrt. Ef skuldir áfengisverslunar eru ekki meiri en þetta, þá er ekki miklu tapað. Er þá vel hægt að bera þær saman við skuldir landsverslunarinnar. En jeg geri það ekki nú. Það má gera hvenær sem er, ef þetta verður notað sem vopn á fyrv. stj. eða á Íhaldsflokkinn.

Þá talaði hæstv. ráðh. um það, hvað drykkjuskapur færi nú minkandi í skipum, rjettum og alstaðar. En jeg hefi tvisvar síðan þessi hæstv. stj. tók við orðið samferða hæstv. dómsmrh. á sjó. Í annað skiftið til Akureyrar, en hitt skiftið upp í Borgarfjörð. Og í bæði skiftin voru fullir menn á skipunum. Jeg veit ekki, hvort hæstv. dómsmrh. hefir tekið eftir þeim, en jeg hygg þó, að hann hafi sjeð þá, ef hann hefir nokkuð viljað sjá. Um rjettir veit jeg ekki. Hefi ekki verið staddur í þeim. En á fundi, sem haldinn var á Eyrarbakka, var fullur maður með óspektir fyrir augunum á hæstv. dómsmrh. og lögreglustjóranum þar. En hvað var gert við hann? Honum var bara sagt að þegja og hafa hægt um sig. Og hann sat þar á eftir rólegur. En fullur var hann og refsað var honum ekki, og dreg jeg þar af þá ályktun, að hann hafi verið stjórnarsinni. — Nei, drykkjuskapurinn er ekki horfinn. Á gamlárskvöld var svo mikið fyllirí hjer á götum úti, að til þess var tekið og annað eins hafði naumast sjest hjer fyr. Þá fór hæstv. ráðh. að segja sögur eftir fullum sjómanni, að síðari stj. væri betri í sumu. (Dómsmrh.: Nema bara í sprúttmálunum!). En er hún þá ekki líka betri í þeim? Hefir hún ekki látið þá fá Brandar-blönduna, sem gerir þá blindfulla? (Dómsmrh.: Sá cocktail var líka til áður). Nei, alls ekki; það er bara Brandar-blandan, sem er svona góð.

Þá talaði hæstv. dómsmrh. um það, að einn hluthafi í Shell-fjelaginu hefði neitað að svara spurningum dómar ans. Jeg tók þá fram í ræðu hæstv. ráðh. og sagði, að það hlyti að vera undarlegur dómari, sem ekki ljeti svara spurningum sínum. — En ætli spurningarnar hafi þá verið svo vaxnar, að nokkur skylda væri til að svara þeim? Það hlýtur svo að vera, að dómarinn hefir sjeð, að vitnið var ekki skyldugt til að svara þessum spurningum; annars hefði hann þvingað það til að gera það. Og það er t. d. engin skylda að svara öllum spurningum um einkalíf manna. Þetta hlýtur dómarinn að hafa sjeð, þótt ráðh. viti það ekki.

Þá sagði hæstv. dómsmrh., að mjer hefði verið gefinn hlutur minn í Shell-fjelaginu og að jeg væri bara leppur fyrir fjelagið. Jeg vil nú skora á hæstv. dómsmrh. að endurtaka þessi orð sín utan þinghelginnar. Jeg skil varla í því, að hæstv. ráðh. sje sá heigull, að hann þori ekki að endurtaka þau utan þingsins. Jeg skora á hann að gera þetta, svo hann verði dæmdur fyrir þau. Hæstv. dómsmrh. er altaf með einhver leynirit eða flugrit á hverjum eldhúsdegi, sem hann les af kappi og ekki mega aðrir sjá en hann. Gaman að vita, hvað hann hefir næsta ár. Annars sagði hæstv. ráðh. svo margt um Shell-málið, að jeg nenni ekki að svara því öllu. Jeg hefi hæstarjettardóm fyrir lögmæti þess, sem enginn getur haggað. Það má ekki tala um Laugarvatnsskólann, vegna þess að það sje afgert mál með hann. Þetta getur verið rjett. En er það þá ekki líka um Shell-málið? Vill ekki hæstv. dómsmrh. nota regluna áfram? Eða á aðeins að nota hana þegar hún fellur í hans eigið kram? Jeg býst nú við, að þessi bók, sem hæstv. ráðh. er altaf að blaða í og sem hann ætlar að strá út um alt land, eigi að vera til þess að grafa undan áliti hæstarjettar. Það á því ekki að vera búið mál.

Þá sagði hæstv. dómsmrh., að ekki hefði verið skoðað hjá bæjarfógetanum hjer í 10 ár. — En í blaði stj. stóð þó nýverið, að það hefði verið gert 1926. Og það var rjett, þótt hætt væri við það að fullgera þá rannsókn, af ástæðum, sem mjer er ókunnugt um hverjar voru.

Þá talaði hæstv. dómsmrh. um skattsvikin og sagði, að heilar hrúgur af eignum hefðu ekki komið til skatts. Jeg skal ekki blanda mjer mikið í það mál. Jeg skaut þeirri spurningu fram, hvernig hæstv. ráðh. hefði fengið að vita þetta. En þá varð hann reiður. Hann fann, að hann hafði sagt frá því, sem einhver hefir trúað honum fyrir, satt eða logið. Annars er hjer ástæða til að benda á, að eyðublöðin, sem skattþegnar eiga að útfylla, eru svo ófullkomin, að ekki er hægt að útfylla þau nógu greinilega. Svo fær maður nýja framtalsskipun og svo þá þriðju, og verður því að telja fram þrisvar, í stað þess að það mætti gera í einu. Svona er það, þótt samviskusamlega sje talið fram í upphafi. Það ætti að vera sú minsta krafa, sem hægt er að gera til yfirvaldanna, að þau sjeu ekki að leika sjer að því að gera mönnum óþægindi að ástæðulausu. Það er lágmarkskrafa, sem verður að gera til stj., að eyðublöðin, sem skattþegnarnir eiga að fylla út, sjeu þannig, að þau beri með sjer, hvað um er spurt.

Þá var ráðh. enn að minna á grein þá, er Jón heit. Thoroddsen reit í Alþýðublaðið sumarið 1923, og sagði, að það. stæði þar, að jeg veiddi svikarana og ræflana úr hópi bænda í sveitum, en að hann sjálfur tæki alla hina. Jeg man ekki, hvernig þetta var orðað í greininni, en held þó, að hjer sje hallað rjettu máli í frásögninni og það eflaust gert vitandi vits. En það vil jeg segja hæstv. dómsmrh., að ættum við nú að skifta bændunum á milli okkar, þá er jeg þess fullviss, að jeg færi á engan hátt varhluta í þeim skiftum.

Þá fór hæstv. ráðh. að tala um slæman prest, að hans dómi, sem heima á norður í Þingeyjarsýslu. (Dómsmrh.: Jeg nefndi engan prest). Nei, að vísu ekki, hann var ekki nógu hreinskilinn til þess, heldur fór hann með dylgjur eins og hann er vanur, en allir skildu, að hæstv. ráðh. átti við síra Halldór Bjarnarson á Presthólum; hitt er bara óþarfa tepruskapur, að nefna ekki nafnið, úr því að búið er að draga prestinn inn í umr. Maður einhver norður þar hafði nefnt síra Halldór þjóf, manndrápara, skjalafalsara og fleiri illum nöfnum. En presti þótti, eins og von var, þetta nokkuð mikil gífuryrði og höfðaði meiðyrðamál á móti þessum manni. Og þá kemur það undarlega fyrir, að hæstv. dómsmrh. lætur þennan mann, sem kallað hafði prestinn öllum illum nöfnum, fá gjafvörn í málinu. Nú vil jeg leyfa mjer að spyrja hæstv. ráðh., hvort þetta sje satt, og óska að hann svari því nú þegar játandi eða neitandi. (Dómsmrh.: Jeg kem á eftir). Þá vildi jeg mælast til, að hann skrifaði þetta niður hjá sjer. Hæstv. ráðh. hefir svo mörgu að svara, að honum getur hæglega skotist yfir ýmislegt, ef hann hefir það ekki skrifað hjá sjer, ekki síst ef honum kæmi best að gleyma því.

Þá varð hæstv. dómsmrh. skrafdrjúgt um þessar 25 þús. kr., sem greiddar voru eitt sinn úr landhelgissjóði til Vestmannaeyja. Jeg veit ekki, til hvers hæstv. ráðh. er að reyna að gera sjer mat úr þessu. Það var upplýst í eldhúsdagsumr. í fyrra, að þessi upphæð hefði verið greidd fyrir raunverulegar skemdir á veiðarfærum Vestmannaeyinga á meðan „Þór“, sem þá var eign eyjaskeggja, brá sjer austur með Söndum til þess að handsama landhelgisbrjóta. Sú för Þórs færði ríkissjóði 60 þús. kr. í tekjur, svo það gat ekki verið nema sanngjarnt, að Vestmannaeyingar fengju þessar 25 þús. kr. fyrir það tjón, er þeir biðu á veiðarfærum sínum vegna usla þess, er togarar gerðu á fiskimiðum þeirra á meðan „Þór“ var hvergi nærri til þess að verja þau.

í þessu sambandi var hæstv. ráðh. að tala um, að mikið fje hefði farið til ýmsra framkvæmdi í Vestmannaeyjum. Það er satt, að allmikið fje hefir verið veitt úr ríkissjóði til hafnarbóta þar. En fyrir því hafa verið lög, og held jeg, að enginn hafi sjeð eftir því. En það er eins og hæstv. dómsmrh. viti ekki, að stj. er skyldug að borga þær upphæðir, sem Alþingi samþ., að því leyti sem fjárhagsafkoma ríkissjóðs leyfir.

Þá talaði hæstv. ráðh. mikið um, að reikningur landhelgissjóðs hefði orðið síðbúinn í tíð fyrv. stj. og hefði ekki verið tilbúinn er hann tók við stjórnartaumunum. En mjer skilst, að þetta hafi lítið batnað í tíð núv. stj., því að jeg sje ekki betur, eftir landsreikningnum að dæma, en að reikningur landhelgissjóðs fyrir árið 1927 hafi ekki verið tilbúinn fyr en nú 1929, og hafði þó hæstv. stj. sjerstakan mann til þess að gera reikninginn. Hann hefði eflaust talið það eftir, ef íhaldsstj. hefði fengið sjerstakan mann til þess að hafa reikningsfærsluna á hendi. En það er ekkert athugavert við það, og því síður ámælisvert, þó að hann eða stj., sem nú fer með völdin, geri það.

Þá hafði hann gaman af að segja söguna um, hvað umsjónarmaður varðskipanna í tíð fyrv. stj. fjekk í laun. Jeg vildi ekki bera fram frv. um hækkun þess fjár, sem veitt er til eftirlits með öryggi skipa, eins og hæstv. stj. hefir gert nú, heldur tók jeg það ráð, til þess að spara kostnað, að borga vissa upphæð, sem skoðast mætti sem laun til eftirlits með varðskipunum. En þetta var stór sparnaður fyrir ríkissjóð, sem jeg býst við að muni ekki minna en 10–15 þús. kr. á ári.

Þá vildi hann halda því fram, að fæðiskostnaður á skipunum hefði verið of hátt ákveðinn hjá mjer. Jeg man satt að segja ekki, hvað hár hann var í minni tíð, en hitt er ekki nema eðlilegt, að eftir því sem dýrtíðin minkar í landinu, þá lækki fæðiskostnaðurinn.

Þá vjek hæstv. dómsmrh. nokkrum orðum að útsölustöðum vínverslunarinnar og var þar að svara hv. þm. Borgf., sem spurt hafði um, hvers vegna stj. hefði ekki fækkað útsölustöðunum. Var á svari hæstv. ráðh. að skilja, að hann ætlaði íhaldsmönnum að gera það, og er það undarlegt, þar sem þeir eru sem stendur í minni hl. í þinginu. Jeg man svo langt, að hæstv. dómsmrh., þegar hann var í minni hl., lá íhaldsstj. á hálsi fyrir það að fækka ekki útsölustöðum vínverslunarinnar, og fór þá ekki dult með þá skoðun sína, að það væri sjálfsagt að gera það. Þess vegna verður mjer að spyrja: Hvers vegna gerir ekki hæstv. dómsmrh. þetta, að fækka vínsölustöðunum, úr því að hann hefir 25 manna meiri hl. að baki? (Dómsmrh.: Það er nú fullríflega talið). Jæja, eru að verða einhver vanhöld í söfnuðinum? En hvað um það, hitt er nú vitanlegt, að hæstv. dómsmrh. hefir aldrei ætlað sjer að gera þetta. Alt skraf hans og svigurmæli í þessu efni hafa verið blekkingar og ekkert annað. Hann vissi frá upphafi, að þessu var ekki hægt að breyta og mátti heldur ekki vegna samninganna við Spánverja. Og þegar hann, sem haldið hefir því fram, að sanngjarnast væri að dæma stjórnmálamenn eftir því hvernig þeir, eftir að hafa komist í meiri hl., hafi staðið við loforð þau, sem gefin voru áður, þá held jeg, að í þessu máli verði sá dómur hæstv. ráðh. til lítillar ánægju og enn minni sæmdar. Því að ef leggja ætti þennan mælikvarða á hæstv. dómsmrh., þá mundi dómurinn reynast slæmur, því sem stjórnmálamaður hefir hann breytt þveröfugt við það, sem loforðin voru gefin um að efna, þegar hann væri kominn í meiri hl.

Að lokum klykti hæstv. dómsmrh. út með lofsöng yfir víninu og ágæti þess, og verð jeg að segja það, að hjartnæmari orð hefi jeg aldrei heyrt falla Bakkusi til dýrðar. Þó að jeg smakki stundum vín, þá hefi jeg ekki eins mikið álit á því og hæstv. ráðh. Jeg held, að það spilli mönnum fremur en bæti og að þeir menn sjeu best farnir, sem smakka það ekki.

Jeg hafði ætlað mjer að víkja nokkrum orðum að hv. 2. þm. Reykv. (HV), en hann er víst fallinn í valinn, eða a. m. k. sje jeg hann ekki hjer í nánd. (ÓTh: Hann er farinn heim að telja skattinn sinn). Jeg hafði ástæðu til að svara nokkrum atriðum í ræðu hans, sem snertu mig sjerstaklega, en sje mjer ekki fært að gera það. En jeg vil að það sjáist í Alþt., hvers vegna jeg svara honum ekki, og það er af þeirri einföldu ástæðu, að hann hefir sjeð sitt óvænna og flúið af hólmi. En líklega gefst tækifæri til þess síðar, og mun jeg þá ekki hlífa honum. Og þá ætla jeg að láta hjer staðar numið. Hæstv. dómsmrh. heldur kannske, að jeg hafi verið svona stuttorður af því að jeg sje orðinn þreyttur að vaka. Sjálfur talaði hann í 5–6 klst. til að byrja með. En jeg get fullvissað hann um, að jeg er óþreyttur með öllu og altilbúinn að svara honum, þegar hann hefir lokið máli sínu.