12.04.1929
Neðri deild: 43. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1008 í B-deild Alþingistíðinda. (651)

16. mál, fjárlög 1930

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Við höfum þráttað nú um hríð og finst mjer vera dálítið tilefni til að gefa hv. stjórnarandstæðingum ofurlitla bendingu. Væri það ekki brotaminna fyrir stjórnarandstæðinga, og sjerstaklega íhaldsmenn, að klippa út dálka úr Stormi, Morgunblaðinu og Verði og láta svo prenta þá upp í þingtíðindunum? Það hefði alveg sömu áhrif, sama útkoma í þingtíðindunum, en það væri töluverður vinnusparnaður fyrir ýmsa af okkur, svo við gætum þá sofið rólega. Jeg segi þetta ekki af því að jeg sje að kvarta fyrir mig, því að jeg hefi sofið ágætlega, en jeg vildi aðeins benda á þetta, því að það væri sama útkoma fyrir prentsmiðjurnar og blöðin, en mikill vinnusparnaður.

Það, sem jeg ætlaði að minna á, var það, að þessa aðferð, sem hv. íhaldsmenn viðhafa nú, notuðum við framsóknarmenn ekki, þegar við vorum stjórnarandstæðingar. Við kusum venjulega einn mann til þess að tala af hálfu okkar flokks á eldhúsdegi. Jeg man eftir, að jeg varð oftar en einu sinni fyrir því að vera kosinn. Við gerðum þá nokkurn aðsúg að stj.; jeg man eftir, að jeg hafði þann sið að koma til stj. daginn áður og tilkynna henni, hvað jeg ætlaði að tala um, en mjer datt aldrei í hug að vera að draga það inn í eldhúsdagsumr., sem búið var að þrautræða í blöðunum. Eldhúsdagsumr. voru skemtilegar þann stutta tíma, sem þær stóðu yfir, og daglegar blaðaumr. ekki dregnar inn í þær.

Flokkslega sjeð er enginn vafi á því, að hv. íhaldsmenn spilla töluvert fyrir sínu máli með þessari aðferð, sem þeir nú beita. Hjer hafa átta íhaldsmenn talað, og undantekningarlítið tínt alt, sem þeir hafa sagt, upp úr blöðunum, viku eftir viku og mánuð eftir mánuð; t. d. Tervani-málið, það kom ekkert fram í því, sem ekki hefir verið margsagt áður. (ÓTh: Jú, það kom fram ein fyrirspurn til hæstv. ráðh., sem hann hefir ekki svarað. Kannske ráðh. vilji gera það nú?). Það hefir þegar verið gert. En í þessum almennu ummælum vildi jeg láta það koma fram, að jeg er reiðubúinn til að vaka fram til kl. 81/2 morgni, ef með þarf. En þetta með að klippa út úr blöðunum var svona góðlátleg og hagkvæm bending til minna hv. andstæðinga, því að jeg er í svo góðu skapi eftir þennan hressandi svefn, sem jeg hefi fengið í dag. (MJ: En hvar er dómsmrh.? Er hann flúinn?). Jeg býst við, að það sje nokkuð vafasamt, hvor muni flýja fyr, en ráðh. er víst á næstu grösum.

Svo ætlaði jeg að víkja nokkrum orðum að ræðu hv. 1. þm. Skagf. Það voru ekki nema þrjú atriði, sem hann beindi til mín.

Eitt var viðvíkjandi frv., sem kom fram í hv. Ed., um síma- og póstmál. Jeg vil aðeins segja það, að ef frv. ekki kemur hingað, þá er óþarfi að vera að ræða það, en annars er nál. prentað með því sem fylgiskjal, svo að allir hv. þm. og landslýður allur geti fengið að sjá þessar till. og gert sínar aths. við þær, áður en, til framkvæmda kemur. Það er einmitt tilætlunin, að menn fái tíma til að skoða málið dálítið greinilega, svo að allar till., bæði frá hv. 1. þm. Skagf. og öðrum, verði athugaðar.

En það málið, sem hv. þm. sjerstaklega beindi til mín og jeg þarf talsvert að svara, var það, sem hv. þm. bar á stj., að hún hefði beitt töluverðri hlutdrægni viðvíkjandi lánveitingu til frystihúss norður í Skagafirði. Hv. þm. sagði málið vera þannig, að það hefði komið beiðni til stj. um lán til frystihússbyggingar norður á Sauðárkróki; það hefðu verið tvö samvinnufjelög, sem hefðu beðið um lánið, en stj. hefði sýnt hlutdrægni í málinu. En þessi frásögn hv. þm. er ekki rjett nema að litlu leyti. Jeg skal nú leyfa mjer að skýra frá þessu máli eins og skjöl stj. segja til, hvernig það hafi verið.

Það er þá upphaf þessa máls, að haustið 1927 gekk vel með sölu á frystu kjöti, en miður með saltað kjöt. Þetta kom miklu kappi í menn að koma sjer upp frystihúsum, og þess vegna var það, stuttu eftir stjórnarskiftin, að sú stofnun, sem hefir haft forgöngu um þessi mál, nefnil. Samband Ísl. samvinnufjelaga, snjeri sjer til atvinnumálaráðuneytisins brjeflega og bar fram ósk um að veitt yrði lán til að setja á stofn frystihús á nokkrum stöðum á landinu, t. d. handa kaupfjelaginu á Kópaskeri, á Blönduósi og á Sauðárkróki. Það fyrsta, sem kemur til stj. í þessu máli, var því: umsókn vegna Kaupfjelags Skagfirðinga á Sauðárkróki.

Það næsta, sem kemur til þess ráðuneytis, sem þetta mál heyrir undir, er símskeyti, dags. 13. apríl 1928, og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Getur Kaupfjelag Skagfirðinga fengið á eigin ábyrgð alt að áttatíu þúsund króna lán úr viðlagasjóði til frystihúsbyggingar á þessu eða næsta ári? Svar óskast í dag vegna yfirstandandi aðalfundar.

Sigfús Jónsson“.

Jeg átti tal um þetta við S. Í. S. og var svo daginn eftir afgreitt símskeyti til Kaupfjelags Skagfirðinga, Sauðárkróki, svo hljóðandi:

„Hjer með staðfestist viðtal við Sigfús kaupfjelagsstjóra Jónsson, að Kaupfjelag Skagfirðinga mun geta fengið á eigin ábyrgð alt að 80 þúsund króna viðlagasjóðslán til frystihúsbyggingar á þessu ári eða næsta, að uppfyltum öðrum almennum skilyrðum.

Atvinnumálaráðherra“.

Jeg skal geta þess, að jeg hafði haft fregnir af því, meira og minna ábyggilegar, sem gerst hafi norður í Skagafirði í sambandi við þetta mál, en skjöl um það höfðu þó ekki borist. Aftur á móti hafði komið til fjármálaráðuneytisins brjef, dags. 8. mars. — Þetta skeyti fer svo norður; í framhaldi af því er svo, að forstjóri Sambandsins snjeri sjer til ráðuneytisins með brjefi, dags. 20. okt. 1928. Er það svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Á síðastliðnum vetri sótti Kf. Skagfirðinga um lán úr Viðlagasjóði til frystihúsbyggingar á Sauðárkróki. Á byggingu þessari var byrjað síðastl. vor, en ýmsra orsaka vegna var ekki hægt að fullgera húsið svo snemma, að hægt væri að taka það til notkunar í sláturtíð í haust. Var því frestað til næsta árs að kaupa frystivjelar. Byggingin er þó komin það langt, að húsið er nú komið undir þak. Er fjelagið búið að leggja í bygginguna um 25000 kr. og er húsið vátrygt fyrir þeirri upphæð.

Eftir ósk Kf. Skagfirðinga leyfum vjer oss hjer með fyrir fjelagsins hönd að fara þess á leit við hið háa ráðuneyti, að það veiti fjelaginu lán úr Viðlagasjóði út á húsið til bráðabirgða, alt að kr. 16500,00.

Virðingarfylst,

pr. pr. Samband ísl. samvinnufjelaga

S. Kristinsson“.

Þetta brjef var þannig afgr., að landsstj. útvegaði Kf. Skagfirðinga bráðabirgðalán, þar til alt er komið í kring með þetta hús og það getur fengið viðlagasjóðslán.

Svo gerist ekkert fyr en 7. mars 1929. Þá höfðu þm. Skagfirðinga talað við mig hjer í deildinni, og senda mjer brjef, sem jeg með leyfi hæstv. forseta vil lesa hjer upp. Brjefið er á þessa leið:

„Til atvinnumálaráðuneytisins.

Við undirritaðir þingmenn Skagfirðinga leyfum okkur hjer með, með tilvísun til munnlegs viðtals við hæstv. forsætisráðherra, að fara þess á leit, að Sláturfjelagi Skagfirðinga verði í vor veitt alt að 30000 kr. — þrjátíu þúsund króna — lán úr viðlagasjóði, til þess að reisa frystihús á Sauðárkróki. í hinu áður nefnda munnlega viðtali höfum við skýrt frá öllum ástæðum til þessarar beiðni, og sjáum því ekki ástæðu til að endurtaka þær hjer. Aðeins skal það tekið fram, að það er fastákveðið að reisa frystihúsið og undirbúningur undir það þegar hafinn. Sýslunefnd Skagafjarðarsýslu mun verða í ábyrgð fyrir láninu, ef þurfa þykir.

Vegna þess að áríðandi er að fá svar sem fyrst, leyfum við okkur að minna á, að í áðurnefndu munnlegu viðtali lofaði forsætisráðherra okkur svari í síðasta lagi þriðjudaginn 12. þ. m.

Virðingarfylst,

M. Guðmundsson. Jón Sigurðsson“.

Þetta brjef var svo sent til atvinnumálaráðuneytisins, og jeg tilkynti þm. Skagf., að farið yrði með þetta eins og önnur mál þessarar tegundar, ráðgast um það við stjórn S. Í. S., sem hafi forgöngu um slík mál. Sendi jeg svo brjefið til S. í. S. og fjekk svar, sem jeg skal leyfa mjer að lesa upp:

„Út af brjefi hins háa ráðuneytis, dags. 11. þ. m., um lán til byggingar frystihúss á Sauðárkróki, viljum vjer taka fram:

Þegar Sambandsfjelögin hafa ráðist í frystihúsbyggingar, hafa þau jafnan leitað álits og umsagnar Sambandsins áður en þau afrjeðu um framkvæmdir og leituðu eftir lánum til frystihúsbygginga, og hafa farið mjög að ráðum þess um þessar framkvæmdir. Sláturfjelag Skagfirðinga hefir aldrei leitað álits eða umsagnar Sambandsins um þessa fyrirhuguðu frystihúsbyggingu, nje haft það að nokkru í ráðum um framkvæmd málsins. Leiðum vjer því hjá oss að gera tillögur um málið.

Virðingarfylst,

pr. pr. Samband ísl. samvinnufjelaga.

S. Kristinsson“.

Daginn eftir svara jeg þingmönnum Skagfirðinga með svo hljóðandi brjefi — með leyfi hæstv. forseta:

Með brjefi, dags. 7. þ. m., hafa hv. þingmenn Skagfirðinga farið þess á leit, að Sláturfjelagi Skagfirðinga verði í vor veitt alt að 30000 kr. lán úr Viðlagasjóði til þess að reisa frystihús á Sauðárkróki.

Út af þessu hefir ráðuneytið leitað umsagnar Sambands íslenskra samvinnufjelaga, sem að öllu hefir haft forgöngu um þessi mál.

Svar S. Í. S., dagsett í gær, er svo hljóðandi: (Áðurritað brjef).

Með skírskotun til þessa brjefs telur ráðuneytið, að málið liggi þannig fyrir enn, að loforð um hið umbeðna lán verði ekki gefið að svo stöddu“.

Þetta er alt það, er liggur fyrir í atvmrn. um þetta mál.

En í fjmrn. liggur fyrir brjef frá sýslumanni Skagafjarðarsýslu, dags. 8. mars 1928, þar sem hann sendir útskrift úr gerðabók sýslunefndar. Átti jeg símtal við sýslumann daginn áður um málið, og gat hann þess þá, að skjöl viðvíkjandi því mundu hafa glatast. Eru það plögg þau, er hann sendir, eða útskrift úr gerðabók sýslunefndar, sem jeg tel vera umsókn um lánið. Skal jeg lesa upp kafla úr henni, með leyfi hæstv. forseta:

„Sýslunefndin ákveður að taka lán úr Viðlagasjóði, með þeim skilmálum, sem greinir í 22. gr, fjárlaga fyrir árið 1928, alt að 80 þús. kr., til þess að byggja frystihús á Sauðárkróki.

Lánsupphæðin skiftist á milli Frystifjelags Skagfirðinga og fjelags kaupmanna á Sauðárkróki í hlutfalli við þær upphæðir, sem þessir aðilar hafa sótt um að láni frá sýslunefnd, gegn eftirfarandi skilyrðum,“ o. s. frv.

Þetta er þá alt það, lem liggur fyrir í stjórnarráðinu um þetta mál. Kaupfjelagið sækir fyrst; það fer með umsókn sína um hendur þeirrar stofnunar, er frá því fyrsta hefir haft forgöngu í þessu máli, S. í. S. Kaupfjelagið óskar síðan tryggingar fyrir að fá lánið. Og eftir að búið er að reisa húsið að nokkru, þá útvegar stj. því bráðabirgðalán. Þetta gerðist alt á árinu sem leið. En fyrst nú nýlega á þessu ári kemur beiðni frá sláturfjelaginu til atvmrn., er þetta mál heyrir undir. Fundargerð sýslunefndar var að vísu send til fjmrn., en það hefir ekkert með þessi mál að gera, svo hún kom aldrei til rjetts aðila. Enda veit jeg, að hv. 1. þm. Skagf. var ekki að vitna í þessa umsókn í ræðu sinni í gær. (MG: Nei, það er rjett). Hann var að vitna í einhverja sameiginlega lánbeiðni, er kaupfjelagið og sláturfjelagið höfðu sent. Slík lánbeiðni hefir alls ekki komið til mín fyr en sú, sem getið hefir verið um, sem þm. Skagf. báru fram nýlega. Og það, sem hv. 1. þm. Skagf. segir um afskifti dómsmrh. af þessu máli í fjarveru minni, það mun vera mjög úr lagi fært, svo sem hæstv. dómsmrh. mun segja frá.

Það er því ekki hægt að beina ásökunum til stj. út af þessu máli.

Það kom fram í ræðu hv. 1. þm. Skagf. í gær, að bændur í Skagafirði hefðu verið beittir hörðu af núv. stj. Mátti skilja, að hann teldi þá hafa verið beitta hlutdrægni. Jeg neita þessu algerlega. Umsókninni frá Kaupfjelagi Skagfirðinga var ágætlega tekið. Stj. greiddi meira að segja sjerstaklega fyrir, að fjelagið fengi bráðabirgðalán til að koma upp húsinu.

Jeg skal líka benda á annað dæmi. í þessari sömu sýslufundargerð er lagt fram erindi frá Samvinnufjelagi Fljótamanna í Haganesvík og Kaupfjelagi Fellshrepps í Hofsósi, þar sem fjelögin beiðast ábyrgðar sýslusjóðs fyrir alt að 12000 kr. láni til byggingar sláturhúsi og kjötbúð á Siglufirði. Þetta er annað erindið, sem stj. hefir borist frá bændum í Skagafirði. S. Í. S. er fulltrúi þessara fjelaga, og fyrir atbeina þess hefir stj. útvegað þeim hagkvæm lán. Umkvartanir yfir mjer viðvíkjandi viðskiftum mínum við bændur í Skagafirði eru því ekki á neinum rökum bygðar.

Þessi skjöl, er jeg hefi hjer farið með, getur hv. 1. þm. Skagf. fengið til afnota og athugunar, þegar hann vill.

Til viðbótar skal jeg taka hjer eitt atriði enn. Hv. þm. virtist vera því ósamþykkur, að stj. leitaði ráða hjá S. Í. S. viðkomandi þessum málum. Hann vildi ekki viðurkenna, að Sambandið væri neinn „yfirráðherra“. Jeg er honum alveg sammála um það, að S. Í. S. á ekki að vera neinn yfirráðherra, en.um hitt er jeg honum ósammála. S. í. S. er sjálfsagður ráðunautur landsstj. í þessum málum. Það hefir haft forgönguna frá því fyrsta og annast alla sölu frysta kjötsins. Og jeg mun, hjer eftir sem hingað til, ráðgast við S. í. S. um stj. þessara mála.

Einu skal jeg bæta við enn, út af því, að hv. 1. þm. Skagf. bar mjer á brýn hlutdrægni í skiftum mínum við bændur beggja megin Hjeraðsvatna. Hv. þm. Borgf. kom til mín nýlega í erindum fjelags úr sínu kjördæmi, og býst jeg ekki við, að hann beri mjer á brýn pólitíska hlutdrægni vegna þeirra erindisloka, er hann fjekk. Væri þó ekki minni ástæða fyrir mig til að beita hlutdrægni þar en í Skaga firði.

Enn vjek hv. 1. þm. Skagf. að því, hvernig á því stæði, að byggingar- og landnámssjóður væri ekki farinn að starfa. Jeg skal geta þess, að forstjóra byggingar- og landnámssjóðs, sem jafnframt er forstjóri ræktunarsjóðs, voru um áramótin afhentar 50000 kr. til þess að koma starfsemi sjóðsins af stað. Jafnframt var honum tilkynt, að hann gæti fengið, hvenær sem hann óskaði, 400000 kr. til að hefja með starfsemina. Það, sem veldur drættinum, býst jeg við, að sjeu ýms „formalitet“, er þurfi að útbúa áður en hann geti tekið til starfa. Það var afarmikil vinna, sem fór í það að semja reglugerð sjóðsins, og jeg býst við, að enn standi á einhverju slíku. Hinsvegar er þess að gæta, að lánin eiga að fara til húsa, sem á að byggja í sumar, og á þeim er ekki byrjað enn, og er því enn ekki farið að standa á neinu.

Það er sá munur á búnaðarlánadeildinni 1924 og byggingar- og landnámssjóði nú, að þá sagði stj., að peningarnir væru ekki til til þess að stofna deildina, en núv. stj. hefir tilkynt forstjóra sjóðsins, að 400000 kr. væru til, hvenær sem hann vildi rjetta út hendina eftir þeim, og þegar afhent honum 50000 kr.