27.04.1929
Efri deild: 55. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í B-deild Alþingistíðinda. (65)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Jónas Kristjánsson:

Það er nú svo, að þó að við höfum allir skrifað fyrirvaralaust undir nál. á þskj. 409, þá eru samt nokkuð deildar meiningar um frv. í heild sinni. En við erum sammála um það, að frv. eigi að ná að ganga fram á þessu þingi. Hinsvegar áskildi jeg mjer rjett til þess að fallast á brtt., er fram kynnu að koma, ef mjer líkuðu þær. Það var um það talað í n., hvort heppilegt mundi að hafa veðdeildina í sambandi við þennan banka. Jeg hjelt því fram, að svo væri ekki, heldur væri þá rjettara að fá eina „seríu“ bankavaxtabrjefa frá Landsbankanum, eins og hv. 1. þm. G.-K. hefir talað um. Mun jeg því telja mjer heimilt og rjett að greiða atkv. með till. hv. 1. þm. G.-K.

Mjer fanst líka, að þetta frv. hefði ekki þurft að vera í svona mörgum deildum, heldur hefði það getað verið einfaldara. Hefði þá að mínu áliti mátt sleppa veðdeildinni, og ef til vill bústofnslánadeildinni líka. En af því jeg áleit þetta frekar aukaatriði, vildi jeg ekki gera ágreining, er svo kynni að hafa leitt til þess, að tafið yrði fyrir frv., svo að það næði ekki fram að ganga. Hæstv. fors.- og atvmrh. mælti nokkur sterk orð um það, að frv. væri vel undirbúið, en jeg get ekki verið honum fyllilega sammála um það, en annars skal jeg ekki deila frekar um það.

Jeg játa, að með þessu frv. er stigið stórt spor, sem bæði er þarft og rjett, en jeg álít þó, að gæta verði hinnar mestu varasemi um útlánsstarfsemina. Allir vita, að landbúskapur er frekar mögur atvinnugrein og gefur ekki strax af sjer fullar hendur fjár. Verða því þeir, er þessa atvinnu stunda, að vera sparsamir og nægjusamir til þess að geta stundað þessa atvinnugrein með góðum hagnaði. Tel jeg ekki sambærilegt að leggja fje til hans og sjávarútvegsins. Og þó mikið hafi tapast á þeim síðarnefnda, er það ekki honum að kenna, heldur því, að ógætilega hefir verið lánað til hans. Ef menn yrðu eins ógætnir í lánveitingum til landbúnaðarins, þá er hætt við, að ekki komi alt það fje aftur, sem til hans er lánað. Jeg álít því, að sýna þurfi hina mestu gætni í útlánum, sjerstaklega fyrst í stað, meðan reynsla er að fást, svo menn reki sig ekki á sömu ásteytingarsteinana og með sjávarútveginn. Er jeg hræddur um, að hæstv. fors.- og atvmrh. sjái þetta alt í fullbjörtu ljósi og að hann muni verða fyrir vonbrigðum, ef hann heldur, að landbúnaðurinn geti staðist samkepnina við sjávarútveginn. Því það er svo nú, að landbúnaðurinn á við mjög mikla erfiðleika að stríða, ekki aðeins vegna peningaleysis, heldur og líka vegna hins lága verðs, sem er á afurðum hans. Reynslan undanfarið hefir sýnt, að bændur geta ekki goldið jafnhátt kaup og sjávarútvegsmenn. Ef við alla þessa örðugleika bætast svo vextir af háum lánum, getur þetta orðið mjög varhugavert, og er því fylsta ástæða til þess að fara mjög varlega í útlánum fyrst um sinn. Það er því með ugg og ótta, að jeg greiði atkvæði með þessu frv., þó jeg telji það hinsvegar að mörgu leyti rjettmætt, ef varúð er viðhöfð og þess gætt að hleypa ekki of miklu peningaflóði í sveitirnar, svo hætta verði á stórtöpum. En jeg efast ekki um það, að hægt verði að fá nóga til að biðja um þessi lán, því margir eru svo ógætnir í öllum peningamálum, — þeir sjá og finna þörfina á lánum, en gæta hins ekki, hvort lánið ber sig. Hefi jeg heyrt, að lánað hafi verið nokkuð ógætilega austur í Árnessýslu og að búskapnum þar muni veitast nokkuð erfitt að skila því fje aftur.

Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta. Jeg vil ekki verða til þess að bregða fæti fyrir frv., en greiði því aðeins atkv. í því trausti, að öllum framkvæmdum verði hagað svo hyggilega, að þetta verði landbúnaðinum lyftistöng, en ekki fótakefli. Hygg jeg, að þeir sjeu margir, er líta svipuðum augum á þetta.